Þriðjudagur 26.07.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Fótbolti, konur, karlremba?

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Íslenska þjóðin (í stórum dráttum) ærðist af gleði yfir sigrum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi á dögunum (þótt sumir þessara sigra hafa víst bara verið jafntefli). Gleði er yfirleitt frábær fyrir þann sem fyrir verður, svo enginn ætti að agnúast út í skemmtunina (og reyndar er illskiljanlegt hvað sumir gátu orðið fúlir út í okkur þessi örfáu sem leyfðum okkur að gera grín að látunum, rétt eins og við, fimmtán fýlupúkar, gætum varpað skugga á tryllta gleði hinna þrjúhundruðþúsundanna).

Ég skil líka alveg nýkjörinn forseta, Guðna Th, að hafa misst sig svolítið út fyrir velsæmismörkin, og viljað gera sænskan þjálfara landsliðsins að heiðursborgara, þótt maðurinn hafi bara verið að vinna vinnuna sína, sem hann hefur örugglega mikið gaman af auk þess að fá borguð ofurlaun fyrir hana, öfugt við allt hitt fólkið sem gerir svo mikið gagn í samfélaginu með því að vinna leiðinlega vinnu fyrir skítalaun og aldrei neinar fálkaorður, hvað þá heiðursborgarasess, eins og t.d. sorphirðumenn og afgreiðslufólk í matvöruverslunum.

En það er eitt sem ég skil ekki. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur árum saman staðið sig miklu betur en karlalandsliðið. Og þótt vissulega sé fjallað um það í fjölmiðlum þegar vel gengur, þá er sá munur á að þegar það gerist er samt alveg hægt að lesa íslenska netmiðla. Þótt kvennalandsliðið sé að rústa liðum annarra landa (og vinna sigra sem eru ekki jafntefli heldur sigrar, í klassískri merkingu þess orðs) þá eru bara ein eða tvær fréttir á hverjum miðli þegar mest lætur, en ekki allar þrjátíu og fimm efstu „fréttirnar“ á RÚV, Vísi, Kjarnanum, …

Það eru heldur ekki sagðar neinar fréttir af því þegar kvennalandsliðið vinnur glæsta sigra að Siggi Jóns hafi dottið íða með Gunnu Sig á einhverjum bar í einhverju krummaskuði í útlöndum, þar sem allir útlendingarnir hafi slefað yfir þau bæði, án þess nokkur Íslendingur (nema vinir og vandamenn) hafi heyrt á þau skötuhjú minnst áður, bara af því að allir elska Íslendinga í öllum útlöndum af því að Íslendingar eru svo frábærir af því að kvennalandsliðið er svo frábært, og Gunna og Siggi sögðu hú á þessum bar. (Reyndar var Gunni bara að æla, en það hljómaði alveg eins og alvöru hú.)

Nei, þegar kvennalandsliðið fer sína endurteknu sigurför á stórmótum eru fréttir af því bara nokkurn veginn eðlilegar (í augum okkar sem finnst íþróttafréttir allt í lagi, en ekkert merkilegri en fréttir af kartöfluuppskeru í Þykkvabænum).

Og nú spretta fýlupokabanarnir fram úr skúmaskotum sínum og fara að kalla mig fýlupoka sem ekkert fatti. Af því að allir sem fylgist með íþróttum viti jú að skýringin á þessari þjóðarmaníu, ef ekki -geðsturlun, yfir strákunum ykkar sé sú að karlafótbolti sé miklu, MIKLU stærri íþrótt en kvennabolti. Þess vegna sé alveg eðlilegt að allir fjölmiðlar í landinu leggi niður alla fréttamennsku í þrjár vikur til að pláss verði fyrir allar sögurnar sem nauðsynlega þarf að segja af því hvernig Gunna og Siggi fundu snilldarlega leið til að ferðast frá Nice til Parísar þótt umferðaröngþveitið hefði átt að gera það ómögulegt að mæta á leikinn í tæka tíð. Og aðrar svipaðar heimsfréttir þá dagana …

Nema, … Það vill svo til að íslenska þjóðin, forseti og fjölmiðlar hafa líka farið á hliðina (bæði af monti og drykkju) þegar karlalandsliðið í handbolta hefur unnið einhverja sæmilega sigra. Þá safnast saman tugir þúsunda á Arnarhóli til að hylla hina strákana ykkar, forsetinn notar tækifærið og baðar sig í sviðsljósinu, og gott ef hann nælir ekki fálkaorðu í barm þeirra fyrir að hafa mætt í vinnuna, eins og gert er við suma sem það gera.

Og, handbolti er pínulítil jaðaríþrótt í heiminum …

Í ofanálag er svo einn og aðeins einn Íslendingur á listanum yfir tíu mestu markaskorarana á Evrópumótum í fótbolta. Það er kona, og enginn karl í sjónmáli. Öðru hverju er sagt frá þessu í tuttugu orða fréttum, sem enginn tekur eftir, og enginn ærist yfir, hvað þá að allir sem krítarkorti geta valdið straui úr því tvöfalda aleiguna til að fá að berja snilldina augum á erlendri grund.

Eins og mér finnst ömurlegt að þurfa að horfast í augu við þetta, er hugsanlegt að karlremba sé ennþá til á Íslandi, ekki bara í einhverjum afkimum, heldur sem útbreiddur smitsjúkdómur? Hah?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Brynjar Birgisson

    Án þess að ég hafi kynnt mér það sérstaklega þá væri ég ekki hissa að karlahandbolti sé stærra batterí á heimsvísu en kvennafótbolti. Virðist allavega vera þannig launalega séð.

  • Frekar broslegt þegar fólk sem hefur engan áhuga á sporti, hvorki karla né kvenna, kvartar yfir því að þeir sem hafa áhuga, skuli ekki hafa jafnmikinn áhuga á kvennasporti og karlasporti.

    Að því sögðu vil ég bæði þakka þér fyrir og hrósa þér fyrir að hafa ekki látið bandarískann auðhring ráða þvì hverjir fá að tjá sig á síðunni þinni. Einkennilegt að jafnvel hörðustu vinstrimenn láta tjánigafrelsi almennings á sínum síðum stýrast af viðskiptum við þennan bandaríska auðhring.

  • Hilmar Bjarnason

    Kjarni málsins er einfaldlega sá að stór hluti almennings, stór hluti íþróttafréttamanna, stór hluti ráðamanna íþróttahreyfingarinnar líta þannig á málið að íþróttaiðkun kvenna sé skör lægra en íþróttaiðkun karla. Þannig er það og þannig hefur það alltaf verið og sennilega verður þetta svona í framtíðinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur