Miðvikudagur 06.03.2013 - 22:27 - FB ummæli ()

Frumvarp til útlendingalaga verður að fara í gegn – gestapistill frá No Borders

 

Fyrir Alþingi liggur nú nýtt frumvarp til laga um málefni útlendinga.

Með tilliti til þess hvernig þessi málaflokkur hefur verið meðhöndlaður í gegnum tíðina teljum við frumvarpið vera stórt skref í rétta átt. Enn frekari úrbóta er þó þörf eins og reifað er í kröfum No Borders.

 

Meðferð flóttamanna á Íslandi

Þvert á ákvæði Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna eru flóttamenn eru oftar en ekki fangelsaðir við komuna til landsins. Eftir það lifa þeir í langtíma óvissu um það hvort og hvenær hælisumsókn þeirra verði tekin til meðferðar. Biðtíminn er sjaldan skemmri en ár og oft bíða menn árum saman eftir svari. Svo virðist sem stofnanir ríkisvaldsins geti auðveldlega leikið sér með líf þeirra og velferð rétt eins og um sé að ræða hluti en ekki mannverur. Íslendingum ber ekki aðeins siðferðileg skylda til að sýna flóttafólki meiri virðingu og tillitssemi heldur höfum við einnig skuldbundið okkur til þess með aðild okkar að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, þar á meðal flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Það er í besta falli tvískinnungur af ríkisvaldinu að opna landamæri eftir hentugleikum, svo sem til þess að flytja inn ódýrt vinnuafl, en ætla svo að þvo hendur sínar af flóttamannavandanum. Þá er óviðunandi að brotið sé gegn réttindum hælisleitenda í skjóli Dyflinnarreglugerðarinnar. Mörg dæmi eru um illa ígrundaða úrskurði af hálfu Útlendingastofnunar, margir úrskurðir gefa ástæðu til að draga fagleg vinnubrögð í efa og dæmi eru um að úrskurðir beri merki um hreina og klára geðþóttaákvörðun.

Kröfur No Borders

Þann 26. febrúar heimsóttu um 20 hælisleitendur ásamt liðsmönnum No Borders Útlendingastofnun, Innanríkisráðuneytið og Alþþingi, til að lýsa kröfum sínum. Við kynntum innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, kröfurnar, bæði munnlega og með afhendingu undirskriftalista. Undirskriftasöfnunin stendur enn en á þessum tíma höfðu 251 undirskriftir safnast.

Kröfur okkar eru í stuttu máli eftirfarandi:

  1. Biðtími eftir afgreiðslu hælisumsókna verði styttur í samræmi við leiðbeiningar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
  2. Afgreiðsluferill hælisumsókna verði opinn og gegnsær.
  3. Þegar í stað verði hætt að senda hælisleitendur burt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
  4. Stjórnvöld virði tilmæli Flóttamannasamningsins um að flóttamönnum verði ekki refsað fyrir að framvísa fölskum skilríkjum.

Nánari skýringar má sjá hér.

Við leitum stuðnings almennings

Þótt margt megi betur fara er mikilvægt að frumvapið verði samþykkt. Við höfum áhyggjur af því að ekki náist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok. Hælisleitendur eiga sér ekki talsmenn innan stofnana samfélagsins. Við leitum því liðsinnis almennings, biðjum alla sem styðja málstað flóttamanna að vekja athygli á frumvarpinu og hinni brýnu nauðsyn á afgerandi umbótum í málum flóttamanna á Íslandi.

Meðal þess sem hinn almenni borgari getur gert er að undirrita undirskriftalistann og dreifa honum, dreifa féttatilkynningunni um kröfur okkar,  myndskeiðinu hér að neðan og öðru efni frá No Borders, skrifa þingmönnum, skrifa blaðagreinar og dreifa greinum og öðru efni sem er til þess fallið að auka meðvitund almennings.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Gestapistlar · Lög og réttur
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics