Sunnudagur 29.07.2012 - 07:05 - 8 ummæli

Hvert á að stefna? – Skipulagsmál í Reykjavík

 

 

Guðríður Adda Ragnarsdóttir hefur sent síðunni eftirfarandi texta um skipulagsmál:  Greinin er unnin uppúr grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum.

Í tilefni umræðu um niðurstöðu samkeppni um Ingólfstorg og nágrenni langar mig að rifja upp grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum í Morgunblaðið og virðist enn í fullu gildi. Þar spurði ég m.a. hver færi með sigur af hólmi þegar keppni yrði haldin um fallegustu gömlu byggðina á Íslandi?

Verður það Stykkishólmur, Flatey á Breiðafirði, Neðsti-kaupstaður á Ísafirði, Innbærinn á Akureyri, Seyðisfjörður eða Eyrarbakki? Er Hafnarfjörður búinn að glata forskoti sínu og sérkennum? Á Reykjavík ennþá möguleika á að skapa sér slíka ímynd?

Iðandi mannlíf

Heillandi borgir þróast í tímanna rás eftir lífi og starfi fólksins sem í þeim býr. Reynslan sýnir að gamlir borgarhlutar draga til sín fólk vegna þess að því líður vel í slíku umhverfi. Fólk á ferli laðar að sér fleira fólk og verslun og þjónusta dafnar. En hver er sýn stjórnenda Reykjavíkurborgar um bæjarbrag? Ef markmiðið er að sjá mannlíf á götum, kaupmenn á hornum og lítil þjónustufyrirtæki inni í hverfunum, er þá leiðin rétt sem valin var til þess? Hótel, háhýsi og bankar, hraðbrautir, himinháar girðingar fyrir flug og fótbolta, skuggasund, virkisveggir og vindgöng skapa ekki góð skilyrði fyrir iðandi mannlíf. Það gerir hins vegar vandað handverk sem birtist í fínlegum arkitektúr, hófstilltum mælikvarða, hlýlegum litum, vinalegum strætum og stígum, torgum, görðum og gróðri, ásamt góðum almenningssamgöngum.

Kynningar til almennings, nýtt verklag

Við verðum að vita hvert á að stefna. Vita hvaða markmið skulu sett til að stika stefnuna, og hvaða leiðir og verkfæri eru tæk til að ná þeim markmiðum. Hver er staðan í dag? Hvaða þættir skulu mældir? Miðar í rétta átt? Erum við föst, eða hrekjumst við af leið? Getum við rétt af kúrsinn og samhæft aðgerðir? Skiljum við hugtök, sem notuð eru, öll á sama hátt?

Þrátt fyrir að ákveðnar verkreglur gildi um kynningar til almennings vegna skipulagsbreytinga hefur oft verið bent á að borgararnir andmæli ekki framkvæmdum í tíma, jafnvel ekki fyrr en þær eru hafnar. En þótt farið sé eftir settum reglum um kynningar virðist sem þær skili sér ekki sem skyldi og nái ekki til fólks. Eða hitt, að ekki er á fólkið hlustað eins og þegar gamalli ákvörðun um færslu Hringbrautar var hrint í framkvæmd. Þetta sýnir að endurskoða þarf fyrirkomulagið á kynningunum og auðvelda og styrkja leiðir almennings að ákvarðanatökunni.

Ný heildarsýn og stefna

 

Þegar hús eða húsaraðir hér og hvar um Reykjavík eru valdar til friðunar vegna tiltekinnar sérstöðu þeirra, sögulegs- og listræns gildis, hafa menn hingað til gefið sér að allt annað megi víkja. Afleiðingin er sú að gamli bæjarhlutinn er berskjaldaður fyrir hvers konar raski, yfirgangi og vandalisma. Slíkt fyrirkomulag felur einnig í sér meginhugsun um einhvers konar söfnun eða geymslu einstaka minja sem sýnidæma. Það er sú stefna sem þarf að endurskoða. Gefum okkur aðrar forsendur. Leggjum frekar upp með að gróin hverfi borgarinnar og þá sérstaklega gamli miðbærinn, séu sjálfkrafa vernduð. Í þessu sambandi má einnig minna á nauðsyn þess að settar verði skýrar reglur um varðveislu innréttinga og tréverks. Friðun húsa og mannvirkja yrði þá í raun eins og hún er hugsuð, algjör undantekning, ef nokkurn tíma þyrfti til hennar að grípa. Sú forsenda að gamli bærinn sé verndaður kemur í veg fyrir framvinduklemmu og ágreiningsefni af því tagi sem á undan eru gengin og enn blasa við. Verkefnin hófust ekki með Laugavegi 4-6. Þar birtust afleiðingar rangra skipulagsákvarðana sem teknar voru af fyrri stjórnvöldum Reykjavíkurborgar. Og tíu hús við Laugaveg til friðunar, flutnings eða niðurrifs eru aðeins einn dropi í þá allsherjar aðför við gömlu Reykjavík sem enn er yfirvofandi.

Nær væri að snúa dæminu við. Uppbygging og mikil tækifæri sem bíða gömlu Reykjavíkur geta falist í því að flytja húsin ofan úr Árbæ og „heim“ til sín aftur. Bílastæði borgarinnar eru augntóttir þessara húsa og Minjasafn Reykjavíkur hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna við þau þar þótt í þeim búi og starfi fólk.

Við þurfum aðra stefnu og nýja sýn.

Höfundur er atferlisfræðingur og býr í Reykjavík

Efst í færslunni er mynd sem sýnir tvö hús sem standa hlið við hlið. Annað gamalt og hitt nýtt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Finnur BIrgisson

    Guðríður Adda á líka góða spretti hér (Mbl., febr. 2008):
    http://mbl.is/greinasafn/grein/1196192/?item_num=95&dags=2008-02-28

  • Þórður Óskarsson

    Ég les þennan vef reglulega og hef ekkert út á hann að setja en finnst hressandi að lesa aðsenda pistla eins og þennan. Það er ovenjulegt að fólk sem heldur úti bloggi gefi utansðkomanfi svona tækifæri, jafnvel fólki sem er ekki sömu skoðunnar og sá sem ber ábyrgð á þvi sem skrifað er af gestapennum.
    Takk Hilmar

  • Myndin sem fylgir er lýsandi og passar við greinina. 9Þarna er eitt skipulagsslys á feðinni. Skipulagið gerði arkitektastofan Hornsteinar fyrir borgina og sennilega eftir hennar forsögn en hver teiknaði húsið veit ég ekki.

  • Þorbjörn

    Þetta eru falleg, heillandi og fagleg skrif leikmanns. Meira svona.
    Stefán er góður með svör á takteinum. Guðríður skrifar af innsæiog tilfinningu

  • stefán benediktsson

    Enn og aftur á Hilmar þakkir skildar fyrir þennan málefnalega umræðuvettvang. Að efninu:
    Keppnin
    „Verður það Stykkishólmur, Flatey á Breiðafirði, Neðsti-kaupstaður á Ísafirði, Innbærinn á Akureyri, Seyðisfjörður eða Eyrarbakki? Er Hafnarfjörður búinn að glata forskoti sínu og sérkennum? Á Reykjavík ennþá möguleika á að skapa sér slíka ímynd?“.
    Þau sveitarfélög sem augljóslega hafa vinningin eiga það öll sameiginlegt að íbúum þar hefur fækkað mikið á síðustu 70 árum, á sama tíma og íbúafjöldi í Rvík tífaldaðist og tuttuguog fimmfaldaðist á Hbsv. en í Rvík vinna flestir . Þarf að segja meira
    Iðandi mannlíf.
    Það má benda á að hlufallslega (og tölulega) sækja miklu fleiri gestir Rvk heim en hin svfél. sem nefnd eru. Hversu merkilegt sem arkitektúr og skipulag eru, dragast gestir að góðu framboði af viðburðum, verslun og veitingum í borgum og bæjum og þar á Rvík vinninginn.
    Kynningar
    Hverfaskipulag mun bæta allt kynningarstarf mjög mikið og bjóða upp á stóraukin samskipti um skipulagsgerð.
    Ný stefna
    Nýtt aðalskipulag er ný stefna sem allir geta fjallað um og sagt skoðun sína á. þar ber borgaryfirvöldum endanlega að ríma saman lagaramma, vilja borgaranna og faglega stefnumörkun.

  • Faglegt eða kannski fallegt.

  • Jón Ólafsson

    Fagmannlega skrifaður pistill með miklu innsýn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn