Miðvikudagur 30.03.2011 - 08:23 - 10 ummæli

Shared Street-Vistgata

Fyrir nokkrum misserum kom upp sú hugmynd að gera eina af  meiriháttar götum Lundúna að shared street, sem kallað hefur verið “samrými” á íslensku, eða vistgata. Samrými er gata þar sem akandi og gangandi hafa sama rétt.

Gatan er Exhibition Street sem liggur frá Hyde Park til suðurs að götunni í Knightsbridge sem margir þekkja og Harrods stendur við. Tilgangurinn var að skapa vinalegt og aðlaðandi umhverfi í nágrenni safna, verslunnar og þjónustu. Ég var hissa á þessari stórtæku hugmynd eftir að hafa gengið götuna margsinnis og upplifað hana eins og  mikilvægaog ómissandi æð í umferðakerfinu.

Ég hef fylgst með umræðunni um Exhibition Street undanfarið og gerði mér erindi til að skoða götuna fyrir 10 dögum. Mér til nokkurra vonbrigða var ekki búið að ljúka framkvæmdum en þær eru þó það langt komnar að hægt er að átta sig á útkomunni. Hún lofar góðu.

Þessi breyting á götunni er enn eitt skrefið í þá átt að breyta borgina þannig að hún henti fólki betur. Þarna er gatan hellulögð með munstri sem gengur yfir allt svæðið frá húsvegg til húsveggjar án þess að neinn munur sé gerður á svæði fyrir bíla annarsvegar eða gangandi hinsvegar. Samrýmisflöturinn virkar einfaldur, stór, traustur, samhangandi og fallegur.

Það verður spennandi að skoða þetta í sumar þegar verkinu er lokið.

Það má ekki blanda þesari gerð gatna saman við göngugötur. Göngugötur á borð við Strikið í Kaupmannahöfn eru alþekktar og í raun mjög gamlar. Þær er víða að finna í miðaldaborgum Evrópu og eru lokaðar og sumar hafa alltaf verið lokaðar fyrir bílaumferð. Hér er um annað að ræða, þ.e.  götur fyrir bíla og fólk í seitlandi sambúð.

Ég man eftir götum sem minna á þetta.  Ég nefni Lincoln Rd í Miami  og 3rd Street í Santa Monica LA sem byrjuðu sem e.k. shared street fyrir áratugum en hafa þróast í hreinar göngugötur.

Á Íslandi eru mörg tækifæri til þess að koma upp góðum og aðlaðandi shared streets. Þetta má gera í flestum þéttbýliskjörnum á landinu og einnig í flestum hverfum Reykjavíkur og nágrannasveitafélaga. Ég spái því að vistgötur verði almennar fljótlega eftir að fólk og fulltrúar þeirra í stjórnmálum áttar sig á þeim tækifærum sem felst  í hugmyndinni og því að staðsetja þjónustu skynsamlega. Tilviljunarkennd staðsetning þjónustu er einmitt ein af afleiðingum einkabílavæðingarinnar.

Efst í færslunni er loftmynd þar sem munstur  á „gólfi“  Exhibition Street  hefur verið fært inn í ljósmyndina, síðan kemur teikning frá hönnunarskeiðinu og loks tvær ljósmyndir teknar í síðustu viku.

Það má bæta því við að leigureiðhjólum fjölgar ört í London um þessar mundir. þarna er á ferðinni sama þróun og í París og Kaupmannahöfn. Fólk er orðið þreytt á einkabílnum í borgunum.

Á tölvumyndum og teikningum er munstrið í götunni stórkallalegt og minnir ekki á þann fíngerða krossasaum gangstéttarhellna sem algengastur er þegar arkitektar hanna göngugötur. Hér er  stórgert munstur á ferðinni sem tengir húin við götuna saman írjúfanlegum böndum.  Á ljósmyndunum að neðan sést að tölvumyndirnar og teikningar arkitektanna er í góðu samræmi við veruleikannn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar Þór

    Aðeins að prófa

  • Hilmargunn

    Þetta er mjög áhugaverð færsla hjá þér nafni og hugmyndin á bak við útfærsluna er spennandi. Hún vísar til samvinnu og samyrkju innan náttúrunnar (symbiosis).

    Ég er lítill aðdáandi af London og þekki því ekki vel til staðhátta, en það hefði verið gaman að sjá einhverskonar díagram af því hvernig gatan er hugsuð í starfrænu tilliti og þá ekki síður inn í heildar samhenginu.
    Mér finnst líka áhugaverð pælingin um hvernig blinda fólkið ferðast um rýmið og hvaða áhrif litir og form hafa á upplifun þess. Það vekur líka upp spurningar um hvaða hljómgrunn minnihluta hópar fá í skipulagi borga og bygginga. Mér skilst að Norðmenn hafi nýlega breytt byggingarlögum sínum með auknu tilliti til aðgangs fyrir alla. Sá háttur hefur verið á, að í fjölbýlishúsum hefur eingöngu verið gert ráð fyrir íbúðum fyrir fatlaða einstaklinga á jarðhæðum. Mér skilst að nú geti fatlaðir valið sér íbúð á hvaða hæð sem er. Ég þori þó ekki að fullyrða um þessa útfærslu í byggingarlögunum þeirra, en norskur arkitekt tjáði mér þetta.

    Niðurstaðan er aukinn byggingarkostnaður en aukin lífsgæði og frelsi þessara einstaklinga. Er þetta ekki bara jákvæð og mannúðleg þróun ?

  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hinn virti fræðimaður og arkitekt Jan Gehl halda því báðir fram og styðja með reynslusögum og rannsóknum að fasteignaverð hækkar með aðgerðum sem þessum. Þeir halda því líka fram að smávöruverslun dafni í vistgötum. Þetta er í samræmi við það sem kom fram í pistli um Boadway á þessari vefsíðu fyrir skömmu. Þar var gerð tilraun sem leiddi í ljós meiri ánægju vegfarenda og meiri veltu atvinnurekenda á svæðinu.

    Ergó: þetta er myljandi bissniss og bretarnir vita það. Slæmt var að missa Sigmund Davíð úr skipulagsráði.

  • Þórsgata hér í borg er oft nefnd sem dæmi um vistgötu (t.d. í ökunámi mínu á sínum tíma) , mér finnst sú gata ekkert skilja eftir sig nema sikk-sakk leiðindi og þrengsli bíla þegar maður keyrir þar um, fyrir gangandi breytir gatan engu, þeir ganga beint eftir gangstéttinni eins og annars staðar.

  • stefán benediktsson

    Mér finnst orðið „samrými“ nokkuð vænlegt, man hvað manni fannst orðið hönnun „lame“ fyrst þegar það kom fram.

  • Hilmar Þór

    @Gréta.
    Þetta er umhugsunarverð athugasemd hjá Grétu. Ég þekki þetta af langri reynslu af hönnun sjúkrastofnanna og hjúkrunarheimila. Munstur í gólflögn, litaskipti og þ.h. virkar illa á sjónskerta. Þeir óttast hæðarmun og annað við skil milli efna eða lita og verða óörugg. Ég veit ekki hvaða ráðstafanir, eða hvernig bretarnir hafa hugsað þetta í Exhibition Street.

  • Árni Ólafsson

    Mér finnst þetta minna á fyrstu gerð göngugatna á Norðurlöndum. Í gleði sinni yfir endurheimt göturýmisins úr klóm einkabílsins „teppalögðu” menn út í horn með stórmynstruðum hellulögnum. Göngugöturnar hafa síðan víða þróast yfir í hefðbundnara form með hliðarsvæðum og miðju sem yfirleitt hefur bæði reynst fallegra og öruggara fyrir alla vegfarendur – sérstaklega þegar bílaumfeð er síuð í gegn um þær.

  • Guðmundur

    Rakst á þessa frétt um daginn: EU to ban cars from cities by 2050. Kannski er þessi stefna í London hluti af þessari þróun.

    En Gréta bendir á góðan punkt, blindir og sjónskertir hafa einmitt gagnrýnt samrými fyrir að þau geti verið þeim hættuleg vegna óljósra marka á milli umferðar gangandi og akandi. Blindir nota gangstéttarbrúnir sér til leiðbeiningar, en þegar þær eru ekki lengur til staðar hafa þeir ekkert annað að grípa í. Kannski eru komnar lausnir fyrir þetta.

    Annars væri draumur ef borgargötur gætu aftur orðið eins líflegar og smá má hér í Barcelona í byrjun 20. aldar: http://www.youtube.com/watch?v=kJdwzY1o7k8

  • Stefán Ólafsson

    Þó það komi ekki beinlínis þessari götugerð við þá hefur mér verið sagt að í London sé ekki verið að byggja bílastæðahús þeir vilji ekki fjölga bílastæðum og að tekið sé gjald fyrir að keyra inn í borgina á einkabíl. Stórhuga og djarfhuga borgarstjórn Lundúnaborgar er óhrædd við að ganga gegn almenningsálitinu og gríðarlegri áróðurs- og auglýsingamennsku þeirra sem selja einkabíla og þjónustu fyrir þá. Þessi vistgötuhugmynd á mikla framtíð fyrir sér.

  • Það er í dag, á flestum stöðum, hugsað um aðgengi fyrir alla þegar hellumynstur fyrir torg og göngugötur eru skipulögð. Það er örlítið erfitt að átta sig á því út frá myndunum og mig langar þess vegna að forvitnast um hvort hvergi sé ‘stígur’ fyrir sjónskerta? Þetta mikill litamunur og ská línurnar eru töluvert til trafala ef hvergi eru blindramerkingar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn