Miðvikudagur 02.03.2011 - 11:36 - 17 ummæli

Sorphirða, sparnaður og heimska

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað nýlega að krefjast sérstakrar greiðslu fyrir sorphirðu í þeim húsum þar sem meira en 15 metrar eru að sorptunnunum frá þeim stað sem sorpbílarnir komast næst.  Uppgefin ástæða er sparnaður, þ.e.a.s. útgjaldaminnkun hjá borginni.

Almennt séð er sjálfsagt að borgin innheimti gjöld fyrir þann kostnað sem hún verður fyrir vegna þjónustu við íbúana.  En það er hæpið að láta þá íbúa borga aukalega sem eiga sorptunnur fjærst gatnakerfinu og fáránleikinn verður sérlega frumlegur þegar þetta gildir um íbúa eins stigagangs í blokk en ekki næsta. Engum dettur í hug að láta þá borga hærri gatnagerðargjöld sem búa innst í botnlanga, þótt þeir noti augljóslega meira af gatnakerfinu en nágrannar þeirra.  Jafn fráleitt væri að heimta hærri gjöld fyrir vatnið af þeim sem búa fjærst dælustöðvunum.

Það sem er þó verra við þetta, sérstaklega fyrir flokk eins og Samfylkinguna, sem þykist vera félagslega sinnaður,  er sú sóun sem felst í því að eyða peningum í vinnu við að mæla fjarlægðina í sorptunnur borgarbúa, og að koma upp innheimtukerfi þar sem þessu er haldið til haga.  Þannig er dregið úr vinnunni við þá þjónustu sem borgarbúar njóta (og borga fyrir) og þeir peningar sem sparast settir í míkrókapítalískt innheimtukerfi sem er til ama fyrir íbúana, og til háborinnar skammar fyrir þá sem fara með völdin í Reykjavík.

Þetta er í besta falli ófyrirgefanleg heimska, en í versta falli andfélagslegur hugsunarháttur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • RUSLARAPAKK!

  • Steinarr Kr.

    Góður póstur.

  • Ég tek undir með Skarpur: RUSLARAPAKK ! Sjálfum sér til háðungar, skelfilegt að vita til þess að þurfa sitja uppi með þessa fáráðlinga bæði í Borgarstjórn og Alþingi.
    Annars takk fyrir alveg einstaklega góða og skemmtilega pistla. Ánægjulegt og gott að fá að lesa pistla eftir fólk sem skrifar af viti..

  • Áslaug Ragnars

    Fyrir nú utan það að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hljóta að eiga sinn hluta af sökinni.

  • Hildur Helga Sigurðardóttir

    Var einmitt að hugsa það sama þegar mér barst hátíðlegt bréf um málið frá Sorphirðu borgarinnar.
    Eitthvað hefur það nú kostað að vera með mannskap á kaupi við að mæla fjarlægð hverrar einustu ruslatunnu á höfuðborgarsvæðinu „frá sorpbíl, þaðan sem bíllinn kemst næst ílátunum“.
    Tónninn í bréfinu minnir síðan óþægilega á hótunarbréf innheimtufyrirtækja. Skyldi verkið hafa verið boðið út og Intrum fengið dílinn ? Varla vinna þeir ókeypis…

  • Kristín Soffía

    Sæll Einar

    Mig langar aðeins að benda á nokkra punkta. Þetta var samþykkt í Umhverfis- og samgönguráði, sem fer með stefnumörkun í málafokknum, með atkæðum allra flokka. Sjálfstæðismenn og VG sátu svo hjá í borgarstjórn.

    Það er og hefur verið stefna Reykjavíkurborgar að sorphirða og eyðing standi undir sér. Það er alveg rétt að það heði verið hægt að hækka sorphirðugjöldin en frekar jafnt yfir alla og það er ein leið. Mér finnst persónulega betra að gefa fólki kost á að færa sínar tunnur nær, annað hvort varanlega, eða að trilla þeim nær sorphirðubílnum þrisvar sinnum í mánuði.

    Þetta fyrirkomulag hefur verið í Árborg seinustu 3-4 ár og gefið góða raun, þeir setja mörkin við 7 metra og þetta hefur gefið góða raun. Svona hefur þetta verið á Akureyri í tvo mánuði og einnig gefið góða raun þar.

    Ekki þurfti að kalla út starfsfólk né setja á yfirvinnu til að standa í mælingum í borginni og hefur undirbúningur og framkvæmd rúmast innan eðlilegs vinnutíma fastráðins starfsfólks hjá Sorphirðu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg og því ekki hægt að tala um að eytt hai verið peningum í þessa aðgerð.

    Talið er að auknar tekjur af framkvæmdinni verði um 70 milljónir á ári og auk þess er búist við hagræðingu með styttri hirðutíma.

    Þetta er lækkun á þjónustustigi og verður það núna nær því sem þekkist í okkar nágrannalöndum.

    Mbk
    Kristín Soffía

  • Einar Steingrímsson

    Sæl Kristín Soffía.

    Takk fyrir þessar upplýsingar.

    Ekkert af því sem þú segir breytir samt skoðun minni á þessu. Mér finnst fráleitt að mismuna íbúum eins stigagangs í blokk miðað við annan, og einnig þótt um sé að ræða raðhús eða einbýlishús, og ekkert skárra en að taka hærri gatnagerðargjöld af þeim sem búa innst í botnlanga.

    Það er augljóst að það kostar að framkvæma þessar mælingar og að setja upp innheimtukerfi fyrir þetta. Það breytir engu þótt sú vinna hafi verið unnin af fólki sem annars hefði ekkert gert í vinnunni á þeim tíma sem í þetta fór; augljóslega hefði verið hægt að láta það vinna eitthvert gagn í staðinn.

    Mér finnst líka mikil afturför ef íbúarnir eiga aftur að fara að eyða tíma í umstang í sambandi við sorphirðuna, í stað þess að það sé gert sameiginlega. Með þessari afstöðu mætti alveg ganga skrefi lengra og skikka fólk til að fara sjálft með allt sitt sorp á tiltekna staði í borginni.

    Tekjurnar sem þú talar um, 70 milljónir, eru ekki sparnaður, því nokkuð öruggt er að þetta kostar meiri tíma fyrir íbúana en það hefur gert fyrir sorphirðumenn. Það er einmitt þess vegna sem hlutir af þessu tagi eru skipulagðir fyrir borgir í heilu lagi, og unnir af fagfólki.

    Sem sagt, mér finnst þetta hryllileg afturför, sem lýsir skilningsleysi á eðli borgarsamfélags, og andfélagslegum hugsunarhætti. Auk þess sem mismununin sem í þessu felst er afar illa grunduð.

  • Kristín Soffía

    Sæll aftur Einar

    Eins og ég segi er alls ekkert sjálfsagt að allir séu sammála um þetta og það er ákveðin stefna að hafa gjöld óháð þjónustu. Einn galli við það er að þá tökum við valið af fólki, fólk hefur núna þrjá valkosti: Kaupa sér aukaþjónustu, flytja sorpgerðið varanlega eða flytja tunnurnar á hverjum tíma.

    Þú bendir líka réttilega á að þá væri hægt að ganga lengra í að skilgreina gjöld útfrá kostnaði og þjónustu og það er alveg rétt. Við gætum líka gengið lengra í að setja flöt gjöld óháð þjónu og jafnvæl væri hægt að taka öll gjöld inn í skattheimtu. Það er kannski ekkert rétt eða rangt í þessu, þetta eru bara mismunandi stefnur í pólitíkinni.

    Að þetta sé ekki sparnaður af því að fólk sé lengur að þessu en sorphirðumenn er líka góður punktur. Eru þetta eiginlegur sparnaður fyrir borgarsamfélagið í heild ef að fólk gæti verið afla tekna annarsstaðar í staðinn? Það er ómögulegt að svara þeirri spurningu en samt sem áður er ljóst að þetta eru auknar tekjur fyrir Reykjavíkurborg og hagræðing.

    Annað sem ég vildi höggva í er að þú talar um að mismununin sem í þessu felist sé afar illa grunduð. Þarna vil ég fá að mótmæla aðeins, það var ljóst í öllu að þetta kæmi á mismunandi hátt við borgarbúa og ákvörðunin tekin þrátt fyrir það. Samkvæmt þeim upplýsingum sem að ég hef aflað mér er ekki rétt að tala um eiginlega mismunun þar sem að sömu þjónustuviðmið eru allsstaðar í borginni.

    En alltaf gaman að eiga í málefnalegum rökræðum.

    Mbk
    Kristín

  • Takk fyrir flotta og góða pósta með málefnalegum rökum, en þessum samanburði er ég ekki sammála. Vatnslagnir þarf ekki að leggja út 3 sinnum í mánuði. En hvað um það, það þarfnast meiri sorteringar í staðin og geta fækkað ferðum og fara betur með náttúruna, það er hagnaður fyrir alla. Síða höfum við gleimt að hugsa eftir að við vöknuðum upp við vondan draum að rusl þurfum við að losna við en skipulag við nýbyggingar hafa ekki tekið mið af því og þeirri aukningu sem átt sér stað síðursu áratugi á magni umbúða og gerðar.

  • Kristín Soffía

    Mjög góður punktur Ingólfur – lagnir og götur eru auðvitað eign Reykjavíkurborgar. Kannski væri nær að bera þetta saman við snjómokstur, sópun og söndun. Þar er t.d. búið að draga á svipaðan hátt úr þjónustu þar. Umferðarmiklargötur eru mokaðar, saltaðar og sandaðar en litlar húsagötur fá ekki þessa þjónustu. Þannig að þar er dæmi um svipaða „mismunun“ – sumir koma út á auða götu en aðrir þurfa að moka sjálfir.

    Mbk
    Kristín Soffía

  • Gísli Gunnlaugsson

    Algerlega sammála þér í þessu máli Einar. Á Akureyri var tekið upp eitthvað svona kerfi og fólk skikkað til að koma öllu sorpi öðru en lífrænum efnum og óendurvinnannlegu á sérstakar gámastöðvar. Þetta þarf helst að gera einu sinni í viku. Mér er sprun af hverju fólk fer þá ekki með allt sorpið og þá væri hægt að leggja niður alla sorphirðu úr heimahúsum með miklum sparnaði fyrir bæjarfélagið. Nuverandi kerfi að láta sorphirðuapparatið taka áfram ca 1/3 hluta sorpsins og svo alla íbúana fara aðra ferð með restina er gersamlega út í hött.
    Svo í sambandi við kostnaðinn af því að ganga td. 10 metrum lengra með tunnurnar þá er hann miðað við 4 km/klst gönguhraða 20/4000 klst x 36 skitpti x 2500kr/klst = 450 kr. á ári. Af hverju Reykjavíkurborg ætlar að taka 4800 kr fyrir þessa þjónustu bendir til þess að þeir reikni með að það séu að meðaltali um það bil 100 metrar í tunnurnar.

  • Breytingarnar á sorphirðumálum Reykvíkinga eru um margt eðlilegar en borgaryfirvöld taka skakkan pól í hæðina við útfærsluna. Litið er á 15 metra ruglið sem kjörið tækifæri til að auka tekjur borgarinnar; enn ein skattheimtan og er þó nóg fyrir af þeim ósóma. Breytingin átti fyrst og fremst að snúast um hagræðingu fyrir sorphirðumenn og auðvelda þeim störfin. Að vetrarlagi í snjóþynglsum er ekki leggjandi á nokkurn mann að drattast daglega með hundruð af þungum tunnum um langan veg. Það sjónarmið hljóta allir góðir menn að virða. Í Danmörku þykir fólki það ekkert tiltökumál að færa sorptunnur sínar nærri gangstétt á sorphirðudegi og fær í staðinn glaðlegt og þakklátt bros frá erfiðismönnunum. Borgaryfirvöld áttu einfaldlega að koma þeim boðskap á framfæri, að ruslatunnur tugum metra frá sorpbíl yrðu ekki losaðar. Óánægja til að byrja með en hagræðingin fyrir sorphirðumenn viðurkennd og virt og allir sáttir er tímar líða.
    En skattheimta sem byggir á daglegum mælingum og yfirgripsmiklu innheimtuapparati er fáránleg og yfirvöldum til skammar. En það er eftir öðru hjá Samfylkingunni sem ræður ferðinni bæði hjá ríki og borg. Skattheimta er þar lykilorðið og margar fjölskyldurnar skildar þannig eftir, að þær hafa varla til hnífs og skeiðar. Á þeim bæ hefur orðinu „velferð“ miskunnarlaust verið fleygt í sorpið.

  • Almenningur skipuleggur ekki umhverfi sitt.

    Það gera borgaryfirvöld.

    Fjölmörg dæmi eru um að leið að tunnum hafi lengst mikið vegna skipulagsákvarðana borgaryfirvalda.

    Nú eiga þeir sem enga aðkomu áttu að þeim málum að borga meira vegna ákvörðunar borgaryfirvalda!

    Þetta er algjörlega óboðlegt og til skammar.

    Þakka Einari góð skrif.

  • Harpa Björnsdóttir

    Í sumum hverfum borgarinnar eru botnlangar frá aðalgötunni sem húsin standi við – gott dæmi er víða við Sogaveginn. Þetta nýja kerfi virkar fáránlega þar. Hjá mér persónulega þá bý ég líka við götu þar sem er tvöföld húsaröð og heimreið að húsum sem liggja innar. Ef fara ætti eftir 15 metra kerfinu þá hef ég valið að útbúa ruslageymslu inni á lóð nágranna míns eða finna dagatalið og rölta með tunnurnar á tilskyldum dögum………ætli maður tölti ekki með þetta frekar……..en ég velti fyrir mér hvernig á að leysa þetta gagnvart íbúum við Sogaveginn, ef þau kjósa að ganga með sínar tunnur út í götuna þá verða það ansi margar ruslatunnur sem standa þar, hugsanlega allan daginn, því fólk er ekki heima við til að trilla með þetta til baka um leið og búið er að tæma………ef til vill verður þetta illseljanlegra húsnæði vegna aukins rekstrarkostnaðar eða fyrirhafnar sem fylgir því.

    Arfavitlaust fyrirkomulag…….frekar hækka álögur jafnt yfir og sama þjónusta fyrir alla.

  • Annars má lengi þræta um þetta en okkar aðstæður eru svo í dag. Hefur ekki alltaf verið óréttlæti í gangi í mörgum málum hjá því opinbera. Við gömlu aðstæðurnar þarf borgin að taka tillit til þess og ef það eru fleir en einn bygging við sömu lóð (1a og 1b) þar ætti að reikna sinnum fjöldi eða einhvað í svipuðum dúr. Við gamla og fatlaða má eftir aðstæðum fella niður þetta aukagjald. Allt sem þarf er að vekja athygli á þessum vanda. Umbúðarvæn hugsun er þá rétta valið í framtíðinni. Ekki minkar okkar rusl það er vitað mál, ef ekki aukning. Borgin gæti hagrætt svo að það yrði sett út vissar úmbúðarinsöfnun við stórmarkaði, þángað fara flestir, þar með eingar aukaferðir og líka hverisbundnar. Skatt á vanhugsaðar umbúðir mætti líka setja á. Innihaldið í umbúðum er það sem skiftir mestu máli, en ekki glæsileiki umbúða. Sama og á að gilda um okkur mannfólkið. Þeir sem vilja ekki sortera eða hugsa um hagkvæm inkaup eru latir. Vilja láta gera það fyrir sig, en eru nískir og eigingjarnir.

  • Já Harpa gott dæmi með Sogaveg, svo er það vesturbærinn er að þessu leiti stór gáta. Borgin verður að setja höfuðið í blautt og hugsa allt til enda.

  • Sammála þér Einar. Í mínu tilfelli sýnist mér þetta stangast á við jafnræðisreglu og góða stjórnsýslu. Ég bý í húsi sem skv ca 35 ára gömlu borgarskipulagi stendur lengra frá götu en samskonar hús sumra nágranna minna. Í okkar tilfelli höfðu arkitektar hússins ekkert um að segja staðsetningu hússins eða sorptunnu. Mér finnst mjög hæpið að borgin geta þannig breytt forsendum á íþyngjandi hátt fyrir mig sem íbúa, óháð upphæðinni, kreppuástandi eða þörfinni fyrir að hvetja fólk til að minnka sorp. Ég mun amk láta reyna á þetta fyrir viðeigandi úrskurðarvaldi (dómstólum eða umb.manni alþ)!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur