Mánudagur 16.07.2012 - 13:01 - 14 ummæli

Ingólfstorg – umræðan.

Það ber að fagna allri umræðu um skipulags- og byggingamál, enda hollt fyrir borgarskipulagið að fólk horfi til málanna með gagnrýnum augum.  Mikilvægt er þó að gagnrýnin sé fagleg og lausnamiðuð.

Undanfarið hafa þáttakendur í umræðunni farið mikinn og gagnrýt á tillögur í nýafstaðinni samkeppni um Ingólfstorg og nágrenni.

Það sem einkum hefur verið fjallað um í umræðunni og fundið að, er fernt.

Í fyrsta lagi er því mótmælt að þarna séu áætlanir um að starfrækja hotel. Í öðru lagi hefur folk efasemdir um byggingarmagnið. Í þriðja lagi hafa menn áhyggjur af skemmtistaðnum NASA og loks eru aðilar sem vilja ekki að byggt verði nýbygging við Kirkjustræti.

Mér sýnist þessar gagnrýnisraddir ekki vega þungt og langar til þess að skýra út af hverju mér finnst það.

Í fyrsta lagi hefur hótelstarfssemi í miðborginni haft veruleg áhrif á hag og velgengni smávöruverslunnar og veitingastarfssemi í miðbænum. Hótelstarfssemi eykur og bætir mannlíf á götum og torgum miðborgarinnar og henni ber að fagna að svo stöddu.

Í öðru lagi er auðvitað mikilvægt markmið að auka starfssemi í miðborginni og það er helst gert með að auka byggingamagn. Við aukið byggingamagn eykst aðdráttaraflið fyrir atvinnustarfssemi og mannlíf eykst á götum og torgum. Aukið byggingamagn er í sjálfu sér ekki ógn við miðborgina heldur getur hin arkitektóniska nálgun skemmt hana. Í því sambandi er mikilvægt að vernda staðarandann. Markmiðið á að vera “að menningarverðmæti glatist ekki heldur að þau séu upphafin”   í skipulaginu.

Rétt er að minna á að í verðlaunatillögunum er ekki mikil breyting á því byggingarmagni sem heimild er fyrir í staðfestu deiliskipulagi frá 1987. Það er því ósanngjarnt að mótmæla tillögunum á þeim grunni nú 25 árum seinna. Gefin var kostur á að mótmæla byggingamagninu fyrir 25 árum. Ég vil hinsvegar bæta því við sem oft hefur komið fram áður að ég tel að deiliskipulög eigi að hafa takmarkaðan gildistíma. En það er önnur saga.

Í þriðja lagi eru nokkrar háværar raddir sem sakna skemmtistaðarins NASA eða sakna starfseminnar sem þar var. Allar verðlaunatillögurnar gera ráð fyrir að samkomusalurinn verði þarna áfram í þeirri mynd sem hann er nú. Vandamálið með NASA er að mér skilst frekar rekstrarlegs eðlis en borgarsipulagslegs. Það er því ósanngjarnt að mótmæla tillögunum á þessum grunni.

Og í fjórða lagi gerir fólk alvarlegar athugasemdir við nýbyggingu við Kirkjustræti. Þessi bygging er einnig á staðfestu deiliskipulagi frá 1987. Ég er á móti þessari ákvörðun og tel að það hefði þurft að fella hana úr gildi áður en samkeppnin var auglýst. En það var ekki gert og það vita allir sem kynnt hafa sér málið.

Ég hef verið fjarverandi undanfarið og sá í morgunn athugasemd forseta Alþingis vegna þessarar byggingar þar sem hann talar um virðingu fyrir löggjafanum og þeim byggingum sem hann starfar í. Forsetinn mátti vita að í gildi er 25 ára gamalt skipulag sem gerir ráð fyrir byggingu þarna. Hann hefði getað beitt sér fyrir málinu hátt á þriðja áratug og gert atlögu að því að fella þessa heimild niður.

Nú er í auglýsingu deiliskipulag Landspítalans. Af þessu tilefni vil ég biðja áhugasama um að skoða það vel og segja sitt alit áður en athugasemdafresturinn rennur út þann 4. September n.k. Það er of seint að mótmæla deiliskipulagi Landspítalans eftir 25 ár.

Í lokin vil ég vísa á tillöguna í 3. sæti sem á meðvitaðan hátt gerir ekki ráð fyrir byggingu við Kirkjustræti.

Efst er mynd af fyrsteverðlaunatillögunni opg neðst er mynd af tillögu þeirri sem hlaut 3. sætið.

Fjallað var um tillögurnar þrjár á þessum vef fyrir nokkru. Þær er hægt að finna á eftirfarandi slóðum:

1. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/07/02/ingolfstorg-1-verdlaun/

2. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/07/01/ingolfstorg-2-verdlaun/

3. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/29/ingolfstorg-3-verdlaun/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Það er byggt alltof langt út við Kirkjustræti. Rútur og bílar komast komast hvergi að nema að stöðva umferð. Þess vegna mun ég sem nágranni mótmæla framkvæmdinni.

    Annað sem er mitt persónulega sjónarmið. Mér fannst sú tillaga sem varð næsthlutskörpust miklu fallegri hönnunarlega séð:)

    Ég verð fegin ef Ingólfstorg verður hækkað og vonandi sett gras og bekkir. Hryllilega ljótt eins og það er núna.

  • Garðar Garðarsson

    Stefán Benediktson, það þarf ekki stærðar hótel og háar byggingar við Ingólfstorg til þess að hægt sé að loka götum og bíastæðum í kringum torgið til að gera torgið aðlaðandi. Þið pólitíkusar og málaliðar stórkapitalsins gangið út frá því virðist vera að það þurfi hótel á svæðið og mikið byggingamagn og helst há hús til þess að bjarga Ingólfstorgi. Í dag er nú þegar hótel vestanvert við torgið, en það þarf kannski hótel á alla vegu til þess að gera torgið aðlaðandi fyrir suma.

    Ég hef allt aðra skoðun á því en aðdáendur hótelsins og hárra húsa sunnanvert við torgið hvernig eigi að skipuleggja byggð við torgið.
    Það á ekki að byggja fleiri hótel á þessum viðkvæma og söguríka reit við þrengstu götur miðborgarinnar. Það væri nær að með tímanum væru stærstu og ljótustu húsin sunnan og vestan við Ingólfstorg rifin og fjarlægð, og lágreistari hús byggð í staðinn, hús sem væru meira í samræmi við elstu og fallegustu húsin. Í leiðinni fengist meiri birta og sól inn á torgið sem gerir það að verkum að fólk vill vera þar.

  • Hilmar Þór

    Rétt Stefán og ég vil bæta því við að einn megin ávinningur samkeppninnar er að nú verða jarðhæðir allra húsa á svæðinu almenningsrými með verslun, veitingastöðum, galleríum o.s.frv í stað lokaðra líflausra rýma eins og nú er.

    Þessi breyting á nýtingu jarðhæðanna munu gefa af sér stóraukið og betra götulífið með mikilli aukningu gangandi vegfarenda sem munu auka umsvif og aðdráttarafl ýmissa smáfyritækja með margskonar þjónustu og upplifunartækifærum.

    Fögnum því.

    Svo er það aftur umræðan. Vörumst stóryrði og sleggjudóma. Gætum þess að ræða málefnið en ekki að vaða í manninn.

  • stefán benediktsson

    Ingólfstorg er í dag innrammað á alla vegu af umferðargötum og bílastæðum. Torgið er niðurgrafið og ekki í neinum tengslum við byggingarnar sem umlykja svæðið og starfsemi í þeim. Þegar umferð hefur verið aflögð á reitnum og byggt hefur verið á Hótel Íslands lóðinni verður Ingólfstorg stærra en það er nú og allar byggingar og starfemi í þeim verður í beinum tengslum, á jafnsléttu við torgið og/eða göngugötur út frá því.

  • Jón Guðmundsson

    Sæll Hilmar, umræðan hefur reyndar verið frekar lágstemmd, dýpstu áratökin og sleggjudómarnir hafa komið frá dómnefndarmönnunum, Hjálmari Sveinssyni og Páli Hjaltasyni að ekki sé minnst á málflutning Dags B. Eggertssonar.

    Hér að ofan skautar þú sjálfur nett fram hjá kjarna mótmælanna. Helmingi Ingólfstorgs er breytt í byggingarlóð. Ingólfstorg er annað tveggja torga í borginni sem hafa verið skipulögð frá grunni og frágengin á vandaðan hátt. Austurvöllur og Ingólfstorg eru einu raunverulegu bæjartorgin í Reykjavík. Þetta stendur til að eyðileggja og því vilja margir mótmæla. Á þessum torgum er blómstrandi mannlíf sem nú skal lagt að veði.

    Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og formaður dómnefndar dómnefndar reið á vaðið í umfjölluninni með grein í fréttablaðinu þann 2 júlí. Í greininni sagði Páll; „Það sem er einna róttækast í vinningstillögunni er að lagt er til að byggt verði á syðri hluta Ingólfstorgs, þar sem Hótel Ísland stóð einu sinni. Þar er um að ræða sjálfstæða einingu á borgarlandi sem tengist ekki hóteluppbyggingunni og gerir tillagan ráð fyrir að þar verði menningarhús“.

    Þessi fullyrðing formanns dómnefndar orkar tvímælis þegar rýnt er í vinningstillöguna. Af öllum innsendum tillögum á fyrra þrepi samkeppninnar er vinningstillagan sú eina sem sýnir möguleika á gangbrúartengingum þvert yfir Vallarstræti. Nýja byggingarlóðin á Ingólfstorgi er auk þess helmingi stærri en áður hafði verið sótt eftir. Djúpgrænn liturinn á þaki nýja mannvirkisins á Ingólfstorgi blekkir marga við fyrstu sýn.

    Til að kóróna allt er byggt út í götulínu við Kirkjustræti. Vinningstillagan gengur þannig mun lengra en villtustu draumar forsvarsmanna fasteignaþróunarfélagsins sem stendur á bak við samkeppnina gerðu. Elsta trikkið í bókinni með tímasetningu ofan í forstetakosningar, Landsmót, Evrópukeppni og almenn sumarfrí nær ekki að stöðva mótmæli borgarbúa. Áframhaldandi hálfsannleikur, skætingur og sleggjudómar munu ekki verða þessum áformum til framdráttar.

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Hvað líður hverfisvernd gamla bæjarins innan Hringbrautar?

    Árið 2008 var unnin skýrsla undir stjórn Hjörleifs Stefánssonar arkitekts:
    BORGAR- OG HÚSVERNDARSTEFNA REYKJAVÍKUR
    Hvað varð um skýrsluna?

    Árið 2008 var eftirfarandi tillaga samþykkt hjá skipulagsráði:
    „Umsókn nr. 70387 … Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkir að miðborg Reykjavíkur, innan Hringbrautar, skuli skilgreind sem sérstakt verndarsvæði til samræmis við það sem tíðkast í sögulegum miðbæjum víða í Evrópu og Norður Ameríku. Átt er við það sem í Bretlandi kallast conservation area og historic district í Bandaríkjunum.
    Markmiðið er að vernda sögulega byggð á svæðinu og stuðla að því að þegar framkvæmdir fara fram innan svæðisins verði þær til þess fallnar að styrkja heildarmynd þess til samræmis við það sem var þegar svæðið byggðist.
    Slík skilgreining skal verða hluti af staðfestu aðalskipulagi og taka gildi ekki síðar en á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 2010.
    Samþykkt. Vísað til meðferðar hjá embætti skipulagsstjóra.“

    Hvað varð um þessa samþykkt?
    Hvað hefur gerst síðan?
    Hvernig eru hótel framkvæmdirnar hugsaðar út frá þessari samþykkt og út frá hugmyndum um Borgarvernd og endurskoðun aðalskipulags?

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Þakka þér Hilmar fyrir kynningarnar á tillögunum og þessa umfjöllun.

    Er ekki málið margþætt? Um hvað snýst það?
    Snýst það um samkeppni sveitarfélaganna, snýst það um úrelt deiliskipulag, snýst það um ofríki verktaka?
    Eða snýst það um eitthvað enn annað?

    Er málið ekki líka á mörgum stigum? Ætlum við að ræða útfærslu-atriði eins aðkomu sorpbíla, lélegt byggingarefni í útveggjum Nasa-salarins, eða hvort tónlistarhljóðmögnun falli vel að svefnfriði hótelgesta?
    Eða ætlum við að ræða eitthvað enn annað?

    Ég kalla eftir upplýsingum og samtali um þá sýn og stefnu sem við höfum um byggingarsögu okkar. Ekki um einstaka hús á safni, heldur um það sem enn er þó eftir af gamla bæjarhlutanum í Reykjavík.

  • Jón Helgason

    Garðar

    Deiliskipulög og nýtingarhlutföll eru veðsett í topp. Þess vegna eru þau eins og dyndir feðranna sem við þurfum að bera. Ekki er hægt að líta framhjá því.
    Skipulagið er gott þrátt fyrir þessar galla. Þette eru 25 ára gamlar syndir

  • Umræða er alltaf góð! Hilmar er soldið veikur fyrir 3. verðlaunatilögunni sýnist mér, en hún gerir ráð fyrir mun meira raski og framkvæmdum á borgarlandi en aðrar tillögur. Held ekki að það sé farsælt þar sem það leggur byrðar á hendur borgarsjóðs sem er fjárvana eins og allir vita. Borgarsjóður hefur lagt gífurlega fjármuni í uppbygginu í miðbænum síðustu ár (Aðalstræti, Austirstræti, Laugavegur) sem er gott mál en spurning hvort sanngjarnt sé að ætlast til að meira sé gert … að sinni? Er ekki kominn tími á einkaframtakið?

  • Jóhann Sigurðsson

    NASA eða svipaður staður er nauðsynlegur í íslenska tónlistarflóru. Það á ekki að blanda þvi við umræðu um skipulagsmál. Annars bíðum við eftir að Páll Óskar hrósi verðlaunahöfum fyrir þeirra framlag til að framlengja líf skemmtistaðarins

  • Þormóður

    Gallinn við hótelin í grend við Ingólfstorg eru lobbýin (innritunin,móttakan). Þau eru of stór og á jarðhæðunum. Best væri að hafa þau á annarri hæð og bara smáanddyri á jarðhæð sem rétt rúmar stiga og lyftu þannig að verslanir og annað fái meira rými á jarðhæðunum.

  • Garðar Garðarsson

    Þó svo að um sé að ræða 25 ára deiliskipulag þá gerir það ekki tillögurnar betri og auðvitað má gagnrýna hlutina þegar hægt er að sjá með tillögunum hversu vitlaust það er að troða þessu mikla byggingarmagni ofan í þennan viðkvæma og sögurýka reit. Það mætti halda að ekki sé annað pláss fyrir hótel í miðbænum en akkúrat á þessum stað. Ekki gleyma aukinni skuggamyndun á almenningsrýmin Ingólfstorg og Austurvöll ef þessar tillögur verða að veruleika.

    Af hverju ekki að byggja fleiri hótel við höfnina og við Hverfisgötu þar sem er betra rými og aðgengi fyrir alla umferð sem tilheyrir hótelum? Þetta nýja hótel verður mjög stórt miðað við hversu þröngt er í og við Ingólfstorgsreitinn. Það eru nú þegar nokkur hótel og gistiheimili á svæðinu við Ingólfstorg og Austurvöll.

  • Einar Jóhannsson

    Það væri ánægjulegt ef „staðarandinn“ og arkitektúr tillagnanna yrðu ræddur og spurt hvort þetta sé gerlegt án þess að ganga á hlut staðarandans, menningararfsins og mannlífsins. Var ekki keppt um að koma þessu fyrir svo una mætti við? Það lá fyrir að þarna yrði hótel og þetta væri byggingamagnið sem beðið var um. Hvað eru menn að vera vitrir eftirá?
    Opnum umræðu um arkitektúrinn. Ég veit ekki hvað mér finnst en vil hafa skoðun…upplýsta skoðun.

  • Sigurður Sigurðsson

    Þessi mótmæli eru illa rökstudd samanber að lagðir er fram undirskriftarlisti sem mótmælt er að breyta skemmtistaðnum NASA í hotel (Visir.is 16 júli 2012) Þetta er ekki að gerast eins og allir sjá sem skoða verðlaunatillögurna. Gert er ráð fyrir óbreyttu NASA í öllum verðlaunatillögunum. Og hverju er fólkið þá að mótmæla?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn