Fimmtudagur 06.12.2012 - 10:32 - FB ummæli ()

Hengjum rasistann!

Töluverðar umræður hafa skapast á netinu um myndband sem sýnir fullorðinn mann veitast að fyrstu kynslóðar Íslendingum með svívirðingum og ógnandi framkomu. Að vonum þykir mörgum framkoma mannsins fyrir neðan allar hellur og ég skal svo sannarlega taka undir það. Mér finnst hinsvegar ömurlegt að sjá nokkra umræðuþræði á fb þar sem fullorðið fólk eys úr sér slíkum skít yfir manninn að framkoma hans við krakkana verður sem englasöngur í samanburði. Einnig hef ég séð umræður um að svona fólk eigi bara að dæma í tveggja ára  fangelsi. Mér finnst rétt að maður sem sýnir ógnandi framkomu fái tiltal en ég sé ekki hvernig sú ráðstöfun að fangelsa vitleysinga ætti að vinna gegn kynþáttahyggju. Dómstólar kæmust ekki yfir að rétta yfir öllum sem sýna dónaskap sem gæti varðað við lög og ég vildi gjarnan sjá umræðu um farsælli leiðir til að takast á við hatur í garð minnihlutahópa.

Umræðan endurspeglar auk þess undarlega tilhneigingu til þess að reyna að afgreiða samfélagsleg vandamál með því að finna sökudólg. Þarna er rasistinn, kvenhatarinn, hrunvaldurinn, barnamorðinginn, dýraníðingurinn o.s.frv. lifandi fundinn. Bendum á hann, níðum hann, jörðum hann! Ég hef aldrei séð þessa aðferð leiða neitt gott af sér en hinsvegar margt illt. Á dögunum var tamningakona t.d. tekin af lífi í fjölmiðlum vegna grimmúðlegrar meðferðar á hrossi. Svo kom í ljós að átt hafði verið við myndbandið.  Þá var hún þegar búin að missa vinnuna og mannorð hennar stórskaddað. Finnst ykkur þetta í lagi?

Jafnvel þótt þessi bjánakeppur sem angraði krakkana yrði hálshöggvinn á Austurvelli og höfuðið sett á stjaka, myndi það ekki uppræta kynþáttahyggju á Íslandi. Við skulum athuga að hættulegasti rasisminn er ekki sá sem ælir hatri sínu yfir unglinga eða neitar að sitja með svörtum manni til borðs. Hættulegasti rasisminn er sá sem alla tíð og enn í dag er praktiseraður í stjórnkerfinu sjálfu, hjá útlendingastofnun hjá Nató og birtist m.a. í þeirri staðreynd að lögreglan í Bandaríkjunum er þrisvar sinnum líklegri til að skjóta svartan, óvopnaðan mann en hvítan. Kynþáttahyggja er í hnotskurn sú hugmynd að „við“ séum betri og merkilegri en „þetta fólk“. Að þægindi „okkar fólks“ séu mikilvægari en réttur „hinna“ til að lifa við frelsi, öryggi og mannlega reisn. Það er sú hugmynd sem er undirrót aðskilnaðarstefnu og hinar kurteislegustu birtingarmyndir kynþáttahyggju eru langt frá því að vera skaðlausar.

Það fólk sem vill nota réttarkerfið sem farveg fyrir öll hugsanleg vandamál í samskiptum og hugarfari ætti kannski að hlusta á viðtalið við stúlkuna sem tók myndskeiðið. Þarna talar ung stúlka af skynsemi og hófstillingu. Hún tekur fram að hún leggi ekki mikla merkingu í orð mannsins þar sem hann hafi verið í annarlegu ástandi. Markmið hennar er aðeins að sýna þá framkomu sem innflytjendur og fyrstu kynslóðar Íslendingar mæta allt of oft og biðja fólk að taka fordóma sína til endurskoðunar. Þeir refsiglöðu gætu lært nokkuð af þessari stúlku ekki síður en þeir sem telja sig öðru fólki merkilegri sakir uppruna síns.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics