Fimmtudagur 19.05.2011 - 21:27 - 1 ummæli

ÍLÁT ER TAKMARKAÐ

Okkar Laugarvegur þar sem við reynum að skilja. Sumir ganga alla leið og eru sáttir, aðrir setjast á krá og fara þaðan aldrei og enn aðrir ganga búð úr búð og það er þeirra líf. Svo eru það þeir sem horfa til himins annað slagið og fylgjast með skýjafari og anda djúp. Annað slagið ber skugga á. Skyndilega skellur sólin á hvítum vegg og sumir staldra við og láta sólina verma sig, fagna og hugleiða jafnframt vegferð sína.

Vegferð mín hefur kennt mér að ég er takmarkaður. Ég skil ekki allt og kann ekki allt og þess vegna finnst mér erfitt að varpa fram skoðunum án rannsóknar. Mér finnst gott að geta varpað fram skoðunum til rannsóknar, þannig að aðrir eigi tækifæri á því að gera á þeim bragarbætur eða jafnvel hafna þeim. Þess vegna finnst mér hin ríka krafa um fullvissu svo merkileg í okkar þjóðfélagi. Stjórnmálamenn senda frá sér skilaboð um fullvissu og óskeikula afstöðu. Fjölmiðlamenn ræða við stjórnmálamenn á sömu nótum. Fjölmiðlamenn láta stjórnmálamenn standa við orð sín með því að bera saman orð þeirra nú og fyrir nokkrum dögum, mánuðum eða árum. Það er eins og hvorugur þroskist. Orðræðan er oftar en ekki skylmingar með staðreyndum í stað þess að hún ætti að vera um óvissuna og mögulega þekkingu; um leitina að sannleikanum.

Almenningur veit að maður þroskast. Við þroskumst að vísu í kringum einhvers konar vitund eða skilning og vilja um þjóðfélag okkar sem umgjörð um persónulegt líf. Það er merkilegt að einstaklingar skuli þroskast á lífsgöngu sinni en ekki þjóðfélagið. Það er einhvern veginn eins og það þurfi að endurfæðast í sífellu, sé alltaf ungt í einhverjum skilningi. Kannski er það vegna þess að það er alltaf yngra fólkið sem stjórnar samræðu samfélagsins. Ef til vill stafar þetta af því að kynslóðirnar tala ekki saman og læra. Við teljum okkur gera gömlu fólki gott með því að setja það til hliðar fremur en að hafa það hjá okkur svo við getum skynjað lífsþroska þess og drukkið skilningsdrykkinn með því.

Þegar ég var ungur þá var ég hvass, hvatvís, vissi allt, kunni allt og skrifaði þjóðfélagsgagnrýni sem kallar fram hroll í mér í dag. Þegar maður er ungur þá getur maður allt, er ódauðlegur og sú afstaða gerir okkur miskunnarlaus og bókstarfstrúar á eigin getu. Nú veit ég betur og er þeirrar skoðunar að ég sé eins og kínverski tebollinn minn með lokinu. Bollinn er skreyttur bláum drekum og það er lokið einnig. Drekarnir halda manni föngnum og takmörkuðum. Konfúsíus segir að menn séu ílát og ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér. Ég held að ég sé takmarkað ílát með loki og þess vegna veit ég að eina leiðin til að sigrast á drekunum sem halda okkur fávísum sé að kalla yfir hrygginn á þeim til annarra.

Við ílátin getum frelsað okkur undan drekum fávísinnar með samræðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur