Mánudagur 09.03.2015 - 16:55 - 40 ummæli

Moska í Reykjavík

Íslenskir arkitektar eru almennt frálslyndir. Þeir hafa allir fullnumið sig erlendis og þekkja vel til þar sem mismunandi menningarsamfélög eru snar þáttur í daglegu lífi fólks.

Arkitektar eru flestir  hlynntur því að múslimar fái að byggja sér bænahús hér á landi og þykir sjálfsagt að mæta þeirra óskum eins og mögulegt er í sátt og samlyndi við íslenskt samfélag. Þeir eru almennt áhugasamir um svokallaða fjölmenningu og fagna fjölbreytninni sem henni fylgir.

Nú hefur Félag múslíma á Íslandi fengið úthlutað lóð og auglýst opna samkeppni um hönnun bænahússins. Samkeppnin hefur verið auglýst  og skiladagur ákveðinn þann 26. mai næstkomandi.  Þessu er almennt fagnað af arkitektum og það er allmikill áhugi fyrir verkefninu hér.

Eins og sjá af meðfylgjandi myndum eru nýjar moskur ekkert í takti við Hagia Sophia eða byggingu sem yrði yfirgnæfandi kennileyti við aðkomuna inn í Reykjavík. Það er ástæðulaust að óttast það. Ég efast ekki um að samkeppnin á eftir að laða fram bænahús sem fellur að íslenskum aðstæðum og staðaranda.  En það er auðvitað undir dómnefndinni komið.

++++

Það hefur hinsvegar vakið athygli að tungumál samkeppninnar er enska.  Ekki sem aukatungumál,  heldur sem eina tungumálið.

Íslenskunni er hreinlega úthýst. Hún er bönnuð og þeir sem skila inn tillögu á íslensku verða því ekki teknir til dóms.

Um er að ræða samkeppni um byggingu á Íslandi fyrir trúfélag íslendinga þar sem keppendur verða að meirihluta íslenskir og allir dómarar og ráðgjafar eru líka íslenskir?

Þetta er afar sérstakt.

Ég þykist vita að stjórn og samkeppnisnefnd er ekki skipuð þýlyndum geðluðrum sem ekki geta staðið í fæturna þegar standa á vörð um helstu stoð íslenskrar menningar, íslenskunni.  Átökin hafa verið hörð en arkitektar látið undan kröfu Félags múslima á Íslandi.

Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé merki um það sem koma skal. Það er að segja að íslensk menning muni fyrr en seinna víkja fyrir hinni erlendu.  Að fjölmenningin ætli ekki að aðlagast þeirri íslensku heldur breyta henni. Og á þá virkilega að byrja á helstu stoð menningar okkar, íslenskunni?

Það er auðvitað skynsamlegt að hleypa einhverju alþjóðatungumáli að sem aukatungumæál með íslenskunni í samkeppni sem þessarri. Þó ekki væri nema til þess að gera aðkomu muslimska arkitektasamfélaginu auðveldara til þess að leggja eitthvað til málanna. En að banna íslenskuna er ógnvekjandi í þessu samhengi.

+++++++

Nú eftir að samkeppnin hefur verið auglýst hefur komið fram að byggingin og samkeppnin mun verða kostuð af Saudi Arabíu. Það eru slæmar fréttir sem Arkitektafélag Íslands á væntanlega eftir að tjá sig um. Jafnvel að enduskoða þáttöku AÍ í verkefninu.  Það er allavega tilefni til þess að velta því fyrir sér.

Ég leyfi mér að vitna í Egil Helgason: „Saudi-Arabía er nefnilega eitthvert viðurstyggilegasta einræðisríki í heiminum. Þar er trú, öfgafyllsta útgáfan af íslam, notuð sem réttlæting fyrir nokkurs konar fasisma. Sumpart er þetta aðferð gerspilltrar valdastéttar til að halda stöðu sinni. Þegar meðlimir hennar koma til Vesturlanda verða þeir gjarnan berir að fullkominni hræsni“.

Svo er mér er sagt að önnur trúarbrögð en Múhameðstrú sé bönnuð í Saudi Arabíu.

+++++++

Þarf ekki að stokka þetta allt upp. Sýna festu þegar það á við og þolinmæði þegar þannig stendur á.  Gefa öllum trúfélögum aðgang að trúarsjóðum eins og kirkjubyggingasjóði og  jöfnunarsjóði kirkna. Hafna peningum frá ríkjum á borð við Saudi Arabíu.  Bjóða fjölmenningarsamfélagið velkomið og gefa því tækifæri til þess að aðlagast íslenskri menningu án þess að leggja hana niður. Vinna að því að fólkið aðlagist íslensku samfélagi en breyta grundvallaratriðunum sem minnst.

Og í Guðsbænum ekki fórna íslenskunni í þessum samskiptum.

++++++

Efst er tölvumynd af nýrri mosku í höfuðborg Egyptalands. Að neðan er teikning af nýrri mosku í Kaupmannahöfn.

Hér er slóða að samkeppnislýsingu og samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands.

Hvorugt á íslensku.

Competion brief final

Competition Rules AI 2015

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (40)

  • Aðalsteinn Aðalsteinsson

    Hvert er framhaldið þegar tillaga hefur verið samþykkt? Þarf þá ekki viðkomandi sveitarstjórn og nefndir/stofnanir á hennar vegum að fjalla um málið og síðan almenningur? Er þá ekki skilyrði að málgögn séu á íslensku, þar sem íslenska er opinbert tungumál landsins?

    • arkitektur

      Jú þú átt kollgátuna Aðalsteinn.

      Þessvegna þarf vinningshafinn ef hann er erlendur að stofna til samstarfs við einhvern sem hefur íslensk réttindi og hefur tök á íslenskri tungu. Og svo þarf hann gæðakerfi sem Mannvirkjastofnun hefur látið tiltekin einkafyritæki út í bæ samþykkja.

  • Örnólfur Hall

    — Hvernig skyldu moskubyggendur taka á því ef íslenskur arkitekt, kristinnar trúar, ynni fyrstu verðlaun í moskusamkeppninni, en t.d. í öðru og þriðja sæti yrðu arkitektar Íslamstrúar.? Hvernig má ætla að Kóraninn (Spámaðurinn?) tæki á slíku dæmi, kollegi Hilmar Þór þú sem ert nýbúinn að lesa Kóraninn ?

    • Örnólfur Hall

      — Eða Hilmar ! …. ef nú allir verðlaunahafarnir þrír verða íslenskir arkitektar skráðir í Þjóðkirkjunni eða öðrum kristnum söfnuðum ? – Hvernig verður það þokkað af aðstandendum?

  • Hilmar Þór

    Já Tinna Gígja, en með dassi af svokallaðri upplýstri ágiskun.

    Ég styðst yfirlýsingu arkitektafélagsins þar sem segir að þetta hafi verið eindreginn vilji Félags muslima á Íslandi. Og orðrétt í framhaldinu: „Þrátt fyrir að AÍ leggi almennt áherslu á að öll gögn er varða samkeppnir hérlendis séu á íslensku sá samkeppnisnefnd og stjórn ekki ástæðu til þess að setja sig á móti kröfum samstarfsaðilans í þessari keppni“.

    Þarna kemur fram að þetta hafi verið krafa Félags múslima á Íslandi sem stjórn sá ekki ástæðu til þess að setja sig á móti þó þeir almennt leggi áherslu á annað.

    Þarna er um að ræða í mínum huga svokölluð diplómatísk frásagnarlist þar sem nægjanlega mikið kemur fram svo þetta skiljist án þess að móðga viðsemjandann.

    Og jú það hljóta að hafa verið átök um þetta af augljóum ástæðum.

  • Tinna Gígja

    „Ég þykist vita að stjórn og samkeppnisnefnd er ekki skipuð þýlyndum geðluðrum sem ekki geta staðið í fæturna þegar standa á vörð um helstu stoð íslenskrar menningar, íslenskunni. Átökin hafa verið hörð en arkitektar látið undan kröfu Félags múslima á Íslandi.“

    Hefurðu heimildir fyrir þessum hörðu átökum, eða heldurðu bara að þetta hljóti að hafa verið svona?

  • @Jón Guðmundsson: ,,Á Íslandi ríkir trúfrelsi og við tökumst ekki á við öfgaöfl í Saudi Arabíu með því að gerast fordómafullir öfgamenn sjálfir.“

    Á Íslandi hafa menn frelsi til að gera allt sem þeir vilja,
    nema þrengja að þessu sama frelsi næsta manns.

    And that’s your homework for today, Jón Guðmundsson,
    eins og þeir segja í Búlgaríu.

  • Jón Guðmundsson

    Það er engin nýlunda að þess sé krafist að samkeppnisgögnum sé skilað á engilsaxnesku.

    Að reka upp rammakvein og fara síðan að fabúlera um mannréttindi í Saudi Arabíu, ógnvekjandi bann við helstu stoð íslenskrar menningar, úthýsingu íslenskunnar og hörð átök þýlyndra geðluðra er aftur á móti nýr vinkill í síendurtekinni umræðu um stöðu íslenskunnar gagnvart enskunni.

    Ég ætla að vona, Hilmar, að þú ætlir ekki að bera fleiri sprek í fordómabálköstinn sem ýmsir hafa keppst við að hlaða undanfarin misseri. Öll trúarbrögð í sögunni hafa verið misnotuð til illverka á einhverjum tímapunkti. Þrátt fyrir það viljum við viðurkenna rétt allra einstaklinga til að viðhafa þá trú eða trúleysi sem þeir kjósa.

    Á Íslandi ríkir trúfrelsi og við tökumst ekki á við öfgaöfl í Saudi Arabíu með því að gerast fordómafullir öfgamenn sjálfir. Spurninguna um enskuna sem samkeppnismál er erfitt að reifa undir þessum trúarlegu forsendum.

    • Hilmar Þór

      Ég var að reyna að tína sprekið úr „fordómabálkestinum“ með því að lýsa því að þetta er ekki stórt og fyrirferðamikið hús sem þarna mun rísa. Þveröfugt, það verður lítið og hógvært og fellur að umhverfinu ef vel tekst til.

      Hugleiðing varðandi tungumálið hefur ekkert með fordóma að gera.

      Heldur er þetta skoðun sem sett er fram til varnar okkar ylhýra máli.

      Mér finnst reyndar menn misskilja orðið fordómur. Allavega skilja margir það öðruvísi en orðabók menningarsjóðs og ég. Fordómur er dómur sem ekki styðst við rök eða reynslu, e.k. hleypidómur.

      Skoðun mín á stærð og umfang moskunnar í Sogamýri byggir á minni reynslu og þekkingu. Það sama á við þá skoðun mína um að við eigum að bjóða fjölmenningarsamfélagið velkomið og leiðbeina þeim til þess að geta verið í harmoniskri sambúð með þeirri menningu sem fyrir er.

  • Hilmar Þór

    Áherslan hér á tungumálið er meira en ég átti von á.

    Pistillinn er, eins og nafn vefsíðunar segir, um arkitektúr og skipulag. Tungumálið og peningarnir voru í mínum huga aukaatriði, en samt „interessant“

    Meginefni pistilsins um mosku í Reykjavík er skrifaður til þess að benda á að menn þurfi ekki að óttast að þarna rísi eitthvað sem er svo stórt í formi eða fermetrum að það geti af þeim ástæðum verið skilgreint sem kennileiti og meginhlið inn í borgina.

    Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því enda mun samkeppnin líklega laða fram lítið hús sem hentar staðnum og starfseminni. (aðeins 670 m2)

    Svo segi ég að við eigum að fagna fjölmenningarsamfélaginu og hjálpa þeim að aðlagast okkar menningu en jafnframt að gæta þess að fara ekki að breyta henni í grundvallaratriðum til þess að mæta þeim. Og þar er tungumálið meginatriði.

  • Dd.is fjallar um þetta.

  • Hilmar Þór

    Mig langar til þess að árétta það sem allir vita. Það er að allar samkeppnir sem auglýstar eru á Íslandi eru að verulegu marki alþjóðlegar þar sem allir þeir sem búa innan EES svæðisins hafa rétt til þáttöku.

    Innan EES (ESB) eru 30 lönd og þar eru töluð 26 tungumál.

    Á svæðinu býr rúmlega 500 milljónir manna og sennilega um hálf milljón arkitekta.

    Almenna reglan í ölum þessum löndum er að ríkjandi tungumál samkeppna er á tungu þess lands sem samkeppnin er haldin.

    Það læðist að mér sá grunur að það þekkist ekki að tunga þess lands sem keppnin er haldin í sé útilokuð.

  • Stefán Benediktsson

    Af hverju þegir Arkitektafélagið?

    • Hilmar Þór

      Arkitektafélagið hefur ekki sagt neitt undanfarin 10-15 ár. Því miður.

  • Finnst þetta hið besta mál og í raun ættu bara flest allar opnar samkeppnir að vera á ensku. Ekkert vit í því að vera með opnar samkeppnir og hafa gögn og skil á íslensku, en hugsanlega leyfa einhverjum að skila inn á ensku. Það mismunar keppendum og kemur hugmyndum/skoðunum inn í koll dómnefnda.

    Enska er alþjóðlegt tungumál sem flestir kunna ágæt skil á og opnar því möguleikana fyrir sem flesta að taka þátt og leðir aftur að því að við fáum fjölbreyttari tillögur inn í samkeppnir á íslandi. ( veitir kannski ekki af )

    Nema auðvitað að menn séu hræddir við erlenda samkeppni.

  • Góð grein hjá Hilmari. Kjarninn virðist fyrst og fremst sá, að mótmæla því að tungumál samkeppninnar um hönnun bænahúss múslima sé enska og íslenskan fái þar ekki að njóta sín. Sjálfsagt að amast við því en það er fyrir mörgum ekki kjarni málsins. Í því sambandi koma athyglisverðar athugasemdir fram hjá Hilmari svo sem: „Að fjölmenningin ætli ekki að aðlagast þeirri íslensku heldur breyta henni“. „Að íslensk yfirvöld eigi að hafna með öllu mögulegri fjármögnun frá Saudi Arabíu“. Og bætir svo við: „Íslenskir arkitektar fagna þessari staðsetningu og ekkert er að óttast“.
    Fyrsta staðhæfingin á við rök að styðjast og byggir á reynslu ekki aðeins hér á landi heldur einnig í nágrannalöndunum þar sem vandamál samfara fjölmenningunni hrannast upp. Fjármögnun þegin frá landi sem fótumtreður mannréttindi og beitir refsingum í miðaldastíl kemur ekki til greina og mætti borgarstjórinn í Reykjavík svona einu sinni taka af skarið í stað þess að setja málið í nefnd. Síðastu staðhæfinguna má draga í efa, þá að arkitektar almennt fagni staðsetningunni. Ef það er reyndin er það fjarri vilja almennings sem hefur komið berlega í ljós í skoðanakönnunum síðustu dagana (Bylgjan þátttaka 5000). 85% vilja ekki sjá mosku á þessum áberandi stað í borgarlandinu. Jafnframt kom fram í þeirri skoðanakönnun, að áþekkur fjöldi er andvígur því, að trúfélög fái afhentar ókeypis lóðir. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík vill í orði kveðnu standa fyrir opinni stjórnsýslu og lýðræðisvæðingu og hefur stofnað apparat til þess að fylgja eftir þeim skrautfjöðrum.
    Hvernig væri nú að fylgja þeim fyrirheitum eftir og leita til borgarbúa og kanna afstöðu þeirra til þessa máls og þarf ekki að vera flókið í framkvæmd t.d. með rafrænum hætti og einfaldri spurningu:“Viltu að borgaryfirvöld heimili byggingu mosku í Safamýrinni“?
    Borgarstjórinn og meirihlutinn fengju rós í hnappagatið fyrir að standa við fyrirheitin. Og minnihlutinn kæmi sjálfsagt fagnandi fram úr híði sínu en hefur um skeið verið næsta ósýnilegur í þessu máli sem öðrum og vekur þá helst athygli hvað framsóknarkonurnar skeleggu eru hljóðar þessa dagana.

  • Haukur Kristinsson

    Enska er alþjóðlegt tungumál. Það ætti ekki að þurfa að minna á það. Dæmi; fyrir tugum ára hófu Þjóðverjar enska útgáfu á hinu fræga tímariti „Angewandte Chemie“.

  • Sævar Einarsson

    Þetta er áhugavert mjög svo ekki sé meira sagt. Jújú vissulega kunna flestir Íslendingar (amk mjög margir) ensku en að það sé skylda að hafa það á einu ríkistungumáli er skrítið. Enska er ekki alþjóðlegt tungumál frekar en Íslenska, franska, þýska, spænska og svo framvegis.

  • Erlingur

    Frábær grein og frábær málflutningur

    Manni dettur í hug ljóð Lennons:

    „Imagine there’s no countries
    It isn’t hard to do
    Nothing to kill or die for
    And no religion too
    Imagine all the people
    Living life in peace…“

    Og endilega hættið við þessa moskubyggingu sem er enn meiri tímaskekkja en nokkur kristin kirkja og hleypið muslimunum inn í kirkjurnar okkar og reynum svo að flétta trúarbrögðin saman.

  • Haukur Kristinsson

    Er ekki nóg af Guðshúsum á klakanum? Standa tóm allt árið um kring.
    Bara spurning sko.

  • Hólmfríður Þórisdóttir

    Ríkisjóður Íslands hefur samkeppnisgögn á ensku!! En múslimar mega það ekki?
    Ríkisjóður er eigandi Isavia og Isavia stóð fyrir samkeppni um verslunarpláss á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári
    Samkeppnisgögn voru á ensku og umsókn átti að skila á ensku

    • Mega múslimar ekki hafa samkeppnisgögn á ensku? Jújú, þeir mega það gjarnan. Athugasemd síðuhaldara snýr að banninu sem íslenskan þarf að sæta; að ensku sé krafist en íslenska bönnuð.

      Þú hefur alveg misskilið málið sem ekki má nota. Það er íslenskan.

  • Þegar bent er á að kristnum mönnum leyfist ekki að reisa kirkjur í Saudi Arabíu og því ætti Saudi Aröbum ekki að leyfast að reisa mosku hérlendis
    er því andmælt á þá leið að óþarfi sé að taka upp þröngsýni þeirra í frjálsu landi enda sé hún ekki til fyrirmyndar.

    Skrýtin mótbára.

    Auðvitað er þröngsýni þeirra ekki til fyrirmyndar.

    En ég ætlast til að maður sem ég á samskipti við sé sjálfum sér samkvæmur; að hann skipti ekki um karakter þegar hann skreppur á milli landa, hafi eina afstöðu til grundvallarprinsipa á einum stað en svo allt aðra afstöðu til sömu prinsipa á öðrum stað, svona eftir því hvar flugvélin lendir.

    Slíkt kamelljón geri ég ekki samninga við.

    • Svavar K

      Ætlarðu að setja alla múslima undir hatt Saudi Araba Páll? Það er ansi mikil alhæfing og næstum eins og að setja alla kristna menn undir hatt Páfagarðs og þeirra viðhorfa.

      Þegar fólk segir: „Fyrst það má ekki vera kirkja í Saudi Arabíu, þá skulum við ekki leyfa moskur á Íslandi.“ þá er það í grundvallaratriðum að segja: „Við, sem kristið land, skulum setja okkur siðferðisviðmið eftir því landi sem er öfgafyllst og verst í hinum múslimska hluta heimsins.“ Það er glatað.
      Af hverju ekki að líta frekar til Tyrklands, Oman, Malaysíu, Indónesíu, Jórdaníu eða Pakistan? Af hverju að líta til Saudi Arabíu?

    • Hvað hluta af ,,ég ætlast til að maður sem ég á samskipti við sé sjálfum sér samkvæmur“ áttu erfiðast með að skilja, Svavar?

    • „En ég ætlast til að maður sem ég á samskipti við sé sjálfum sér samkvæmur;“

      Er þetta ekki grín? Múslimar eru 1.6 milljaðar, eiga þeir allir að hafa sömu skoðun? Þetta er líklega eitt heimskulegasta inlegg sem ég hef séð á netinu í langann tíma.

    • Og kalli sig ekki ýmist Svavar eða Jón eftir hentugleikum.

    • Þú ert nú meiri fíflið, Páll. Átt engin svör við gagnrýni í bullinu í þér nema einhverja svona útúrsnúninga. Ég er ekki Svavar.

    • Well, eins og þeir segja í Búlgaríu, thanks for proving my point.

  • Haukur Kristinsson

    Í áraraðir hafa íslensk fyrirtæki og einnig ríkisstofnanir, m.a. Háskólinn gert þá kröfu að tilboð séu gerð á ensku, en ekki á íslensku.

    Allt í einu er þetta orðið „issue“.

  • Gaman væri að vita af hverju islenskar samkeppnisreglur eru á ensku? Hér skýtur skökku við. Er það hagsmunamál íslenskra arkitekta að þýða þessar reglur á ensku?
    Ég spyr Hilmar vegna orða hans um staðfestu arkitekta sem hann trúir á!

  • Steinarr Kr.

    Auðvitað eru nýjar moskur ekki í takti við Hagia Sophia, enda var það hús upprunalega kirkja.

  • Einar Guðmundsson

    Það er sennilega rétt að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af útliti og umfangi byggingarinnar. En ég hef meiri áhyggjur af skorti á umburðalyndi sem einkennir muslima. Reynslan í nágrannalöndunum hræðir.

  • ,,Þýðlyndur“ er þýður í skapi og hvers manns hugljúfi,

    alls ólíkur hinum ,,þýlynda“

    sem er hvers manns fótaþurrka,

    svo fremi að hann telji sér verða vel launað,

    fjárans leiguþýið að tarna.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér ábendinguna Páll.
      Leiðrétti þetta hið snarasta.

  • Margrét

    Það gengur ekki að féð komi frá Sudi Arabíu.

    Arkitektar geta ekki tekið við fé frá slíku mannvonsku samfélagi sem svífst enskis í einhliða áróðri fyrir islam og bannar önnur trúarbrögð.

    Stiðjum Félag muslima til sjálfshjálpar en látum þá ekki fótum troða íslenska menningu.

    Og frekjan varðandi tungumálið er taladi dæmi um hvað við má búast.

    Arkitektar þurfa að sýna manndóm og styðja íslenska menningu.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Góðir punktar, Hilmar Þór. Það skýtur vissulega skökku við að íslenskunni skuli vera beinlínis úthýst í samkeppninni – að minnsta kosti finnst okkur, sem enn mælum á íslenska tungu, það vera svo. Samt er því svo varið að íslenskan mun vera horfin, týnd og tröllum gefin, eftir svo sem eina kynslóð. Ef vel lætur, mun hún verða kennd við hlið latínu og forngrísku við háskólann sem forn menningartunga, tungan sem Njála, Egla og Laxdæla voru skráðar á, líkt og kviður Hómers á grísku. Við verðum að sætta okkur við þessa tilhugsun því með sama áframhaldi er þessi þróun óhjákvæmileg. Raunar, og það er svo kapítuli út af fyrir sig, sýna skilyrðin sem sett eru eru um tungumálið í samkeppninni, að hluti innflytjanda ( nýbúa ) lætur sér í léttu rúmi liggja allan fagurgalann um „aðlögun“ að íslensku samfélagi. Hvort slík afstaða eigi rétt á sér eður ei., skal hér ósagt látið. Sennilega er þetta fólk einfaldlega framsýnna en við ?

    • Hilmar Þór

      Sennilega er þetta rétt hjá þér Orri Ólafur. Íslensk tunga mun deyja.

      Við munum líka deyja.

      En við gerum það sem við getum til þess að lifa sem lengst ob halda heilsu. Þannig eigum við líka að hugsa um íslenska tungu.

  • Ingibjörg Guðmundsdóttir

    Þetta er rétt að byrja. Ef menn vilja ekki viðurkenna íslensku sem aðalmál geta þeir bara farið annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn