Þriðjudagur 27.11.2012 - 16:24 - FB ummæli ()

Hjálpum þeim, og þau munu hjálpa okkur

Nú er bara tæpur mánuður til jóla og eitt af því sem einkennir aðventuna er örlæti og kærleikur í garð fátækra og hrjáðra. Við getum auðvitað kallað það hræsni að leggja sérstaka áherslu á mannúðarstarf einn mánuð á ári en það hlýtur þó að vera skárra að almenningur sé meðvitaður um eymd meðbræðra sinna einu sinni á ári en alls ekki. Auk þess er sá dómur tæpast sanngjarn því þótt söfnunarátök séu mest áberandi í kringum jól er hjálparstarf auðvitað í gangi allt árið.

Hjálparstarf er mikilvægt. Hugsið ykkur t.d. hvernig ástandið í þróunarlöndunum væri ef ekki fyrir hjálparstarf. Þriðji heimurinn á okkur Vesturlandabúum mikið að þakka. Við söfnum ekki aðeins fé í bauka, heldur sendum við mikið magn matvæla og lyfja til svæða þar sem skortur á nauðsynjum er átakanlegur. Við stöndum fyrir undirskriftasöfnunum til að reyna að koma vitinu fyrir þeirra eigin ógnarstjórnir og við sendum friðargæsluliða til að kippa hlutunum í lag þegar allskyns talíbanar hafa lagt allt í rúst. Við sendum sjálfboðaliða til að vinna ýmis verkefni í þróunarlöndunum, við sendum börnum jólagjafir, við sendum fátæklingum föt sem við erum hætt að nota, slitin bíldekk og bilaðar tölvur. Við styrkjum barnaþorpin og við rekum þróunarsamvinnustofnun svo að vanþróaða fólkið geti þróast eins og við. Sjálfsagt má gagnrýna þróunarsamvinnu eins og allt annað en þeir sem sjá eftir þeim peningum sem renna til hennar ættu kannski að hafa í huga að þróunarstarf gagnast ekki aðeins vanþróuðu fólki, það skapar líka hálaunastörf fyrir nokkra Íslendinga og þau skila aftur skattekjum í kassann.

Mér finnst alltaf dálítið dapurlegt að heyra fólk tala um að við höfum ekki efni á því að styrkja þriðja heiminn. Við Vesturlandabúar erum nefnilega forríkir og þótt vandamál í okkar eigin heimshluta verði seint upprætt, þá ættum við kannski að hafa það í huga að það eru ekki allir jafn heppnir að búa yfir öðrum eins auðlindum og við. Vesturlönd eiga nefnilega gífurlega miklar auðlindir sem vanþróuðu löndin skortir. Vestræn fyrirtæki eiga t.d. gull- og demantanámur í Afríku en vanþróað fólk hefur ekkert vit á því að nýta sér þær. Vestræn fyrirtæki eiga líka stórar báxítnámur á Indlandi og stöku sinnum hafa þau skapað störf handa fólkinu sem þau hafa neytt til að skera bústofn sinn og flytjast búferlum vegna námuvinnslunnar.

Allir hljóta að sjá þörfina fyrir hjálparstarf í þriðja heiminum en það er einn þáttur sem stundum gleymist og það eru margföldunaráhrif kærleikans. Fólk sem finnur fyrir kærleika okkar fyllist nefnilega kærleika sjálft og þannig eflist hið góða. Gott dæmi um mannbætandi áhrif kærleikans sjást í myndbandinu hér að neðan. Fyrir nokkrum árum voru þessir svertingjar á sama þróunarstigi og Cro Magnon maðurinn. Með hjálp Life Aid samtakanna náðu þau að þróast upp á næsta stig. Þau eru farin að standa í fæturna sjálf og nú þegar þau frétta af hremmingum þjáðra Vesturlandabúa, vilja þau endurgjalda kærleiksverkin og leggja sitt af mörkum til að hjálpa.

Þetta árið eru það frændur okkar í Noregi sem munu njóta góðs af hlýhug vanþróaða fólksins. Ég yrði ekki hissa þótt við Íslendingar yrðum næstir í röðinni. Þangað til skulum við halda áfram að láta kærleikann tala. Nýtum auðlindir þriðja heimsins, sendum jólagjafir, búum til betri heim, sameinumst, hjálpum þeim sem minna mega sín, enn eitt árið.

 

Flokkar: Allt efni
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics