Laugardagur 28.10.2017 - 11:06 - FB ummæli ()

Opið bréf til Ragnars Kjartanssonar

Sæll Ragnar. Mér finnst þú ekki bara frábær listamaður heldur afskipti þín af stjórnmálum einhver þau skemmtilegustu frá því að Jón Gnarr var og hét sem hugsjónamaður.

Þú ert í framboði fyrir VG og styður í verki tillögur flokksins um aukin afskipti hins opinbera af öllum lífsháttum landa þinna auk hærri skatta og jöfnunar ofan frá sem er vel enda treysti ég engum betur til að stjórna mínum lífsháttum í framtíðinni en einmitt Steingrími J Sigfússyni. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að þú sért sammála stefnu flokksins í fortíð jafnt sem framtíð og sért því einlægur andstæðingur litasjónvarps, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og bjórsins en myndir glaður styðja nýja aðildarumsögn að ESB og leggja nýjar ,,Icesave“ byrðar á almenning færi svo að sambærilegar kröfur byðust utan úr heimi sem tryggt gætu inngöngu. En framtíðin er víst ekki eins og hún var og efni þessa bréfs varðar einmitt tillögur að réttlátara samfélagi sem mér finnst að ykkur í VG hafi yfirsést.

Almennt leggja vinstri menn ekkert til atvinnuuppbyggingar eða hagvaxtar heldur verja sér hlutverk afætunnar, sníkjudýrsins sem nærist á afrakstri þess sjálfsaflafjár sem fólk vinnur sér inn – en ekki þú sem ert búinn að meika það big time, jafnt innanlands sem utan. Maður eins og þú sem ert sannanlega komin með það sem vinstri menn kalla ,,ofurtekjur“ af afrakstri þinnar vinnu ert jafnframt orðin meinsemd í þjóðfélaginu að mati þinna skoðanabræðra, svona svipað og dúkkulísudæmið þarna á Ísafirði sem er að rústa Gini stuðlinum um gervalla Vestfirði.

Af einhverjum ástæðum hefur vinstri mönnum yfirsést að leggja virðisaukaskatt á list auk þess sem listaverk hafa verið undanþegin auðlegðarskatti (ætti með réttu að heita útlegðarskattur) og veit ég að þú myndir vilja efla þann ,,tekjustofn“ sem hið opinbera hefur misst af, er það ekki annars?

Jöfnuður innan listageirans er einnig gríðarlegt vandamál, ekki bara heilt yfir heldur líka kynbundinn. Myndir þú ekki styðja að tekin yrði upp jafntekjuvottun hjá listamönnum eins og í öðrum greinum?

Nú er svo komið að hróplegt óréttlæti er til staðar þar sem einungis hinir efnameiri geti keypt þína list, nokkuð sem kalla mætti skandinavískann sársauka í því norræna velferðarkerfi sem þið í VG viljið skapa. Væri ekki  ráð að fyrir hvert listaverk sem þú seldir, myndirðu ánafna öðru til þeirra efnaminni án endurgjalds?

En yfir á grænu hliðina. Við vitum að þið í VG viljið græða á daginn og grilla á kolagrilli á kvöldin. Ég veit jafnframt að við erum sammála um að af þeim 9.500 milljónum sem þið höfðuð af samlöndum okkar (öðru nafni skattstofnum) var listilega vel varið í að tryggja gróðann af  málmbræðslunni á Bakka til erlendra eigenda.

En af einhverjum ástæðum eru kol undanþegin kolefnisgjaldi þó að kol séu almennt álitin það eldsneyti sem veldur verstri mengun og því engin ástæða til að ,,láta náttúruna njóta vafans“. Við vitum þó auðvitað báðir að það á ekki við um Húsavík enda ,,engin sem lítur á Bakka sem stóriðju“ eins og hún Skatta Kata réttilega sagði.

Árlega eru flutt inn 120.000 tonn af kolum án kolefnisgjalds og mun Bakki einungis bæta 60.000 tonnum þar við í fyrsta áfanga. Þó að við vitum að þið í VG viljið alls ekki skattleggja stóriðjuna, en hvað með kolin sem fara á kolagrillinn ykkar á milli þess sem þið græðið landið, vantar ekki einhvern norrænan sársauka til að draga úr þeim ósóma?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur