Þriðjudagur 18.02.2014 - 08:59 - 14 ummæli

Steinar, timbur og ilmur jarðar.

 

20140214135945_00001

Hér birtist grein eftir Gunnlaug Stefán Baldursson arkitekt sem starfað hefur í Þýskalandi undanfarna áratugi.

Steinar,timbur og ilmur jarðar.

Tækniþróunin á 20.öld hefur haft í för með sér, að samband manns og náttúru hefur  smám saman slitnað. Náttúran hefur verið notuð eins og leir,  sem hnoða má eftir geðþótta, oft til hagnaðar.

Samband byggðar og náttúru er allstaðar tímabært umræðuefni, ekki síst á Íslandi, því á næstu árum  verður þróuð stefnan um það hvernig Íslendingar og gestir þeirra umgangast landið.

Íslenskt landslag kveikir á hugmyndafluginu.  En hugmyndir eru lítilsvirði,  ef innihaldið er ekki skoðað í samhengi við hefð og staðhætti í landinu og mál til komið,  að byggja með og ekki móti náttúrunni.

Með nærgætni var byggð reist í aldaraðir á Íslandi: byggingarnar voru hluti af náttúrunni,  efnisval var takmarkað: torf, steinn, timbur.  Þegar steinsteypan tók við í byrjun 20. aldar var íslensk byggingarhefð alveg útrýmd af þeim,sem þá höfðu vald og áhrif.

Fellowship og Studio Mumbai

Lífrænn arkitektúr „fléttar saman byggingar og landslag, úti og inni, í eina heild“ sagði F. L. Wrigth, einn fjölhæfasti og frumlegasti brautryðjandi byggingarlistar á 20.öld. Náttúran og staðareinkenni voru hans  inspiration, innblástur. Steinar, tréviður og önnur byggingaefni staðarins voru ekki síður innblástur. Hann stofnaði eigin skóla, Fellowship,  en hluti námsins voru pratísk störf ekki síst á byggingastöðum, þannig vann ungt fólk  bæði við teikningar og handverk.

Í dag er rekinn stofnun í svipuðum anda:  Unesco Laboratorium Workshop, nálagæt Genua. Með opinberum styrkjum frá Unesco eru nýjar leiðir í arkitektúr kannaðar og námskeið fyrir fagmenn og almenning haldin.

Sérhæfingin í dag bindur arkitekta eins og aðra fremur einhæft við tölvur.  Á Indlandi starfar fyrirtæki,sem fer óvenjulegan, en mjög athyglisverðan veg.

Studio Mumbai, stofnað 1995, vinnur  í anda Fellowship Wrights: arkitektar, trésmiðir og aðrir handiðnaðarmenn vinna saman undir einu þaki, handverk og hönnun eru í samfloti.

Fyrirkomulagið hefur m.a. þá kosti, að  handverk nýtist og stjórnun á útfærslu er auðveld.

Stefnt er að því að halda byggingahefðinni á staðnum, frumleiki er ekki aðalmarkmið. Árangurinn er  sannfærandi, af því að byggingarnar koma beint úr umhverfinu, og eru alltaf í manneskjulegum hlutföllum. Margt sem Studio Mumbai byggir er til fyrirmyndar, af því að steinar, timbur og ilmur jarðar mynda magnaða heild, dæmi: Tara House, wellness vin umhverfis innigarð, en hluti neðanjarðar.

Mest um vert er: verkin eru langt frá kuldahroka þess „fotocopy design“,sem óháð staðaranda er söluvara út um allan heim í dag.

Stofnandinn, Bijon Jain, heldur áfram verki brautryðjandans Geoffry Bawa á Sri Lanka (1919/2003).

Bawa talaði um,að allir girnast að „hlaupa á eftir nýjungum að utan og týna þannig eigin eðli“.

Hann byggði m.a. mörg hótel, sem eiga rót sína að rekja til hefðbundins arkitektúrs á staðnum.

Kandalama hótelið (opnað 1995) fékk fyrst allra gististaða heims, „green globe 21 “. Bawa var Manrique Asíu hvað túristaaðstöðu snertir og frumkvöðull í hugsun og verki. (um Manrique: Eyjan “fléttað inní landslagið“).

Studio Mumbai ,trúlega merkilegasta stofnun síðstu ára hvað „arkitektúr+hefð“ varðar , var nýlega afhent „global award for substainaible architecture“.

Leiðarljós

Hvernig má skilningur á sérkennum bygginga og umhverfis á Íslandi aukast ?

Ég tel, að tími sé kominn til að sérstök stofnun haldi utan um fortíð og framtíð bygginga á Íslandi.

Íslendingar hafa efni á  að reka dýrt tónlistarmusteri, Hörpuna, stóra bókmenntastofnun, fjölmörg listaverka og byggðasöfn. Ég spyr: Gleymdist móðir alla lista, arkitektúrinn, á Íslandi ?

Slík arkitektúrstofnun kannar leiðir og eflir þá byggingalist, sem hæfir landinu. Árangrinum má miðla áfram til almennings og yngri kynslóða, t.d. skólabarna með námskeiðum o.fl.

Stofnunin væri stoð og grundvöllur fyrir það að vel og skynsamlega sé byggt á landinu.

….

Hér er slóð að tveim pistlum Gunnlaugs um sviðað efni.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/02/04/flettad-inn-i-landslagid/

 

Efst er ljósmynd af Fellowship Frank Lloyd Wight. Neðst er svo ljósmynd frá Studio Mumbai sem fjallað er um í textanum.

Bild_00001

 

kandalama-hotel-1

013.tif

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Sigurjón B. Hafsteinsson

    Þetta eru vissulega mjög áhugaverðir pistlar hjá Gunnlaugi og dæmin sem hann rekur tala beint til okkar hér á Skerinu. Það er eitt og annað að gerast í þessum efnum, þó að margt af því fari hljóðlega amk í fjölmiðlum. Nemendur við LHÍ hafa verið að vinna að áhugaverðum verkefnum undanfarin ár sem snúa að því að koma betur fram með áherslur innan arkitektúrs í umhverfinu og orðið hvati til vitundavakningar s.s. í Reykjavík (samanber sumarverkefnin sem unnin hafa verið á ´torgum´ í Reykjavík). Fræðimenn hafa einnig lagt sitt af mörkum til samtalsins um arkitektúr milli arkitekta og annarra greina á undanförnum misserum s.s. eins og heimspekingarnir Gunnar Harðarson, Björn Þorsteinsson og fleiri. Varðandi hugmyndina að stofnun sem hefði fókus á arkitektúr þá er alveg þess virði að velta því fyrir sér hvort við höfum þær ekki nú þegar til staðar, hvort sem það er LHÍ, HÍ, listasöfnin, Þjóðminjasafnið og svo Minjastofnun Íslands (húsafriðunarnefnd), að ógleymdum fagfélögunum, en það sem kannski vantar er að fulltrúar þar innan dyra sæki í sig veðrið og virki viljann til samtals og verkefna. Mig langar svo í lokin til að vekja athygli á námskeiði sem haldið verður í sumar (aaaa-workshop.hi.is), en þar er efnt til samtals um arkitekúr í þeim anda sem Gunnlaugur er að fjalla um og snýr beint að þeirri spurningu hvaða erindi Íslendingar eiga í staðbundna og alþjóðlega umræðu um arkitektúr.

    • „þó að margt af því fari hljóðlega“

      Þarna er einmitt vandinn. Arkitektar vinna kannski hljóðlega en við hinir þurfum að búa við þeirra verk um ár og daga. Og það er ekki auðvelt fyrir þann sem ekki skilur tungumál byggingarlistarinnar. Arkitektar og akitektanemar eiga ekkert að vinna hljóðlega enda eru þeirra verk engum hulin og þau fara ekkert hljótt. Þeir eiga að gagnrýna hvorn annan og hæla hvorum öðrum. Skammast í stjórnmálamönnum og fræðasamfélaginu. Frammistaða LHÍ er afskaplega slöpp. Þaðan kemur akkúrat ekkert. Skólinn er dauður í hinni almennu umræðu. Þeir opna aldrei munninn. Skipta sér ekki af neinu sem er að gerast hvort sem það er til góðs eða ills. Það þarf að hræra upp í arkitektúrdeild LHÍ eða innlima hana í HÍ eða HR.

      Það þarf að opna umræðu um arkitektúr hér á landi og það eiga arkitektar að gera okkur hinum til fróðleiks og ekki síður til þess að við skiljum þeirra tungutak.

      Kannski er Gunnlaugur með þetta. Það þarf að koma á stofnun sem hefur það hlutverk að fanga íslenskan staðaranda því ekki gerir LHÍ það og ekki listasöfnin, þjóðminjasafnið, HÍ, Minjastofnun eða aðrar stofnanir sem Sigurjón B. Hafsteinsson nefnir.

  • Sigurður Pálsson

    Ég þakka fyrir afar upplýsandi pistil.
    Það væri áhugavert að koma á einhvers konar samtali arkitekta bæði við fólk úr öðrum listgreinum og áhugasaman almenning.
    Ég er ekki arkitekt en samt umgengst ég verk þeirra á hverjum degi, arkitektúr kemur öllum við. Samt veit ég minna um arkitektúr en margt annað sem er ekki jafn mikilvægt.

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Rétt, Sigurður : „arkitektúr kemur öllum við“.
      Þessvegna tel ég arkitektúrstofnun nauðsynlega, þar sem fræðsla og skilningur milli fag og leikmanna dafnar í kjölfari rannsókna um fagið.
      Gæði bygginga er verulega háð góðri umræðu milli byggjanda og fagmanna.

  • Örnólfur Hall

    — Það er mikll fengur af þessum pistlum þínum, kollegi Gunnlaugur. Megir þú skrifa þá sem flesta slíka.
    — Þetta minnir mig enn á Glenn Murcutt sem byrjar á að grandskoða umhverfið, nátturufarið – og efnin, vatnið og myndir þess, hitasveiflur, birtuhlutföll yfir daginn. Allt skal vera í ‚harmoníu/kompaníi‘ við náttúruna áður en strik er dregið (notar ekki tölvuteiknun). — ‚Mottóið‘ er: ‘touch the earth lightly’.

  • Þórhallur

    „Samband byggðar og náttúru er allstaðar tímabært umræðuefni, ekki síst á Íslandi, því á næstu árum verður þróuð stefnan um það hvernig Íslendingar og gestir þeirra umgangast landið“.

    „verður þróuð stefna“ ??? Er vinna við þessa stefnumótun komin af stað?. Koma arkitektar að þessari stefnumótarvinnu?

  • Dennis Davíð

    Ég tek undir með Gunnlaugi að tími sé kominn til að sérstök stofnun haldi utan um fortíð og framtíð bygginga á Íslandi. Eftir að Byggingarlistadeid Listasafns Reykjavíkur var lögð niður, fyrir nokkrum árum síðan, hefur byggingarlistin hvergi haft heimilisfesti. Ég get vel séð fyrir mér að hún gæti orðið hluti af Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ en þar eru nú þegar geymdar teikningar úr samkeppnum á vegum AÍ og ýmislegt fleira tengt hönnunarsögunni. Í Garðabæ eru margar áhugaverðar byggingar eftir helstu nútímaarkitekta landsins t.d. Bakkaflöt 1 eftir Högnu Sigurðardóttur, sem væri tilvalið framtíðaraðsetur fyrir þá stofnun sem Gunnlaugur er að tala fyrir. Ég þykist vita að ég sé ekki einn um þessa sýn.
    Ég var staddur í Helsinki fyrir nokkrum árum og skoðaði þá sérstakt safn um finnskan arkitektúr sem var stofnað árið 1956 og er eitt hið elsta sinnar tegundar í heiminum. Höfuð viðfangsefni þess er að safna og dreifa þekkingu um arkitektúr eftir árið 1900 og auka skilning á arkitektúr meðal almennings og fagfólks. Safnið er upplýsingamistöð um þann arkitektúr sem er í umræðunni. Hér eru stundaðar rannsóknir og gagnrýni. Safnið á stórt safn teikninga og ljósmynda, fjölda líkana og stórt bókasafn. Það skipuleggur sýningar í Finnlandi og erlendis, gefur út bækur og heldur fyrirlestra. Á tveggja ára fresti er haldin sýning á nýjum finnskum arkitektúr. Samhliða er gefin út bók um verkin ásamt leiðsögukorti þar sem byggingarnar eru merktar inn á.

  • Gunnar Guðmundsson

    Sýn íslenskra arkitekta á landið og bæjarfélög er mjög mismunandi. Það er sennilega vegna þess að þeir hafa ekki komið sér upp vettvang til þess að ræða þetta og finna samnefnara. Öll mannvirki sem byggð eru í opnu landi og í þéttbýli hér á landi einkennast af skorti á einhverri sameiginlegri sýn eða túlkun á aðstæðum. Niðurstaðan er sundurlaus byggð þar sem skortir samræmi og samhljóm hinns byggða við sögu staðarinns, hefðir, veðurfar, efnahag og menningu o.s.frv.

    Þarf stétt hönnuða ekki að eiga stöðugt samtal um þetta?. Taka upp þráðinn hér þar sem Gunnlaugur sleppir. Hvað Með samtök arkitekta, Verkfræðinga, skipulagsfræðinga og arkitektaskólana?

  • Dr. Samúel Jónsson

    Þau tengsl sem hér er rætt um, tengsl manns og náttúru, eru þau mikilvægustu.
    Þau tengsl er ekki hægt að staðla og votta og kalla svo „sjálfbær“.
    Tengsl mannsins, í aldanna rás, eru lífræn eins og náttúran, síbreytileg og háð veðrum og vindum tímans í rúmi, en af sömu rót.
    Þau tengsl þarf að efla, glæða og ala önn fyrir sem allt líf og það sem lífrænt er.
    Hver og einn þarf að gera svo til að tengslin verði á þann veg.
    Að þekkja upprunann er að þekkja sjálfan sig. Það er mikilvægast.

    • Örnólfur Hall

      Vel mælt Dr. Samúel ! –Það mættu fleiri doktorar taka þig sér til fyrirmyndar. !

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Þakka þetta góða innlegg, Dr. Samúel.Tískuorðið „sjálfbærni“ segir lítið annað en að efni byggingar sé endingargott.Eins og þú segir réttilega,er ég að fjalla um mikilsverðara mál og vona,að allir skilji það.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hafðu mikla þökk fyrir þennan sem og aðra góða pistla þína Hilmar Þór.

    Hvar væri umræðan stödd hér á landi um arkitektúr … ef pistla þinna nyti ekki við? Engir sjá lengur ástæðu til að lesa glamúr síðu AÍ … hún virðist, því miður, helst vera fyrir útvalda og handpikkaða, stjórn og framkvæmdastjóra þóknanlega. Hér hjá þér er hins vegar oft og iðulega „sprúðlandi“ og skemmtileg og fjörug umræða í kjölfar hvers pistils þíns. Það er frjótt, það er andlega örvandi.

    • Pétur Örn Björnsson

      Mjög gott og vel til fundið að þú birtir þennan pistil eftir Gunnlaug.
      Bloggsíða þín er eini almennilegi vettvangurinn til birtingar á góðu efni og efnivið.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér hrósið Pétur.

      Það eru fleiri pistlar á leiðinni eftir ýmsa áhugasama um efnið.

      Og munum að „dropinn holar steininn“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn