Miðvikudagur 16.03.2011 - 08:15 - 20 ummæli

Gölluð mannvirkjalög ?

Þegar borin eru saman mannvirkjalög hér á landi og í nágrannalöndunum verður maður strax í fyrstu grein var við mikinn áherslumun.

Í fyrstu grein íslensku laganna um markmið þeirra er fjallað um líf og heilsu manna, hagkvæmni, tæknilegar framfarir, orkunýtingu og fl. þ.h..

Hvergi í lagabálknum er fjallað um menningarlegt gildi mannvirkja og orð eins og byggingarlist, fagurfræði eða menningararfur koma þar hvergi fyrir.

Ef skoðuð eru samsvarandi lög í nágrannalöndunum kveður við annan, betri og menningarlegri tón.

Þar er arkitektúr, menningarverðmæti og fagurfræði lykilatriði og meginmarkmið lagasmíðarinnar.

Svo tekið sé dæmi af þeirri dönsku “Byggeloven” þá er strax í fyrstu grein sagt að tilgangur laganna sé að stuðla að arkitektóniskum gæðum í byggingunum (§ 1. Denne lov har til formål:…at fremme arkitektonisk kvalitet i byggeriet,)  Þetta er stutt og án tvímæla hjá dönunum.

Í “Plan- og byggeloven”  sem gildir í Noregi segir í fyrstu grein um tilgang laganna  að hann sé að stuðla að fagurfræðilegri mótun umhverfisins (…estetisk utforming av omgivelsene). Og annarsstaðar að söguleg, arkitektónisk og önnur menningarleg verðmæti tengd útliti bygginga skuli varðveita eins og frekast er unnt.( at historisk, arkitektonisk eller annen kulturell verdi som knytter seg til et byggverks ytre, så vidt mulig blir bevart.) Norsku lögin taka einnig  á fagurfræðinni í skipulagsmálum og víðar.

Í “Plan- og bygglag” í Svíþjóð er eins og annarstaðar á Norðurlöndunum tekið á menningu og byggingarlist (  (En byggnad ska … ha en god form-, färg- och materialverkan …) og þar er gerð sú krafa  að í starfsliði bygginganefndar sveitarfélags sé að minnstakosti einn menntaður arkitekt. (Byggnadsnämnden ska ha minst en person med arkitektutbildning till sin hjälp …)

Ef mannvirkjalög nágrannalandanna eru skimuð verður maður undrandi á að hin íslensku “Lög um mannvirki” nr. 160/2010 skuli hafa komist í gegnum þingið án þess að tekið sé á fagurfræði, byggingarlist eða menningararf í þessum mikla lagabálki.

Hefur einhver sofið á verðinum eða vildu þeir sem sömdu og samþykktu lögin hafa þetta á annan hátt er á hinum Norðurlöndunum?  Eru þetta góð eða  gölluð mannvirkjalög?

Myndin efst í færslunni er síða úr Jónsbók, lögbók frá 1281 kennd við lögmanninn Jón Einarsson gelgju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Sumir hér benda á að fagurfræðileg sjónarmið geti komið fram í Byggingarreglugerð. Málið er hins vegar að lög taka fram yfir reglugerðir, og ef hlutirnir eru ekki skilgreindir í lögum, þá hafa þeir lítið gildi og auðvelt að semja sig frá þeim.
    Það er einnig óskyljanlegt að byggingarlistamál skuli eiga að fara undir skipulaglög. Vissulega á skipulagshönnun einnig að stjórnast af fagurfræðilegum sjónarmiðum, en það er óskiljanlegt að byggingarlist skuli setjast hér undir skipulagsmál. Þetta er tvennt ólítk, en kemur kannski frá þeirri gölluðu skoðun skipulagsfræðinga að þeir séu einhverskonar fagurfræðislögregla yfir arkitektun.

    Þetta er fúsk, eins og flest annað í íslenskri stjórnsýslu.

  • HIlmar Þór

    Þetta er búin að vera góð og uppbyggleg umræða hér um hin nýju lög um mannvirki nr. 160/2010. Umræðan bendir til þess að umsagnaraðilar hafi ekki náð eyrum umhverfisnefndar Alþingis og að það þurfi að endurskoða lögin að nýju með öðrum áherslum.

    Heyra má á Merði Árnasyni, alþingismanni, sem situr í umhverfisnefnd, að hann sé áhugasamur um málið og sýnir vilja til þess að færa þessi lög til betri vegar. Hann býðst til þess að setjast niður með þeim sem málið varðar og skoða norrænu lögin. Mörður bendir einnig á ýmis sjónarhorn sem þarf að skoða betur.

    Mikill fjöldi athyglisverðra athugasemda hafa komið fram og nú síðast frá Hilmargunn sem bendir á aðferðafræði sem ég hélt að væri notuð enda sjálfsögð. Það er að móta stefnu og smíða svo lögin eftir stefnunni. Þ.e.a.s. að ákveða fyrst hvert vegurinn á að liggja og byrja á að byggja veginn þegar vitað er hvert hann á að liggja.

    Á Íslandi er ”Menningarstefna í mannvirkjagerð” sem er stefnan sem lögin eiga að styðja. Hún er stefnan sem á að vera grundvöllur laganna. En markmið menningarstefnunnar er hvergi að finna í lagasetningunni. Þessvegna eru lögin gölluð.

    Slóðin að menningarstefnunni er þessi:

    http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2616

    Að lokum vil ég segja að mér þykir ljóst að þeir sem áttu að halda vöku sinni um málið og þeim sem er annt um umhverfi sitt hafa sofið á verðinum og ekki gætt hagsmuna sinna nægjanlega vel.

    Það er líka ljóst að það var ekki hlustað á umsagnaraðila í umhverfisnefnd.

    Nú býður Mörður Árnason alþingismaður upp á samtal um málið. Þeir sem á málið varðar, Arkitektafélag Íslands, Listaháskóli Íslands, og aðrir eiga að taka boðinu með formlegum hætti og hefja vinnu við endurbætur á löggjöfinni strax.

    Umræðan þarf að halda áfram þar til niðursaða fæst.

  • Hilmargunn

    Ég vil meina að stefnumarkandi yfirlýsing eins og ég vísa í hérna að ofan hafi verið og sé ALGER NAUÐSYN áður en að ráðist var í endurgerð skipulags og byggingarlaga. Það er með ólíkindum hversu mikið fúsk við megum þola í opinberri stjórnsýslu á Íslandi. Ég er lærður arkitekt en ekki lögfræðingur en ég vil meina að stefnumarkandi yfirlýsing sé undanfari markmið lagasetninga !!!

  • Hilmargunn

    Ég var að enda við að lesa norska skýrslu sem er nefnd: „an ambitious architectural policy.“ Skjalið er ekki byggingareglugerð, heldur opinber framtíðarstefna Norskra stjórnvalda hvað varðar Arkitektúr skipulag. Þetta er heildarsýn til framtíðar og snertir alla þá fleti sem skipta máli og er þar ekkert undanskilið. Mér finnst þetta plagg eitthvað sem við ættum að taka til fyrirmyndar. Það er hægt að hala niður plagginu í heild sinni hérna og ég skora á ykkur að kynna ykkur málið í þaula: http://norskform.no/en/System/Design-and-Architecture/English-content/Projects/An-ambitious-architectural-policy/

    Ég get ekki betur séð en að íslenskir arkitektar hafi tækifæri á að skipa sér í fremstu röð þegar kemur að framþróun þekkingar skipulags, bygginga og byggingahluta í tengslum við geothermal energy og endurnýjanlegra orku auðlinda. Einnig væri vit í að virkja samstarf við einhverjar af þessum menntastofnunum eins og NTNU ?

    Ég hef heyrt talað um að verið sé að innleiða staðla fyrir vistvænan arkitektúr á Íslandi. Kannski væri skynsamlegt að byrja á byrjuninni áður en ráðist er í slíka vinnu og skilgreina framtíðarmarkmiðin og byggja upp öfluga stefnu til framtíðar áður en lengra er haldið, hliðstætt því sem Norðmenn hafa gert af miklum myndugleika ?

  • Friðrik Ó. Friðriksson

    Ný lög um mannvirki og skipulag tóku gildi um áramótin og hafa verið í kynningu undanfarið. Ég sat slíkan fund 11.3. sl. í Þjóðminjasafninu í Reykjavík og tók eftir að afar fáir arkitektar voru í salnum, þrátt fyrir að ný lög boði töluverðar breytingar á starfsháttum hönnuða. Á þessum fundi kom ma. fram að áherslur um fagurfræði, menningaráherslur ofl. hafa verið flutt úr byggingahlutanum yfir í skipulagshlutann og verður skv. nýjum lögum til umfjöllunar í deilis- og hverfaskipulagi.
    Enginn gat svarað því hvers vegna þetta var gert, en skipulagsvinnan fellur undir Skipulagsstofnun en hönnun mannvirkja undir Mannvirkjastofnun. Skipulagsvinnan spannar sviðið frá stefnumótandi pólitískum áherslum landsskipulagsstefnu niður skilgreiningu hönnunarforsendna mannvirkja í deiliskipulagi. Megnið af vinnu Skipulagsstofnunar verður bundið í stefnur og tvívíða uppdrætti og visst áhyggjuefni að arkitektónískar áherslur, rýmisskynjun og menningaráherslur séu skilgreindar undir þeirri stofnun.

    Í kynningu forstjóra Mannvirkjastofnunar (áður Brunamálastofnun) var lögð áhersla á brunatæknileg atriði í fyrsta sæti í öllum umræðupunktum. Þessi nýja stofnun er að koma sér fyrir og mikil breyting er í vændum varðandi umgjörð mannvirkjamála hér á landi. Það er áhyggjuefni hve heljartök teknókrata yfir sviðinu eru sterk, þó ný lög boði ýmis ný tækifæri líka.
    Nýjar reglugerðir eru enn í vinnslu og því tækifæri til að fara betur yfir áhersluþætti þar.

    Er ekki kominn tími til að arkitektar sem stétt taki af skarið í opinberri umræðu um gildi hönnunar fyrir nær- og fjærsamfélagið sem og hagrænt mikilvægi gæða hönnunar? Norðurlandaþjóðirnar eiga mörg góð dæmi samvinnu hönnunargreinanna, sem hafa haft víðtæk jákvæð áhrif bæði á samfélag og hagkerfi. Þau dæmi einkennast flest af samvinnu ýmissa skapandi greina, byggðri á opinberri stefnu um gæði byggðar. Til að bera slíkt samstarf þurfa verkefnin að vera stærri en sérhvert mannvirki. Breyttar áherslur nýrra laga kalla kannski einmitt á slíka samvinnu.

  • Sigrún Pálsdóttir

    Ég var svo heppin að sitja fund um vistvæna mannvirkjagerð hjá Vistbyggðarráði í gær. Þar var einmitt sérstaklega rætt um þennan ágalla á lögunum og m.a. lagt til að passa upp á að koma ákvæðum um arkitektónísku hliðina inn í reglugerð um mannvirki. Eftir því sem ég best veit er hún enn í smíðum og því tími til að lagfæra þetta.
    Í lögum og reglugerð ætti auk þess að undirstrika mikilvægi þess að fylgja markmiðum sjálfbærrar þróunar í byggingarlist og skipulagsgerð.
    Mikil stemmning virðist vera fyrir þessu í arkitektastétt og vonandi að vinna Vistbyggðarráðs og Vistmenntar skili árangri sem fyrst. Sjá http://www.vbr.is

  • EiríkurJ

    DÖnsku lögin:

    § 1. Denne lov har til formål:
    at sikre, at bebyggelse udføres og indrettes således, at den frembyder tilfredsstillende tryghed i brand- og sikkerheds- og sundhedsmæssig henseende,
    at sikre, at bebyggelse og ejendommens ubebyggede arealer får en tilfredsstillende kvalitet under hensyn til den tilsigtede brug og vedligeholdes forsvarligt,
    at sikre, at byggeskader udbedres,
    at fremme handicaptilgængelig indretning af bebyggelse,
    at fremme arkitektonisk kvalitet i byggeriet,
    at fremme foranstaltninger, der kan øge byggeriets produktivitet,
    at fremme foranstaltninger, som kan modvirke unødvendigt ressourceforbrug i bebyggelser,
    at fremme foranstaltninger, som kan modvirke unødvendigt råstofforbrug i bebyggelser.

    Sem sagt, 5. sæti á listanum.

  • Einar Guðjónsson

    Held að Mörður hafi mikið til síns máls.

  • Mörður Árnason

    Enn um ,,fagurfræði, byggingalist og menningararf“ í mannvirkjalögunum: Það er vissulega ágætt að hafa yfirlýsingar um þetta í upphafi laga, í markmiðsgreinunum, en hefur ekki mikla þýðingu ef þeirra markmiða sér ekki stað í regluverkinu að öðru leyti. Kannski var það þess vegna sem ekki var farið að tilmælum arkitektafélagsins þegar við afgreiddum mannvirkjalögin núna í haust — við erfiðar aðstæður.

    Spyr enn kunnáttumenn um norræna löggjöf: Hvernig er þessum markmiðsyfirlýsingum fylgt eftir í samsvarandi lögum þar? — Eru það kannski skipulagslögin, og ekkki mannvirkjalögin, sem bregðast — að þar vanti ákvæði um sæmilega byggingarlist, fagurfræði og samræmi sem forsendu við leyfisveitingar í sveitarfélögunum?

  • Einar Guðjónsson

    Orðið arkitektúr er notað í miklu þrengri merkingu á Íslandi en í menningarlöndunum. Hér þarf hinsvegar að tyggja allt upp í lögum til að íslendingar fari sér ekki að voða. Lagahefðin hér er auðvitað sú að allt sé leyfilegt nema það sé afdráttarlaust bannað. Þá hafa t.d. framkvæmdaaðilar með byggingarlögum ( sveitartjóradólgarnir ) gengið á undan borgurunum og brotið þau. Þannig eru starfsmennn Reykjavíkurborgar og Kópavogs síbrotamenn.

  • Magnús Jónsson

    Þetta er athyglisverður áherslumunur sem hér kemur fram milli íslenska löggjafans og löggjafa Norðurlandanna. Í raun er þarna um menningargjá að ræða milli Íslands og hinna Norðurlandanna. Af skrifum Finns Birgissonar arkitekts og viðbragða Marðar Árnasonar alþingismanns verður ekki annað séð en að það sé ekki vilji Alþingis að fara menningarlega og þroskaða leið við setningu manvirkjalaga. Alþingi setur fagurfræði, byggingalist og menningararf ekki inn í lögin af ásetningi að því er virðist

    Ég er hissa á því að þetta merkilega mál skuli ekki hafa komið upp áður. Þarna er um stórt atriði að ræða sem lýsir viðhorfi löggafans til góðrar hönnunar og menningarverðmæta. Löggjafinn virðist hafa fengið að minnstakosti tvö álit sem beindu málinu í svipaða átt og farin er annarsstaðar. Annarsvegar frá Listaháskóla Íslands og hinsvegar frá Arkitektafélagi Íslands. Umhverfisnefnd hafnaði þeim sjónarmiðum sem komu fram í álitum virtra álitsgjafa á borð við þá sem Finnur vitnar í.

    Þó ég tilheyri ekki hinum svokölluðu skapandi greinum þá finn ég til með þeim sem þurfa að eiga í svona baráttu vegna sjálfsagðra hluta.

  • stefán benediktsson

    Í starfsreglum vegagerðar Kaupinhafnar hef ég fyrir satt að yfirlýst markmið þeirra sé að leggja fallega vegi og götur.

  • Finnur Birgisson

    Mörður:
    Umsögn Arkitektafélagsins, sem þú vísar á hér að framan, ber það með sér að félagið lagði sitt af mörkum til að benda á ágalla lagafrumvarpsins. Þar segir m.a.:
    „Í lögunum er ekki vikið orði að fagurfræði, varanleika, notagildi né mikilvægi umhverfismótunar og góðrar byggingarlistar. Í þeim eru eingöngu tæknilegar skilgreiningar með innskoti um sjálfbæra þróun.“
    Og félagið leggur til að „í fyrstu grein laganna komi nýr a. og b.-liður og aðrir liðir komi óbreyttir þar á eftir:
    Markmið laga þessara er:
    a. Að stuðla að vandaðri húsagerðarlist og annarri mannvirkjagerð, þar sem yfirvegun og fagmennska móta umhverfi um líf og athafnir fólks.
    b. Að gæta þes að unnið sé í anda menningarstefnu stjórnvalda í mannvirkjagerð.“
    – Það er því ekki hægt að kenna neinum öðrum en löggjafanum sjálfum um vankanta mannvirkjalaganna, – það vantar ekkert uppá að reynt hafi verið að hafa vit fyrir honum.

  • Hilmar Þór

    Ragna.

    Ég held að það sé alveg öruggt að þeim þáttum sem þú nefnir og talað er um í færslunni séu ekki síður gerð skil í mannvirkjalögum hinna Norðurlandanna en hér á landi.

  • Mörður Árnason

    Finnur: Umsögnin kom á síðasta þingi (138.) en sama frv. var samþykkt á þessu (139). Hérna: http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=426&dbnr=1689&nefnd=um

    Ég er alls ekki að draga úr þörf á lögum um góða byggingarlist eða að afsaka þing og ráðherra fyrr og nú, bara spyrja hverskonar ákvæði um þetta ættu að vera í hvaða lögum? Mannvirkjalögin eru afar tæknileg.

    Allra besta leiðin fyrir þingið til að efla góða byggingarlist væri svo líklegast að styðja við arkitektúr í skólum og rannsóknum …

  • Finnur Birgisson

    @Mörður
    Á vef Alþingis er ekki að finna neina umsögn frá Arkitektafélaginu um frumvarpið, – þó segir í nefndaráliti að umsögn hafi borist frá félaginu.
    En í umsögn frá Listaháskóla Íslands segir m.a.: „Í apríl 2007 samþykkti ríkisstjórn Íslands metnaðarfulla stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist með útgáfu „Menningarstefnu í mannvirkjagerð“. (…) Stefnan er metnaðarfullt skjal þar sem áhersla er lögð á gæði, virðingu, þekkingu, hvatningu, menntun með notagildi, varanleika og fegurð að leiðarljósi. Andi þessarar mikilvægu stefnu birtist hvergi í því frumvarpi til mannvirkjalaga sem hér er til umræðu. (…) Hér með er hvatt til þess að inntak stefnunnar fái vægi í umræddu frumvarpi.“
    Þessi brýning Listaháskólans bar því miður ekki árangur.

  • Sammála.
    En ein spurning, eru hin löndin með þessa þætti sem við teljum upp, þ.e. um líf og heilsu manna, hagkvæmni, tæknilegar framfarir, orkunýtingu og fl. þ.h.. sem vissulega er líka mikilvægt.

  • Mörður Árnason

    Við sem tilheyrum ,,löggjafanum“ spurðum reyndar í haust um þetta mál — þ.e. hvar hugsanlegrar markmiðsgreinar um fagurfræði og menningarverðmæti ætti að sjá stað í síðari ákvæðum laganna, en fengum ekki svör. Þau er til dæmis — með fyrirvara um síhrakandi minni — ekki að finna í umsögn Arkitektafélagsins um frumvarpið. Kannski við ættum að setjast saman yfir norrænu lögin?

  • Borghildur Sturludóttir

    ….þetta er soldið eins og með stjórnarskrána, fyrir hvað viljum við standa?
    Annars er það rannsóknarefni útaf fyrir sig hvernig við arkitektar komum heim eftir 5-6 ára háskólanám þar sem gagnrýn hugsun, fagurfræði …ásamt siðfræði haldast þétt í hendur. Svo mætum við heim og er gert að aðlagast lögunum sem hafa í raun ekkert með arkitektúr að gera. ..og sættum okkur við það!

  • Jón G. B.

    Ætli ekki séu til þau hús og mannvirki hér á landi sem ekki hefðu verið byggð ef íslensk mannvirkjalög væru samhljóða þeim norrænu? Til dæmis nýr skáli Ferðafélags Íslands við Álftavatn sem virðist vera innflutt typuhús sem ekki er hannað inn í aðstæður, kannski í mesta lagi aðlagað. Sama á reyndar við nýlegt hús í Landmannalaugum þó það hafi skánað eftir að það var málað.

    Áherslur t.d. dönsku lagann hljóta líka að styðja hönnuði í sinni vinnu og bæta umhverfið.

    Eru mannvirkjalögin ekki enn eitt dæmið um vanvirðu löggjafans á vinnu hönnuða. Reyndar landlæg vanvirða fyrir því sem gleður augað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn