Miðvikudagur 15.10.2014 - 16:26 - 11 ummæli

Hver á borgina?

 

556761_362170700577799_1574751733_n

Ég var á skemmtilegum fundi á Kjarvalsstöðum í gærkvöld þar sem spurt var.:

HVER Á BORGINA?

Þar fór fram umræða sem vakti upp margar spurningar sem verða áleitari þegar frá líður. Frummælendur voru þau Hjálmar Sveinsson formaður skipulagsráðs, Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs hjá borginni og þau Skúli Magnússon hdl og Margrét Harðardóttir arkitekt frá hinum svokallaða upplýsta almenningi.

Spurningarnar sem leitað var svara við voru á borð við þær hvernig hægt væri að gera breytingar á skipulagi án þess að ganga á fyrirliggjandi gæði og hagsmuni þeirra sem búa á svæðinu fyrir. Hefur strætó með 80 farþegum rétt á jafn miklu borgarrými og 80 einkabílar? Eru skipulagsheimildir ígildi eignaréttar til allrar framtíðar. Eiga íbúarnir borgina eða eiga notendurnir borgina og þá erum við að hugsa um íbúa, vegfarendur og ferðamenn? Eiga komandi kynslóðir borgina? Eiga verktakar borgina og eiga framkvæmdaaðilar meira í borginni en þeir sem ekki standa í framkvæmdum? Meiga framkvæmdaraðilar t.a.m. taka útsýni eða önnur gæði frá þeim sem fyrir eru og eru ekkert að framkvæma?

Já spurningarnar eru margar.

Allir fyrirlesararnir komu með svör og hugleiðingar við þessum vangaveltum og voru meðvitaðir um vandann.

Ólöf velti fyrir sér hvort hugsanlegt væri að takmarka gildistíma deiliskipulaga og nefndi dæmi um það frá norðurlöndunum, einkum Svíþjóð.

Skúli taldi að hugtakið byggingarréttur væri ofmetið. Það þyrfti að láta reyna á hann fyrir dómi. En sennilega vegna kjarkleysis hefði enn ekki reynt á það.

Margrét taldi að áhersla í skipulag og byggingar gengju ekki lengur út á velferð  menneskjunnar eins og áður, heldur á magn og kostnað.

Hjálmar var leitandi og vill finna þessum málum öllum farsælan farveg öllum til heilla. Hann vildi opna umræðu og þessi fundur væri liður í því.

Frummælendur voru allir lausnamiðaðir sem gefur fyrirheit um betri tíð í skipulagsmálum borgarinnar. Þeir vildu meiri almenna upplýsta umræðu. Þetta var fjölsóttur góður fundur sem er fyrstur í röð 5 slíkra sem verða haldir mánaðarlega í vetur.

Nokkrar ágætar fyrirspurnir og athugasemdir komu frá almennum fundarmönnum.

Gamall maður á tíræðisaldri (náði ekki nafninu) gekk í göngugrind að ræðupúltinu og tjáði sig um skipulagsmálin af mikilli einlægni og áhuga. Honum fannst borginni hraka og talaði á fallegu máli sem allir skildu. Ég var honum ekki alveg sammála en var þakklátur honum fyrir að setja fram sjónarmið sín af áhuga og elju. Mér sýndist sjónarmið hans og gagnrýni skaprauna ýmsum á staðnum. Það var ástæðulaust að láta mál hans fara í taugarnar á sér þó maður væri honum ekki sammála. Það sem skapraunaði mér hinsvegar var áhugaleysi og þáttökuleysi ýmissa kollega minna sem þarna voru og sinna skipulagsmálum í borginni. Þar var djúp þögn og einlægt áhugaleysi,  þó  með undantekningu.

Og í framhaldi er rétt að vekja athygli á  innleggi Gests Ólafssonar arkitekts. Hann hafði áhyggjur af hagsmunaárekstrum í skipulagsvinnu. Hann sagði að þeir sem vinna deiliskipulag fyrir borgina, sem allir eiga, gætu ekki hannað húsin í því skipulagi sem þeir ynnu að þar sem einkahagsmunir vega þungt.  Annarsvegar væru þeir að vinna deiliskipulag í þágu þeirra sem ættu borgina. Þ.e.a.s. vegfarenda, ferðamanna, íbúa borgarinnar allrar og grenndarsamfélagsins.  Þegar þeirri vinnu væri lokið  (þar eru oft engin mörk eð’a áskýr) tækju sömu arkitektar við og hönnuðu húsin inn í skipulagið með hagsmuni lóðarhafa í huga. Þá yrði hagsmunir heildarinnar víkjandi fyrir hagsmunum einkaaðilans. Þetta innlegg Gests var tilefni til andsvara fundargesta.

Gestur taldi að ekki væri  hægt að þjóna tveim herrum með þessum hætti. Borginni sem heild annarsvegar og þröngum hegsmunum lóðarhafa hinsvegar.

Við þekkjum dæmi um afleiðingarnar; Höfðatorg, Bílanaustsreitur við Borgartún, Skuggahverfið, Landspítalann. Allt eru þetta svokölluð verktakaskipulög og eru almennt álitin verstu skipulagsmistök síðari ára.

Niðurstaðan er auðvitað sú að borgin á að skipuleggja og deiliskipuleggja með hagsmuni borgarinnar í huga og svo eiga einkaaðlilar að huga að sínum hagsmunum innan takmarkanna deiliskipulagsins. Þá geta húsaarkitektarnir og höfundar deiliskipulagsins tekist á með hagsmuni sinna umbjóðenda í huga. Að sami arkitektinn vinni bæði fyrir einkahagsmuni lóðarhafa og heldarhagsmuni borgarlandslagsins gengur auðvitað ekki. Þetta verklag hefur verið kalað „verktakaskipulag“ sem er hið versta vinnulag.

Það er ánægjulegt að borgin skuli vera svona áhughasöm um að vekja upp umræðu um skipulags og borgarmál. Sérstaklega í ljósi þess að það eru ekki einusinni að koma kosningar. Því má svo bæta við að núna á eftir verður fundur í safnaðarheimili Neskirkju um skipulagsmál vesturbæjar. Hann hefst kl 17:30.

Myndin hér að neðan  er fengin af Facebook síðu eins fundargesta, án hans leyfis.

10402420_809939585696159_5170190161199651735_n

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þorvaldur

    Hvar eru þessir fundir auglýstir?

    P.S. Í okkar litla samfélagi þurfum við að gæta okkur sérstaklega á svona hagsmunaárekstrum.

  • Jóhannes

    Það er gott að heyra að talað sé um kosningamál án þess að kosningar séu í augsýn. Þá ætti að loka fyrir málefnaumræður svona10 vikum fyrir kosningar og gefa kjósendum kost á að melta með sér frammistöðu stjórnmálamanna í friði fyrir áróðri í aðdraanda kosninga.

  • Guðmundur

    „Ef ekki er hægt að ná inn fyrir kostnaði og eðlilegri ávöxtun af framkvæmdum einkaaðila þá fer enginn í framkvæmdir svo einfalt er það.“

    Eru nú ekki nokkur dæmi á undanförnum árum um glæfralegar framkvæmdir einkaaðila sem greiða átti með lántöku, sem enduðu svo í gjaldþroti á kostnað skattgreiðenda? Hlutirnir eru sjaldnast alveg einfaldir.

  • Þetta er nú meira þvaðrið. Ef ekki er hægt að ná inn fyrir kostnaði og eðlilegri ávöxtun af framkvæmdum einkaaðila þá fer enginn í framkvæmdir svo einfalt er það.

    Ef hið opinbera á að fara í óarðbærar framkvæmdir þá borga skattborgarnir svo einfalt er það.

    ERGO: sá sem borgar ræður – svo einfalt er það.

    Það amk. ljóst að þið hafið aldrei staðið fyrir framkvæmdum og þurft að láta þær ganga upp – þið hafið bara hannað og sent reikninginn.

    • Sigurgeir

      Hér er maður að tjá sig sem ekki botnar neitt í því sem verið er að ræða. Og svo talar han til einhvers fjölda og segir „þið hafið aldrei staðið í framkvæmdum…..“ og sendið svo bara reikning fyrir eitthvað sem ekki gengur upp.

      Pistlahöfundur svarar þessu ef ég þekki hann rétt en ég segi að svona málflutningur skemmir ala vitræna umræðu um mikilvæg mál eins og skipulagsmál.

    • Hilmar Þór

      Sæll Magnús.

      Það er alltaf veikleiki þegar menn afgreiða þá sem ekki eru þeim sammála með því að segja að þeir „þvaðri“.

      Við viljum endilega að allar skoðanir komi fram og svo getum við rætt þær ef eitthvað er óljóst.

      Ég ætla ekki að svara þess sleggjudómum þínum öðruvísi en upplýsa að ég og mín stofa hefur teiknað u.þ.b. hálfa miljón fermetra húsnæðis af öllum gerðum. Allar hafa þær staðist væntingar hvað varðarkostnaðaráætlanir, hafi þær legið fyrir.

      Þannnig að ekki er hægt að slá því fram og segja það „ljóst“ að við höfum aldrei staðið í framkvæmdum og „látið þær ganga upp“

      En ég spyr hver ert þú og hvað hefur þú gert sem gefur þér kjark og reynslu til þess að skrifa eins og þú gerir hér að ofan.

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Því miður komst ég ekki á þennan fund.
    Er ekki frá því að ég hafi setið þá nokkra.
    Spurning hvort þetta fundarfyrirkomulag sé ekki yfirborðslegt, úrelt og gagnslítið? Ár eftir ár standa borgarbúar í stappi vegna einstakra mála.
    Skipulagsmistökin hrannast upp. Á þeim eftir að linna?
    Enginn virðist bera ábyrgð. Íbúar standa hjá, hjálparvana og úrræðalausir.
    Hallast að þjóðfundarfyrirkomulaginu þegar ræða skal skipulagsmál Reykjavíkurborgar.

  • Það er ánægjulegt að borgin skuli vera svona áhugasöm um að vekja upp umræðu um skipulags- og borgarmál, segir þar og borgin státar líka af íbúafundum um skipulagsmál í anda þess íbúalýðræðis sem meirihlutinn hampar mjög. Það er bara einn hængur á. Það er ekki hlustað á óskir og hugmyndir almennings um sitt nærumhverfi eins og mýmörg dæmi sanna og höfundur pistilsins hér að ofan þekkir örugglega mætavel.
    Íbúalýðræðið hefur sýnt sig vera innantómt slagorð og skraut í stefnuskrá fyrir kosningar en einskis virði þegar á reynir.

    • Hilmar Þór

      Jú, ég þekki það. Ég hef tvisvar gert athugasemdir við deiliskipulag. Í bæði skiptin þótti mér þau vel ígrunduð og rökstudd. Borgin tók ekki tillit til athugasemdanna og rökstuddu þá ákvörðun nánast ekkert.

      En eigum við ekki að vona að þetta sé að lagast?

    • Guðrún Bryndís

      Fundir skipulagsyfirvalda eru til þess stofnaðir að kynna ákvarðanir og tilgangur funda er að túlka það eitt að fundir hafa átt sér stað séu þær ákvarðanir sem kynntar eru þarmeð samþykktar af borgarbúum og því með samfélagssátt við þá sem ‘eiga borgina’.
      Vinnulag og framkoma skipulagsyfirvalda varðandi athugasemdir sem gerðar eru við skipulagi í kynningu er þeim sem treyst er (þá er ég að vísa í traustsyfirlýsingu í formi atkvæðaseðils á fjögurra ára fresti) til að bæta lífsgæði borgarbúa er umhugsunarverð. Athugasemdir eru almennt vel unnar og þeir sem skila inn ábendingum gera það eftir vandlega rýni á gögnum og forsendum – því gerir löggjafin kröfu um að skipulagsyfirvöld gefi kost á athugasemdum þeirra sem hagsmuni hafa af skipulagsákvörðunum.
      Þessi fundarröð virðist vera á sömu forsendum og hverfafundir um skipulag á síðasta kjörtímabili. Í þeirri fundarröð urð ansi margar undarlegar ákvarðanir til, þar sem ábyrgðinni um misumdeildar ákvarðanir var varpað yfir á borgarbúa: Þeir sem mættu á fund báru ábyrgð á því að hugmynd varð til (sem var leidd áfram af hópstjórum) og í framhaldinu komið inn í skipulagsferli og framkvæmd. Ábyrgð þeirra sem ekki mættu fólst í því að sýna skipulagsmálum í sínu hverfi ekki áhuga og láta aðra um að taka ákvörðun fyrir sig.

  • Jón Ólafsson

    Góð umræða. Verst að hafa ekki vitað af þessum fundi. Verktakaskipulag þar sem skipulagshöfundar sinna láðarhafa eingöngu á ekki að líðast.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn