Mánudagur 24.09.2012 - 15:32 - FB ummæli ()

Ég hlakka til að taka þátt

 

Eins og flestir vita hófst
stjórnmálaferill minn formlega föstudaginn 21. september sl.  með
yfirlýsingu um að ég myndi sækjast eftir þriðja sæti á framboðslista
Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum, í prófkjöri
sem líklega fer fram 10. nóvember, en það verður endanlega ákveðið á
fundi kjördæmisráðs í kvöld.  Ég finn fyrir mikilli orku, gleði og
eldmóði til góðra verka á vettvangi stjórnmálanna.

Eitt af mínu fyrstu verkum verður að sækja fund Landssambands Sjálfstæðiskvenna á
Selfossi annað kvöld kl. 20, undir yfirskriftinni Konur til áhrifa.
Þetta er einmitt eitt af því fjölmarga sem mig langar til að berjast
fyrir sem stjórnmálamaður.

Styrkur Sjálfstæðistefnunnar, sem ég fylgi, er að hún hefur svo breiða
skírskotun.  Hún tekur til fólks í öllum tekjuhópum, aldurshópum og að
sjálfsögðu til fólks af báðum kynjum.  Megin stefið í
Sjálfstæðisstefnunni er frelsi einstaklingsins og jafnrétti.  Ríkið er
nefnilega til fyrir einstaklinginn en einstaklingurinn er ekki til
fyrir ríkið, en það hefur smátt og smátt verið að gleymast, og hið
opinbera hefur eignast eigið líf og verður fyrirferðarmeira með hverju árinu sem líður.

Manni verður algerlega um og ó að hugsa um þá gríðarlegu fjármuni  sem
ríkið heimtar af hverri einustu fjölskyldu og fyritæki í þessum landi
dag hvern til að viðhalda sér.  Samt er ríkið rekið með gríðarlegum
halla og skuldasöfnun þess eykst.  Skuldir sem næstu kynslóðir verða
að greiða. Og á meðan sitja á hakanum velferðarverkefni sem manni
finnst að ættu að vera mjög ofarlega á forgangslista ríkisins , t.d. eins og tækjakaup
á sjúkrahúsum.  Þetta þarf að stöðva.

Konur hafa stigið sterkar fram í okkar þjóðfélagi á undanförnum
áratugum á opinberum vettvangi, sem betur fer.  Jöfn aðkoma kvenna og
karla að valdastöðum í samfélaginu er ekki aðeins réttlætismál og
mannréttindamál, heldur er framlag kvenna með sinni nálgun og hugsun

er afar dýrmæt auðlind sem samfélagið má ekki kasta á glæ.   Það verður
gaman að heyra í Sjálfstæðiskonum á fundinum á Selfossi á morgun og ég
mun svo sannarlega ekki láta mitt eftir liggja til að hvetja þær til
dáða.
>

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur