Fimmtudagur 05.05.2016 - 12:36 - 2 ummæli

RÍKIÐ

Öll ríki eru tegundir af samfélögum og öllum samfélögum er komið á til að gera eitthvað gott, vegna þess að mannkynið reynir ætíð að gera það sem það telur að leiði til góðs. En ef öll samfélög stefna að gæðum, þá hlýtur stjórnmálalegt samfélag sem er æðst þeirra að vera umfram önnur í því að stefna að æðstu gæðum. (Aristoteles) *

Ríki hafa ekki myndast fyrir tilviljun og viðhald þeirra ekki heldur. Við sem einstaklingar viljum vera þegnar í ríki. Við viljum tilheyra ríki vegna þess að við vitum að þannig hámörkum við velsæld okkar. Án skipulegs samfélags værum við í stöðugu stríði, eins og þegar dýr merkurinnar keppa um bráð. Samfélag er hópur fólks sem hefur komið sér saman um verkaskiptingu og sérhæfingu til þess einmitt að vinna að velsæld sinni og afkomenda sinna. Þannig getur leikskólakennarinn jafnt sem iðnrekandinn sérhæft sig og báðir notið góðs. Með þessum hætti leiðir samfélag til góðs og samfélag sem er meðvitað stjórnað til að ná tilteknum markmiðum eða árangri fyrir einstaklinga þess er betra og æðra. Aristoteles er einmitt að benda á að samfélag sem er stjórnað skipulega og meðvitað er betra en önnur samfélög. Hann kallar þetta í minni þýðingu stjórnmálasamfélag. (political community)

Ríki er hægt að grundvalla á hefðum og siðum en einnig á formlegum yfirlýsingum sem við köllum stjórnarskrár. Það eru til  ríki sem hafa ekki stjórnarskrá svo sem Bretland, Nýja Sjáland og Ísrael. Ísland fékk stjórnarskrá frá danska kónginum á 19. öld. Við tókum merkilegt skref í átt að nýrri stjórnarskrá með tillögu stjórnlagaráðs frá 2011 sem þjóðin hefur samþykkt að lögð verði til grundvallar í frekari vinnu. Í stjórnarskrá eru þau atriði talin upp sem þjóðin leggur hamingju sinni og velsæld til grundvallar, hvað varðar stjórnskipan og gildi.

Við viljum að stjórnarskráin lýsi þeim leikreglum sem á að fara eftir í lýðræðisríkinu Íslandi. Það er ekkert undur að um slíkt geti ríkt ágreiningur enda er ekki líklegt að hægt sé að setja saman sáttmála um samfélag þar sem allir þegnarnir geti hámarkað hagsmuni sína. Það virðist vera einkenni á eðli manna eins og dýra að hver og einn vill tryggja sína einkahagsmuni og því aðeins samþykkja sameiginlega hagsmuni að þeir stuðli að einkahagsmunum viðkomandi. Svo kann að vera að einstök samfélög eða ríki séu þroskaðri en önnur, þannig að menn sjái fleiri einkahagsmunum fullnægt með því að tryggja sameiginlega hagsmuni. Kannski geta menn komið sér saman um skipulag sem hámarkar velsæld allra.

Frumvarp Stjórnlagaráðs frá 2011 fjallar um hugmynd Aristotlesesar um eðli og markmið ríkisins eins og hún birtist í tilvitnun minni hér að framan. Í frumvarpinu er útfærð skipan sem á að tryggja sameiginlega hagsmuni og velsæld okkar sem þjóðar og er þar lagður mikilvægur nýr grunnur að framtíð íslenska ríkisins. Mig grunar hins vegar að okkur beri að sjá nútíma ríkið, Ísland, með öðrum og víðtækari hætti. Ég tel að við lifum og störfum í stjórnmálasamfélagi eins og ég hef verið að lýsa en það  hefur orðið eðlisbreyting á samfélagi okkar, því að við erum ekki bara undirseld stjórnmálasamfélaginu í lífi okkar og störfum.

Sú klisja að fjölmiðlar séu fjórða valdið í ríkinu þroskaðist í orðræðu á síðari hluta 20. aldar á svipuðum tíma og pappírsfjölmiðlar urðu sjálfstæðari en áður og óháðari stjórnmálum. Lengi vel voru fjölmiðlar hluti af stjórnmálavaldinu og þar með hluti af stjórnmálasamfélaginu. Enn eru þar sterkar tengingar og jafnframt hefur vald þeirra aukist. Við erum einnig með fjölmiðla sem við köllum samfélagsmiðla og eru einkafjölmiðlar hvers þjóðfélagsþegns. Þannig getur einstaklingur í dag náð eyrum allrar þjóðarinnar á dagparti ef hann hefur nægilega krassandi upplýsingar. Opinber fjölmiðill setti forsætisráðherra þjóðarinnar af á nokkrum dögum nýlega sem sýnir hvert vald fjölmiðla getur verið við tilteknar aðstæður. Fjölmiðlar eru ekki fjórða valdið eins og klisjan segir. Sú hugsun gefur í skin að þeir séu fjórða valdið í þrískiptingu ríkisvaldsins.  Fjölmiðlar eru sjálfstætt vald og eru að mestu óháðir stjórnmálum þegar allar gerðir þeirra eru teknar saman og þá sérsaklega ef við lítum á að hver og einn þegn sem heldur úti samfélagsmiðli sé tegund af fjölmiðli. Fjölmiðlar eru sem sagt þegar orðnir sérstakt vald sem hafa afgerandi áhrif á framvindu samfélagins. Þannig getum við sagt að samfélagið sem við lifum í búi við stjórnmálavald og fjölmiðlavald sem ræður hamingju okkar og velsæld. Þetta dugar samt ekki sem skýring á því hvað ræður framvindu íslensks samfélags.

Eitt vald enn hefur ekki verið talið hér, er fjármálavaldið. Við sjáum á atburðum síðustu vikna að fjármálavaldið lifir sjálfstæðu lífi. Þeir sem eiga peninga segja sig úr lögum við samfélagið og telja sig hafna yfir samfélagssáttmálann (stjórnarskrá). Þeir telja sig sem sagt ekki vera undirselda stjórnarskrá, lögum og siðferði landsins. Hér að framan tók ég dæmi af leikskólakennara og iðnrekanda. Gagnvart fjármálavaldinu gætu leikskólakennarinn og iðnrekandinn verið samherjar því að iðnrekandinn þarf fólk og tæki og markað til að selja varning sinn og getur því ekki sagt sig úr lögum við samfélagið eða það eðlilega samhengi sem myndar samfélagið. (Þegnar leggja í sameiginlegan sjóð til að standa að nauðsynlegum sameiginlegum verkefnum – menntun, heilbrigið, samgöngum og svo frv.)

Iðnrekandinn stjórnar að öllum líkindum fyrirtæki sem er í eigu hluthafa og þar gætu línurnar orðið óskýrar. Fjármálavaldið lifir sjálfstæðu lífi fyrir utan veruleika venjulegra manna og þess sem þeir taka sér fyrir hendur í daglegu lífi. Í bók sinni „Other peoples money“ lýsir John Kay þeirri eðlisbreytingu sem orðið hefur á samfélaginu á tuttugustu öld. Hann segir sögu fjármálavæðingar (financialization) samfélagsins sem er sérstaklega áberandi frá um 1980 til okkar daga. Fjármálavæðingin hefur skilað okkur því að örfá prósent manna á jörðinni á næstum allt sem hægt er að eiga og þetta á einnig við á Íslandi. Misskiptingin sem af þessu hlýst er því orðinn stórkostlegur vandi í heiminum. Fjármálavaldið hefur afgerandi áhrif á hamingju og velsæld hins venjulega manns.

Fjármálavaldið hefur orðið áberand á Íslandi sem gerandi í samfélagslegri framvindu á sama tíma eins og annars staðar í heiminum. Það nær að blómstar hér með aðkomu tiltekinna stjórnmálaflokka sem tengdust því og nærðu það með stjórnvaldsákvörðunum og starfsemi sinni. Þessir stjórnmálaflokkar eru  Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og einnig Samfylkingin að minnsta kosti fyrir hrun. Píratar eru greinilegt mótvægi þar sem áherslur þeirra eru fyrst og fremst umbætur til að auka áhrif þegnanna yfir eigin lífi, hamingju og velsæld. VG er einnig í andstöðu við fjármálavaldið, sjálfsagt bæði af lýðræðislegum ástæðum og vegna hugmyndafræðilegrar sögu sinnar.

Það er rétt sem margir segja að hægri vinstri pólitík sé ekki til lengur en skýringin liggur í þeim eðlisbreytingum sem orðið hafa. Átakalína stjórnmálanna er ekki um hægri vinstri eða miðju. Stjórnmálavaldið dugar ekki lengur til ákvarðana um samfélagsgerðina og framvindu samfélagsins. Átakalínan er um lýðræði og almannavald annars vegar og fjármálavaldið hins vegar. Samfélagið býr við þrjú valdakerfi sem er stjórnmálavaldið, fjölmiðlavaldið og fjármálavaldið. Nú þurfa stjórnmálaflokkar að koma sér upp skýrum línum um hvar þeir standa í þeirri baráttu sem í hönd fer.

Ásgeir Beinteinsson

*Every state is a community of some kind, and every community is established with a view to some good; for mankind always act in order to obtain that which they think good. But, if all communities aim at some good, the state or political community, which is the highest of all, and which embraces all the rest, aims a good in a greater degree than any other, and at the highest good. (Upphaf Politica – eftir Aristoteles.)

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Reynir Eggertsson

    Nákvæmlega. Komandi kosningar snúast um lýðræði öndvert því auðræði sem við búum við. En því miður er það svo að fjórða valdið; aðhaldsvald fjölmiðlanna dugar skammt gagnvart því auðræði sem á mestalla fjölmiðlunina auk þess að hafa geipiatök á ríkisvaldinu og nær alræðisvald í hagkerfinu. Ég tek undir með þér: ,,Nú þurfa stjórnmálaflokkar að koma sér upp skýrum línum um hvar þeir standa í þeirri baráttu sem í hönd fer.“ Lýðræðisflokkarnir öndvert auðræðisflokkunum. Annars er auðræði (plutocracy) eiginlega of kurteislegt heiti á íslensku stjórnarfari þessa daga; ræningjaræði (kleptocracy) væri nær lagi.

  • Reynir Vilhjálmsson

    Þessi pistill Ásgeirs er mjög athygglisverður og ég er að flestu leyti sammála.
    Þó vil ég benda á fáeina hluti:
    Við notum fjölda orða í umræðunni sem erfitt er að festa hendur á. Fyrst af öllu lýðræði. Það er væntanlega þegar lýðurinn ræður. En lýðurinn er öll þjóðin og hún er misleit þ. e. samanstendur af fjölmörgum hópum sem hafa ólíkar skoðanir og hagsmuni. Hvernig eigum við að þekkja vilja hans? Elsta aðferðin er almennar kosningar Þar veljum við menn á þing. (Maður er í mínu orðfæri bæði kvenkyns og karlkyns). Nú virðumst við ekki treysta þinginu, er þá þessi aðferð ónothæf? Beint lýðræði hefur verið mikið rætt en hvernig verður því viðkomið? Ákveðinn fjöldi manna getur krafist þjóaratkvæðagreiðslu. En hver orðar spurningunar sem þjóðin má svara? Og hvað mörg svör eru leyfileg? Þau mega ekki vera of mörg því að hér er um krossapróf að ræða. Sumir hafa velt upp hugmyndinni að velja alþingi með hlutkesti. Væri þjóðin ánægðari með það?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur