Laugardagur 26.01.2013 - 17:32 - 2 ummæli

Kvosin 1986 & 2011

 

„Guðmundur Ingólfsson er einn af máttarstólpunum í íslenskri ljósmyndun. Sýningin KVOSIN 1986 & 2011, samstarfsverkefni Ljósmyndasafns og Minjasafns Reykjavíkur, er byggð á myndum sem hann tók með 25 ára millibili. Myndirnar tók Guðmundur fyrst árið 1986 í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur sem ýtti undir áhuga hans að skrásetja miðbæinn með markvissum hætti – á slóðum forvera hans og starfsbræðra,  Sigfúsar Eymundssonar og Magnúsar Ólafssonar, sem skrásettu svæðið um hundrað árum fyrr.

Þegar ljósmyndum Guðmundar frá þessum tvennu tímum er stillt saman birtast okkur þær breytingar sem orðið hafa miðbænum. Að öllu jöfnu teljum við að umhverfi Kvosarinnar standi í stað sem alls ekki er raunin þegar betur er að gáð. Hús hafa horfið, önnur verið byggð og götur og kennileiti breyst.“

Svo segir Jóhanna G. Árnadóttir verkefnastjóri hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur í sýningarskrá sem gefin var út í tilefni ljósmyndasýningar Lósmyndasafns Reykjavíkur sem opnaði nú síðdegis í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15.

Þetta er mögnuð sýning sem enginn má missa af.  Þarna eru „blöraðar“ minningar settar í „fókus“ eins og Einar Benediktsson formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur orðaði það í opnunarræðu sinni.

Þegar bornar eru saman ljósmyndirnar frá 1986 við nútímann skynjar maður að gömlu húsin og gömlu rýmin virðast í einhverju „limbói“, þau vita ekki hvert stefnir eða hvert þau eru að fara og hver framtíðin verður.  Á nýju myndunum sér maður að stefnan hefur verið tekin í átt að meiri og vandaðri húsavernd en við mátti búast fyrir 25 árum.

Alls eru á sýningunni 104 ljósmyndir sem sýna staði með 25 ára millibili.

Sýningin sem opnaði í dag, stendur til 12. maí 2013

Slóð að vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur er þessi:

http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Kristján

    Ég hef ekki séð sýninguna en ætla ekki að missa af henni. Ég hef séð ljósmyndabækur með svona samanburðarmyndum og líka þar sem bornar eru saman myndir af húsum sem hafa þurft að víkja og svo aftur frá svipuðum stað af þeim húsum sem komu í staðin. Ég nefni bókina „Lost Chicago“ Það væri fróðlegt að sjá slíkar ljósmyndir frá Reykjavík.
    Er þetta ekki efni í bók?

    • Hilmar Þór

      Kristján. Merkilegt. Eg held ég viti hver þú ert og ég get glatt þig með því að segja þér að ég á, eða hef átt, þessa bók um Chicago eða aðra svipaða. Ef ég finn hana kem ég henni til Guðmundar. Sjáum svo til.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn