Föstudagur 26.12.2014 - 16:37 - FB ummæli ()

F.M.E. – ,,Ferðumst Meira Erlendis“

FME er eitt áþreifanlegasta dæmið um að falskt öryggi er verra en ekkert, soldið eins og öryggisbelti sem ekki grípa við árekstur. Öfugt við það sem margir halda hafði FME blásið út fyrir 2008 með reglugerðarfargani sem tryggði flesta hluti aðra en fjármálaöryggi.

Bankastarfsemi snýst um að taka peninga að láni og lána út aftur til lántakenda sem líklegir eru til að endurgreiða með vöxtum. Undantekningin frá þessu er fjárfestingabanki ríkisins á Sauðárkróki ,,Byggðastofnun“ sem sérhæfir sig í útlánum til aðila sem ekki geta greitt til baka. Með síðarnefndri fjármálastarfsemi þarf ríkið skiljanlega ekki að hafa neitt eftirlit frekar en að Samkeppniseftirlitið hafi eftirlit með einokunarversluninni ÁTVR.

Viðbrögð stjórnsýslunnar við stóra álitshnekknum 2008 var að kasta meiri peningum á vandamálið, stækka FME og taka stofnunina af fjárlögum í nafni sjálfstæðis. Þar með var svo látið líta út að hinir fégráðugu bankar borguðu reksturinn frekar en viðskiptavinirnir. Að auki var stofnunin flutt í dýrasta skrifstofuhús landsins til ímyndarauka. Þó breyttist starfsemi bankanna yfir nóttu frá því að vera alþjóðleg stórfyrirtæki í einfalda sparisjóði með offituvandamál. Sérstaklega er vert að geta þess að engin erlend starfsemi er stunduð, engar flóknar afleiður, gjaldmiðlakrossar eða slíkt. Engum hefur þó dottið í hug að hægt sé að skera mörina af stærsta fjármálaeftirlit heims.

Nýtt og ...FME í dýrustu skrifstofubyggingu landsins

Nýtt og …FME í dýrustu skrifstofubyggingu landsins

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni fara um þrjú ársverk starfsmanna á hverju ári í ferðalög erlendis. Þetta hlýtur að teljast vel í lagt með tilliti til þess að stofnunin hefur jú ekki eftirlit með einni einustu erlendri fjármálastofnun!

Á síðustu þremur árum hafa starfsmennirnir ferðast meira en 400 sinnum til útlanda sem kostað hefur almenning í þessu landi yfir 130 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni eru útlandareisurnar þó ekki hluti af starfskjörum starfsmanna. Ætla má því að tilgangur slíkra ferða hljóti að vera ýmist til að mennta starfsfólkið eða að það mennti aðra, nánar tiltekið í útlöndum. Segja má að FME hafi gefið hugtakinu ,,símenntun“ nýja og víðtækari merkingu. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hafa starfsmenn haldið 5 kynningar í framangreindum 400 ferðum, þar af tvær á skjalageymslum stofnunarinnar sem ýmist eru ,,short term“ eða ,,long term“

Líklega verður seint of mikið gert úr því að kynna merkilegar skjalageymslur á erlendri grundu.

Skjalageymslur FME, hverrar kynningar virði

Skjalageymslur FME, hverrar kynningar virði

Í ,,Upplýsingastefnu“ kemur fram að stofnunin leggi áherslu á að ,,Að miðla þekkingu um alþjóðlegt samstarf stofnunarinnar á sviði fjármálaeftirlits.“ Engar slíkar upplýsingar er hinsvegar að finna á vef stofnunarinnar enda ámóta þörf á erlendu samstarfi og hjá Þjóðmynjasafninu í meðalári svo tekið sé dæmi af handahófi.

Í kynningum stofnunarinnar kemur fram að gerð sé sú lágmarkskrafa til stjórnenda fjármálafyrirtækja að þeir hafi það sem kallað er ,,Unblemished reputation“ eða óflekkað mannorð án þess að geta þess að stofnunin geri ekki slíka kröfu til eigin stjórnarmanna. Hvergi er minst orði á aðhald í rekstri enda hefur engin eftirlit með eftirlitinu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur