Fimmtudagur 27.02.2014 - 10:15 - 12 ummæli

Pólitískur drullusokkur

Í sjónvarpsfréttum RÚV  í gærkvöldi var talað við einn af ráðherrum landsins.  Þetta var frábært viðtal, sem er allt of sjaldgæft á RÚV, því ráðherrann fékk allar þær augljósu spurningar sem hann átti að fá.  Sýnd var klippa úr Silfri Egils þar sem ráðherrann lýsti vandlega afstöðu sinni til ESB-málsins, sem var sú að þjóðin fengi að segja sinn hug í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum skyldi haldið áfram eða ekki.  Framhaldið af því átti, samkvæmt ráðherranum, að vera þetta:
„Og ef það er þannig, að þjóðin segir já við því, þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“
Aðspurður um það af hverju hann hafi breytt afstöðu sinni engist ráðherrann svolítið, og svarar á þá leið að ekki sé hægt að neita því að þessi ummæli séu til (sem honum virðist finnast slæmt).  Og  svo segir ráðherrann  eitthvað um að hann sé að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar, og gefur í skyn að það sé þess vegna sem hann sé orðinn  algerlega afhuga því að þessi sama þjóð fái nokkru að ráða um málið.
Fréttakonan gerir það sem hefur verið allt of sjaldgæft á RÚV (og fleiri miðlum); hún spyr hinnar augljósu spurningar:  Voruð þið ekki að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar þegar þið sögðuð, hvert á fætur öðru, að það yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu?
Hér dettur ráðherranum það snjallræði í hug að bera fyrir sig tilvitnun í ónefndan mann (sem áheyrandinn á væntanlega að fá á tilfinninguna að hafi verið djúpvitur, þótt ráðherrann nefni ekki nafn hans). Tilvitnunin er þessi:
„Ef staðreyndirnar breytast, og mat mitt á þeim, þá breyti ég um afstöðu. En þú?“
Fréttakonan lætur ekki slá sig út af laginu, heldur spyr aftur hinnar augljósu spurningar:  „Hvaða staðreyndir hafa breyst?“
Svar ráðherrans er á þá leið að það sem hafi breyst sé það hvernig þingið og  ríkisstjórnin séu saman sett, og að það „lá ekki fyrir fyrir kosningar“.
Fyrir kosningar fannst ráðherranum rétt að þjóðin fengi að taka ákvörðun í þessu máli, og að af þeirri ákvörðun væru „allir menn og allir flokkar bundnir“. Eftir kosningar eru flokkur hans og hinn stjórnarflokkurinn hins vegar alls ekki bundnir af afstöðu þjóðarinnar.  Þeir eru í yfir- og næturvinnu þessa dagana við að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin fái nokkurn skapaðan hlut um málið að segja, og það þótt yfirgnæfandi meirihluti kjósenda allra flokka vilji einmitt að þjóðin fái að segja sitt.
Fólk sem tjáir sig opinberlega er oft skammað fyrir að nota of stór og ókurteisleg orð.  Það er rétt að ofnotkun slíkra orða er slæm.  En, mér finnst hitt ekki síður mikilvægt, að segja skýrt og skorinort það sem stundum liggur í augum uppi, í stað þessa að hlífa fólki í valdastöðum við sannleikanum.  Því ætla ég að segja það sem mér finnst vera augljós niðurstaða af framkomu þessa manns:
Hann er pólitískur drullusokkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Haukur Kristinsson

    Litla íslenska klíkusamfélag drullusokkanna, þar sem fólk er ekki metið að verðleikum, gerir landið lítt spennandi fyrir vel menntað og metnaðarfullt ungt fólk. Það er óþolandi með öllu að alltaf skulu einhverjir Jónasar Fr. Jónssynir, sjalladúddar sjalldúddasynir, hafa forskot á aðra, þeim hæfari.

    Þetta hefur að vísu alltaf verið svona, allt frá því að Heimastjórnin var sett á laggirnar, en til lengdar gengur þetta ekki. Nema við viljum áfram vera tossar álfunnar, hrunvaldar og sparifésþjófar (nútíma sauðaþjófar), stórastir í heimi, “different”, eins og forseta ræfillinn orðaði það.

    Og nú er háttsettur alþingismaður stjórnarinnar farinn að hvetja fyrirtæki að auglýsa ekki í blaði, sem er honum á móti skapi.

    Endum við í siðhruni?

  • Guðmundur Sigmundsson

    Hver ert þú Einar Steingrímsson að kalla fólk drullusokk fyrir það að berjast fyrir því sem það telur rétt þrátt fyrir að það sé óvinsælt og erfitt.

    Mörgum finnst þú vera drullusokkur:
    Einar Steingrímsson, prófessor í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík, HR, hefur verið rekinn úr starfi við skólann. Ástæðuna telur hann vera þá að stjórnendum hafi þótt hann of „óþægilegur“ vegna gagnrýni hans á stefnu og stjórn skólans. „Það er alveg augljóst að ég var rekinn fyrir að rífa kjaft,“ segir Einar.

    Menn ættu ekki að kasta steinum úr glerhúsi.

    • Guðmundur: Ég kalla Illuga ekki drullusokk fyrir að „berjast fyrir því sem [hann] telur rétt þrátt fyrir að það sé óvinsælt og erfitt“. Heldur, eins og þú ættir að skilja hafirðu lesið pistilinn, fyrir að telja það í lagi að gera allt aðrar kröfur til sín og síns flokks þegar hann er í ríkisstjórn heldur en það sem hann gerði til allra manna og allra flokka þegar hann vissi ekki hvort hann yrði í ríkisstjórn.

      Það er ekki bara eðlilegt að kalla mann sem brýst inn og stelur innbrotsþjóf, það er nauðsynlegt að gera það þegar verið er að tala um það athæfi mannsins, því það er sannleikurinn. Sama gildir um valdafólk sem kemur fram með drullusokkslegum hætti í starfi sinu, það er nauðsynlegt að fegra ekki athæfi þess. Í þessu tilfelli leikur nákvæmlega enginn vafi á því hvað Illugi sagði og meinti fyrir tæpu ári, og það leikur enginn vafi á því hvað hann sagði í gær, og hvað hann er að gera í þinginu.

  • Hreggviður

    Já svo sannarlega er Illugi Gunnarsson pólitískur drullusokkur.
    Það eru líka hinir ráðherrarnir sem lugu að kjósendum og það á við um ráðherra beggja flokka í (ó)stjórninni.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    „Hæstvirtur“ pólitískur drullusokkur. 🙂

  • Daði Ómarsson

    Að svara spurningu með spurningu er lang oftast merki um rökþrot og er þetta atvik í kvöldfréttunum augljóst dæmi um þannig aðstæður.

  • Ríkisstjórnin er búinn að skíta sig út í horn.

  • Kári Jónsson

    Sérhagsmuna-ríkisstjórnin er að gefa skít í 38.000 undirskriftir, áður hefur hún lét byrðum af peningalega-ríkasta-fólkinu í landinu, hvað gengur fólki til að greiða þessum flokkum atkvæði sitt, sem lagði grunninn að HRUN-ÞJÓFNAÐINUM hér heima, með því að taka allt regluverkið úr sambandi , sem átti að bregðast við BANKABÓFUM og öðrum fjárglæfra-fólki. Almenningur verður að taka sér tak, gera þá kröfu til sjálfs síns að mynda sér skoðun og standa við hana, ef EKKI, munu Illugi og Gunnar Bragi halda áfram að SVÍKJA og reyna að LJÚGA sig frá orðum/verkum sínum.

  • Hvernig var aftur mðe Sjóð 9? Svona í ljósi þess að Illugi var að eitthvað að bulla um aukinn niðurskurð í framhaldsskólum.

    Illugi var skorinn úr snörunni með drjúgri slettu úr galtómum ríkissjóði. Svo hætti kallinn á þingi í nokkra daga og mætti svo hvítþveginn með lögfræðiálit sem hann pantaði sjálfur þar sem fram kom að hann bar enga ábyrgð á sukkinu í Sjóði 9.

    Nokkru síðan er Illugi níundi kosinn á þing aftur og er nú ráðherra. Þessi maður vélar nú með fjármuni almennings þrátt fyrir að varla nokkur maður með fullu viti myndi treysta honum fyrir tíkalli.

  • Að láta sér ekki detta annað í hug en að réttlæta þetta með breyttum „aðstæðum“, sem eru þær að flokkurinn er kominn í ríkisstjórn, er svo … tja ég veit bara ekki hvað skal segja!

    Svona eins og að lofa heitkonu öllu fögru en svíkja það svo eftir brúðkaup, með þeirri skýringu að aðstæður séu breyttar, „já n ,elskan mín, nú erum við gift, við vorum það ekki þegar ég lofaði þér þessu!“

  • Drullusokkur er afskaplega þarft fyrirbæri, annarsvegar tekur hann á sig allt skítkast þannig að það lendir ekki á viðkvæmari hlutum nú í annan stað losar hann um stýflur þannig að hlutirnir geti runnið ljúft áfram. Drullusokkar eru þarfaþing.

  • Gæti verið að það sem hefur breyst er að í stjórn eru tveir flokkar sem velja að fara eftir ákvörðunum landsfunda sinna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur