Fimmtudagur 24.04.2014 - 13:08 - 1 ummæli

Þéttbýlisþreifingar – Síðbúin þéttbýlismyndun

 

Hér kemur annar hluti samantektar  Sigurðar Thoroddsen arkitekts um þéttbýlismyndun á Íslandi þar sem hann veltir fyrir sér sér þéttbýlisþreifingum sem fram fóru frá 13. öld fram á miðja 18. öld.:

*****

Í þessum kafla er  fjallað  um þéttbýlisþreifingar frá 13. öld til miðbiks  18.  aldar,  en upp úr því fer að rofa til með þjóðinni.

Talið er íbúafjöldi   frá árinu 1200   til  og með 1703, þegar fyrsta manntalið var  framkvæmt,  hafi verið nánast  óbreyttur,  eða  um 50 þúsund manns,  nema þegar óáran dundi yfir  vegna drepsótta og náttúruhamfara,  en þá fækkaði  íbúum   töluvert.  En um aldamótin 1800 voru þeir á ný orðnir um 47. 000.

13. öldin

Fram á 13.öld voru tímabundnir verslunarstaðir,  og í sumum tilfellum einnig verstöðvar  á stöðum,  þar sem  skipalægi  frá náttúrunnar hendi voru góð. Helstu staðir voru:  Hvítárvellir í Borgarfirði, Gásir við Eyjafjörð, Eyrarbakki, Borðeyri,  Húsavík,  Hornafjörður og Vestmannaeyjar auk nokkurra annarra. Á þessum stöðum var  ekki varanleg byggð, en þess í stað  kaupstefnur að sumri til.  Staðirnir  voru   fyrst og fremst  verslunarstaðir við ströndina,  í nálægð við   helstu landbúnaðarhéruðin. Vitað er um allt að 15  slíka tímabundna verslunarstaði umhverfis  landið, en inn  í landi var  ekki  um  slíkt að ræða.

Á Biskupsstólunum   í Skálholti og að Hólum var að vísu búseta allt árið og nokkurskonar  þéttbýli,  miðað  við aðstæður þess tíma,  en þar var   ekki stunduð verslun.

14. og 15.öld.

Á 14. og 15. öld hófust fiskveiðar að einhverju marki og þar með  útflutningur skreiðar.   Völdu  menn  þá  nýja staði þar sem skipalægi voru  öruggari. Helstu  staðir voru:  Maríuhöfn í Hvalfirði, Hafnarfjörður, Rif á Snæfellsnesi, Siglufjörður, Oddeyri við Eyjafjörð og  Grindavík.  En Vestmannaeyjar var  lengst af  mesta verstöðin,  en einnig voru fleiri.   Ekki orsökuðu þessir  lendingarstaðir neina byggðaröskun í sveitum,  vegna þess að  við sjávarsíðuna   mynduðust engin  þorp, enda  fólki  bannað að setjast þar að.

Á framangreindum stöðum risu ekki varanleg hús eða  önnur  mannvirki,  vegna þess að  eingöngu var verslað á  sumrin,    og  þar reistar búðir úr torfi og grjóti  og tjaldað yfir.   „Kauptíð  eða kaupstefnur“,  eins  verslunin  var einnig nefnd,  hófst að jafnaði  1. maí og stóð til 8. september.    Englendingar og   Þjóðverjar stunduðu  verslun við landsmenn á þessum tíma og keyptu af  þeim skreið, saltfisk,  lýsi og vaðmál, en  seldu  á móti korn, timbur, tjöru og léreft. Þeir sem keyptu þessar vörur voru hinsvegar aðilar  sem áttu kaupeyri eins og biskupsstólarnir tveir , klaustur  og stórbændur.

Þar sem  bann var  við varanlegri búsetu í verstöðvum,  voru bændur  eina sjálfstæða innlenda  stéttin í landinu   fram á 19. öld.   Árin 1402-1404 urðu geigvænlegir atburðir,  þegar  til landsins barst banvænn  sjúkdómur,  eða   Svarti dauði, sem  talinn er  hafa lagt  stóran hluta  þjóðarinnar  að velli.   Árin 1495-1496 barst svo önnur plága til landsins, eða  hin  Síðari plága,  sem   einnig  var mjög   mannskæð.

16. öldin.

Vegna eingrunar landsins og erfiðleika konungs  að beita  valdi sínu,   héldu Englendingar,  Þjóðverjar að einhverju leyti Hollendingar  áfram að stunda viðskipti við þjóðina alla 16. öld. Dæmi voru um að hingað var flutt,  auk nauðsynjavöru,  ýmis munaðarvara frá Englandi,  s.s. vín, skartgripir, tískuklæðnaður og  kirkjumunir.   Verslun og viðskipti framangreindra þjóða við landsmenn  ollu    gremju yfirvalda,   sem lengi vel gátu  lítið gert,  fyrr en í upphafi 17. aldar,  en þá varð breyting.

17. öldin.

Árið 1602 ákvað  konungur  að koma á einokunarverslun á landinu og voru  útlenskir kaupmenn  flæmdir í burtu. Mælt var fyrir að um að 25 hafnir skyldu vera umhverfis landið,  þar   sem einungis tilnefndir danskir kaupmenn máttu koma   með varning sinn og  stunda  verslun.  Stærstir þessara  staða  voru:    Vestamannaeyjar, Eyrarbakki, Grindavík, Bátsendar, Hafnarfjörður, Hólmurinn (Reykjavík), Búðir, Stapi, Rif/Ólafsvík, Grundarfjörður, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður, Reykjarfjörður, Skagaströnd, Hofsós, Akureyri, Húsavík,  Vopnafjörður, Reyðarfjörður og Berufjörður

Einokunarversluninni   lauk síðan  ekki fyrr en 1786. Á 17. öld skrifuðu allmargir hugvekjur um nauðsyn þess að hér yrðu sett á stofn þéttbýli, bæði sunnanlands og norðan,  og að  heimamönnum  yrði kennd verslunar-  og iðnaðarfræði  af ýmsu tagi. Þessir  frumkvöðlar  höfðu  menntast erlendis og kynnst  þar borgarmenningu. En allt kom fyrir ekki,  hugmyndunum  var  ekki sinnt.  Spurning er einnig  hvort konungsvaldið eða bændastéttin hafi sett sig upp á móti  málinu,  eða báðir.

Fyrri hluti 18. aldar

Á 18. öld dynja  tvær miklar hamfarir yfir þjóðina, eða    Bólusóttarfaraldur 1707-1709 og  Móðuharðindin 1783-1785,  og   höfðu þessir atburðir geigvænleg  áhrif    á þróun  landsins. Í kjölfar Bólusóttarinnar  er  talið   að um 18 þúsund  manns   hafi farist,  þannig að íbúum fækkaði í um 35000 manns og hafa þeir aldrei verið færri.

Engu að síður voru  settar fram ýmsar hugmyndir  sem horfðu til framfara.  Segja má að þrátt fyrir allt,   hafi  öldin   verið  uppvakningartími með  þjóðinni. Fyrst og fremst voru það dönsk yfirvöld,   sem hvöttu til þéttbýlismyndunar og þá  einkum  til að kom lagi á verslunina, sem þeir töldu  í algjörum ólestri.

Danskur  embættismaður  Hans Becker,  sem var lögmaður norðan og vestan lands,   lagði til að gömlu „tímabundnu“  verslunarstaðirnir yrðu lagðir niður og þess í stað  yrðu stofnaðir 5 kaupstaðir,   með opinberri tilskipun.  Kaupstaðirnir  skyldu  vera í Hafnarfirði, Grundarfirði, Akureyri, Ísafirði og Reyðarfirði..  En meðal þeirra verslunarstaða sem honum þótti rétt  að  að leggja niður vegna lélegra hafnarskilyrða  var Reykjavík,  öðru nafni  Hólmurinn.

Vegna   góðra hafnarskilyrða var Hafnarfjörður talinn einna best fallinn til að vera höfuðstaður landsins. Byggð skyldu,   að tilhlutan danskra stjórnvalda,    10 hús  í hverjum kaupstaðanna.  Þá yrði skylt að helstu embættismenn auk kaupmanna settust að í kaupstöðunum og kjölfarið myndi rísa  þar blómleg útgerð og byggð af ýmsu tagi.  Iðnverkamenn  myndu flytjast þangað frá Danmörku og gætu þeir jafnframt kennt heimamönnum iðn sína.  Ennfremur væri   hægt að virkja þar fossa  til að knýja vélar.   En í stuttu máli,  engin  af þessum áformum urðu að veruleika.

Hér að framan hefur verið minnst á að frumkvæði  Dana á ýmsum sviðum til að bæta hag landsmanna .  Eitt dæmið er að  fyrir  þeirra tilstilli og á þeirra kostnað voru byggð 8  hús úr tilhöggnum steini,  á árunum 1753 til 1777.  Um var   að ræða bæði kirkjur og veraldleg hús.  En þessar byggingar höfðu  takmörkuð áhrif í átt til innlendrar verkkunnáttu,  eða þéttbýlismyndunar.  Þjóðin var enn föst í viðjum vanans.

Áður  eða 1751,  höfðu  Innréttingarnar,  sem kenndar eru við Skúla Magnússon   verið settar á laggirnar í Reykjavík,  að frumkvæði Dana og með fjárframlögum frá þeim.  Byggingar innréttinganna voru  reistar við Aðalstræti,  en fyrir á svæðinu voru Gamli Reykjavíkurbærinn, kirkja og Gamli kirkjugarðurinn. Starfsemi Innréttinganna var fólgin í ullarvinnslu, kaðlagerð  og sútun skinna,  en þessi tilraun til nýrra atvinnuhátta  tókst  ekki,   og lauk henni   um 1810.

Um staðarval  Innréttinganna  hafa mörg rök verið rakin, s.s. að   í   Reykjavík var elsti bær landsins,  fyrsta  numda óðalið, þ.e.  landnámsbærinn.  Og ekki hefur heldur spillt fyrir,  að á þessum tíma var jörðin Reykjavík orðin konungseign.  Hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi voru hinsvegar slæm.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þarna kemur fram að Hafnarfjörður kom sterklega til álita sem hfuðborg landsins vegna góðra hafnarskilyrða sem voru mun betri en í Reykjavík.

    Ég hef oft velt þessu fyrir mér.

    Þetta eru reglulega fróðlegar greinar sem ég þakka fyrir. Þær eru alger andstæða við allt það stóryrðaflóð sem gengur á blogginu alment.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn