Sunnudagur 10.4.2011 - 14:21 - 14 ummæli

Píningsdómur hinn síðari

Diðrik Píning var hirðstjóri og aðmíráll Danakonungs, hann lagði til við Alþingi 1490 að það setti lög um samskipti Englendinga og Hansakaupmanna en langvinnur ófriður hafðiverið á milli þeirra í verslunarviðskiptum við Ísland.

Það er ekkert líkt með þeim píningsdómi sem þjóðin hefur nú yfir sig kallað og þeim sem ég vísa í nema nafnið þó þannig að annar er dreginn af sérnafni hinn af sagnorðinu að pína. Þjóðin hefur dæmt sig til píningar vegna efnahagslegs gjaldþrots þjóðarinnar haustið 2008. Ég held að við verðum að leggjast í greiningu á þessari niðurstöðu til að geta haldið áfram einhverju sem líkist eðlilegu lífi í þessu landi. Mig langar að gera tilraun.

Það er ekki gott að setja sér fyrir hugskotssjónir hvaða hvatir, skoðanir, viðhorf eða afstaða réð ferðinni hjá þeim sem sögðu nei og reyndar ólíklegt annað en að litróf margra möguleika hafi verið til staðar. Það er mikilvægt að vera sanngjarn eða reyna að vera sanngjarn.

  • Einhver hluti hópsins þekkti sjálft málið lítið og lét tilfinningu ráða.
  • Með nei-atkvæði var þá hægt að hefna sín á „þessu liði.“
  • Reiði í garð alþingismanna, yfirvalda og útrásarvíkinga og ástandsins.
  • Málefnaleg rök þar sem viðkomandi trúði því í raun og veru að hann þyrfti ekki ætti að borga.
  • Málefnaleg lagatæknileg rök um að þjóðin ætti ekki að ábyrgjast skuldbindingarnar.
  • Tilfinningarök þar sem viðkomandi vildi ekki „borga fyrir“ útrásarvíkinga.
  • Stjórnmálalegar hvatir þar sem viðkomandi telur í lagi að beita öllum brögðum til að klekkja á „vonlausri“ ríkisstjórn.
  • Berja á heimskapítalistunum sem ætla að láta skattborgarana bjarga sér.
  • Lögfræðileg afstaða sem er mjög ríkjandi í umræðu á Íslandi. „Að vera ekki sekur nema að viðkomandi hafi verið dæmdur.“
  • Það sem gegnsýrir afstöðu þjóðarinnar og margra forystumanna hennar er að það sem er löglegt sé í lagi þó að það sé siðlaust.

Rök um fjölmiðlun. Nei-hópurinn hafði greinilega sterkari bakhjarl í góðu auglýsingafólki. Herferðin var faglega unnin og markviss. Forystumenn nei-hópsins voru alltaf vel undirbúnir og komu yfirleitt betur út í fjölmiðlum. Ákafi þeirra var meiri en já-manna einhverra hluta vegna. Trúlega vegna þess að já-menn voru með óbragði munni af þessu óheillamáli. Ábyrgir forystumenn í ríkisstjórn, atvinnurekenda og launþegahreyfingar svo ekki sé talað um aðra áberandi og skoðanamyndandi einstaklinga, komu seint fram og fylktu sér ekki nægilega á bakvið já-ið. Nei-menn voru tilbúnir með „fjölmiðlabita“ sem allir skildu, hömruðu þá inn og þeir byrjuðu á undan já-mönnum að koma málstað sínum fram. Trúlega var það vegna þess að þeir voru undir í skoðanakönnunum í upphafi.

Ég held að þjóðin sé ennþá í hrunshamnum sem lætur hana hefna sín á „liðinu“ með því að kjósa „Besta flokkinn“ í Reykjavík svo dæmi sé tekið og nú að segja nei við Icesave. Hún er enn í sorgarferli og hefur ekki tekist á við hinn eiginlega vanda sem liggur djúpt í þjóðarsálinni. Ekki get ég verið ósáttur vegna slíkra tilfinninga og hvata enda hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar; sem gerðist vegna afskiptaleysis stjórnvalda, klappi og húrrahrópum almennings og fjölmiðla með forsetann í fylkingarbrjósti. Þetta hlýtur að hvíla á samvisku forsetans. Þjóðin lætur forseta Íslands síðan klappa sig áfram inn í sjálfspíningu vegna samviskubits hennar og forsetans. Hún hefur sem sagt dæmt sig til píningar vegna vanhæfni sinnar til að sjá í gegnum siðleysið og glóruleysið sem gegnsýrði hinn svokallaða uppgang. Ekki ætla ég að halda því fram að ég hafi verið vitrari en aðrir á hinum svokallaða uppgangstíma. Ég undraðist allt sem ég sá og heyrði, hafði orð á því en ekki vit til að sjá samhengið eða andæfa. Mig langar hins vegar ekki til að berja mig með gaddasvipu til að pína mig vegna þess. Maður á að geta lært án þess að ganga svipugöng. Meirihluti þjóðarinnar hefur hins vegar dæmt alla Íslendinga í þessa píningu. Hver er svo þessi píning?

  • Það pínir að þjóðin skuli standa að þeim siðlausa gerningi að neita að borga réttláta skuld. (Í þeirri merkingu að bera ábyrgð á skuldinni.) Hún er réttlát vegna þess að Landsbankinn hafði sömu lögsögu í Reykjavík, á Akureyri, í London og í Amsterdam. Þegar íslenska ríkisstjórnin ákvað að tryggja innstæður Landsbankans upp í topp þá gilti það um „Landsbankann allan“. Það var nauðsynlegur vinargreiði hjá Englendingum og Hollendingum að greiða þessa skuld fyrir okkur og vera síðan tilbúnir til að semja um sanngjarnar endurgreiðslur; að vísu var það með nokkrum atrennum en samt svo.
  • Það er píning að þjóðin skuli ekki sjá að með nei-afstöðu til þessa máls þá sýnir hún siðleysi í samskiptum þjóða og gagnvart þeim þúsundum einstaklinga sem lögðu peninga sína í íslenskan banka á erlendri grund í góðri trú.
  • Það pínir að þjóðin hefur gert rétt kjörin stjórnvöld allt frá hausti 2008 til dagsins í dag að ósannindamönnum vegna þess að þau geta ekki staðið við loforð og yfirlýsingar í alþjóðlegum samskiptum. Hvað segir það erlendum ríkisstjórnum og þjóðum um Íslendinga?
  • Það pínir að þjóðin skuli ekki vilja semja um réttláta niðurstöðu en í staðinn vilja láta dæma sig til að gera rétt.
  • Það pínir að þjóðin skuli setja kjarasamninga út af sporinu og auka þannig birgðar almennings með óvissu og líklega verulegri kjararýrnun.
  • Það pínir að opinberar aðilar og hálfopinberar stofnanir muni nú ekki fá fyrirgreiðslu vegna þessarar niðurstöðu til endurfjármögnunar og mögulega til nýrra fjárfestinga.
  • Það pínir að þjóðin skuli vera tilbúin til að framlengja kreppuna um nokkur ár.
  • Það pínir að þjóðin skuli lúta forystu forsetans sem klappaði okkur niður í þessa „helvítisgjá“ eins og læmingja. (Það mun reyndar vera þjóðsaga um læmingja að þeir fari í hópum og fremji sjálfsmorð, svo þeir njóti nú sannmælis.)

Þetta er píningsdómur hvernig svo sem allt veltur. Þjóðin hefur dæmt sig til píningar. Þegar menn pína sig þá gera þeir það til iðrunar og kannski til að læra og til að skilja sjálfa sig betur. Verði sú raunin þá mun þessi píningsdómur verða til góðs. Það er sjálfsagt bara táknrænt að veðurguðirnir skuli nú gráta með okkur og blása á húsin okkar svo hriktir í.

Ásgeir

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2011 - 10:28 - 6 ummæli

Kannski er nei betra en já!

Ástandið verður áfram svipað og það er núna.

Skattpeningar ríkisins og sveitarfélaga lækka sem kennir hinu opinbera ráðdeild.

Ríkið verður að draga enn frekar saman seglin og hættir því að stækka.

Sveitarfélög verða sameinuð til að tryggja betri nýtingu fjármagns til að geta borgað niður skuldir með skattfé í stað erlendra lána.

Komið er í veg fyrir að óreiðuskuldir Orkuveitu Reykjavíkur verði framlengdar þannig að Reykvíkingar fá enn frekari tækifæri til að greiða skuldirnar niður.

Þjóðin getur ekki safnað skuldum.

Óþörf neysla minnkar og minna verður sóað vegna minni umsvifa í samfélaginu.

Landsvirkjun fær ekki lán til að virkja þannig að virkjunarhæfar náttúruauðlindir fá að vera í friði.

Atvinnutæki verða áfram í höndum banka og fárra vel stæðra einstaklinga sem kemur í veg fyrir að auðmönnum fjölgi, þannig að tryggt verður að við fáum ekki nýja útrásarvíkinga.

Erlendir eigendur jöklabréfa kaupa upp íslensk fyrirtæki með krónunum sínum þannig að þeir peningar fara þá ekki úr landinu.

Rembingsstuðull og stolt yfir því að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, hreinastir, heiðarlegastir, hamingjusamastir, minnst spilltir, bestu fjármálamennirnir! með mögnuðust menningu miðað við höfðatölu hverfur endanlega úr vitund þjóðarinnar.

Sennilega er bara gott að niðurstaðan verði NEI!

Ásgeir

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.2.2011 - 16:29 - Rita ummæli

STJÓRNMÁLAMAÐURINN SEM DÓ!

Það var frost og moldarblandaður malarstígurinn var hvítfextur á börmum hjólfaranna sem skreyttu hann ormaskrauti. Það ískraði í lúnu og ryðguðu spjótahliðinu þegar ég gekk inn í garðinn sem skildi á milli lífs og dauða. Þarna var Íslendingum raðað ofan í jörðina tilviljunarkennt eins og þeir væru allir jafnir en eina ójafnræðið var fólgið í legsteinunum. Einstaka alþýðumaður er gerður breiðari en annar á kostnað fjölskyldunnar.  Flestir sérkenndir með stuttum minningarorðum eða titli. Ég gekk hægt og virðulega enda varla hægt annað því að stígurinn var svo ójafn að erfitt var að halda jafnvægi á blankskónum. Verkefni mitt á þessum stað var að horfa yfir farinn veg og reyna að skilja. Ég las á legsteinana og gladdist yfir einfaldleika og dramleysi flestra steinanna sem sýndi venjulegt fólk, hverdagshetjur sem höfðu skilað sínu og fengið eftirmæli við hæfi.

(Meistari Zeng sagði: „Það verður að huga vel að útför foreldra og minnast forfeðranna á viðeigandi hátt. Þá hefur alþýðan aftur dygðir í hávegum.“ Speki Konfúsíusar.)

Montsteinar og fullyrðingar um afrek sem voru svo einmanaleg þarna í kirkjugarðinum, þar sem fáir koma, fylltu mig depurð og sorg. Sumstaðar var æðruleysi og auðmýkt hjá þeim sem ég vissi að hefðu unnið afrek og það fyllti mig stolti því að nöfn þeirra voru næg yfirlýsing svo að jörðin virtist heilög og maður laut ósjálfrátt höfði.

Þá kom ég að leiði stjórnmálamannsins. Ég leyfði huganum að reika til baka og setti búta úr ævi hans mér fyrir hugskotssjónir. Ég minntist þess í aðdraganda kosninga einu sinni þar sem hann stóð eins og postulínskrukka ásamt litlum postulínskrukkum sem dönsuðu í kringum hann. Hann hreyfði varla höfuðið þegar hann talaði við hópinn sem sýndi honum áhuga og gleðilæti.

(Meistarinn sagði: „Hefðarmenn eru aldrei ílát.“ Speki Konfúsíusar.)

Alla samkomuna þurfti hann ekki að hreyfa sig því að fólkið kom og malaði í eyru hans á milli þess sem hann tók stórt upp í sig, alhæfði eða sagði brandara á kostnað keppinauta. Hann brosti þegar honum þóknaðist og einstaka sinnum mjakaði hann líkamanum til, þegar jafnstæð krukka ruggaði til hans. Ég man að ég stóð álengdar og velti þessari mynd fyrir mér. Þarna voru flokksmenn hans en um kvöldið átti hann fund með stuðningsmönnum sínum en það var annar hópur og einungis sumir þeirra í flokknum. Þeir skráðu sig samt að hans beiðni til að tryggja að hann kæmist fram fyrir samherjana.

(Meistarinn sagði: „Hefðarmenn ástunda einingu en ekki meting. Smámenni ástunda meting en ekki einingu.“ Speki Konfúsíusar.)

Svo þurfti hann peninga til að standa í kosningabaráttunni og þá voru það vinirnir í bankanum, fyrirtækjunum og þeir sem áttu peninga eða sýsluðu með peninga annarra. Þar dugði brosið og nafnið enda var það þeirra trygging fyrir endurgjaldi þegar þar að kæmi. Allt brambolt hans á postulínsbasarnum snerist um að koma sér á hillu og helst að brjóta hinar krukkurnar.  Að vera á tiltekinni hillu gaf alltaf einhverja möguleika. Allir vissu að þeir voru í postulínsbúð en það var bara enginn fíll. Svo kom fíllinn og allt var búið.

Þar sem ég stóð þarna í kirkjugarðinum og hugleiddi örlög hans þá gekk til mín hrokkinhærður þéttvaxinn maður. Hann gekk hægt og ákveðið. Hann átti líka í vanda með ormskreyttan göngustíginn. Það var eins og búkurinn styddi sig við staura en ekki fætur þegar hann færði sig til. Hann andaði djúpt um leið og hann stansaði og á útönduninni spurði hann hvort að maðurinn væri dáinn.  Ég gat ekki annað en sagt honum sannleikann.

“Hann veit það ekki!”

(Meistarinn sagði: „Sá sem uppgötvar nýja visku með því að endurskoða hið gamla er efni í kennara.“ Speki Konfúsíusar.)

Speki Konfúsíusar. Þýðing Ragnars Baldurssonar. Iðunn, Reykjavík 1989.

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.2.2011 - 19:11 - 2 ummæli

ER TÍKIN PÓLÍ, DAUÐ?

Almúgamaðurinn vaknar snemma morguns við vekjaraklukku. Klukkan getur verið af ýmsum stærðum og gerðum allt eftir smekk og efnahag almúgamannsins. Hann kaupir sér nýja þegar hún bilar og hreyfir þannig efnahagslífið áfram og hluti fjárins rennur til ríkisins. Kannski er vekjaraklukkan útvarp líka og hann heyrir fregnir af því sem er að gerast í heiminum á meðan hann er að vakna. Hann fær að heyra kost og löst á ýmsu, hann fær kannski holl ráð um eitthvað svo ekki sé nú talað um gagnrýni á ýmislegt sem er að gerast í samfélagi hans. Almúgamaðurinn á fjölskyldu er á miðjum aldri og á börn með almúgakonunni sinni. Þau eru öll komin á fætur, þeim líður vel þó að þau séu syfjuð því að þau hafa ekki fjárhagsáhyggjur þar sem það eru tvær fyrirvinnur og börnunum gengur vel í skólanum. Ríkið er heldur ekki að íþyngja þeim andlega eða líkamlega með kröfum, sköttum eða öðrum afskiptum enda hafa þau í raun allt til alls, hús og bíl og flesta fylgihluti. Við þetta er að bæta að þessari fjölskyldu finnst hún vera frjáls bæði að orðum sínum og æði.  Þau fá sér morgunmat sem keyptur var í verslun sem þau völdu sjálf og býður upp á ódýrar vörur vegna þess að það er samkeppni í smásöluverslun í landinu. Að loknum morgunverði fara hjónin til starfa sinna sem þau ákváðu tiltölulega ung að sinna og þurftu að mennta sig til en menntunin var að mestu á kostnað skattgreiðenda í landinu. Börnin eru á grunnskólaaldri og fara í skólann í hverfinu sem er vel rekinn og mannaður af góðum og áhugasömum kennurum sem einnig voru aðallega menntaðir á kostnað samfélagsins. Almúgamaðurinn býr greinilega í þjóðfélagi þar sem er blandað hagkerfi; þetta er réttlátt norrænt land. Almúgamaðurinn myndi jafnvel taka undir með kínversku konunni í sjónvarpinu sem sagði aðspurð um hvers hún óskaði þegar ár kanínunnar gekk í garð: „Ég vil að vinnan gangi vel og að allir í fjölskyldunni séu glaðir og ánægðir,“

Við viljum segja við kínversku konuna að hún ætti að óska sér að í landi hennar yrði leyfð pólitík. Hún veit ekki hvað pólitík er. Þurfum við sem búum í blönduðu norrænu hagkerfi, pólitík? Árin eftir aldamótin síðustu heyrði maður marga tala um að hægri og vinstri pólitík væri  dauð. Nú gætu allir unnið með öllum; þetta væri bara spurning um að halda þjóðfélaginu gangandi. Frá almúgasjónarhorni þá er þetta eðlilegt viðhorf því að það er enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem „virðist“ ætla sér að breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum; til hvers þá að vera með stjórnmálaflokka. Þá er ágætt að gleyma því ekki að það þurfti verkalýðs og stjórnmálabaráttu til að búa þetta þjóðfélag til og það þarf sömu baráttuna til að viðhalda því. Hrunið ætti að sanna fyrir almúgmanninum og almúgakonunni að það sé þörf fyrir stjórnmálabaráttu. Efnahagskerfið hrundi vegna þess að tiltekin stjórnmálastefna náði undirtökunum í samfélaginu og keyrði það í þrot. Það voru ungir menn í tilteknum flokki sem trúðu af hreinleika sálar sinnar að þjóðfélagið yrði betra ef þeirra hugmyndir fengju að ráða. Þeim tókst ætlunarverk sitt en það kom í ljós að þeir höfðu rangt fyrir sér. Nægilega stór hópur kjósenda kaus þennan stjórnmálaflokk nægilega oft til að hugmyndafræðin næði nægilegri fótfestu til þess að breyta þjóðfélaginu. Þjóðfélag almúgamannsins breyttist mikið og ef ég gæfi honum orðið þá gæti hann talið ýmislegt upp, en það er hins vegar ekki verkefnið.

Mengi hugmynda.  Ef við drægjum upp hringi og hver þeirra fæli í sér einn stjórnmálaflokk og hefðum þá í hnapp, þá væri hægt að draga hring yfir þá sem væri sjóndeildarhringur almúgamannsins. Hugmyndamengi þeirra sem vilja hafa þjóðfélagið nokkurn veginn eins og almúgamaðurinn vill hafa það.  Þetta er það sem truflar okkur í stjórnmálaumræðu dagsins í dag. Það eru margir ólíkir stjórnmálamenn og flokkar í þessu hugmyndamengi almúgamannsins og það er augljóst að það er margt sem sameinar stjórnmálaflokka á Íslandi. Það sem virðist sundra þeim við fyrstu sýn er fólk og sérhagsmunir, jafnvel persónuleikar. Af þessum ástæðum njóta stjórnmálamenn lítillar hylli. Ef þeir hefðu vit á, sérstaklega þeir sem ætla sér eitthvað í framtíðinni, að breyta orðræðu sinni þá myndu þeir ná hylli fyrir hugsjónir sínar. Í gær laugardag kom upp í hendurnar á mér alveg einstaklega gott dæmi. Ég reyni annars að forðast tilvitnanir í einstaklinga í pistlum mínum til að halda þeim innan kurteisrar umræðu um það sem skiptir máli. Ég vona að mér verði fyrirgefin tilvitnunin. Hér er að vísu tilvitnun í stjórnmálamann á útleið og það er kannski ágætt svo að ég sé ekki að taka dæmi af einhverjum í eldlínunni.

„Auðvitað má segja sem svo að það sé illt fyrir formann að sitja undir hrósi frá Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli, en í málinu verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari óhæfu ríkisstjórn sem situr í landinu.“ (Geir Haarde í viðtali í Ríkisútvarpinu 5. febrúar 2011.)

Það hefði mátt segja þessa sömu hugsun þannig að hún væri ekki um menn heldur málefni. Það er ekki óeðlilegt að stjórnmálamanni til hægri þyki ekki gott að stjórnmálamaður til vinstri hrósi honum eða samherjum hans. Það er rétt sjónarhorn í málefnalegri stjórnmálabaráttu, þar sem ólík viðhorf og sjónarmið takast á. Breytt yrði yfirlýsing Geirs Haarde svona:

Auðvitað má segja sem svo að það sé ekki gott fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að sitja undir hrósi frá formanni Vinstri grænna í þessu máli, en í því verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari ríkisstjórn sem nú situr og veldur ekki verkefni sínu.

Með þessum orðalagsbreytingum verður fullyrðing Geirs um málefni en ekki menn. Hvers vegna við föllum í þá freistni að ræða um menn en ekki málefni er ekki gott að segja. Sumir segja að það sé vegna þess að við sem þjóð kunnum ekki að rökræða en séum góð í að segja sögur. Kannski er það líka vegna þess að við erum of fá og þekkjumst öll!

Ég hef teiknaði upp mynd í huga mínum af litrófi stjórnmálanna og í því litrófi er hægri og vinstri einungis til vegna þess að ég teiknaði myndina þannig. Það er mín skoðun að víddir stjórnmálanna séu þrjár eða eigi heima í grófum dráttum í þremur brennipunktum. Þeir sem eru lengst til hægri, þeir vilja lítil afskipti ríkisstjórna. Hægri menn trúa því að menn eigi að stjórna eins litlu og hægt er í þjóðfélaginu það eigi bara að vera almennar umferðarreglur og viðskipti. Menn hugsi hvort sem er ævinlega um eigin hag í öllum samskiptum og því sé best að lögmál sem til verði í hvers konar viðskiptum stjórni þjóðfélaginu. Nú skulum við teikna upp fleyg í huganum sem er breiður hægra megin og  á breiða endanum eru þeir sem eru algjörlega sammála þessum hugmyndum sem ég hef lýst. Fleygurinn sem er litskiptur nær síðan talsvert yfir til vinstri og endar í oddi. Það má segja að tákn þeirra sem eru lengst til hægri geti verið kross. Með öðrum orðum þeir trúa á þessar skoðanir sínar eins og þær séu guðmagnaðar, eilífar og algildar. Stundum eru slíkir menn kallaðir bókstafstrúarmenn. Eftir því sem við förum lengra til vinstri þá breytist krossinn í spurningamerki sem er tákn þeirra sem eru tilbúnir að spyrja og leita svara. Eru tilbúnir til að ræða málin, finna málamiðlanir.

Nú skulum við fara lengst til vinstri á litrófinu en þar höfum við þá sem trúa því að menn geti stjórnað með viti sínu og skynsemi og þeir vilja að öllu sé stjórnað. Þeir sem eru lengst til vinstri vilja meira að segja að allar stofnanir og atvinnutæki séu í höndum einhverra viturra og góðra manna sem væru kosnir á grundvelli hæfileika sinna til að stjórna. Á sama hátt getum við táknað skoðun þeirra með krossi, því að viðhorf þeirra eru eins ákveðin og væru þau goðmögnuð, eilíf og óskeikul. Þess vegna er það svo að almúgamaðurinn sér viss samkenni með hægri hægrimönnum og vinstri vinstrimönnum og leyfir sér stundum að halda að þeir geti stjórnað landinu saman. Á sama hátt og áður þá er hægt að teikna marglitan fleyg sem er breiðastur vinstra megin og mjókkar síðan til hægri. Krossinn sem er tákn hinnar fullkomnu vissu breytist því smátt og smátt í spurningamerki eftir því sem við færum okkur til hægri eftir fleygnum. Fleygarnir sem ég hef nú lýst eru tákn fyrir hópinn eða einstaklingana sem tilheyra þessum tveimur hugmyndakerfum. Nú skulum við leggja þessa tvo fleyga saman í huganum og við skulum láta vinstri fleyginn liggja ofan á og hægri fleyginn vera undir. Ástæðan er sú að vinstri fleygurinn táknar mannvit og stjórnun en hægri fleygurinn táknar eigin hagsmuni, langanir og þrár og lögmál sem stjórna. Þar sem þessir tveir fleygar liggja saman og eru tiltölulega jafnþykkir, þar er jafnvægið á milli þessara hugmyndakerfa.  Þeir sem aðhyllast skoðanir á þessum slóðum litrófsins trúa því að mikilvægt sé að maðurinn hafi vald á samfélagi sínu með viti sínu en sé jafnframt tilbúinn til að láta einstaklingana njóta sín, séu frjálsir og að athafnir þeirra og ákafi drífi þjóðfélagið áfram. Þannig verða markaðslögmál eins og vel taminn reiðhestur á valdi knapa síns.

Þessar skoðanir eru allar gildar og það er mikilvægt að þær fái að blómstra en þær verða að fá að blómstra með málefnalegri umræðu en ekki orrahríð og skítkasti um einstaklinga. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hægt að draga mengjahring almúgamannsins yfir þessa tvo fleyga og ná mörgum stjórnmálamönnum inn, þannig að fáir standi útaf til hægri og vinstri. Það er ekki þar með sagt að pólitíkin sé dauð því að hún er ævinlega að verki og verður að vera það. Það er beinlínis mikilvægt að hinar áðurnefndu þrjár víddir í stjórnmálalitrófinu séu í stöðugum átökum til þess að tryggja gott þjóðfélag en um leið þurfa þegnarnir þá að vera vel meðvitaðir um hvert stefnir þegar tiltekinn stjórnmálaflokkur er valinn í kosningum. Ég er ekki viss um að Íslendingar sem kusu tiltekinn stjórnmálaflokk ítrekað  til valda hafi áttað sig eða vitað hvert ákvarðanir þeirra í kjörklefunum myndu leiða þjóðina.

Atburðarrásin fyrir hrun sýnir eins og áður segir að tiltekin pólitík leiddi til hrunsins og stjórnmálaátökin eftir hrunið eru hatrömm vegna þess að það er verið að teikna upp nýtt þjóðfélag. Þetta nýja þjóðfélag byggir á hugmyndafræðinni þar sem fleygarnir liggja saman og eru álíka þykkir, þar sem jafnvægi ríkir milli hinna tveggja ólíku og andstæðu viðhorfa í stjórnmálum. Það er verið að skapa þjóðfélag í anda norrænna fyrirmynda sem best hafa reynst á jörðinni.

Það er rökrétt og skiljanlegt að þeir sem eru til vinstri í öðrum stjórnarflokknum hlaupi útundan sér miðað við þá mynd sem ég hef teiknað upp. Á sama hátt er það alveg skiljanlegt og rökrétt að þeir sem eru lengst til hægri í stóra stjórnarandstöðuflokknum séu ósáttir og berjist nú um á hæl og hnakka, því að þeir vilja alls ekki það þjóðfélag sem verið er að byggja upp. Þeir eru þess vegna tilbúnir til að leggja stein í götu þeirra umbóta sem nú er verið að vinna að eins og „Icesave“ því að tilgangurinn helgar meðalið. Því miður þá eru þessi „eðlilegu“ hugmynda og málefnalegu átök í formi persónulegs skítkasts og með smjörklípusamræðu. Kannski átti Winston Churchill við þennan ágalla lýðræðisins að geta ekki hafið sig upp yfir persónuleg átök, þegar hann sagði:

„Lýðræði er versta tegund ríkisvalds þegar frá eru taldar allar þær tegundir sem þegar hafa verið reyndar á jörðinni.“

Hvað um það. Hafi tíkin Pólí verið dauð þá er alveg klárt að hún er að lifna við og hleypur nú um í miklum ákafa með lafandi tunguna. Það er mikilvægt að menn nái að hemja hana og glefsið verði okkur ekki banvænt.

Þeir sem geta tryggt að allt fari á besta veg eru almúgamennirnir og almúgakonurnar. Ég vona bara að þau viti að þeirra tími er kominn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.1.2011 - 11:52 - Rita ummæli

TOLLIR FRAMTÍÐIN OFAN Á SAMTÍMANUM

Hvern virkan dag stíg ég inn í framtíðina og þá gleðst ég, því efniviðurinn sem er fólkið í þessa framtíð er góður. Það er fólkið sem mótar samtíð sína og veldur hver á heldur hverju sinni. Samfélag okkar er fólkið, hvernig það hugsar og hvernig það breytir. Hvernig það tekst á við sjálft sig horfir í spegil sinn hvort sem hann nú er ímyndaður eða raunverulegur. Hver er ég og hvert vil ég fara og hvernig vil ég hafa mitt samfélag? Samfélag okkar er líka samskiptareglur okkar og hefðir sem eru bæði formlegar og óformlegar. Ef ég tek mið af því samfélagi sem ég geng inn í á hverjum degi og er efniviður í framtíðina þá hef ég ekki áhyggjur. Það er auðvitað verkefni á hverjum degi að viðhalda þessu samfélagi því að uppeldi og menntun gerir miklar kröfur til allra. Á meðan við höfum gott vald á þessu verkefni og þetta samfélag er jákvætt, hófstillt og fyrirgefandi þá er það á réttri leið. Þessi framtíð sem ég geng inn í hvern virkan dag er grunnskólinn sem ég starfa í ásamt um 460 öðrum nemendum og starfsfólki, þá tel ég ekki samstarfshópinn foreldrana, en þá erum við komin talsvert yfir 1000 manns. Ef við gefum okkur að yngstu börnin okkar séu farin að hafa áhrif á samfélag sitt eftir um 30 ár með athöfnum sínum og orðum, þá sjáum við fram í tímann; íslenskt þjóðfélag árið 2041. Önnur eldri börn koma fyrr inn og hafa áhrif. Ég segi stundum í útskriftarræðum mínum að ég óttist ekki að verða ellilífeyrisþegi í þjóðfélagi þeirra sem eru að útskrifast. Ég er því bjartsýnn á hverjum degi og get ekki annað því að framtíðin er björt með uppvaxandi kynslóð.

Ef ég lít hins vegar á samtíð mína þá hef ég áhyggjur af því að við þessir fullorðnu séum ekki að búa samfélagið í hendurnar á börnum okkar, þannig til dæmis að þau hafi úr einhverju að moða. Í því efni hef ég mestar áhyggjur af landinu þaðan sem við höfum næringu og lífsgleði, sjónum sem einnig gefur hvorutveggja og loftinu sem við öndum að okkur og er háð því hvernig samskipti okkar eru við náttúruna. Þetta eru auðlindir sem eru takmarkaðar og við þurfum að tryggja okkur öllum aðgang að og enginn má hrifsa þessar auðlindir til sín sem sína einkaeign. Það er sem sagt almannahagur sem á að ráða för í nýtingu allra okkar auðlinda og eina leiðin til þess er að auðlindir séu eigu ríkisins.

Nú standa yfir grímulaus átök um þessar auðlindir. Það eru stjórnmálaflokkar sem eru þeirrar skoðunar að auðlindir eigi að vera einkaeign svipað eins og var í Klondike í Norður Ameríku. Þá máttu menn stika sér land og graf upp auðæfin handa sjálfum sér. Sama á við um Texas þar sem menn keyptu sér land og boruðu eftir svarta gullinu. Það er til fólk sem áttar sig ekki á því að þessi tími er liðinn í mannkynssögunni. Auðlindirnar eru takmarkaðar og við verðum því að gæta sameiginlegra hagsmuna í nýtingu þeirra. Sem betur fer er umræðan að skerpast og stjórnmálamenn eru farnir að tala tæpitungulaust um hagsmuni sína. Línurnar eru að skýrast. Núna til að byrja með eru menn með skítkast og gífuryrði en þess þarf ekki því að línurnar eru klárar og um þær má alveg tala með yfirveguðum hætti. Pólitíkin er sem sagt að ná sér á strik og þess vegna þurfum við að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir tali um hugmyndafræði. Hugmyndafræði pólitíkurinnar er umræðan um skiptingu gæða en það hefur gleymst. Því miður sjáum við ennþá umræðu í áhrifamiklum fjölmiðlum á lágu plani þar sem ekki er leitað sannleikans heldur efnt til karps. Spyrillinn spyr til skiptis og dagskrá hans virðist rýr og lítið ígrunduð. Fólkið í landinu þarf að fá að heyra sannleikann til að geta tekið afstöðu.

Það hefur alltaf verið þannig í samfélagi manna að ákveðinn hópur telur sig vera réttborinn til valda og áhrifa. Þannig er það einnig hér og kannski er það eðlilegt að hinir réttbornu séu ekki tilbúnir til að sleppa hendinni af valdataumunum og „eignum“ sínum. Hinir réttbornu hafa alltaf verið tilbúnir til að leggja í talsverðan herskostnað til að halda sínu. Það sem hinir réttbornu hræðast mest er lýðræði þar sem hinir réttbornu eru á öllum tímum minnihlutahópur sem hefur sérhagsmuni sem meirihluti hins lýðræðislega þjóðfélags stendur aldrei með þegar til kastanna kemur og gríman er fallin. Nú er hafin baráttan um brauðið fyrir börnin okkar, baráttan fyrir því að það verði úr einhverju að moða í framtíðinni. Það sem eykur mér bjartsýni á að okkur muni takast að tryggja brauðið er að fólkið í landinu lætur ekki segja sér hvað sem er í dag. Í skoðanakönnun um daginn svaraði einungis um helmingur til um stjórnmálaskoðun sína. Það er orðin til nýr stjórnmálaflokkur sem ég kalla „þjóðina sem hugsar“ og við höfum séð mörg dæmi þess að sá flokkur sé orðinn stór og sterkur. Þessi þjóð sem hugsar vill lýðræði og það gefur von og eykur bjartsýni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.1.2011 - 12:22 - 1 ummæli

ÞJÓÐIN OG DORRITT

Líf hennar hófst af ótrúlegri dirfsku en jafnframt miklu hugrekki og hún átti og á afrek sem vakið hafa heimsathygli frá þessum tíma. Svo komu ár, áratugir og aldir sem hún var eiginlega í fangelsi eða innilokuð; ekki ósvipað og Dorritt.  Síðan kom ríkidæmið að utan með aðkomufólki heldur ekki ósvipað og var með Dorritt. Þá varð hún drambsöm, bara alveg nákvæmlega eins og Dorritt, já og varpaði af sér sögu sinni og vildi ekki þekkja þrengingartímana en lyfti sér upp á fornri frægð og nýfengnum auði.  Taldi sig samt hafa einhver fjölskyldugildi, eitthvað til að vera stolt af, eitthvað sameiginlegt sem var mikilvægt. Hr. Vilhjálmur Dorritt hann grætur meira að segja þegar Dorritt litla reynir að fá hann til að læra af fortíðinni þó ekki nema væri til að halda vinskap Arthurs Clennams. Ef saga Íslendinga er svona lík örlögum Dorritt fjölskyldunnar fer þá fyrir þeim eins og Íslendingum? Mun drambið fella fjölskylduna. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta fer allt saman. Má kannski líkja persónum og leikendum í sögu Dickens um hana Dorritt litlu við sögusvið íslensks samfélags. Eru persónurnar í kringum fjölskylduföðurinn, stjórnmálamenn og áhrifavaldar í samfélagi okkar?  Hver er til dæmis Rigaud sem er hinn sami og Blandois og Lagnier þessi þrjótur sem bregður sér í þessi gervi til að fela glæpi sína? Er þetta táknmynd hins undarlega og óskiljanlega kennitöluflakks í viðskipalífinu?  Hvað með Dorritt litlu er hún hin veikburða sál þessarar þjóðar sem nær ekki að blómstra og ráða ferðinni. Ég mun áfram fylgjast spenntur með. Mun drambið fella Hr. Vilhjálm Dorritt. Var það dramb sem felldi okkur spyr nú einhver. Var það ekki eitthvað annað? Sá sem bar þjóðina og kjarna hennar á borð fyrir útlendinga sagði og taldi upp tíu eiginleika sem hann sagði að hefðu mótað okkur Íslendinga. Við eru vinnusamir bændur og sjósóknarar. Við viljum árangur frekar en að velta okkur upp úr ferli ákvarðana. Við eigum auðvelt með að taka ákvarðanir, já og þorum þar sem aðrir hika. Við látum ekki skrifræði þvælast fyrir okkur. Við treystum hverju öðru og erum sérlega orðheldin. Við eigum auðvelt með að mynda samstarfshópa sem stefna að sama marki sem iðandi keðja bandamanna í ákvörðunum. Stjórnendur okkar eru stjórnendur eins og skipstjórar í brúnni sem deila örlögum og áhættu með áhöfnunum. Fornöldin, arfleifðin og afrek fornaldarinnar færir okkur fyrirmyndir um hvernig við eigum að haga okkur.  Tengsl við fornöldina er svo skýr og tær; við vitum að mannorð er dýrmætara en flest annað. Svo að lokum þessi virðing fyrir frumleikanum svipað eins og virðingin sem var fyrir skáldunum í öndvegi. „Orðið afhafnaskáld er lýsandi dæmi um hvernig þessi hugsun hefur fengið gildi í samtímanum.“ (Síðasta setningin er bein tilvitnun í ræðu Ó.R.G. í fyrirlestri hjá Sagnfræðingafélaginu 10. janúar 2006). Er ekki alveg magnað að eiginkona forsetans skuli heita Dorritt alveg eins og sögupersónur Dickens sem eru „kannski“ að teikna upp örlög okkar í söguþræði sínum.

Þetta var mitt þriðja orðaskak.

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.1.2011 - 20:36 - 1 ummæli

Hvað er að okkur?

Í morgun hófst hin eiginlega rannsókn á hruninu. Beitt er rannsóknaraðferðum Sókratesar og ekkert gefið eftir í greinandi spurningum. Viðmælandinn er knúinn svara og þegar hann svarar er spurt að nýju. Það verður forvitnilegt að heyra af niðurstöðunni því að hún skiptir okkur Íslendinga miklu máli ef við ætlum að komast upp úr þeirri forarvilpu sem við erum staddir í. Þarna gekk ég of langt í fullyrðingu minni. Látum forarvilpuna standa, því að hver veit nema að lýsingin eigi við. Það getur verið gott að hafa tilgátu til að ganga út frá þegar rannsókn stendur yfir.

Það er tvennt gott við þessa rannsókn. Í fyrsta lagi er hún opinn og gagnsæ (allir geta hlustað) og í öðru lagi er hún unnin af fagmennsku. Ævar Kjartansson hefur nú um nokkurra missera skeið haldið úti útvarpsþætti milli kl. 9 og 10 á sunnudagsmorgnum í samvinnu við þjóðþekkta spekinga og fengið til sín aðra þjóðþekkta spekinga. Nú heitir þátturinn „Landið sem rís“ og er undirtitillinn, samræður um framtíðina. Með Ævari er Jón Ormur Halldórsson sem lengi hefur getið sér gott orð fyrir spaklega og greinandi pistla um ýmiss málefni í gegnum árin. Báðir eru þeir Ævar og Jón með geðþekkar og seiðandi útvarpsraddir sem gefa stöðugt í skyn að eitthvað spennandi sé á næsta leiti. Þannig eru einmitt þættirnir og ætti enginn að láta þessa þáttaröð framhjá sér fara. Það sem gerði þáttinn spennandi í dag var að Jón Ormur var ekki með hugleiðingar í spurningum sínum heldur spurði eins og Sókrates og fylgdi spurningum einungis eftir með stuttum skýringum. Jón Ormur gerði betur en margir af lagsmönnum Ævars undanfarin misseri, sem flestir hafa brugðist við hugleiðingum gesta með eigin hugleiðingum, því hann lætur spurningarnar lifa sjálfstæðu lífi. Hann spurði og lét það á sér skiljast stundum, að hann spyrði vegna þessa að það væri mikilvægt að spyrja en ekki vegna þess að hann hefði þá skoðun sem spurningin fól í sér. Þetta er spennandi nálgun.

Viðmælandinn var Njörður P. Njarðvík og fór vel á því þar sem hann hefur ritað marga góða pistla um þjóðfélagsmál og er þar að auki mannvinur. Við rannsóknina í dag kom skýrt í ljós hvað Njörður á gott með að greina einkenni vandans,  þjóðareðlið eða óeðlið og margt setur hann í skýrt samhengi. Heldur var hann þó svartsýnn á framtíðina sem er merkilegt því að sjálfur er ég sannfærður um að hugleiðingar hans hafi þegar gert okkur Íslendingum gott, svo ekki sé talað um aðkomu Njarðar að einum merkilegast viðburði Íslandssögunnar frá árinu 1000 sem er stjórnlagaþingið. Jóni (Sókrates) tókst ekki að finna út í samræðu sinni við Njörð hvað væri að okkur Íslendingum þó að margar atlögur væru gerðar. Hlakka ég til að hlusta á næsta þátt að viku liðinni og heyra hver verður þá sókratesaður.

Eiginlega datt manni í hug eftir samræðuna að við Íslendingar værum samansafn skítseiða. Þeir félagar þrír komust næstum því að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu spillt eðli. Kannski er spilling samofin menningu okkar eins og einn ágætur blaðamaður sagði á fyrirlestri sem ég hlustaði á í byrjun desember. Ég saklaus maðurinn brást við með þeim hætti úr ræðustól hvort að þetta gæti nú virkilega verið satt. Blaðamaðurinn og þeir félagar í morgun sýndu fram á margvísleg einkenni sem ekki er hægt að neita. Hvað um það? Markmið samræðunnar er að reyna að finn orsök hrunsins í þjóðareðlinu svo að hægt sé að lækna það. Ég get því ekki annað en fagnað þessari rannsókn en vil leyfa mér að halda í þá kenningu að við séum frekar stödd í forarvilpu. Líkingin segir þá að með samstilltu átaki komumst við uppúr og getum þvegið af okkur skítinn en ekki að við séum svo sundurlynd og spillt að við komust hvergi.

Þetta var mitt annað orðaskak.

Ásgeir

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.1.2011 - 23:26 - Rita ummæli

Sjálfstæðisbaráttan

Gleðilegt ár

Nú er nýtt ár gengið í garð með vonum sínum og væntingum. Árið 2011 leggst vel í mig. Að hluta til er það vegna þess að þá verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar fánabera sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld.  Hann er mikilvæg táknmynd þeirrar  þróunar sem nú á sér stað. Við erum í raun að heyja nýja sjálfstæðisbaráttu og sem betur fer með orðin að vopni eins og fyrr þó að upphaf hennar megi rekja til harðra átaka á Austurvelli veturinn 2008 til 2009. Þá sýndi þjóðin að hún ætlaði ekki að láta óvitra stjórnmálamenn troða sér um tær. Þjóðin sýndi tennurnar og þó að hún hafi ekki öll verið á Austurvelli, þá var þetta þjóðin sem talaði. Ég tel mig bæði vera friðarsinna og lýðræðissinna og mætti á flesta fundi og sá þar venjulegt fólk; þverskurð þjóðarinnar. Ég mætti ekki á margar brennufórnir nema þegar ég  las, með titrandi röddu, niðurstöðu fundar Samfylkingarfélagsins í Reykjavík fyrir utan Þjóðleikhúskjallarann 21. janúar 2009. Þetta var þjóðin og hún talaði og það var hlustað. Þjóðin talaði aftur í haust og það var hlustað. Við verðum að finna leiðir til að tryggja almenningi meiri aðkomu að stjórnmálum því kosningar á fjögurra ára fresti duga ekki. Varla getum við búið við reglulegar uppreisnir með bálförum og grænmetiskasti þó að þær hafi dugað í þessum hremmingum.

Nú er að renna upp ný öld upplýsinga þar sem allur almenningur getur skyggnst inn í hugarfylgsni þeirra sem taka ákvarðanir, ákvarðanir sem áður voru teknar í reykfylltum bakherbergjum. Nú er jafnvel hægt að fylgjast með hugsunum í þróun ef maður er tilbúinn að leggja eitthvað á sig.

Því miður telja fjölmiðlarnir á Íslandi það vera verkefni sitt að stilla málsmetandi fólki upp í hanaati fyrir framan hljóðnema og myndavélar þar sem hanarnir tæta í sig upplýsingarnar sem liggja síðan sem slitur fyrir augum og vitund manna svo að enginn skilur neitt í neinu.  Þessi tegund fjölmiðlunar  á Íslandi virðist eiga rætur í misskildu hlutleysi sem Ríkisútvarpinu var gert að vera, meðan það var og hét.  Það eru til blaðamenn sem eru góðar undantekningar frá þessari hefð. Enginn þeirra nýtur þó þeirrar virðingar né fjölmiðlar að úrskurður þeirra um sannleika í einstökum málum skeki embættisstöðu eða hlutskipti nokkurs manns. Maður heyrir þó sögur af þessu frá útlöndum að svona sé þetta þar sem  vel unnar og ígrundaðar blaðagreinar og þættir hræða buxurnar af sumu fólki svo ég leyfi mér nú erlent líkingarmál. Vangeta íslenskra fjölmiðla að þessu leyti getur seinkað eða jafnvel eyðilagt möguleikana á því að vitundarvakningin og sjálfstæðisbaráttan sem nú stendur yfir heppnist.

Fjölmiðlarnir eru ekki aðeins mikilvægur, heldur nauðsynlegur hlekkur í sjálfstæðisbaráttu hins nýja Íslands, því að þeir bera ábyrgð gagnvart almenningi gagnvart venjulegu fólki í að flokka sannleikann í hverju máli frá vafaatriðunum og álitamálunum. Ekki er gott að allt sem sveimar um vitundarlíf þjóðarinnar séu vafaatriði og álitamál þá verður hún bara rugluð. Ég þar með talinn.

Bjartsýnn er ég samt og trúi á framtíðina því að sagan segir mér að þó að mannkyn og það kyn sem lifir og hrærist á þessu skeri eigi margt eftir ólært þá hefur margt lærst og sumt jafnvel utan að.

Þetta var mitt fyrsta orðaskak.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur