Miðvikudagur 15.05.2013 - 16:04 - 21 ummæli

Skipulagsáætlanir frá fyrir 2007

IMG_7812-innf

Það leynast víða í deiliskipulagi leyfar af stórhuga hugmyndum sem vöknuðu í hinu svokallaða góðæri hér í Reykjavík. Þessar hugmyndir voru áberandi á hafnarsvæðinu og smituðust jafnvel inn í götureiti eldri hverfa Reykjavíkur.

Þessar hugmyndir stefna sumar í að verða vandamál og sumstaðar eru þær þegar orðnar að nánast óleysanlegu úrlausnarefni.

Eitt dæmi er hús sem nú hefur verið auglýst til sölu af miklum krafti, það er Mýrargata 23.

Mikilvægt er fyrir skipulagsyfirvöld að vinna með festu að því að lagfæra deiliskipulagshugmyndirnar þar sem þess er þörf áður en langt um líður og færa þær nær reykvískum veruleika og þeim staðaranda sem hér ríkir og fólk sækist eftir. 

Efst  færslunni og strax hér að neðan er mynd af húsi sem er komið í sölumeðferð og hannað er í anda liðins tíma. Ég ætla ekki að tjá mig um þessa byggingu sérstaklega en bendi á að það hefur þótt góður siður þegar hannað er inn í eldri byggð að aðlaga nýframkvæmdina að því sem fyrir er eins og frekast er unnt. Það er meira að segja fjallað um þetta í Menningarstefnu um Mannvirki sem ríki og borg stóðu að.

Það er líka annað sem skiptir máli þegar byggðar eru nýbyggingar í grónu miðborgarsamfélagi. Það er að haga hönnuninni þannig að götulíf sé sem líflegast. Það er ekki síst vegna götulífsins og nærþjónustu sem fólk sækir búsetu í borgarumhverfinu.

Algeng aðferð er að staðsetja miðbæjarstarfsemi og nærþjónustu á fyrstu tveim hæðum slíkra húsa. Það gæti verið verslanir, veitingastaðir og þjónusta á jarðhæð og hugsanlega skrifstofur og læknastofur á annarri hæð og svo íbúðir þar fyrir ofan. Meðvitað er stefnt að því að hliðra fyrir gangandi á svona stöðum og gönguleiðir gerðar aðlaðandi og spennandi með ýmsum aðgerðum. Þetta er ekki gert hér af ástæðum sem mér er ekki kunnugt.

Nánar má fræðast um framkvæmdina á þessari slóð: http://www.m26.is/

Rétt er að benda áhugasömum á að fimmtudaginn 16. mai verður haldinn kynningafundur á skipulagi í Vesturbugt Reykjavíkurhafnar. Fundurinn hefst klukkan 17 og verður í Víkinni. Nánar hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4878/8484_read-36002/

cam10000-002

 Hér að neðan er mynd af deiliskipulagi Austurhafnar. Þessar lóðir eru nú til sölu. Það blasir við þegar byggingareitirnir í deiliskipulaginu eru skoðaðir að þeir eru í allt öðrum stærðum og hlutföllum og byggingareitir nærliggjandi byggðar. Þetta þarf að endurskoða. Mikil hætta er á að svona deiliskipulag laði fram byggingar sem ekki verða í takti eða tón við það sem fyrir er í Kvosinni og nálægðum byggðum samanber verðlaunatillaga um höfuðstöðvar Landsbankans sem unnin var í aðdraganda hrunsins og mynd er af hér að neðan.

673038crop

Að neðan er verðlaunatillagan um höfurstöðvar Landsbankans sem unnin var með hliðsjón af deiliskipulagi sem hönnuðurnir höfðu fyrir framan sig þegar tillagan var gerð. Þetta hús á ekki heima í miðborg Reykjavíkur að mínu mati.

Maður gæti hugsanlega fyrirgefið að svona hús yrði byggt inni við Kirkjusand eða annarsstaðar.

Skipulagsyfirvöld í borg borganna, París, úthýsti svona byggingum út úr borginni og gáfu svona stórhuga fólki tækifæri til þess að sprella við La Defence.

Sjá: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/30/paris-la-defense/

untitled

 Í lokin er hér mynd úr rammaskipulagi sem borgin lét vinna eftir hrun.  Þetta er skipulag við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þarna sér maður manneskjulegan reykvískan skala í byggingunum. Útveggir bera svip húsagerðar sem ríkt hefur í borginni um áratugaskeið með heilum veggflötum þar sem sett eru göt fyrir glugga í stað þess sem sjá má í fyrri dæmunum tveim.

Hér má fræðast betur um þetta ágæta skipulag: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/13/nytt-rammaskipulag-reykjavikurhofn/

Geirsgata-FINAL09

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Atli Guðbjörnsson

    Að mínu mati þá þurfum við Íslendingar að lyfta okkur inn í nútímann og hætta að vera svona föst í fortíðinni varðandi skipulag, byggingar og byggingarvernd. Það er algerlega nauðsynlegt jú að varðveita það sem gamalt og sögufrægt er, hús sem hefur mikla sögu á bak við sig skal varðveita þannig að sómi sé. En varðveita byggingu einungis vegna þess að hún hefur náð aldri húsafriðunarnefndar er ekki gott mál. Nú fara flest hús sunnan við Hlemm að Miklubraut „Skeggjagata, Hrefnugata og fl.“ að detta inn á skrá húsafriðunarnefndar, eigum við að varðveita þau öll þótt jafnvel ónýt séu! Þetta á við um alla borg, byggingar sem ekkert sögulegt gildi hafa verða friðaðar. Áður fyrr var skortur á timbri og í raun öllu á Íslandi, timburhús voru byggð úr bílakössum og flutningskössum, en varningur kom erlendis með skipum í stórum kössum sem var svo nýttur í húsbyggingar hér á landi. Timbur sem aldrei var ætlað í húsbyggingar, nú er tekið að varðveita ónýt bakhús sem byggð voru með þessum hætti.

    Við höfum einstakt tækifæri að gera borgina okkar meira nútímalegri og stíga skref inn í framtíðina með að reisa byggingar í miðborginni „landsbankareitnum“, slippsvæðinu sem við gætum við stolt af og kallast nútíma- og samtímahönnun. Ekki margar höfuðborgir heimsins sem hafa þetta tækifæri. Gerum upp það sem er gamalt og sögufrægt og höldum því þannig, en með nýja byggingareiti og svæði skulum við hanna byggingar sem kallast samtímhönnun, byggingar sem allir geta verið stoltir af fyrir komandi kynslóðir, samsvari sér vel inn í umhverfið varðandi fjölda hæða, en nýtískuhús samt sem áður. Við megum ekki vera að falsa tímann og söguna. Byggingarstíll nú til dags er allt öðruvísi en þær voru fyrir 100 árum. Þannig þróast borgir heimsins, þannig verður Reykjavík að þróast líka.

  • Hilmar Þór

    Þessi pistill átti frekar að fjalla um endurskoðun á deiliskipulögum frá því fyrir hrun en einstakar byggingar.

    Byggingin við Mýrargötu og Landsbankin eru dæmi sem ekki er sanngjarnt að álasa höfundum bygginganna um.

    Þetta er eins og oft áður mun frekar skipulagsvandamál sem skipulagsyfirvöld og ráðgjafar þeirra bera ábyrgð á. En skipulagsyfirvöld og ráðgjafarnir voru jafn blindir á bóluna og bankamenn, endurskoðendur og megin þorri almennings.

    Þetta var þjóðfélagsmein.

    Málið er að það þarf að endurskoða deiliskipulögin eins og annað eftir hrun. Og það þarf að gera strax.

    • Árni Ólafsson

      Byggingarnar og bæjarumhverfið eru birtingarmyndir skipulagsins. Skipulagshugmynd getur falið í sér möguleika á byggingu undirmálshúsa þar sem útlitstíska vegur þyngra en gæði íbúða og umhverfis. Húsið getur því vel verið hluti af skipulagsumræðunni – sérstaklega þegar framandi bygging er notuð til þess að hefja umræðuna. Ef skipulagshugmyndin gerir ráð fyrir húsi sem þessu (efst í grein Hilmars) hljóta að vera fyrir því rök – t.d. að þarna sé um að ræða afbragðsgóðar íbúðir í búsetuvænu umhverfi. Ef rökin hafa snúist um að hámarka íbúðafjölda án tillits til gæða og uppfylla gildandi útlitsnorm þarf það að koma fram. Húsið sem afleiðing skipulagsins ætti því að vera umfjöllunarefni.
      Þess vegna fyndist mér áhugavert að fá svör við spurningunum um eiginleika hússins, sem gert er ráð fyrir í skipulaginu, sem hér er tekið sem dæmi. Felur skipulagið í sér undirmálsíbúðir eða gæðaíbúðir – undirmálsumhverfi eða gæðaumhverfi?

    • Pétur Örn Björnsson

      Góðar spurningar Árni, en þá er stóra spurningin … af hverju svara pólitískt kjörnir fulltrúar engu, af hverju svara skipulagsyfirvöld engu?

      Og enn ein spurning: Er það eðlilegt að opinberir þiggi launin fyrir þögnina?
      Hafa þeir engar upplýsingaskyldur?

      Fyrst eftir hrun var mikið rætt um siðferði, að axla ábyrgð, að réttindum fylgdu skyldur … og ábyrgð. Mas. voru haldnir nokkrir fyrirlestrar á vegum borgarskipulags um siðferði og guð má vita hvað … mér virtist þá,
      að sakvæða skyldi alla aðra en hina opinberu (embættismenn og pólitíkusa) og mér sýnist að þannig sé það enn og allt á leiðinni í sama horfið.

      En mikið vona ég að það geri það ekki, heldur að opinberir þori að koma niður úr læstum himnaköstulum sínum og ræða málin á jafnræðisgundvelli.

    • Arnþór Tryggvason

      Mér finnst eins og ég hafi heyrt eitthvað um að deiliskipulag fyrir fyrrnefndan mýragötureit hafi verið endurskoðað. Mig minnir að húsið hafi átt að vera tveim til þremur hæðum hærra en það er auglýst núna.
      Eitt annað um þetta tiltekna hús. Sumir halda því fram að skalinn/umfangið sé of stórt fyrir þetta svæði og að húsið sé ekki samræmi við umhverfið. Hvað með húsið á móti? Hvað með Víkina/CCP?

  • Árni Ólafsson

    Í mörgum evrópskum borgum er lögð þung áhersla á þéttleika þannig að byggðin verði burðug út frá umhverfissjónarmiðum og með öflugu samgöngukerfi. Mörg nýleg dæmi eru til um nálgun sem byggist á hinu hefðbundna evrópska borgarskipulagi með skýrum bæjarrýmum og bæjarmynd, sem byggist á götum, torgum og görðum (randbyggð um reglulega byggðareiti) – og byggð í þekktum eða manneskjulegum mælikvarða þrátt fyrir stærð og þéttleika. Einnig eru til dæmi þar sem þéttleikaáherslan hefur neikvæð áhrif og verður til þess að gæði íbúðanna verða minni; s.s. einhliða íbúðir (sbr. Stjörnubíóblokkina) og dimmir inngarðar. Þarna er meðalhófið væntanlega best.
    Fróðlegt væri að fá að vita meira um þetta tiltekna hús, sem hér er tekið sem dæmi.
    Eru íbúðirnar einhliða?
    Er inngarður/ljósgarður i miðjunni?
    Er hann þá nothæfur sem útivistar- og leiksvæði?
    Hvers vegna er húsið í þessum mælikvarða, þ.e. engin tilraun gerð til þess að hafa sama takt í því og í umhverfinu?
    Eiga einsleitar stórbyggingar, e.k. mónólítar, heima í þessu umhverfi – hversu vel sem þær kunna að vera gerðar?
    Það er væntanlega lífsspursmál fyrir borgina að auka þéttleika á þann hátt að öflugar almenningissamgöngur verði raunhæfar. Þýðir það ekki fyrst og fremst þéttingu í hinum gisnu hlutum borgarinnar og á þeim einskismannslöndum, sem búta borgina niður í sundurlausar smábyggðir?
    Hvers vegna beinast flestar þéttingarpælingar að þéttustu hlutum borgarinnar?

    • Hilmar Þór

      „Hvers vegna beinast flestar þéttingarpælingar að þéttustu hlutum borgarinnar?“ spyr Árni Ólafsson.

      Þetta er mikilvæg spurning sem verður að fara að svara. Einkum vegna þess að með aukinni þéttingu dreifðustu hverfanna er von til þess að nærþjónusta aukist og bifreiðaumferð minnki.

      Hér er fjallað um hverfishluta 107 það sem þéttingartillögur einkenna nálgunina .Þarna er fjölgað um nokkur hndruð íbúðir auk þess að þjónustuhúsum er komið fyrir innan byggðarinnar.:

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

  • Magnús Birgisson

    Ég skil ekki þetta væl hérna eða þá tilhneygingu að kenna verktökum, bankamönnum eða ártali um þetta dæmi….

    Þetta er bara skilgetið afkvæmi af stefnu borgaryfirvalda um að byggja þétt og hátt í 101 og 107 og koma sem flestum fyrir á sem minnstu svæði vegna þess að allir nýir Reykvíkingar eiga að búa akkúrat þarna…

    Og þessar hugmyndir hafa nú hingað til notið velvilja og skilnings á þessum vettvangi!…geta menn ekki horfst í augu við afleiðingarnar?

    Kannist þið ekki við Lýsisreitinn og athugasemdir íbúa þar? Eða Hampiðjureitinn og áhyggjur íbúa þar? Eða Einholt/Þverholt og skoðanir íbúa þar í kring?

    En á Mýrargötunni getur ungt fólk með lítið á milli handanna fest sér 2 herbergja íbúð fyrir skitnar 30 milljónir sem er svipuð upphæð eins og 4 herbergja íbúð er að kosta í úthverfi. Hvernig getur þetta öðruvísi verið?…þetta er dýrasta byggingarland borgarinnar…og þessvegna eru þarna dýrustu nýbyggingar borgarinnar!! Þetta er bara forsmekkurinn af því sem íbúð í Vatnsmýrinni mun kosta…

  • Guðmundur Guðmundsson

    Deija Vú……007

  • Eiríkur Ormsson

    Skipulagsmál eru engin undantekning hvað endurskoðun á íslensku samfélagi varðar. Skýjaborgir bankamanna og endurskoðenda var líka að finna hjá skipulagsfólki…og ekki síður. Ekki þarf að líta lengra en til Höfðatorgs og Landspítala til að sannfærast um það.
    Fín grein… greinin kemur bara fjórum árum of seint.

    • Rét.
      Það átti að skipta út öllu fólki í stjórnkerfinu sérstaklega í bönkunum, öllum stjórnmálamönnum á Alþingi, loka endurskoðunarskrifstofunum g setja neyðarlög á skipulagsmál og kvótamál eins og gert var varðandi banka og peningamál.

  • Pétur Örn Björnsson

    eú … í fyrstu málsgrein átti vitaskuld að vera … séu 🙂

  • Torfi Hjartarson

    Það er ekkert að því að vera stórhuga. Arkitektar þurfa bara að gjöra svo vel og teikna fallegri hús eins og þeim hefur oft tekist frábærlega upp með. Guð forði okkur frá því að miða framtíðaruppbyggingu í miðbænum við 100 ára gamlan rómantískan samtíning eða stælingu af honum.

    • Pétur Örn Björnsson

      Torfi, ég get alveg tekið undir það með þér að það er ekkert að því að vera stórhuga og það er ekkert eftirsóknarvert að hús eú samtíningur eða stæling á eldri húsum.

      En … þetta hefur ekkert með það að gera hvort þessi hús sem Hilmar vísar til séu fallega teiknuð hús eða ekki.

      Þetta hefur með skipulag að gera, massa og hlutföll og samhengi við aðliggjandi hús að gera. Hvað það varðar, vantar illilega staðarandann.

    • Torfi Hjartarson

      Er ekki rétt að hönnuðir viðkomandi byggingar svari fyrir verk sín og samhengi þeirra í hverfinu? Minni hús geta líka fallið illa að umverfinu.

    • Pétur Örn Björnsson

      Jú, það væri svo sem ágætt ef þeir gerðu það, hverjir svo sem þeir eru.
      En enn og aftur minni ég þig á það Torfi að þessi pistill Hilmars fjallar um staðaranda, eða öllu frekar skort á staðaranda hvað varðar skipulag.

      Þú bendir einmitt sjálfur á vandann -sem er skipulagslegur- með því að segja „að minni hús geta líka fallið illa að umhverfinu“ … og þar með hlýtur þú einnig að staðfesta að stærri hús geta einnig fallið illa að minni húsum, aðliggjandi byggð. Um það er einmitt verið að fjalla hér og aðallega það og það er skipulagsmál.

  • Þetta hús við Mýrargötu minnir á “The Walled City” í Hong Kong. Þetta er bara minna og byggt fyrir fólk sem á aur.

    Vísa á þessa færslu:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/04/20/13-thusund-manns-a-austurvelli/

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég veit ekki hvað útskýrir þetta oflæti, þetta kúltúrleysi, þetta tillitsleysi sem kemur alltaf upp aftur og aftur … út um alla borgina eru svona nátttröll eftir stundarhyggju hvers tíma. Enginn andi, engin jarðtenging, engin tilfinning fyrir því sem er í kring, ekkert tillit tekið til heildarmyndarinnar … bara stundargræðgi og fyrirhyggjuleysi.

    Einn kvistur, ein lítil viðbygging, draumur einhvers nóboddí út í bæ… þá er farið í alla sauma hjá yfirvaldinu, frestað og gildrur lagðar … og því spyr ég:

    Af hverju virðist manni að það gildi allt aðrar reglur og allt önnur fyrirgreiðsla fyrir þá sem fara mest fram af fyrirhyggjuleysi og stundargræðgi?

    Mikið vona ég að heilbrigður staðarandi fari nú brátt að fá leika um borgina. Maður má alla vega leyfa sér að vona, að einhver jákvæð breyting verði til batnaðar … en hún verður einungis ef draugar fortíðarinnar fá ekki áfram og síendurtekið að leika lausum hala.

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    Á laugardaginn vorum við ég og 14 ára barnabarnið mitt að keyra Laugaveginn og Bankastræti. Fór að segja henni, það sem ég vissi, af sögu Bakarabrekkunnar og björgun hennar á sínum tíma. Hún átti auðvitað ekki til orð af hneykslun, þegar hún fékk að vita hver áformin voru fyrir þennan stað,og bara miðborgina yfirleitt. Og þegar ég benti henni á Moggahöllina fannst henni þessi byggingarstíll ekki tilkomumikill. Unga fólkið í dag vill ekki sjá þessa nýmóðins kumbalda.

  • Steinarr Kr.

    Hræðilegar hugmyndr, allar saman. Efsta og neðsta líta út fyrir að gera útsýni að einkaeign þerra sem hafa efni á að kaupa þarna íbúðir.

  • sammála þessu!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn