Mánudagur 28.02.2011 - 17:35 - 19 ummæli

Alþingi sýnir f-merkið

Fyrir fáum vikum sagði Landskjörstjórn af sér, þar með talinn formaður hennar, Ástráður Haraldsson, af því að kosningin til Stjórnlagaþings var úrskurðuð ógild fyrir handvömm kjörstjórnarinnar.  Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á úrskurðinum, en það tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við að segja af sér embætti ef maður nýtur ekki trausts þeirra sem yfir mann eru settir.  Fyrir því er góð ástæða, jafnvel þótt maður sé ósammála þeim sem ræður för, og það er sérlega mikilvægt að kjörstjórn njóti óskoraðs trausts.

Það var ekkert athugavert við að Ástráður gagnrýndi úrskurðinn opinberlega, eftir að hann sagði af sér (þótt oftast sé betra að aðrir sjái um það en sá sem þurfti að segja af sér).  Við gerum öll mistök, og þegar það gerist þurfum við að geta játað það og tekið afleiðingunum, sem hefur lítt verið í tísku hér á landi.  Þegar Ástráður sagði af sér var ekki laust við að maður þættist sjá bjarma af nýjum degi  og færi að vona að hér myndi á endanum rísa nýtt Ísland úr öskunni.
En, Ástráður ákvað að bíta höfuðið af skömminni með því að taka aftur sæti í sömu Landskjörstjórn, eins og sagt var frá hér, og nú hellist svartnættið yfir á ný.

Það verður heldur ekki til að bæta laskaða ímynd Alþingis að það skuli senda þjóðinni fokkmerki með þessum hætti.  Því nægir ekki að setja áfram flokksgæðinga í þá Landskjörstjórn sem ætti auðvitað að vera fulltrúi borgaranna en ekki þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga fólk á þingi.  Alþingi finnst greinilega ástæða til að ganga skrefi lengra og tryggja að í Landskjörstjórn sitji flokksgæðingar sem hafa klúðrað nákvæmlega því starfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Veit einhver hér á hvers vegum Ástráður situr í nefndinni?

  • Þetta er enn eitt dæmið um forkastanlega spillingu og hroka valdastéttarinnar. Þessi skipun er: ógeðsleg.
    Það er eina orðið sem nær yfir svona háttarlag.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    ég hélt þú værir að grínast en svo fór ég á hlekkinn…

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur
  • Ísland er að verða grátlegra, hlálegra, aumkunarverðara og skítlegra með hverjum degi sem líður. Ekkert kemur á óvart lengur, ekkert.

  • Andrés Ingi

    Já, öngvar breytingar í siðferði landans.

  • Ómar Harðarson

    Ég er algerlega ósammála. Úrskurður hæstaréttardómaranna kom öllum í opna skjöldu. Hvergi í heiminum er gert ráð fyrir fullkomnun í framkvæmd kosninga nema á Íslandi.

    Ástráður og félagar öxluðu ábyrgð með því að segja möglunarlaust af sér, þrátt fyrir að vera ósammála stjórnsýslunefndinni. Það þýðir ekki að þau séu óhæf til setu í Landskjörstjórn. Þvert á móti.

    Ef það á að kosta ævarandi skömm og að vera settur út í ysta myrkur að viðurkenna ábyrgð með því að segja af sér er betra að setja undir sig hausinn og játa aldrei neitt og sitja sem fastast.

    Sú Landskjörstjórn sem nú tekur við hefur nýtt umboð, nýjar reglur til að styðjast við og fært fólk til að takast á við starfið. Ég sakna þess helst að ekki skuli hafa tekist að endurkjósa alla fyrri landskjörstjórnarmeðlimina.

  • Pétur Henry Petersen

    „ævarandi skömm og að vera settur út í ysta myrkur“

    nei, kannski ekki, en samt kannski í lagi að taka sér smá pásu frá því starfi sem að ekki tókst akkúrat sem skyldi.

    Ég spyr eins og Héðinn, fyrir hverja situr hann?

  • Ómar, landskjörstjórn sagði af sér 28. janúar. Hann var formaður nefndarinnar og sá sem kom fram fyrir skjöldu til að tjá okkur ástæður afsagnarinnar. Það er nákvæmlega einn mánuður síðan. Þú hlýtur að sjá að þetta er djók. Afar sjúkur brandari reyndar.

  • Jón G Snæland

    Þetta er ekki skömm alþingis heldur verk Vinstir Grænna

  • Ómar Harðarson

    Pétur Henry og Þórður Áskell. Hversu löng á pásan að vera?

    Þið hljótið að sjá það báðir að það er engin regla hvað það varðar.

    Landskjörstjórn vann sitt verk eins heiðarlega og í eins miklu samræmi við lög og aðstæður leyfðu.

    Hæstaréttardómararnir í jakkafötunum (þ.e. í hlutverki stjórnsýslunefndar) komust að því að það hefðu verið verulegir annmarkar á talningunni sem Landskjörstjórn bar ábyrgð á, en bauð ekki endurtalningu sem hefði verið vægasta aðgerð til að bæta úr. Önnur atriði sem Landskjörstjórn bar ábyrgð á voru ekki talin með verulegum annmörkum.

    Ástráður og félagar brutu ekki af sér. Það er langt í frá. Þeir sýndu hins vegar hvernig á að bregðast við þegar ábyrgðin stoppar hjá þeim hana bera og ekki hægt að vísa neitt annað. Möglunarlaus afsögn Landskjörstjórnar var ekki viðurkenning á sekt, heldur á ábyrgð.

    Fólki sem þannig bregst við treysti ég fullkomlega, og það jafnvel þótt aðeins sé mánuður síðan það sýndi ábyrgðarkennd sína og heilindi í verki.

  • Pétur Henry Petersen

    Ekki ætla ég að fara að kýta um eðli þessa máls eða orsakir. Hinsvegar finnst mér að hver sá sem segir af sér, axlar sína ábyrgð með réttu og eðlilega eigi ekki að ganga strax að sama starfi. Þú getur svo velt þér fyrir hvað „strax“ merkir, í mínu tilviki þýðir það kannski ár eða í tilfelli stjórnmálamanna eitt kjörtímabil eða tímann fram að næstu kosningu. Vissulega er það matsatriði, en ekki strax, eins og í þessu dæmi. Með því er ég ekki að dæma á neinn hátt um hvort viðkomandi hefði átt að segja af sér. Það að segja af sér er virðingarvert en á sama hátt er tilgangslítið ef menn setjast strax í sömu störf. En, kannski eru þetta einhverjir ákveðnir þingmenn eða þingflokkar, að senda þau skilaboð að þeim finnist að sökin sé ekki embættismanna heldur dómara, semsagt pólitískur gjörningur, þannig að kannski er þá þingið að senda dómurum fingurinn en ekki þjóðinni sbr. yfirskriftina.

  • Fokkmerkið er til hæstaréttar, ekki ,,þjóðarinnar“.

  • Bragi Páls

    Ástráður þessi var víst mjög framarlega í Alþýðubandalaginu sáluga, svo böndin beinist sterklega að VG í þessu máli.
    Þetta er verk VG, svo ekki hefur VG lært neitt af spillingunni annað en það að verða virkur þátttakandi í henni.

    Hér hafa hvorki VG né Ástráður sjálfur axlað ábyrgð því völd eru þeim greinilega kærari en siðferði.

    Skömm sé því VG í þessu máli sem öðrum, enda er VG sífellt að mála sig lengra og lengra út í horn fyrir þjóðinni.

  • Ómar Harðarson

    Pétur Henry
    Látum eðli og orsakir liggja milli hluta eins og þú segir. Ég er þér þó áfram ósammála um að tíminn frá afsögn til endurskipunar skipti nokkru máli.

    Ástæðan er þessi: Með því að segja af sér rýfur maður það ferli sem leiddi til þess að ábyrgðin endaði hjá honum. Afsögn neyðir skipunaraðilann til að taka við boltanum og ljúka ferlinu. Taki sá sem sagði af sér aftur við sama eða svipuðu embætti mun hann því koma að hreinu borði – hann getur í reynd látið fyrri keðju atvika sig engu máli skipta því hún er ekki lengur hans mál. Þá gildir einu hversu langt líður milli afsagnar og endurskipunar.

    Eina hugsanlega ástæðan fyrir því að bíða í t.d. ár er sú að þá verði fólk búið að gleyma – eða þetta væri svona kurteisistími, rétt eins ekkjustand eftir andlát eiginmanns. Trúðu mér þó, gleymt gætu Íslendingar aldrei eða unnt afsagnarmanni nokkurs. Einar Steingrímsson (og allir hinir) myndi skrifa sama pistill eftir 11 mánuði ef Landskjörstjórnarskipun yrði frestað en Ástráður enn kjörinn.

    Við getum valið um tvennt: Halda áfram að hossa þeim ósið Íslendinga að setja undir sig hausinn, viðurkenna aldrei neitt, segja aldrei af sér og láta aðeins af embætti „af heilsufarsástæðum“ — eða hvetja til þess að menn geri eins og í öðrum siðuðum þjóðfélögum: viðurkenna ábyrgð með því að segja af sér (og láta því nýja aðila koma að lausnum), en vera jafnframt tiltækur áfram til hvers kyns þjóðþrifaverka.

  • Pétur Henry Petersen

    Já, í prinsippinu er ég sammála þér, en ég er ekki sammála um öfgana. Þú lýsir þessu svo af eða á. Og sérlega er ég sammála þér um mikilvægi þess að hleypa öðrum að til að finna nýjar leiðir og nýjar lausnir.

    Ég verð líka að vera sammála Einari, að það sé sjaldgæft í hinum siðmenntaða heimi, að menn setjist beint í þau sæti, sem þeir hafa staðið upp úr vegna mistaka í starfi (án þess að hleypa öðrum að) eða að það sé leyft. Þetta dæmi er kannski sérstakt vegna þess að þeir sem að skipa í starfið, að því er virðist, eru ekki þeirrar skoðunnar að neitt hafi farið úrskeiðis. Ég hugsa að hér sé verið að senda pólitísk skilaboð frekar en diss á þjóðina.

  • Bergbúi

    Er fólk ekki að rugla saman því að kjörstjórnin stóð upp og arfavitlausum úrskurði hæstaréttar Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar? Landskjörstjórn gerði enga vitleysu, alls ekki. Rangindin voru hæstaréttar.

  • Ómar Harðarson:

    Ekki gleyma því að „þínir“ menn verða ekki endalaust í stjórn. Eftir nokkur ár verða þeir í stjórnarandstöðu, og einhver embættismaðurinn gerir einhver mistök (sem þér finnst alvarleg, en samflokksmönnum hans byggð á „misskilningi“).

    Samkvæmt þinni röksemdafærslu er nóg að embættismaðurinn segir af sér í einn dag, svo geta samflokksmenn skipað hann aftur til sömu starfa.

    Samkvæmt þínum rökum skiptir mestu að embættismaðurinn njóti trausts VALDHAFA en ekki almennings eða dómstóla. Sem mest vald til valdhafa, er það ekki það sem þú ert að segja?

  • Ómar Harðarson

    Pétur Henry
    Ég get fallist á það með þér að ég hafi málað hlutina svarthvítt, en hef það mér til afsökunar að pistill Einars var nokkuð afdráttarlaus. Ég get hins vegar vel samþykkt að hér er um smekksatriði að ræða hversu langt eða skammt skuli vera liðið frá afsögn heiðarlegs manns þangað til hann getur tekið aftur við embætti.

    Um smekksatriði má hins vegar deila endalaust og læt ég af því að sinni.

    Skafti Skeggjason.
    Lýðræði er vont stjórnarform ef ekki væri fyrir að öll önnur eru verri. Þannig vona ég að skipt verði um stjórnarflokka áður en þeir sem fyrir eru gróa við stólana.

    Ég er hins vegar að reyna að koma á framfæri þeirri skoðun að heiðarlegir, grandvarir og ábyrgir menn geta sagt af sér jafnvel þótt þeir hafi ekkert brotið af sér, af því að það er betra fyrir alla að aðrir komi að lausn vandamála.

    Afsögnin jafngildir ekki því að viðkomandi hafi verið sekur og það er alls ekki í þessu dæmi. Þjóðfélag sem biður menn að axla ábyrgð verður líka að taka hinum ábyrgu fagnandi og fela þeim áfram ábyrgðarstörf. Við erum alltof vön hinum, sem enga ábyrgð vilja taka, benda á alla aðra, sitja sem fastast og fara ekki úr embætti nema nauðugir eða „af heilsufarsástæðum“.

    Það er þess vegna sem ég fagna því að Ástráður hafi aftur verið valinn í Landskjörstjórn. Ísland þarf á fólki að halda sem hefur sýnt sig að er fært um að axla ábyrgð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur