Mánudagur 18.04.2011 - 22:50 - Rita ummæli

Vilhjálmur bullar og fjölmiðlar lepja upp

Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra „Samtaka Atvinnulífsins“, líst illa á þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins.  Það er skiljanlegt, því hann hefur tekið að sér að vera sérstakur talsmaður þeirra sem vilja halda áfram að ausa ofurgróða í eigin vasa úr þeirri fiskveiðiauðlind sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill nú taka til sín aftur, eftir slæma reynslu síðustu ára.

Það er að nokkru skiljanlegt að Vilhjálmur beiti sér í þessu máli, þótt hann fari þar trúlega gegn hagsmunum ýmissa umbjóðenda sinna, sem líklega myndu frekar vilja ganga frá kjarasamningum til nokkurra ára en að láta LÍÚ og Vilhjálm taka þá í gíslingu til að knýja á um áframhaldandi einkayfirráð sín yfir því sem þjóðin þykist eiga.

Það er enginn lengur hissa á því hvað Vilhjálmur bullar ólánlega, þótt menn greini á um hvort þetta sé herkænskubragð (eins og þegar Georg W. Bush lék aula í ríkisstjórakosningabaráttu i Texas forðum tíð, og hafði sigur).

Það er hins vegar ráðgáta af hverju fjölmiðlar á borð við Vísi og Eyjuna birta umhugsunarlaust þvættinginn úr manninum þegar hvert mannsbarn sér að ekki stendur steinn yfir steini í „röksemdafærslu“ hans:

„Sjávarútvegsmálin og þessi löggjöf um fiskveiðar er lifandi löggjöf sem þarf alltaf að breyta öðru hverju eftir aðstæðum. Og það getur verið mjög óhöndulegt ef þarf alltaf að setja slíkar breytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu“

Datt viðkomandi fréttamönnum virkilega ekki í hug að spyrja af hverju ætti að þurfa að „breyta öðru hverju eftir aðstæðum“ hver ætti kvótann?  Hafa þeir ekki fylgst með sínum eigin fjölmiðlum og orðið þess áskynja að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill endurheimta eignarhaldið á kvótanum til eilífðar, og að  í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði því lýst yfir í eitt skipti fyrir öll?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur