Föstudagur 27.4.2018 - 14:40 - Lokað fyrir ummæli

Aukinn ójöfnuður grefur undan samfélagssáttmálanum

Það er jafn mikil þörf á því að halda hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag vinnandi fólks á 1. maí nú og þegar fyrsta kröfugangan á Íslandi var gengin þennan dag árið 1923. Kjör, aðbúnaður og réttindi almennings hafa vissulega tekið stakkaskiptum á þeirri öld sem liðin er síðan samtakamáttur fólksins skilaði fyrstu verkalýðsflokkunum í ríkisstjórnir vestan hafs og austan. Hinsvegar hefur ójöfnuðurinn sjaldan verið meiri.

Auðurinn færist enn á ný á færri hendur. Misskipting eykst og ægivald örfárra stórfyrirtækja færist í aukana. Þá sækja tækniframfarir og gervigreindarþróun að fjölda starfa og starfsstétta um allan heim. Við því þarf að bregðast á vettvangi stéttarfélaga og stjórnmálaflokka verkalýðsins.

Barattudagurinn alþjóðlegi minnir okkur einnig á að samtakamáttur alls vinnandi fólks er án landamæra og starfsstétta. Hagsmunir fólksins gegn stórkapítalinu eru sameiginlegir þvert á lönd og álfur.

Ótrúlegt er til þess að hugsa að fyrir liðlega átta áratugum stóð barátta verkalýðsflokkanna og stéttarfélaga um grundvallarmannréttindi á borð við vökulög á fiskiskip og almannatryggingar fyrir alla landsmenn. Þetta þykja okkur sjálfsögð grundvallarréttindi í dag, en þau kostuðu blóð, svita og tár vinnandi fólks á þeim tíma.

Þróun í átt til aukinnar misskiptingar hefur verið hröð á liðnum árum. Kjararáð vísar veginn með hreint kostulegum hækkunum á bæði kjörna fulltrúa og forstjóra opinberra stofnana og fyrirtækja. Í skjóli ráðsins hækka fyrirtæki, mörg í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina, laun forstjóra og stjórnenda upp úr öllu siðlegu valdi.

Mikill munur á launum þeirra lægstu og hæstu er siðferðislega óverjandi og grefur undan samfélagssáttmálanum. Þegar launamunur á forstjóranum og þeim sem strita á gólfinu er orðinn tí- og tuttugufaldur er vitlaust gefið, svo mildilega sé mælt.

John Rawls var einn fremsti stjórnspekingur síðustu aldar og hafði kenning hans um réttlæti mikil og góð áhrif á baráttu fyrir auknum jöfnuði þegar hún kom út í bók hans Kenning um réttlæti árið 1972. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að allur ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör, réttindi og aðstæður þeirra sem minna mega sín. Réttlætanlegt sé að færa tekjur og eignir frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins. Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Þessi kjarnyrta kenning er gott leiðarljós á alþjóðlega baráttudeginum á 1. maí í næstu viku og vonandi er að sem flestir taki þátt í kröfugöngum og samkomum stéttarfélaganna. Samtakamátturinn einn skilar bættum kjörum og betra samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Lækkum fjöllin til að dalirnir blómstri

Félagslegt réttlæti hefur verið eitt helsta viðfangsefni stjórnmálamanna og stjórnmálaheimspekinga allt frá því að stórvirki gríska heimspekingsins Platóns, Ríkið, leit dagsins ljós á tímum forn Grikkjanna. Þá markaði bók bandaríska stjórnspekingsins Johns Rawls, Kenning um réttlæti, ný þáttaskil í stjórnmálaumræðum síðari tíma um réttlæti á meðal þjóða og milli þeirra þegar hún kom út í byrjun áttunda áratugarins. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að hverskonar ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör og aðstæður þeirra sem minna mega sín og draga þannig sem mest má vera úr ójöfnuði. Á þessum forsendum sé réttlætanlegt að færa fjármuni frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins.

Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Ójöfnuður getur af sér fátækt og skort á tækifærum til þess að þroska kosti sína. Nýleg bresk rannsókn á afleiðingum fátæktar sem stóð yfir í marga áratugi dregur t.d. fram að fátæktin gengur á milli kynslóða. Börn þeirra sem búa við bág kjör eru ólíklegri til að sækja sér framhaldsmenntun og líklegri til þess að eiga bæði styttra og erfiðara líf en þau sem koma frá þokkalega og vel stæðum heimilum. Þeim skortir skjól og bakland til þess að sækja sér þann ómetnlega auð sem góð menntun er.

Vaxandi ójöfnuður er meinsemd sem grefur undan samfélaginu og sáttmála okkar um það. Því er það eitt brýnasta verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð verður að loknum kosningum að jafna leikinn í samfélaginu. Grípa til aðgerða til að draga úr ójöfnuði.

Hækka dalina þannig að þeir sem minna mega sín geti lifað með reisn og átt gott líf þrátt fyrir örorku, háan aldur eða annað sem kemur í veg fyrir fulla þátttöku á vinnumarkaði.

Kostnaðurinn við örmyntina og margfaldur vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja, borið saman við önnur Norður- og Evrópulönd, eykur ójöfnuðinn enn frekar. Þeir sem fleyta rjómann og best hafa það hverju sinni geta komið sínum fjármunum og eignum í skjól erlendis og haft miklar tekjur af vaxtamunaviðskiptum og braski með krónuna. Þetta er afleit staða og óásættanleg.

Því er það órjúfanlegur þáttur af því að bæta lífskjör og auka jöfnuð á Íslandi að stíga raunhæf skref sem tryggja komandi kynslóðum skjól í formi trausts gjaldmiðils og lágra vaxta, þar sem verðtrygging og aðrir plástrar á svöðusár krónunnar heyra sögunni til.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.10.2017 - 07:00 - Lokað fyrir ummæli

Uppnám og óvissa korteri fyrir kosningar

Upplausnarástand íslenskra stjórnmála áratuginn eftir hrun nær nýjum hæðum í aðdraganda skyndikosninganna í lok október. Nýtt framboð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins setur hægri vænginn í uppnám og er líklegt til að hafa veruleg áhrif á úrslit kosninga. Takist Sigmundi Davíð og félögum að fá öflugt fólk til liðs við sig getur flokkur hans orðið skæður keppinautur bæði Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins, auk þess að sundra framsóknarmönnum kljúfa flokkinn í tvennt.
Staðan á miðjunni og yfir til vinstri er áfram mörkuð mörgum flokkum sem keppa um það fylgi sem Samfylkingin hafði árin 1999-2009 þegar flokkurinn fékk á bilinu 27-31% fylgi í fernum kosningum. Til dæmis var hann sá stærsti í Suðurkjördæmi í kosningunum 2003 og 2009. Nú skiptast atkvæði sósíaldemókrata og frjálslyndra kjósenda á nokkra flokka með þeim afleiðingum að enginn þeirra virðist ætla að ná því að verða kjölfesta nýrrar stjórnar.
Vinstri grænir njóta upplausnarinnar til hægri og frá miðju til vinstri. Þeir ganga sameinaðir til kosninga með öflugan formann sem nýtur almennra vinsælda. Það ber þó að hafa í huga að flokkurinn hefur oft mælst í hæstu hæðum í aðdraganda kosninga en ekki uppskorið í samræmi við það á kjördag. Það gæti breyst nú þegar upplausnin virðist í algleymingi hjá keppinautunum og hart er sótt að Sjálfstæðisflokknum.
Uppnámið og óvissan í aðdraganda kosninga gefur afar veika von um að það takist að mynda sterka ríkisstjórn sem hefur burði til að sitja út kjörtímabilið. Fari sem margir spá að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur fari saman í stjórn mun næða um það samstarf frá fyrsta degi. Enda blasir við að slík ríkisstjórn yrði verulega umdeild innan Vinstri grænna, sem munu líkast til kappkosta við að ná þriðja flokknum með inn í slíka stjórn, til að auka breiddina og byggja sér skjól fyrir því sem koma skal.
Líkast til mun það taka nokkrar kosningar enn að koma á stöðugleika og jafnvægi í stjórnmálunum á ný. Sósíaldemókratar þurfa að sameinast aftur og átökin á miðjunni að ganga yfir og finna sér farveg. Hvernig hinn aldar gamli Framsóknarflokkur kemur út úr því stríðsástandi sem ríkir innan flokksins er erfitt að segja til um nú, en hann gæti átt lengi um sárt að binda. Líkt og Samfylkingin nú eftir átök innan flokks sem sópuðu burt trausti fólks á flokknum.
Viðspyrna Samfylkingarinnar gæti falist í því að nýir frambjóðendur flokksins færi hann aftur nær miðju og endurheimti þá breidd sem flokkurinn áður hafði og var grunnurinn að tíu ára tímabili hans sem raunverulegs mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Það er bæði þörf fyrir og eftirspurn eftir breiðum félagshyggjusflokki sósíaldemókrata.
Mögulega verður óreiðan á stjórnmálasviðinu nú til þess að flokkar og framboð sameinist á ný á næsta kjörtímabili en flest bendir til þess nú að fleiri og smærri flokkar eigi sæti á þingi að loknum kosningum en nokkru sinni fyrr.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir