Laugardagur 10.06.2017 - 09:02 - FB ummæli ()

Ríkisverslun

Margir aðdáendur ríkiseinokunarverslunar telja að einungis slíkt verslunarform tryggi lágt verð og gott úrval. Þó hefur engum dottið í hug að leggja niður Samkeppniseftirlitið sem er jú einmitt ætlað að fyrirbyggja slíka starfsemi. Það er því athyglisvert þegar stjórnendur ÁTVR játa að þeir hafi ekkert með vöruverðið að gera og reyndar liggur í hlutarins eðli að þeim stendur alveg á sama!

Ekki stendur á fagurgalahætti ÁTVR þegar kemur að þokuhugtakinu ,,samfélagsleg ábyrgð“ en slíkt ákvæði í lögum tryggir stjórnendum stofnunarinnar ánægjulegt þotulíf um heiminn á ráðstefnur um efnið, m.a. til Argentínu og Chile til að kanna hvort þarlendir verkamenn vínbúgarða væru í verkalýðsfélögum.

Nú vill svo til að áfengi og tóbak er undirliður í vísitölu neysluverðs sem stýrir verðtryggingu á um 2.500 milljörðum sem landsmenn skulda verðtryggt. Hver prósenta til lækkunar vísitölunnar hefur því í för með sér 25 milljarða ábata fyrir skuldara. Tjón samfélagsins af rekstri ÁTVR er því ekki bundið við þá 2,5 milljarða sem reksturinn kostar auk óhagræðis fyrir neytendur. Nú hefur komið í ljós að einokunarverslunin hefur í för með sér verulega skerðingu á kaupmætti auk hækkunar á verðtryggðum skuldum.

Öllum ætti að vera ljóst að ríkisverslun og áfengi fara enn síður saman heldur en akstur og áfengi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur