Laugardagur 21.03.2015 - 18:30 - FB ummæli ()

Hræðileg stofnun

Ronald Reagan sagði að hræðilegustu orð í enskri tungu væru ,,I’m from the government and I’m here to help“. Sama mætti segja ef einhver óskaði eftir vegvísun frá Landmælingum Íslands þar sem vegir liggja úti í sjó, ár renna upp fjöll og hús standa úti í stöðuvötnum.

Landupplýsingar og álitamál þeim tengdum eru fyrirbæri sem líklega hvíla ekki þungt á herðum landsmanna enda þarf enginn á aðstoð hins opinbera að halda á því sviði. Ástæðan er sú að löngu áður en að hið opinbera gafst upp á að selja úrelt kort unnin af dönsku og bandarísku herforingjaráðunum, höfðu einkaaðilar þegar fyllt upp í skarðið með nýjum kortagrunnum. Meginatriði málsins er vitaskuld að þegar réttir kortagrunnar og kort eru til staðar er jú engin þörf á röngum tja, nema í sjálfhverfum ríkisrekstri.

Fyrir nokkrum árum gerði einkafyrirtækið Loftmyndir ehf. allnýstárlegt tilboð til hins opinbera sem flestir myndu álíta að væri af þeirri gerðinni sem ekki væri hægt að hafna. Alls hljóðaði tilboðið upp á að Loftmyndir tækju yfir allan rekstur og skuldbindingar Landmælinga Íslands en gæfu nýjan og réttan, kortagrunn af öllu landinu almenningi til afnota endurgjaldslaust.

Á þessum tíma þótti sýnt að þrátt fyrir kr. 270m framlög hins opinbera á hverju ári til hinnar þarflausu stofnunar myndi hún aldrei geta skilað af sér nothæfum kortagrunni. Landmælingar Íslands eru í raun óskiljanlegt dæmi um hvernig hið opinbera getur safnað um sig óþörfum stofnunum sem engum afrakstri skila. Hvað myndu menn segja ef Veðurstofan hvorki mældi veður né miðlaðið veðurspám?

Þó að tilboð Loftmynda hafi hljóðað upp á 50% lækkun útgjalda hins opinbera, þótti það ekki svaravert af stjórnmálamönnum. Nú hinsvegar bregður svo við að þó að afraksturseymd stofnunarinnar blasi við, flytur núverandi umhverfisráðherra frumvarp um að nú skuli gefið í, lögum breytt og skuli stofnunin gera nýjan kortagrunn í samkeppni við þá sem fyrir eru á markaði. Röksemdir með frumvarpinu eru með því kostulegra sem sést hefur, hinn nýji kortagrunnur á ekki að kosta neitt, hvorki skattgreiðendur eða notendur og tvíverknaðurinn skal fyrirbyggja tvíverknað!

Landupplýsingaþekjur

Landupplýsingagrunnur inniheldur lagskipt gögn með upplýsingum sem teiknuð eru upp úr þrívíddarmyndkortum. Dæmi um afleidd gögn eru t.d. vegakort/ferðakort af afmörkuðum svæðum, hvort heldur er útprentað eða á stafrænu formi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur