Þriðjudagur 02.12.2014 - 22:34 - Rita ummæli

HUGLEIÐING UM HUGLEIÐINGAR UM GAGNRÝNA HUGSUN

Hugleiðing í upphafi málþings í Hannesarholti um bókina „Hugleiðingar um gagnrýna hugsun“ eftir þá Henry Alexander Henrysson og Pál Skúlason.

2. desember 2014

 

Ágætu gestir, ágætu höfundar

Mér er mikill heiður sýndur með því að vera beðinn um að ávarpa fundinn og takk fyrir það.

Ég varð undrandi þegar Henry fór þess á leit við mig að ég segði hér nokkur orð í tilefni af útgáfu þessarar bókar, því að hvað veit ég „fræðilega“ um gagnrýna hugsun – auðvitað ekki neitt. Kannski er það mikilvægt vegna þess að bókin á erindi við alla. Ég vil taka fram í upphafi að ég er fyrst og fremst leikmaður – ég er skólastjóri í grunnskóla.

Hvers vegna vilja höfundar að við séum gagnrýnin og að við stundum gagnrýna hugsun?

Það er sjálfsagt vegna þess að það eru meiri líkur en minni á því að mannsandinn, samfélag manna, læri og þroskist með gagnrýninni hugsun þannig að heimur okkar verði betri. Við náum betri tökum á náttúrunni sem nærir okkur, betri tökum á tækninni til að auðvelda okkur lífið og betri tökum á hugsunum okkar og ígrundunum um hvort tveggja og síðast en ekki síst betri tökum á okkur sjálfum.

Mikilvægi gagnrýninnar hugsunar virðist vera nokkuð sjálfgefin. Ef þessi sannindi væru að renna upp fyrir okkur í kvöld myndum við hlaupa út í nóttina hrópandi af ánægju yfir því að hafa fundið sannleikann. Gagnrýnin hugsun er ekki ný sannindi en fyrir þau sannindi skiptir máli að fá í hendurnar bók sem veldur því verkefni vel að gera okkur að gagnrýnni hugsuðum. Bókin er mikilvæg vegna þess að íslenskan verður að eiga marga og vel skrifaða texta um gagnrýna hugsun til þess að rækta tungutakið. Bókin er mikilvæg varða á þeirri vegferð sem hin menntaða vitund okkar er á.

Fyrir mér hefur gagnrýnin hugsun fjórar hliðar. Í fyrsta lagi finnst mér gagnrýnin hugsun vera aðferð hugans, tegund af hugartækni eða hugarleikni. Í öðru lagi finnst mér hún vera afstaða. Í þriðja lagi tel ég að gagnrýnin hugsun geti verið menningarfyrirbrigði. Í fjórða lagi virðist gagnrýnin hugsun snúast um spurningar.

Ég leyfi mér að halda því fram að ólík tungumál feli í sér mismunandi tæki til gagnrýninnar hugsunar. Ólík tungumál og þá ólík menning tekur mannheima ólíkum tökum og þá getum við spurt okkur hvort íslenskan dugi til gagnrýninnar hugsunar. „Hugleiðing um gagnrýna hugsun“ er vel skrifaður, skýr og skiljanlegur texti sem rennur um hugann sem tær lækur. Vitundin er farvegurinn sem textinn rennur um, rífur úr bökkunum og þyrlast um stiklur.

Erindi bókarinnar er að bæta menntun og það mun hún gera. Bókin gerir það sama fyrir gagnrýna hugsun og ritgerð Þórbergs Þórðarsonar „Einum kennt, öðrum bent“ gerði fyrir íslenskan stíl. Þórbergur tók Hornstrendingabók og rakti sig í gegnum textann, skilgreindi og gaf tilteknum stílvillum heiti, þannig að menn gætu skrifað betri, skiljanlegri og skýrari íslenska texta.

Lestur  „Hugleiðinga um gagnrýna hugsun“ vekur upp hugrenningatengsl við þá orðræðu sem fram fer í samfélaginu í dag. Stundum er svo að erfitt er að halda athygli við lesturinn. Ég held þess vegna að ekki sé endilega mikilvægt til að njóta bókarinnar að lesa hana frá upphafi til enda í einu lagi því að flestir kaflar standa sjálfstæðir sem útleggingar á tilteknum innihaldsríkum hugleiðingum. Það er jafnvel svo að hægt er að klippa textann í sundur í margar fullyrðingar sem standa fullkomlega sjálfstæðar sem athugsemdir um hugsunina, venjur hennar, íhaldssemi, fordóma og rökvillur. Hugsun sem er í leit að sannleika bæði um innri sem ytri veruleika okkar.

Nú þegar ætti bókin að vera gagnleg fyrir blaðamenn og stjórnmálamenn, einnig fræðimenn sem hyggjast móta texta fyrir ungt fólk í grunnskólum og framhaldsskólum til að þjálfa gagnrýna hugsun. Reyndar hlýtur hún að ganga sem texti fyrir nemendur í framhaldsskólum. Þá er ég þeirrar skoðunar að allir kennarar, hvaða aldri sem þeir sinna í starfi sínu ættu að lesa og hugleiða með bókinni því að gagnrýnin hugsun á erindi við alla sem nema. Almenningur sem hefur ánægju af því að hugleiða lífið og tilveruna getur sótt efnivið í bókina sem er uppfull af tærri hugsun um flest það er sækir á hugsandi gagnrýna menn.

 

Hvert er verkefnið sem fyrir okkur liggur og hvers vegna er brýnt að gera gagnrýnni hugsun hærra undir höfði? Það er sem betur fer á dagskrá í menntun barna og ungmenna á Íslandi og um allan hinn vestræna heim. Ný aðalnámskrá snýst um að við eigum að hjálpa börnunum til að verða hæfir einstaklingar. Við eigum að leggja þekkingu og leikni til grundvallar hæfni nemendanna. Þegar aðalnámskrá grunnskóla er lesin sést að yfirheiti þorra hæfniviðmiða er gagnrýnin hugsun.

 

Menning vesturlanda er orðin meðvituð um mikilvægi þess að leggja áherslu á hæfni í stað þess að leggja áherslu á tiltekna þekkingu. Gæði hugsunarinnar um veröldina er komin í staðinn fyrir magn staðreynda. Þannig gerir ný aðalnámskrá kröfu um að við kennum gagnrýna hugsun.

 

Við eigum að færa okkur frá mikilvægi þekkingar yfir í mikilvægi hæfni en er íslenskan fær um að vera gagnrýnin? Er menning okkur fær um að vera gagnrýnin? Hvað segir dægurumræðan ykkur um gagnrýna hugsun?

 

Ég ætla að vitna í tvö skáld. Skáld hugsa djúpt af því að þau lifa í vitund sinni sem oft reynist jafnframt vera vitund þjóðarinnar hjá góðum skáldum.

 

Hallgrímur Helgason minnist á íslenska tungu í skáldsögunni „Konan við þúsund gráður“ sem út kom árið 2011:

 

„Við Íslendingar erum hins vegar eina þjóð heimsins sem tignaði svo mál sitt að hún kaus að nota það sem minnst en varðveita ósnert líkt og helgan og eilífan þjóðarmeydóm. Þess vegna er íslenskan óspjölluð mey á sjötugsaldri…(síðar).. Íslensk þagnahefð er því samofin íslenskri sagnahefð“

(Konan við 1000° bls. 82. Hallgrímur Helgason 2011)

 

Halldór Laxness talaði um vandamál skáldskapar á fundi hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur 1954 og þar segir hann á einum stað:

 

„Íslenskur hugsunarháttur hneigist lítt til heimspeki, að minnstakosti er hann fjarri allri heimspekilegri reglu, vér erum eins og þér vitið í fyrsta lagi sagnaþjóð og höllumst að áþreifanlegum hugmyndum; vér semjum dæmisögur úr tilveru okkar. Má einnig vera að of vindasamt sé á Íslandi til þess að mönnum sé  freisting í að setjast niður í makindum og skoða á sér naflann; en það er altaf gaman að góðri sögu, ekki síst þegar stormurinn bylur á þekjunni.“

(Dagur í senn. Vandamál skáldskapar á vorum dögum. 1954)

 

Nú verður það ekki sagt um íslenskuna að hún hafi ekki nýst vel í heimspeki í nokkra áratugi en spurningin sem vakir yfir er þessi; Hvað þarf að beita tungumáli lengi á engjar gagnrýninnar hugsunar og heimspeki svo það fitni? Hin spurningin er hvort að við séum ekki bara fyrst og fremst sagnaþjóð eins og skáldin segja? Það merkilega er að ég get lagt inn svar við síðari spurningunni og svarið tengist einmitt mikilvægi þess að hefja gagnrýna hugsun til vegs í menntakerfinu.

Síðasta vetur höfðu Íslendingar áhyggjur af unglingunum okkar í Pisa. Nú hefur verið rannsakað hverjir séu styrkleikar og veikleikar þeirra í prófinu. Styrkleikar unglinganna okkar í læsi 2009 eru tengdar frásögnum af persónum. Það sem þeim finnst erfitt eru textar með lýsingum þar sem starf eða samfélag er samhengið.

Í frásögn af örlögum einstaklinga fylgjum við söguþræði og spyrjum einskis nema um örlög sögupersónanna en annað gildir um upplýsandi og fræðandi texta. Þeir eiga að vekja okkur löngun til að vita meira og spyrja hvers vegna. Þannig eru slíkir textar fremur uppspretta gagnrýninnar hugsunar því að þeir eru í langflestum tilfellum að setja „manninn“ á svið. Þannig eru vísindatextar að segja okkur eitthvað um eðli náttúrunnar sem við mennirnir erum í og sagnfræðitextar setja okkur mennina í sögulegt samhengi í mannkynssögunni.

 

Það eru óplægðir akrar fyrir fræðilega og lýsandi texta sem gefa tilefni til gagnrýninnar hugsunar. Við erum stödd á tímamótum og nú verður að gera eitthvað. „Hugleiðingar um gagnrýna hugsun“ kemur út á réttum tíma.

Bókina þyrfti að gefa út á góðum pappír og innbundna með gylltum stöfum og leðurkjöl, þannig að hún gæti staðið falleg og áberandi í hillu og legið opin á hvaða opnu sem væri á borði til ígrundunar þeim er nytu hennar. Hún mætti jafnframt vera með góðum spássíum, þannig að skrifa mætti snyrtilegar athugasemdir með blýanti því að textinn kippir stöðugt í vitundarspotta og lætur hugann spinna nýjar hugmyndir og vekur spurningar sem skipta máli.

 

Það er eitt „að“ í þessari bók sem á ekki að vera og það er á bls. 47 og það er það eina sem ég finn að þessari bók.

 

Það er sem sagt einu AÐ-I ofaukið

 

Takk fyrir,

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur