Föstudagur 30.10.2009 - 12:15 - 17 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur

 

Framtíð Reykjavíkurflugvallar þarf að ákveða með formlegum hætti með löngum fyrirvara. Það þarf að ákveða hvort hann eigi að vera eða hvort hann eigi að fara.

 

Skipulagsákvarðanir í Vatnsmýrinni eiga að taka mið af niðurstöðunni.

 

Nú hefur maður það á tilfinningunni að verið sé að bola flugvellinum í burtu. Það er að segja, teknar eru smábútaákvarðanir með þeim afleiðingum að flugvellinum verður ekki vært í Vatnsmýrinni og hann verði að fara.

 

Maður óttast að ákvörðun um framtíð Vatnsmýrarinnar verði ekki tekin formlega heldur að atburðarásin taki völdin og boli honum í burtu.

 

Svona ákvaðanaferli er ekki skipulag heldur andstæðan, skipulagsleysi.

 

Undanfarin nokkur ár hafa verið teknar stórar ákvarðanir sem varða Vatnsmýrina sem allar eru því marki brenndar að heildarmynd og framtíðarsýn vantar.

 

Nægir þar að nefna flutning Hringbrautar, byggingu göngubrúa sem enginn veit hvert liggja, byggingu megastórrar bensínstöðvar við enda flugbrautar, skipulag Valssvæðisins, óskiljanlega byggingu Háskólans í Reykjavík án ásættanlegrar tengingar við borgarkerfið, byggingu grunnskóla við enda flugbrautar, lagningu vegar sem tengist Hringbraut og væntanlega Kringlumýrarbraut?, byggingu samgöngumiðstöðvar, lagningu sparkvalla við enda flugbrautar o.fl.

 

Allt þetta hefur gerst án þess að menn hafi náð endanlegri niðurstöðu um framtíð flugvallarins.

 

Hvert skyldu stjórnvöld vera að horfa?

Gríðarleg fjárfesing í samgöngumannvirki án þess að skipulag liggi fyrir á hægri hönd. Hvert er fólkið sem notar göngubrýrnar að fara?  Og hvaðan er það að koma? Hver er forsendan fyrir staðsetningu þeirra?

Skástrikuðu svæðin sýna framkvæmdasvæði á jöðrum Vatsmýrarinnar undanfarin misseri. Kortið er fengið úr símaskránni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Hilmar þór

    test

  • Jóhann Páll Símonarson

    Flugvöllurinn er í eigu þjóðarinnar, og af hverju má ekki fljúga yfir Reykjavík eins og aðrar borgir. Fyrir utan atvinnutækifæri sem skapast. Yfir 14,000 þúsund farþegar flugu með Flugfélagi Íslands á síðasta ári fyrir utan allt annað.

    Tek undir með Jóhannesi Árnasyni að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað ekki spurning.

    Jóhann Páll Símonarson.

  • Jóhannes Árnason

    Flugvöllinn kyrrrrrt….útrætt mál

  • Árni Ólafsson

    Ég get ekki annað en verið sammála fyrstu athugasemdinni við pistilinn. Reykjavíkurborg hefur hvergi tekist að byggja “fjölbreytta, þétta, blandaða og lifandi borgarbyggð” undanfarna áratugi. Flugvallarsvæðið felur í sér mikla möguleika til þess að styðja við og stækka gamla miðbæinn í Reykjavík en fyrst þurfa að verða veigamiklar breytingar á viðhorfum skipulagsyfirvalda til borgarmyndarinnar svo og aðrar endurbætur á borgarbyggðinni. Ég vil sjá áþreifanleg dæmi um slíkt áður en við ráðumst í handahófskennda ústkúfun innanlandsflugsins frá höfuðborginni, m.a. með kostulegum búasaum eins og Hilmar bendir á (afsakið – en yfirleitt er búasaumur mjög fallegur og áhugaverður – óheppilegt að nota orðið í þessu samhengi).

    1 Hringbrautin er úthverfaskipulag. Þegar ekið er eftir Miklubraut vestur úr Hlíðunum lendir maður allt í einu út út borgarumhverfinu, svífur um enskismannsland og hafnar aftur inni í borginni við Háskólann.

    2 Hvernig klappar maður ketti? Með hárunum. Hvernig á skipuleggja Reykjavík? Í samræmi við það hvernig hún hefur vaxið sjálfsprottin hvað sem öllu skipulagi líður. Miðbæjarstarfsemi borgarinnar hefur vaxið eftir austur-vestur ás frá Kvosinni upp fyrir Keldnaholt. Endurbætur, endurbygging og endurnýjun byggðar á þessum ás með þéttri blandaðri byggð, nokkrum áherslupunktum (miðkjörnum) og línulegum almenningssamgöngum myndi skapa miðbæjarumhverfi í grennd við sem næst öll úthverfi borgarinnar og bæta þar með stöðu þeirra og búsetuumhverfi íbúa allra borgarhluta. Ef draumarnir um betra borgarlíf ættu bara að rætast í Vatnsmýrinni myndu allir aðrir Reykvíkingar sitja áfram í sömu (bíla-)súpunni. Vatnsmýrin er ekki lausnin – þótt auðvitað sé auðvelt að sjá ýmislegt fyrir sér þar. Hið erfiða og ögrandi viðfangsefni er að lagfæra allan austurhluta borgarinnar, endurnýta einskismannsland, enduhæfa þegar byggð athafna- og iðnaðarsvæði og breyta borginni í samfelldan lifandi borgarvef. Þegar það hefur tekist skulum við pæla í Vatnsmýrinni – ekki fyrr.

    3 Góðar samgöngur við þungamiðju verslunar, þjónustu og stjórnsýslu landsins eru mikilvægar höfuðborg. Ef samband höfuðborgarinnar við landsbyggðina verður stirt og langsótt er viðbúið að eitthvað alvarlegt gerist – t.d. verulegur afturkippur úti á landi og flótti til borgarinnar (enn á ný innrás sveitavargsins) – eða upp komi krafa um flutning stjórnsýslumiðjunnnar. Ef innanlandsflugið verður flutt til Keflavíkur er rökrétt að láta stjórnsýslu ríkis og helstu stofnanir fylgja. Alþingi á Beisnum! Þjóðleikhúsið í Andrews Theater o.s.frv. Ráðuneyti og helstu stofnanir stjórnsýslu og heilbrigðismála yrðu í ríki Árna Sigfússonar. Hins vegar er hugmyndin um Skerjafjarðarflugvöll stórsnjöll – þ.e.a.s. ef hún er raunhæf af flugtæknilegum ástæðum. Umhverfisáhrifin eru talsverð – flugvöllurinn myndi sjást og innan hans í Skerjafirðinum fengist draumaland siglingamanna. Smámál miðað við Kárahnjúka en Reykjavík yrði áfram höfuðborg.

  • Hilmar Þór

    Stefán og Anna R.

    Sumarhúsið á myndinni er á suðvesturhorni landsins. Það er yfir 30 ára gamalt og byggt í frítíma eigandanna af þeim sjálfum. Form hússins og gerð tekur mið af umhvefinu. Sólinni, ríkjandi vindáttum, landslaginu og útsýni. Húsið liggur í lítilli kvos eða hvilft. Þakhallinn kallast á við landslagið. Litirnir eru í samræmi við dökkann börk birkisins.

    Gert var ráð fyrir að gras yrði á þakinu til þess að það samlagist landinu betur og tæki breytingum eftir árstíðum. Arkitektinn er sá sem þetta skrifar.

    Annars breyti ég myndinn í hausnum u.þ.b. í annarri hverri viku.

  • Þetta hús í hausnum minnir mig á (tiltölulega nýbyggðan) sumarbústað Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, við Þingvallavatn.

    En hef grun um að það sé ekki rétt svo ég bíð spennt eftir svarinu.

  • Stefán Benediktsson

    Hjartanlega sammála Hilmar og enn dregst það en við fáum ekki Aðalskipulag 2010. Hvaða hús er þetta sem sést í „hausnum“ á síðunni þinni?

  • Hilmar Þór

    Það er rétt hjá Stefáni Benediktssyni að það er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi að flugvöllurinn fari.

    En það er ekki ákveðið.

    Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari að uppfylltum ýmsum fyrirvörum. Þetta er einmitt dæmi um lélegt aðalskipulag. Ef aðalskipulag er n.k. stjórnarskrá þá á það að vera skýrt eins og stjórnarskráin.

    Ekki gefa undir fótinn um eitthvað sem ekki er ákveðið.

    Þessvegna eiga kjörnir fulltrúar að viðurkenna að ekki er samstaða um flugvallamálið vegna þess að þar er ekki komin lausn.

    Svo á að haga sér samkvæmt því.

    Nú láta menn eins og hann sé á förum án þess að ákvörðunin hafi verið tekin með formlegum hætti.

  • @Hilmar Þór: ,,Hvert skyldu stjórnvöld vera að horfa?“

    Þau eru náttúrulega ekki að horfa neitt frekar en fyrri daginn og sjá ekki frá einni hundaþúfunni til annarrar.

    Þess vegna munum við búa við klambur, bútasaum og klastur hér eftir sem hingað til.

  • Stefán Benediktsson

    Samkeppnin um Vatnsmýrina byggðist á þeirri staðreynd að gert hefur verið ráð fyrir því í aðalskipulagi Reykjavíkur að flugvöllurinn fari. „Aðalskipulag er n.k. stjórnarskrá“ (Júlíus Vífill Ingvarsson, form. Skipulagsráðs). Úrlausnirnar gerðu mönnum kleyft að meta hvernig hægt er að nýta svæðið. Verðlaunatillagan hefur ekki verið samþykkt sem ramma eða deiliskipulag því mönnum finnst verða að ákveða hvert flugvöllurinn fer áður en deiliskipulag Vatnsmýrarinnar er ákveðið. Örlög Vatnsmýrarinnar eru þó löngu ráðin. Mikilvægi vallarins fyrir innanlandsflug réðst af mikilvægi hans fyrir dreifðar byggðir landsins. Viðkomustöðum í innanlandsflugi, úti á landi hefur fækkað jafnt og þétt undanfarna áratugi og bara spurning hvenær Vatnsmýrin verður aflögð sem viðkomustaður

  • Það er ekki fyrir venjulegt fólk að skilja þetta undirliggjandi reiptog pólitíkusa í samb. við Vatnsmýrarsvæðið. Og þessi bútasaumsbragur sem nú er kominn á skipulag svæðisins gerir það að verkum að manni er illmögulegt að taka afstöðu til einstakra framkvæmda. Vegna þess að það virðist ekki vera nein heildarhugsun eða sýn í gangi.

    Aðallega virðist manni málið snúast um það að landsmálapólitíkusarnir –hvar í flokki sem þeir standa — spyrna við klaufum og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni. Af þægð, eða réttara sagt ótta, við landsbyggðina (aðallega Vestmannaeyjar, Vestfirðina, Norðausturhornið og e.t.v. Austfirði — aðrir landshlutar reiða sig ekki á flugsamgöngur og hafa ekki einu sinni yfir nothæfum flugvöllum að ráða).

    Borgarmálapólitíkusar virðast almennt vera á þeirri línu að flugvöllurinn eigi að fara svo það sé hægt að endurheimta Vatnsmýrarsvæðið, skipuleggja það og byggja það upp. Hvar í flokki sem þeir standa. Þetta er ekki flokkspólitískt mál; þetta er kynslóðamál. Meðalaldur borgarliðsins er snöggtum lægri en t.d. meðalaldur Alþingismanna.

    Og hverjir hafa síðasta orðið?

    Auðvitað eru það flokkarnir eða formenn þeirra, landsmálapólitíkusarnir; þeir sem sjá sér þann realpólitíska leik á borði að vægja fyrir dreifbýlinu hér um slóðir til að geta þjarmað því betur að því heima í héraði.

    Mér finnst málið standa þannig núna að stjórnmálaflokkarnir — og þessi verðmætu dreifbýlissérhagsmunaelement innan þeirra — séu búnir að taka þann pól í hæðina að láta sig ekki fyrr en í fulla hnefana; þeir ætla að halda í flugvöllinn með góðu eða illu næstu 10 eða 20 árin eða enn lengur og láta bola sér smám saman út með afli fremur en að vera til viðtals um hlutina.

    Þetta verður Reykvíkingum auðvitað mjög dýrkeypt.

    Meðal annars vegna þess að þessi framgangur mála útilokar að hægt sé að skipuleggja Vatnsmýrarsvæðið á vitrænan hátt.

    En það hefur löngum sýnt sig að sveitarstjórnarmenn í dreifbýlinu, margir hverjir, líta á Reykvíkinga sem einhverskonar afætur. Ef ekki gengur nógu vel heima fyrir, ef þeim gengur illa að finna sveitarfélagi sínu einhverja lyftistöng, þá er alltaf ákveðin fróun i því að klekkja á Reykjavík og Reykvíkingum.

  • Mjög athyglisverð umfjöllun og sláandi myndir, einkum kortið af flugvallarsvæðinu, sem virkilega vekur til umhugsunar um hvað eiginlega vaki fyrir skipulagsyfirvöldum.
    Mér finnst innanlandsflugið eigi að fara til Keflavíkur og byggja háhraðalestarkerfi eins og t.d. milli Gardermoen og Oslóar. Skipuleggja síðan allt svæðið sem heild, með blandaðri byggð lágreistra íbúðarhúsa (ein/tvíbýli og fjölbýli í bland), saman við smærra atvinnuhúsnæði. Sjarminn í erlendum borgum er einmitt smáverslanir og smáverkstæði + veitingahús í bland við íbúðarhúsnæði. Svo þarf að varðveita Öskjuhlíðina sem lunga borgarinnar.

  • Garðar Garðarsson

    Takk fyrir myndirnar. Þær staðfesta hversu stórt svæði flugvöllurinn tekur í hjarta Reykjavíkur.
    Nú þarf að fara að skipulegga hann burt og taka mark á lýðræðislegri kosningu. Skipuleggjum blandaða byggð og burtu með stystu hraðbraut í heimi og leggjum Hringbrautina að hluta í stokk.

  • Það eru þrír valkostir í stöðunni.
    a) Óbreytt staðsetning – borgin vex í norður.
    b) Uppfylling í skerjarfirði – borgin vex miðlægt og landsbyggðarfólk ánægt. Einnig hægt að ímynda sér veg frá Álftanesi á flugvöllin
    c)Til Keflavíkur og lest í bæin – borgin vex miðlægt en lestarstöðvar í Hfj, Gbæ, kpi og rvk – rvk vex miðlægt og þéttist.

    Að mínu mati eru bara kostir b og c fýsilegir til framtíðar litið. Persónulega er ég hrifnastur af c)

    Ef 300þús manns eyða 2þús krónum í rútu á ári það eru 6 milljarðar á ári. Með innanlandsfluginu þá er þessi upphæð orðin nálægt kannski 8 milljörðum og þetta er rekið á innlendri orku.

    En það er ekki spurning flugvöllurinn á að fara frá núverandi staðsetningu þetta er of dýrmætt byggingarland.

  • Sammála þessu sjónarmiði. Auðvitað á flugvöllurinn að fara burt. Ég vil sjá vistvænt fallegt grænt hverfi með íbúðum í bland við atvinnustarfssemi.

  • Steinarr Kr.

    Þetta er stærsta græna svæðið í Reykjavík. Er það ekki einhvers virði?

  • Ég hef alltaf verið á móti flutningi flugvallarins úr Vatnsmýrinni eingöngu vegna þess að ég er svo hrædd við það sem kemur í staðinn. Treysti borginni engan veginn til að skipuleggja þetta svo sómi sé að.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn