Föstudagur 16.03.2012 - 17:15 - 2 ummæli

Hús Börge Mogensen

 

Það er ánægjulegt að verða vitni að aukinni athygli sem  RUV er farið að veita skipulagi og byggingalist undanfarið.

Þar ber að nefna þætti Lísu Pálsdóttur og Hjálmars Sveinssonar fyrir nokkrum misserum auk umfjöllun í Víðsja um ýmis verk.

Nú hefur morgunútvarp rásar 2, einhver vandaðasti og vinsælasti dægurmálaþáttur ljósvakans, fjallað nokkuð um efnið undanfarið.

Fyrst um eyðibýli, þá um Þingvelli og í gærmorgun var Borgþór Arngímsson með vandaðann pistil um hús danska stjörnuarkitektsins Börge Mogensen sem nýlega var selt einkaaðila.

Ég fékk leyfi RÚV til þess að birta pistil Borgþórs í heild sinni hér á þessum vef og nota tækifæri til þess að gæða hann nokkrum ljósmyndum.

Gefum Borgþóri orðið:

„Fyrir nokkrum dögum skipti íbúðarhús eins þekktasta húsgagnaarkitekts Danmerkur, um eigendur. Ekki eru allir jafn hrifnir af örlögum hússins sem nú er í einkaeigu.

 Börge Mogensen er tvímælalaust í hópi þekktustu húsgagna- og innréttingaarkitekta Dana fyrr og síðar.  Hann er þar á heiðursbekk með Arne Jacobsen, Hans Wegner, Kaare Klint, Erik Jörgensen, Poul Kjærholm, Finn Juhl og fáeinum öðrum.

Börge sem var fæddur 1914 lærði fyrst húsgagnasmíði, að því loknu lá leið hans á Konunglegu Listaakademíuna og þaðan lauk hann prófi sem arkitekt árið 1942.  Aðalkennari hans þar og helsti áhrifavaldur var Kaare Klint. Að loknu arkitektaprófinu réðst Börge Mogensen til dönsku samvinnu samtakanna, FDB og veitti þar um átta ára skeið forstöðu teikni- og hönnunarstofu.  Þar voru teiknuð húsgögn sem áttu að vera allt í senn: falleg, hagkvæm, endingargóð, létt og meðfærileg, og síðast en ekki síst skyldu þau vera á verði sem almenningur í landinu réði við.  Allt gekk þetta eftir, samvinnumublurnar, einsog þær voru kallaðar, náðu miklum vinsældum og á teiknistofunni urðu til húsgögn sem segja má að séu sígild. Mörg þessara húsgagna eru framleidd enn í dag og gömul Börge Mogensen húsgögn seljast eins og heitar lummur í antikverslunum og á uppboðsvefjum. Á þessum FDB árum varð meðal annars til hinn þekkti rimlasófi, hann fór þó ekki í framleiðslu fyrr en síðar enda ekki beinlínis ódýr.  Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina varð dönsk hönnun þekkt víða um heim og nafn Börge Mogensen þar mjög áberandi.  Þess má geta að í samvinnu við Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt hannaði Börge Mogensen seint á fimmta áratugnum húsgögn í aðalbyggingu Búnaðarbankans við Austurstræti, meðal annars skrifborð bankastjóra.

Árið 1950 stofnaði Börge eigin teiknistofu sem hann rak til dauðadags en hann lést árið 1972, aðeins fimmtíu og átta ára.  Á þeirri teiknistofu urðu til mörg þekkt húsgögn, einkum sófar og stólar sem nú teljast sígildir. 

Árið 1958 flutti arkitektinn, ásamt fjölskyldu sinni í  nýtt hús í Gentofte.  Húsið hafði Börge sjálfur teiknað og ennfremur allar innréttingar og húsgögn.  Fram til þessa hefur húsið, sem er algjörlega óbreytt og með öllum upprunalegu húsgögnunum og innréttingunum, verið í eigu fjölskyldunnar.  Fjölskyldan ákvað hinsvegar fyrir nokkru að selja.  Þá hlupu margir til, arkitektar og safnamenn, og vildu að húsið kæmist í eigu opinberra aðila með það fyrir augum að það yrði gert að safni. Þeir bentu á að þarna gæfist einstakt tækifæri til að sýna verk eins helsta snillings danskrar hönnunar, eins þeirra manna sem lagt hefði grunninn að danskri nútímahönnun.  Danska hönnunarsafnið hafði mikinn áhuga á húsinu en þar eins og víða annars staðar liggja peningar ekki á lausu og þess vegna hafði safnið engin tök á að  festa kaup á því.

Í dönskum lögum um verndun og friðun er sá galli að þau ná ekki til húsa og húsbúnaðar sem heildar og þess vegna fellur íbúðarhús Börge Mogensen utan laganna.  Þegar þetta var ljóst fóru prófessorar við Listaakademíuna og fleiri á stúfana í þeim tilgangi að tryggja að húsið yrði  í opinberri umsjá.  Áður en til þess kom að þessi hópur gæti lagt fram tilboð um kaupin seldu börn arkitektsins hins vegar húsið einkaaðila sem hyggst flytja þangað inn með fjölskyldu sína.  Þessu lýsir einn prófessora við Listaakademíuna sem slysi, slysi sem hæglega hefði verið hægt að afstýra.“

Á þessari slóð má sjá nokkur húsgagna sem hönnuð eru af Börge Mogensen:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/02/07/borge-mogensen/

 Mikið af húsgögnunum á heimili arkitektsins eru frumeintök. Á sófanum má sjá að mikið hefur verið setið í þessu eðalhúsgagni.

Hér má sjá vinnustofu arkitektsins

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Jón Ólafsson

    Við að skoða þessar myndir finnur maður ilm af vindlum, bjór og gömlu timbri. Kannski svolitla netóbakslykt líka. Þetta eru lýsandi myndir af anda hússins þar sem ekki er búið að laga of mikið til.

  • Ég heyrði velgerðan pistil Borgþórs í gærmorgun og finnst pistillinn stórbatna við myndskreytinguna hér, þó hann hafi verið góður fyrir. Aðalatriðið er að upplifa þetta hlýlega heimili með þessari patinu sem kemur með árunum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn