Fimmtudagur 28.04.2011 - 20:08 - 5 ummæli

Útskriftarsýning LHÍ-Arkitektúr


.

Nú stendur yfir árleg sýning í Listasafni Reykjavíkur á útskriftarverkum nema frá Listaháskóla Íslands.  Sýningin sem óhætt er að mæla með verður opin til 8. mai n.k.

Í ár setti skólinn nemum sínum í arkitektúr verkefnið “danshús”.

Þrjár lóðir voru í boði sem allar eru við Barónsstíg.  Þetta er lóð framan við Vörðuskóla Guðjóns Samúelssonar,  lóð  framan við Austurbæjarskóla eftir Sigurð Guðmundsson og loks lóð spennistöðvar Orkuveitu Reykjavíkur milli Sundhallar Reykjavíkur eftir Guðjón Samúelsson og Heilsuverndarstöðvar Einars Sveinssonar.  Spennustöðina teiknuðu arkitektarnir Guðmundur Kr. Kristinsson og Ferdinand Alfreðsson.

Þarna er að finna fimm af demöntum íslenskrar byggingalistar. Þessi hús eru mjög ólík og ekki auðvelt að bregðast við þeim með nýbyggingu.

Við fyrstu sýn sýndist mér höfundarnir hafi átt í vandræðum með að koma þessu mikla húsi fyrir á þessum viðkvæma stað í nábýli þeirra afbragðsverka sem fyrr eru nefnd. Um er að ræða 3500 fermetra hús sem er líklega nálægt 15000 rúmmetrar.

Manni finnst eins og höfundar þarfagreiningarinnar og rýmisáætlunar hafi ekki lesið umhverfið rétt og talið svæðið bera meira en það gerir. Þarfagreiningin virðist ósangjörn gagnvart bæði umhverfinu og nemunum vegns stærðarinnar.  Gaman hefði verið að sjá verk eftir þetta duglega unga fólk hannað inn í aðstæður sem henta verkinu eða verki sem hentar staðnum.

Á sýningunni er nokkur góð verk, vel unnin, fallega upp sett og  vel teiknuð. En ég tók eftir því að nærliggjandi byggingar voru hvergi teiknaðar inn á  útlit og snið með einni eða tveim undantekningum.  Slíkar teikningar eru nauðsynlegar  ef leggja á mat á bygginguna í umhverfinu. Ég átti erfitt með að átta mig á heildinni á þessum veika grunni þó líkön hafi hjálpað eitthvað. Þetta kom mér verulega á óvart. Í raun er mér óskiljanlegt hvernig stendur á þvi að næsta umhverfi er ekki teiknað inn á viðeigandi stöðum, sérstaklega þegar um skólaverkefni er að ræða. Þetta eru slæm skilaboð.

Eitt verkanna vakti sérstaka athygli mína fyrir ágæti sitt. Höfundur þess er Steinunn Eik Egilsdóttir. Hún greinir svæðið ágætlega og leggur til að húsið samanstandi af  hálf niðurgrafinni hæð sem tengir fjögur hús sem standa uppúr niðurgröfnu hæðinni. Þarna kom höfundur auga á aðferð sem dregur úr umfangi byggingarinnar og gefur kost á hógværu viðmóti við vönduð söguleg hús í næsta nágrenni. Höfundur mótar húsið þannig að það verður hluti af daglegu lífi fólks sem ekki er beinn þáttakandi í dansstarfi hússins en á leið hjá. Falleg afstöðumyndin sýnir að höfundur býður upp á menningarstofnun á opnu útivistarsvæði án yfirþyrmandi bifreiðastæða. Ljósmyndir af verki Steinunnar fylgir færslunni.

Leiðbeinendur nemanna voru Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson sem reka saman teiknistofuna Kurtogpi. Gestaleiðbeinandi var Deborah Saunt arkitekt fyrrum samstarfskona Steinþórs á teiknistofu Tony Fretton þar sem þau unnu saman að verkefni í Póllandi.

Ég mæli með sýningunni í Hafnarhúsinu. Það er fróðlegt að sjá hvernig  verkefni 14  útskriftarnema er leyst á 14 mismunandi vegu á sömu slóðum.

Efst er afstöðumynd sem sýnir svæðið og lóðirnar þrjár sem um var að velja

Viðbót af gefnu tilefni dags 9.mai.2011:

Ég þakka Steinþór Kára fyrir að gera athugasemd við færsluna (Sjá athugasemd að neðan) og bið hann afsökunnar ef rangt er farið með. Mér þykir vænt um að fá leiðréttingu af þessu tagi enda er það einlægur vilji minn að rétt sé farið með og ónákvæmi engin. Þessi skrif eru oftast unnin mjög hratt og þá er hætta á mistökum.

Þessi litla klausa í færslunni um innbyrðis tengsl kennara við skólann er komin frá einum af kollegum mínum sem fannst mikilvægt að þetta kæmi fram. Ég treysti heimildarmanni og lét undan enda taldi ég að þarna væri um staðreyndir að ræða sem bæði þyldu og þyrftu  umfjöllun. Ég fullvissaði mig um að rétt væri farið með og fann strax á vefsíðu Guardian að Deborah Saunt hafi unnið að Breska sendiráðinu í Varsjá á teiknistofu Tony Fretton. Nú hefur Steinþór Kári fullvissað mig um að Guardian fari með rangt mál og þakka ég honum ábendinguna og bið afsökunar á ónákvæmninni þó ég telji mig hafa nokkuð mér til málsbóta.

Þetta leiðinlega “comment” sem Steinþór Kári nefnir og var tilefni athugasemdar hans, strika ég út enda virkar það rætið og illa meint og er skrifað undir fullkominni nafnleynd. Svona komment vil ég síður hafa hér. Þetta er 4 kommentið sem ég strika út í sögu síðunnar, en þau eru komin hátt á þriðja þúsundið frá upphafi.

Um leið og ég þakka Steinþór aftur ábendinguna þykir mér rétt að birta hér tilvitnun í Guardian ásamt slóð að síðunni sem um ræðir svo fólk sjái að þetta er ekki tómur uppspuni heldur óvönduð blaðamennska Guardian. Feitletrun er mín. 

http://www.guardian.co.uk/culture/2004/dec/02/regeneration.architecture

Age: Deborah Saunt, 30s; David Hills, 30s
What they do: Australian-born Deborah Saunt graduated from Heriot-Watt University, Edinburgh and the University of Cambridge. She worked for Tony Fretton, architect of several refined art galleries as well as the up-and-coming British Embassy in Warsaw, before setting up in practice with David Hills. Hills, an Englishman, studied at Cambridge and worked previously for the successful Dutch architect Erick van Egeraat. Their current projects together include a £27m school campus in Guildford, Surrey, a primary school in Sheffield, an „early years centre“ in Dagenham and, in complete contrast to these educational designs, a new house in Kensington Palace Gardens.

Ég vil að lokum geta þess að ég hef boðið deildarforseta Arkitektúr og hönnunardeildar LHÍ aðgang að þessum vef sjái hann tilefni til þess að kynna skólann eða sjónarmið nema á þessum vettvangi. Ég bíð enn eftir viðbrögðum við þessu boði frá kennurum, stjórnendum og nemum arkitektúr og hönnunardeildar. Vefurinn er opinn fyrir málefnalega, gagnrýna og framsækna umræðu um efnið arkitektúr , skipulag og staðarprýði.

Líkan af danshúsi Steinunnar Eikar Egilsdóttur

Sneiðing sem sýnir hvernig hluti byggingarinnar er neðanjarðar.

Fríhendisteikning sem sýnir húsin fjögur sem standa uppúr neðanjarðar tengibyggingu. Efst er Sundhöll Reykjavíkur eftir Guðjón Samúelsson. Þegar nýbyggingin er skoðuð og borin saman við Sunhallarbygginguna sést hvað nýbyggingin er stór og mikil í umhverfinu jafnvel þó stór hluti hennar sé neðanjarðar.

Díagram sem sýnir meginhugmyndina sem gengur út á að brjóta ofvaxna bygginguna upp í fimm hluta þar sem einn er neðanjarðar.

Stigið er niður í bjartan garð þaðan sem gengið er inn í niðurgröfnu hæðina og þaðan í ýmsar vistarverur hússins um leið og dagsbirta flæðir inn í húsið,


Af líkaninu má skynja niðurbrot þessa stóra húss og sjá markaðar gönguleiðir um svæðið

Ljósmynd frá sýningunni í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Ég þakka Steinþór Kára fyrir að gera athugasemd við færsluna (Sjá athugasemd að ofan) og bið hann afsökunnar ef rangt er farið með. Mér þykir vænt um að fá leiðréttingu af þessu tagi enda er það einlægur vilji minn að rétt sé farið með og ónákvæmi engin. Þessi skrif eru oftast unnin mjög hratt og þá er hætta á mistökum.

    Þessi litla klausa í færslunni um innbyrðis tengsl kennara við skólann er komin frá einum af kollegum mínum sem fannst mikilvægt að þetta kæmi fram. Ég treysti heimildarmanni og lét undan enda taldi ég að þarna væri um staðreyndir að ræða sem bæði þyldu og þyrftu umfjöllun. Ég fullvissaði mig um að rétt væri farið með og fann strax á vefsíðu Guardian að Deborah Saunt hafi unnið að Breska sendiráðinu í Varsjá á teiknistofu Tony Fretton. Nú hefur Steinþór Kári fullvissað mig um að Guardian fari með rangt mál og þakka ég honum ábendinguna og bið afsökunar á ónákvæmninni þó ég telji mig hafa nokkuð mér til málsbóta.

    Þetta leiðinlega “comment” sem Steinþór Kári nefnir og var tilefni athugasemdar hans, strika ég út enda virkar það rætið og illa meint og er skrifað undir fullkominni nafnleynd. Svona komment vil ég síður hafa hér. Þetta er 4 kommentið sem ég strika út í sögu síðunnar, en þau eru komin hátt á þriðja þúsundið frá upphafi.

    Um leið og ég þakka Steinþór aftur ábendinguna þykir mér rétt að birta hér tilvitnun í Guardian ásamt slóð að síðunni sem um ræðir svo fólk sjái að þetta er ekki tómur uppspuni heldur óvönduð blaðamennska Guardian.

    http://www.guardian.co.uk/culture/2004/dec/02/regeneration.architecture

    „Age: Deborah Saunt, 30s; David Hills, 30s
    What they do: Australian-born Deborah Saunt graduated from Heriot-Watt University, Edinburgh and the University of Cambridge. She worked for Tony Fretton, architect of several refined art galleries as well as the up-and-coming British Embassy in Warsaw, before setting up in practice with David Hills. Hills, an Englishman, studied at Cambridge and worked previously for the successful Dutch architect Erick van Egeraat. Their current projects together include a £27m school campus in Guildford, Surrey, a primary school in Sheffield, an „early years centre“ in Dagenham and, in complete contrast to these educational designs, a new house in Kensington Palace Gardens“.

    Ég vil að lokum geta þess að ég hef boðið deildarforseta Arkitektúr og hönnunardeildar LHÍ aðgang að þessum vef sjái hann tilefni til þess að kynna skólann eða sjónarmið nema á þessum vettvangi. Ég bíð enn eftir viðbrögðum við þessu boði frá kennurum, stjórnendum og nemum arkitektúr og hönnunardeildar. Vefurinn er opinn fyrir málefnalega, gagnrýna og framsækna umræðu um efnið arkitektúr , skipulag og staðarprýði.

  • Steinþór Kári Kárason

    Bara svo rétt sé með farið tel ég nauðsynlegt að leiðrétta smávægilega staðreyndavillu í þessari færslu, enda er hún farin að endurspeglast á undarlegan hátt í commentum.
    Það er rétt að við Deborah Saunt unnum saman hjá Tony Fretton Architects (1995-1996), þar sem við unnum að verkefnum á Englandi. Deborah hætti hjá Tony Fretton Architects árið 1998 og stofnað, ásamt David Hills, eigin stofu og hefur ekki, svo mér sé kunnugt um, unnið að verkefnum í Póllandi. Það hef ég hins vegar gert, sem umsjónararkitekt (project architect) breska sendiráðsins í Varsjá, hjá Tony Fretton Architecst árin 2003-2004.

  • Nemendurnir góðir og unnu vel, vekin góð og eitt er best, forsögnin of stór, syningin góð, en kennararnir mjög tengdir. Óumdeilanlega rétt hjá málshefjanda í óþarflega löngu máli. Sjón er sögu ríkari mæli með heimsókn í Hafnarhús.

  • stefán benediktsson

    Verð að fara og skoða. Skoða fyrst tala svo.

  • Hef ekki skoðað sýninguna í Hafnarhúsinu (vissi ekki af henni fyrr en nú) en mér finnst flott að gera garð sem nær um allt umhverfi Austubæjarskóla, Heilsuverndarstöðvarinnar, Sundhallarinnar, Droplaugarstaða og danshússins. Gott ráð er að taka Barónsstiginn með í garðinn þá losna íbúarnir við gegnumakstur um Barónstíginn. Ég hef áhuga á að skoða síninguna þar sem ég er íbúi við Barónsstíg. Spurt er hvað kosti inn á sýninguna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn