Fimmtudagur 09.06.2011 - 14:10 - 7 ummæli

Einn maður eitt atkvæði — en sum atkvæði vega þyngra en önnur

Í þessari frétt segir meðal annars:  „Sú nefnd stjórnlagaráðs sem fjallar um kjördæmaskipan og þingkosningar leggur til talsverðar breytingar á fyrirkomulagi kosninga til Alþingis og vill að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt líkt og þjóðfundur lagði mikla áherslu á.“

Síðar segir svo:  „Þá er lagt til að setja megi í lög ákvæði um lágmarkshlutfall karla og kvenna á þingi.“

Ef þetta er rétt eftir haft er það ráðgáta að stjórnlagaráð, sem hingað til virðist hafa unnið gott starf laust við rugl, skuli setja fram tillögu sem er í svo hróplegri mótsögn við hugmyndina um jafnan atkvæðisrétt og frjálsar kosningar.  Afleiðingarnar af kerfi sem þessu gætu orðið að miklu fleiri konur en karlar hlytu brautargengi í kosningum, en til að „leiðrétta“ ranga kosningu kjósenda þyrftu konur með mikið fylgi að víkja fyrir körlum með miklu minna fylgi.

Að margir telji líklegra að halla myndi á konur er ekki afsökun fyrir ákvæði af þessu tagi; stjórnarskrá sem á að endast verður að innihalda grundvallarreglur sem standast tímans tönn.  Burtséð frá því á hvort kynið hallaði í kosningum ætti það líka að vera óbærileg tilhugsun sérhverjum lýðræðissinna að ætla að svipta stóran hóp kjósenda fulltrúa sem hann hefur valið, af því að þessi hópur hafi einfaldlega valið rangt að mati einhverra besserwissera.

Hugsunarháttur af þessu tagi á ekki heima í nútímalýðræðisríki, ekkert frekar en hugmyndirnar fyrir hundrað árum um að konur ættu ekki að njóta sama kosningaréttar og karlar.  Þvert á móti ætti að vera í stjórnarskrá ákvæði um jafnan og frjálsan atkvæðisrétt, og afleiðing af því hlyti að vera að ekki væri hægt að leið í lög þá mismunun sem hér er rætt um.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ég leyfi mér að lýsa mig ósammála þér um stjórnlagaráðið.

    Ég batt við það miklar vonir.

    Tillögur þess eru á hinn bóginn moðsuða og lausar við alla róttækni.

    Hugsunin er aðeins sú að uppfæra stjórnarskrána – Ísland 2.0

    Uppistaðan er líka borgaralega sinnað miðaldra fólk sem löngu hefur kastað allri róttækni og glatað hefur getunni til skapandi hugsunar.

    Þ.e. í þeim tilfellum sem hún var þá til staðar.

    Þessi tillaga segir eiginlega allt sem segja þarf um þetta ráð og alla nálgun þess.

    Pólitísk rétthusun er ráðandi og þá fara allar hugsjónir um það sem kalla má raunverulega frjálsar kosningar út um gluggann.

    Þetta kemur mér ekki á óvart.

    Þvílík vonbrigði!

  • Þarna er verið að leggja til „heimild“ til að …
    Sú heimild á að mínu álita að veita aðhald meðan verið er að koma á ákveðnu jafnvægi milli kynja við stjórn landsins.

    Þetta hefur verið gert víðar en hér og á öðrum sviðum. Það eru ríkjandi svo miklar hefðir um hlutverk kynjanna á öllum sviðum samfélagsins að maður hrekkur bara við þegar bent er á fáránleg dæmi þar að lútandi.

    Það er mikill misskilningur að með þessu sé verið að fórna frjálsum kosningum, en eins og ævinlega þegar jákvæðar breytingar eru lagðar til þá koma fram hávær mótmæli.

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Gæti ekki verið meira sammála þér. Ótrúlegur fíflagangur. En við skulum hafa hugfast að þarna innan um eru fulltrúar sem voru kosnir inn til að vera lobbýistar fyrir svona undarlegheit.

  • Ég er sammála Rósu hér að ofan.

    Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þetta stjórnlagaþing.

    Ofboðslega lítið spennandi og ekkert nýtt þarna á ferðinni.

    Miðaldra broddborgarar að afhjúpa algjört andleysi sitt og rétthugsun.

    Súrt.

  • Hafa skal það í huga að stjórnlagaþing hefur nákvæmlega ekkert umboð til að breyta stjórnarskránni. Fyrir utan það að kosningin var dæmd ólögleg af Hæstarétti er skýrt kveðið á um það í stjórnarskrá hvernig breyta beri stjórnarskránni – og stjórnlagaráð Samfylkingarinnar er ekki þar að finna.

  • Ég sé engan tilgang í því að byrja að deila á ný um kosninguna osfrv.

    Vandinn er hvað þetta er andlaust allt saman og laust við róttæka hugsun.

    Og lamað af rétthugsun og frösum eins og einhver nefndi hér.

  • Sölvi Kjerúlf

    Allir skulu vera jafnir“(en sumir jafnari en aðrir)“Animal farm Orv.
    Einn maður, eitt atkvæði, allt annað er brot á mannréttindum og er kveikja að pólitískri spillingu.Þetta er nú frekar auðskilið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur