Mánudagur 19.10.2009 - 11:10 - 16 ummæli

Varist stjörnuarkitekta

 

Nei, þetta er ekki verk óþroskaðra krakka á fyrsta ári í arkitektaskóla sem eru að leika sér með kubbana sína.

Teiknistofa Rem Koolhaas, OMA er þarna að leggja fram nýjar hugmyndir sínar um íbúðabyggð „The Interlace“ í Singapore

Þetta eru íbúðabyggingar sem eru samtals um 170 þúsund fermetrar og rúma 1040 íbúðir auk ýmissa stoðrýma.

Ég hef komið tvisvar til Singapore og þetta er ekki það sem maður vill sjá þar eða nokkurs staðar, enda er ekkert sem minnir á Singapore að finna í þessum hugmyndum. Sennilega fá svona hugmyndir brautargengi í krafti þess að heimsfrægur arkitekt er þarna á ferð.

Þeim sem vilja kynna sér þetta nánar er bent á heimasíðu Rem Koolhaas: 

http://www.oma.nl/

Virtir íslenskir arkitektar og stjórnmálamenn sóttu í smiðju stjörnuarkitektsins Rem Koolhaas til að fá ráðleggingar um uppbyggingu Vatnsmýrarinnar. Þá voru uppi háværar raddir sem vildu búa þannig um hnútana að heimsfrægir stjörnuarkitektar löðuðust að hugmyndavinnunni. Það mistókst. 

Vatnsmýrarsamkeppnin mistókst vegna þess að stjórnmálamennirnir gátu ekki tekið ákvörðun um framtíð flugvallarins og lögðu hana í hendur keppenda. Grundvallarforsenda samkeppninnar lá ekki fyrir og niðurstaðan því undir væntingum.  Umbúðirnar voru miklar og metnaðarfullar og allur ferillinn í anda ársins 2007.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Sammála um að þetta sé vondur og ljótur arkitektúr. Hins vegar eru Vatnsmýrartillögurnar enn verri. Þar var byggðinni dreift í lágreistar byggingar þar sem EKKERT útsýni var nema inní næstu stofu. Það var eins og arkitektarnir hefðu enga rýmis tilfinningu og þekktu ekkert til svæðisins. Þarna hefði mátt fá eitthvert það fallegasta útsýni sem stendur höfuðborgarbúum til boða.
    Einhvernveginn eru allar tillögur sem hér ná fram að ganga, kotungslegar. Vantar allt „grand“ í allar tillögur. Annað hvort er það kotungshátturinn sem verður ofan á með sparnað byggjanda númer eitt að leiðarljósi eða bara hreinlega smekkleysið og hugmyndadeyfð.

  • Heill og sæll félagi Hilmar,
    Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sammála þér í þessari gagnrýni á Rem né þetta verkefni hans. Hér er hann að leysa úr hugmyndum um græn svæði í þéttbyggðum borgum. Um leið er hann að halda áfram með hugmyndir sínar um antí-skíjakljúfa, en honum er mjög í nöp við þá. Þetta er kannski frekar einfeldningsleg hönnun, en það þarf ekki allt að vera bjúpt í heiminum.
    Rem er ekki besti arkitekt veraldar, enda getur enginn borið þá nafnbót. hann á hins vegar án efa tvo áhrifamestu texta í arkitektúr síðustu tvo áratugina: „Delirious New York“ og „Junk Space“ og er einn fremsti hugsuðurinn í umræðunni um borgarhönnun (hvort sem menn eru sammála honum eða ekki).
    Hann gerir líka suma hlutina vel, en aðra miður. Ég myndi t.d. ekki setja hann saman við Zumthor þegar það kemur að skylningi og notkun á efnum.
    Var allt sem Corbusier gerði gott? Hugmynd hans fyrir París var hræðileg, en það tekur ekki frá honum að hann er einn fremsti arkitekt 20stu aldarinnar.
    Ég er sammála þér í því að orðið Starchitect „Stjörnu Arkitekt“ er mjög leiðinlegt. Þeir sem þar eru þó nefndir eru flestir framalega á sínu sviði. Það eru yfirleitt fjölmiðlamenn sem nota þetta orð. Arkitektar nota orðið frekar í miðrandi tón. Hið jákvæða í þessari „celebrity“ stöðu arkitekta síðustu árin er að háhugi almennings á arkitektúr og umhverfi sínu hefur stór aukist, og ekki bara á Íslandi. Og það er eitthvað sem við öll í stéttinni getum verið sammála um að fagna.

  • Árni Ólafsson

    Er tónlistarhúsið í Reykjavík ekki í ætt við Rem Koolhaas? Formpæling án tengsla við bæjarmynd, mannlíf eða umhverfi yfirleitt. (Ekki nokkur maður hefur vogað sér að gagnrýna útlit og form hússins enda komu hálfguðir í listamannatölu að hönnun útveggjaklæðiningarinnar.)

    Stjörnuarkitektar eru sérkennilegt fyrirbrigði og ótrúlegt hvað sumir hafa komist upp með sbr. Frank Gehry. Að mínu mati liggur í dýrkun þeirra ákveðið menningarsnobb og hræðsla við tengsl við þjóðlega menningu, staðhætti og almenna skynsemi.
    Ef við lítum á byggingarlist eða arkitektúr sem fagurfræðilega skipan hins hagnýta veruleika geta mörg verk störnuarkitektanna vart talist góð byggingarlist.

    Vegna umræðu um Bakkana vil ég benda á að Bakkarnir eru hreinræktað dæmi um módernískt bæjarskipulag, sem byggist á skematískri sænskri skýringarmynd á flokkun gatnakerfis. Þetta er skipulag flokkunar og aðgreiningar á öllum sviðum, félagslegrar, umhverfislegrar, umferðartæknilegrar og efnahagslegrar. Auk þess skortir hverfið tvo af þrem meginþáttum bæjarmyndarinnar, götunnar sem bæjararýmis, torgsins og garðsins. Fjarskafallegt!

  • Ertu fimmára!

    Ég hef mest gaman af húsum sem halla eins og þú séu að detta ofan á mann. Alltaf gaman af kubbum samt þótt þeir sé kannski dottnir úr tísku.

  • Úlfar Bragason

    Stjörnuarkitektar? Eru það útlendingar? Já, íslenskt er sjálfsagt best jafnvel þótt íslenskir arkitektar hafi lært í útlöndum! Arkitektafélagið og menntamálaráðuneytið hafa komið sér saman um að nota ÍSLENSKU sem girðingu svo að hinir ægilegu útlendingar geti ekki tekið þátt í samkeppni hér á landi þvert á saminga okkar um evrópska efnahagssvæðið. ÍSLENSK er best! Sjáið hina fögru Reykjavík! Hvert meistarastykkið á fætur öðru!

  • Samúel T. Pétursson

    Í Rotterdam hafa menn nú ákveðið að ráðast í byggingu „De Rotterdam“, 400 þúsund fermetra skrímslis, byggt á 10 ára gamalli hönnun Koolhas. Kubbaborg við hliðina á fallegustu og mest elegant brú í heimi:

    http://www.rotterdam.nl/Rotterdam/Internet/Diensten/dsv/Binnenstad/images/45.derotterdam.jpg

  • Byggingar sumra stjörnuarkítekta, má líkja við ævintýrið um nýju föt keisarans, þar sem enginn þorir að segja hátt að byggingar þeirra séu hræðilegar. Þetta er bara ennþá verra, því þetta eru ekki ævintýri, heldur byggingar sem eiga eftir að standa í tugi ára eða lengur.
    Vel hannaðar byggingar verða jafnvel fallegri með aldrinum. En ekki OMA bygginarnar, þær verða ljótari með hverju ári, og mjög fljótt. Í Utrecht í Hollandi er háskólabygging eftir OMA. Hún er um það bil 10 ára gömul en er orðin hræðilega slitin og illa farin. Þessi bygging er bara ein meðal margra annara bygginga á stóru háskólasvæði, en þetta projekt ”The Interlace” í Singapore er heill íbúðabær, kubbabær. Hvernig mun hann líta út eftir 50 ár eða bara eftir 10 ár ?

  • já iss, getur ekki einhver sent Rem Koolhaas teikningarnar af Bökkunum í Breiðholti? Hann hlýtur að skila Pritzker-verðlaununum sínum ef hann kemst í þær.

  • Hahaha!

    Smekk er ekki hægt að læra og heimsfrægð er ekki trygging fyrir honum.

    Flest var vel hugsað og vel af hendi leyst í hönnun Bakkanna, ekki síst hin víðfeðmu útivistarsvæði.

    En svo mátti auðvitað engu kosta til.

    Einu og öðru var kippt út og hinu og þessu ýtt útaf borðinu.

    Rökin voru á þá leið að víst mætti komast af með minna.

    Haltur ríður hrossi.

    Hjörð rekur handar vani.

    Og hlýtur þá ekki vængstífð hönnun að bjargast líka?

  • stefán benediktsson

    Þakka þér félagi fyrir þetta blogg og fyrir alla muni ekki gefast upp þótt sumir séu neikvæðir í kommentum. Það er ekki persónulegt því þú ert að fjalla um verk annarra en þín. Manni bregður óneitanlega við að sjá hugmyndir Kolhaas í Singapore og spyr sig hver forsögnin var. Hverjar voru forsendurnar? Maður spyr sig líka hvar félagsleg ábyrgð okkar (arkitekta) byrjar og endar. Kópavogur er búinn með 20 ára kvóta sinn í uppbyggingu í dyggri samvinnu við kollega okkar.

  • Kærar þakkir fyeie að halda úti þessu bloggi. Ég er þér algerlega sammála með þessar legókubbahugmyndir. Hreinlega í anda þess að menn eru inni í hausnum á sjálfum sér að reyna að toppa einhverja í eigin kreðsum en ekki að hugsa um fólkið sem á að búa þarna, umhverfið sem byggingarnar eru í eða neina þætti sem skipta máli í borgarskipulaginu.

  • Hilmar þú átt þakkir skildar fyrir þetta blogg. Það er ekki víða vitræn umræða um arkitektúr hér á landi og því er þetta frábær fróðleikslind fyrir okkur sem ekki erum „innvígð“. Í leiðinni vil ég þakka sérstaklega fyrir umfjöllun þína um Bifröst þann 5.okt. sl. Eins og talað út úr mínu hjarta. Það er ömurlegt að keyra framhjá þessum fallega stað eftir að gámabyggingarnar voru settar þarna næst veginum.

  • Þetta er rétt hjá Herði H.

    Skipulag Bakkahverfisins í Reykjavík er spunnið utan um ákveðna skipulagshugmyns þar sem hugsað er fyrir félagslegum þáttum, samgöngum, sól og vindum. Yst eru sérbýlishús (Bakkar og Stekkir) svo koma fjölbýlishús og innst verslanir, leiksvæði og skólar. Yst eru svo víðfem útivistarsvæði. Umhverfis þetta gengur svo góð samgönguæð sem hentar almenningsflutningum.

    þarna eru greiðar gönguleiðir og hverfið hefur sterka sjálfstæða og afmarkaða ímynd.

    Maður sakna skýrra skipulagshugmynda af þessu tagi í nýjum hverfum.

  • Hörður H..

    Gaman að pæla í arkitektúr,vondur arkitektur getur komið óorði á hverfi eða borgir,eins og mistökin upp í Bifröst eða „kínamúrinn „í efra Breiðholti hafa sett á hverfið.Sem harður Breiðhyltingur fullyrði ég að þrátt fyrir þessa hnökra er Breiðholtið betur heppnað en mörg önnur hverfi Bakkarnir og neðri hluti Seljahverfis eru ágætlega hönnuð.Bakkarnir eru sennilega heildstæðasta hverfi Reykjavíkur.

  • Mér finnst þetta reyndar dáldið töff. Finnst mér hafa séð verri arkitektúr.
    Þetta blogg er gott framtak og vonandi verður fjallað meira um arkitektúr.
    Þætti gaman að lesa hjá þér hvaða hverfi sem hafa risið síðustu áratugina eru vel heppnuð fagurfræðilega.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn