Mánudagur 23.09.2013 - 07:41 - 2 ummæli

Vistvænn golfvöllur í DK

photonota

Ég skrifaði fyrir alllöngu pistil um eiturefnanotkun á golfvöllum og „vistvæna“ golfvelli í tengslum við hana.

Viðbrögðin voru mikil. Reyndar svo mikil að mér var brugðið. Mér fannst eins og golfurum þætti á sig ráðist og þeir brugðust til varnar. Ég fékk mikið af atugasemdum í síma og í tölvupósti. Viðbrögðin voru eins og ég gæti ímyndað mér þegar einhver vegur að trúfélagi.

Þeir sögðu að ég hafi skotið sjálfan mig í fótinn. En samt gerði ég ekki annað en að endurtaka það sem mér hafði verið sagt og ég hafði lesið.

En það er önnur saga.

Ég var auðvitað fullur efasemda um heimildir mínar og var á vissan hátt miður mín fyrir að hafa valdið því góða fólki sem stundar þessa ágætu íþrótt hugarangri. Sannleikurinn er ekki alltaf sætur og stundum er sannleikurinn ekki neinn sannleikur í hugum fólks. En umræðan er alltaf umræðunnar virði. Sérstaklega ef einhver ágrenningur er á ferðinni sem má lagfæra og ná sátt um.

Í framhaldinu gerði ég mér erindi og heimsótti vistvænan golfvöll í Danmörku. Þetta var í síðasta mánuði.  Ég fræddist af eigandunum um rekstur vallarins og þá hugmyndafræði sem að baki liggur og heyrði reynslusögur.

Þetta var vistvænn golfvöllur stutt frá norðurströnd Sjálands í fallegu landi þar sem áður hafði verið rekið vistvænt alinautabú (hereford holdanaut).  Landeigendum fannst kjörið að nota það áfram með vistvænum hættti og lögðu þennan vistvæna golfvöll.

Samtalið staðfesti allt sem kom fram í fyrri pistli mínum.

Hugmyndin um vistvænann golfvöll gengur út  á að nota ekki tilbúin áburð eða varnarefni gegn óæskilegum gróðri eða skordýrum. Menga ekki jörðina. Einungis er notast við lífrænan áburð (Terra Biosa) og óæskilegum gróðri haldið niðri með handafli. Markmiðið er að halda moldinni hreinni. Eða eins og  Yoko Ono orðaði það „to keep the dirt kleen“!

Að sögn eiganda golfvallarins gengur reksturinn vel en  það væri mikil vinna að halda allskonar óværu og illgresi frá án eiturefna. Illgresi og óæskilegar plöntur á flötunum þyrfti að fjarlæga handvirkt.  Á teigunum og brautunum er allnokkuð um fífla og annað þess háttar sem haldið væri niðri með tíðum slætti. Eitt nefndu eigendurnir sem olli sérstökum erfiðleikum en það er maðkur á flötunum . Samkvæmt ritúalinu má ekki nota eitur og því nánast ómögulegt að halda maðkinum niðri. Hinsvegar færi fuglalíf vaxandi þarna sem hjálpaði verulega. Sennilega þætti fuglunum óeitraður maðkur gómsætari.

Það er rétt að geta þess að golfvöllurinn er með sína egin vansveitu.

Spurt var hvort kylfingar sæktu völlinn sérstaklega vegna þess að hann væri vistvænn? Ekki var á þeim að heyra að vistvænn völlurinn drægi fólk sérstaklega að, hinsvegar þætti fólki það spennandi og sýndi velvilja og áhuga í garð hugmyndarinnar og rekstrarins.

Það væri gaman að að heyra ef vistvænn golfvöllur er til á Íslandi, helst þannig að glompurnar væru með svörtum sandi eða sandi sem fenginn er úr næsta umhverfi.

Hér er slóð að fyrri færslu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/11/28/golfvellir%e2%80%94fallegir-en-baneitradir/

og hér er heimasíða golfvallarins Möllekilde

http://www.mollekildegolf.dk/index.php

Vistvæni golfvölurinn sem ég heimsótti skartar, eins og flestir golfvellir, mikilli náttúrufegurð auk þess að húsakostur allur er einstaklega fallegur með dönsku yfirbragði eins og sést á hjálögðum ljósmyndum.

Hefur fólk annars áttað sig á því að Golfvellirnir tveir í Grafarholti og við Korpúlfsstaði eru alls 140 hektarar og fer stækkandi! Þetta er sama stærð og það land sem fer undir flugvöllinn í Vatnsmýrinni! 

Er eitthvað vit í því að hafa golfvelli og flugvelli innan þéttbýlismarka byggðarinnar í borgarlandinu?

photo11

Eigendur golfvallarins ásamt gesti. Ekkert þeirra spilar golf.

photo44

photo33

Einu erfiðleikarnir varðandi það að halda velllinum vistvænum er maðkur á flötunum. En fjörugt fuglalíf hjálpar.

golfbane

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Einar Jóhannsson

    Athyglisvert.

  • Halldór H.

    „Er eitthvað vit í því að hafa golfvelli og flugvelli innan þéttbýlismarka byggðarinnar í borgarlandinu?“

    Svarið er nei og og golfvellirnir eiga að víkja á undan flugvellinum. —að sjálfsögðu!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn