Mánudagur 11.03.2013 - 10:14 - FB ummæli ()

Valinkunnur

Eitt þeirra skilyrða sem útlendingur þarf að uppfylla til þess að fá ríkisborgararétt er að vera

starfhæfur og vel kynntur og leggi m.a. því til staðfestingar fram álit tveggja valinkunnra íslenskra ríkisborgara.

Þetta er náttúrulega ekkert annað en mismunun gagnvart örykjum en slík mismunun stríðir bæði gegn almennum mannréttindasáttmálum og 65. grein núgildandi stjórnarskrár. Starfsfærni umsækjanda dugar reyndar ekki til, hann þarf líka að vera hafinn yfir það að þrengingar á atvinnumarkaði bitni á honum því samkvæmt lögunum má hann ekki hafa þegið framfærslustyrk í þrjú ár. Þetta er sérlega kaldhæðnislegt fyrir flóttamenn sem er synjað um atvinnuleyfi nema það henti yfirvaldinu sérstaklega að hleypa ódýru vinnuafli inn á markaðinn. Ég veit ekki hvernig farið er með slík mál en samkvæmt lagabókstafnum er ekki annað að sjá en að hægt sé að synja flóttamanni um ríkisborgararétt á þeirri forsendu að honum hafi verið synjað um atvinnuleyfi. Lögin geta því orðið stórkostlegt kúgunartæki í höndum yfirvalda með fasistaóra.

Hvað ætli það merki svo að vera „vel kynntur“? Þarf maður að eiga íslenska vini? Er nóg að vera vel kynntur meðal annarra innflytjenda eða teljast þeir ekki með? Á maður meiri séns ef maður á 5000 fb vini eða þarf maður að vera vel kynntur í raunheimum? Er maður „illa kynntur“ ef maður hefur lent í útistöðum við yfirmann sinn? Nægir að vera einrænn, fáskiptinn og perralegur í útliti til að teljast illa kynntur eða telst maður vel kynntur svo fremi sem hann er ekki ofbeldismaður eða þjófur? Er sá vel kynntur sem er hvers manns hugljúfi, manna skemmtilegastur með áfengi og draumur hverrar konu, þótt hann, þrátt fyrir að vera „starfhæfur“, kjósi frekar að nota mánudagsmorgna til að jafna sig eftir góða viðkynningu helgarinnar en að mæta til vinnu? Myndi Jón Ásgeir Jóhannesson teljast vel kynntur ef hann væri útlendingur? Allir vita hver maðurinn er svo ekki vantar neitt upp á kynninguna en er það góð kynning?

Það er sko ekkert hvaða slordóni sem er sem getur kvittað upp á að útlendingur sé vel kynntur því „valinkunnur“ merkir samkvæmt orðabók: þekktur að góðu einu, réttlátur, góður, heiðarlegur, ráðvandur, æruverðugur, nafnkenndur, þekktur, sómamaður. Orðabókin sker þó ekki úr um það hvort fortíð manna hafi áhrif á valinkunnugleika þeirra. Árni Johnsen er nafnkenndur og ætli hann telist ekki „ráðvandur“ eftir betrunarvistina á Kvíabryggju. Samt sem áður er hann ekki þekktur að góðu einu. Er hann þá valinkunnur?

Ég nota orðið „valinkunnur“ lítið og heyri það sjaldan. Satt að segja er það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég heyri þetta orð, brot úr gömlu Stuðmannakvæði:

 

studmennÍ veislunni er voða lið
valinkunnur skríllinn

 

Ætli hinn valinkunni skríll sem sækir partýin hjá henni Stínu stuð sé hæfur til að meta það hvort útlendingur teljist vel kynntur? Ef Kalli og Bimbó gefa innflytendastúlku einkunnina „þrumuskuð“ telst hún þá vel kynnt? Er skríllinn á Alþingi valinkunnur skríll eða bara skríll? Eða bara valinkunnur og enginn skríll?

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics