Föstudagur 14.12.2018 - 10:16 - Rita ummæli

Krónan og kjörin

Hækkun lægstu launa, breytingar á skattkerfinu og aukið framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði eru mikilvægustu baráttumálin í komandi kjarasamingum. Hátt verð á leigumarkaði og skortur á húsnæði fyrir ungt fólk og þá efnaminni eru svartir blettir á velferðarsamfélaginu sem þarf að bæta úr hið bráðasta.

Verkalýðshreyfingin hefur endurnýjað forystuna og stéttarfélög stillt saman strengi. Væntingar eru miklar og vonir félagsmanna standa til þess að nú takist að semja um eitthvað sem má líkja við þáttaskil þjóðarsáttar og byggingu Breiðholtsins á sínum tíma.

Í krónuhagkerfinu er hrópandi aðstöðumunurinn á milli fjármagnseigenda og launafólks. Gegn honum þarf að vinna á meðan almenningur býr við hlekki krónuhagkerfisins. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ, benti á það í greininni Bylting í krónulandi í Kjarnanum á dögunum að launafólk væri fast inn í krónunni á meðan fjármagnseigendur geta farið inn og út að vild. Slíkt skapar aðstöðumun og  eignaskipting verður ójafnari fyrir vikið.

Fjármagnið getur þannig vikið sér undan lækkun gengis krónunnar á meðan hún verður til þess að kaupmáttur launa lækkar, fasteignalán hækka og launafólk skuldar meira í krónum mælt. Vítahringur opnast sem erfitt getur verið að loka. Launafólkið gengur undir höggin sem sveiflurnar í hagkerfi sem heldur úti minnsta gjaldmiðli í veröldinni skapar.

Til lengri tíma litið er ekkert hagsmunamál stærra eða mikilvægara fyrir almenning í landinu en breytingar í gjaldmiðilsmálum. Lækkun vaxta og afnám verðtryggingar fylgja sjálfkrafa slíkum breytingum. Kostnaður samfélagsins við krónuna er varlega áætlaður 110 miljlarðar á ári, eða um milljón á ári á hverja fjölskyldu í landinu.

Ráðist var í útreikning á kostnaðinum af Vísbendingu í tilefni af svari fjármálaráðherra til undirritaðs við fyrirspurn á Alþingi fyrir 3 árum, um hver væri áætlaður beinn árlegur vaxtakostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja vegna krónunnar, samanborið við vaxtastig alþjóðlegrar myntar á borð við evru.

Í skriflegu svari ráðherra til mín er áætlað að kostnaður heimilanna við krónuna sé á bilinu 0,6 til 1,5 prósent, eða 11 til 29 milljarðar á ári. Samkvæmt Vísbendingu er aukakostnaður þjóðarinnar af því að halda úti íslenskri krónu á bilinu 110 til 130 milljaðar á ári.

Gylfi bendir á að þessi aðstöðu­munur hafi stuðlað að því að eigna­skipt­ingin er ójafn­ari hér á landi en launa­tekju­dreif­ing­in. „Þannig eiga rík­ustu tíu pró­sentin um 70% fram­tal­inna eigna en sam­svar­andi hópur er ein­ungis með nærri 25% heild­ar­tekna fyrir skatta. Bilið á milli ójafn­að­ar­stigs­ins í eigna- og tekju­skipt­ing­unni nú er enn meiri en hann var t.d. á árunum fyrir seinni heims­styrj­öld,“ segir Gylfi í greininni.

Þar til pólitískur meirihluti myndast sem hefur burði og áræði til að takast á við stærsta mál samtímans, gjaldmiðilsmálin, þarf að vinna gegn afleiðingum fyrirkomulagsins með tiltækum ráðum. Komandi kjarasamningar gefa væntingar um að slíkt geti verið í sjónmáli.

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir