Föstudagur 29.03.2013 - 10:37 - FB ummæli ()

Súkkulaði, þrælahald og Fair Trade vottun

 

Drissa_bodyÞá er það staðfest sem allir vissu en fáir töluðu um; páskaeggin okkar eru unnin úr þrælabaunum. Reiknað með að taki tíu ár að leggja niður viðskipti við þrælahaldara. Eftirfarandi pistil skrifaði ég árið 2011.

————————————————

 

Súkkulaði er gott. Svo gott að mér skilst að flestar konur taki það fram yfir kynlíf. Það dregur samt dálítið úr ánægjunni að vera meðvitaður um það að flestir kakóframleiðendur eru sekir um þrælahald. Og ekki bara þrælahald heldur barnaþrælkun.Við erum ekki að tala um fullorðið fólk sem tekur upplýsta ákvörðun um að vinna erfitt starf fyrir lág laun og má hætta hvenær sem því hentar þótt það hafi kannski ekki „raunverulegt“ val þegar tillit er tekið til aðstæðna, heldur börn sem eru barin til vinnu á daginn, læst inni á næturnar og misþyrmt ef þau reyna að flýja.

 

Við komumst ekki hjá því að styðja þrælahald

Einhverju sinni fór ég með 14 ára frænda mínum í matvörubúð. Við ætluðum að kaupa kókómalt en þegar hann setti Nesquick í körfuna bað ég hann að taka frekar aðra tegund. Ég vildi ekki versla við þetta fyrirtæki og útskýrði hversvegna.

Drengnum fannst þetta áhugavert og bað hann mig að skrifa fyrir sig lista yfir öll vond fyrirtæki svo hann gæti sniðgengið þau. Ég sagði honum að það eina sem hann gæti gert væri að kaupa ekkert sem hann vantaði ekki nauðsynlega. Á hálfri mínútu eyðilagði ég hugsjón hans um að verða góður neytandi.

Kapítalískt hagkerfi býður ekki beinlínis upp á mannúðarhyggju og hófsemi. Þegar við kaupum algengar neysluvörur styðjum við stundum þrælahald og langoftast aðra óhæfu og yfirgang gagnvart fólki sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við getum sniðgengið eitt og eitt fyrirtæki en jafnvel þótt við værum í fullri vinnu við að skoða feril þeirra fyrirtækja sem eru á markaðnum kæmumst við ekki hjá því að styðja eitthvað sem orkar tvímælis.

Við verðum ekki siðlegir neytendur á meðan við búum við kapítalisma. Þrælahald mun tíðkast og stóriðjufyrirtæki munu stunda landtöku, spilla vatnsbólum og hrekja fólk á vergang. Við breytum því ekki með því að kaupa ekki álpappír eða versla ekki við Nestle, ekki á meðan við neyðumst til að nota bíla (öll áfyrirtækin eru ógeð) og meðan flestir súkkulaðiframleiðendur skipta við þrælahaldara.

 

Fólk sniðgengur fyrirtæki aðeins ef það á kost á sambærilegri vöru

Sniðganga væri gífurlega öflug baráttuaðferð ef almenn þátttaka fengist en það er ekki að fara að gerast. Við getum tekið Palestínu sem dæmi.

Ísraelsmenn hafa sölsað undir sig öll helstu appelsínuræktarsvæði Palestínu. Palestínskt fyrirtæki gerði fyrir nokkrum árum tilraun til að framleiða appelsínusafa en var refsað með svo háum tollum að varan varð allt of dýr til að vera samkeppnishæf. Ég veit ekki hvort fyrirtækið hangir á horriminni enn eða hvort það fór á hausinn en árið 2009 var allt útlit fyrir að eigendurnir gæfust upp. Kaupmenn treystu sér ekki til að versla við fyrirtækið því þeir gátu ekki selt vöruna  með sanngjarnri álagningu. Flestir Palestínumenn keyptu frekar ísraelska safann af því að hann var aðgengilegur og miklu ódýrari.

Sniðganga er góð hugmynd en það er ekki einu sinni hægt að fá nema örlítið brot Palestínumanna til að sniðganga ísraelskan appelsínusafa. Ekki af því að þeir viti ekki hversu miklu máli það skiptir, heldur af því að mannveran er nautnaseggur, og sá sem vill appelsínusafa mun ekki bíða í 30 ár þar til búið er að koma á réttlæti. Því síður er von til þess að Íslendingar hætti að kaupa páskaegg. Til þess að fólk fáist til að sniðganga fyrirtæki þarf það að eiga kost á jafn góðri vöru á samkeppnishæfu verði.

 

Er Fair Trade vottun svarið?

kitkatKannski er Fair Trade vottun svarið fyrir fólk eins og hinn unga frænda minn því hún getur allavega verið leiðbeinandi um það hvaða fyrirtæki maður þarf ekki að sniðganga.

Mér líður pínulítið betur í hjartanu þegar ég kaupi Fair Trade súkkulaði en satt að segja er Fair Trade vottunin ekkert hafin yfir gagnrýni. Efasemdamenn spyrja t.d. hvort hægt sé að treysta samtökum sem leggja blessun sína yfir vöru frá jafn ógeðfelldu fyrirtæki og Nestle en Kit Kat súkkulaðið hefur fengið Fair Trade vottun. Er virkilega nóg að tiltekin grein fyrirtækis noti ekki þrælavörur þótt móðurfyrirtækið sjálft sé blóðsekt?

Ég held að Fair Trade vottun geti unnið gegn þrælahaldi en það má áreiðanlega bæta staðlana. Ég hef enga trú á því að fólk hætti að kaupa súkkulaði en ég held að ef það verður norm að sniðganga þau fyrirtæki sem ekki eru með stimpil af þessu tagi, muni fyrirtækin sjá sér hag í því að ráða fullorðið fólk og greiða því mannsæmandi laun. Það er nefnilega ekki nóg að uppræta þrælahald og skilja fólk svo eftir afkomulaust.

 

Hver á að niðurgreiða súkkulaðið okkar?

Sem stendur eru það þrælar, aðallega börn og unglingar, sem niðurgreiða súkkulaðið okkar með nauðungarvinnu sinni. Það er ekki við því að búast að margir velji dýrasta kostinn en ef hið opinbera niðurgreiddi Fair Trade vörur myndi líklega draga úr eftirspurn eftir þrælavörum. Það mætti líka vel skikka verslanir til að bjóða upp á vörur með Fair Trade vottun. Lágvöruverðsverslanir kunna að vera tregar til þess þar sem er ekki hægt að bjóða þessar vörur á fáránlega lágu verði en margir þeirra sem versla í Bónus, væru alveg tilbúnir til að greiða dálítið hærra verð (ekki miklu hærra) fyrir einstaka vörur ef þeir þyrftu ekki að fara í aðrar búðir til þess. Fair Trade vörur þurfa að vera nógu aðgengilegar og nógu ódýrar til að neytendur líti á þær sem góðan valkost, því þá fyrst getum við búist við að fólk fari að líta þær vörur hornauga sem ekki hafa slíkan stimpil.

 

Eða bara refsa súkkulaðikaupendum

 Cocoa-Child-Laborer

En svo má auðvitað fara valdboðsleiðina og gera súkkulaðikaup refsiverð

 

07089

Og banna fólki að kaupa kaffi

 

Og vefnaðarvörur

 

xin_44210061712308283132256

Og múrsteina

 

eldsp

Og eldspýtur

 

Já og gler, málma, korn, krydd, skó og auðvitað flugelda. Það hlýtur að vera raunhæfara að banna bara allt draslið en að greiða fyrir Fair Trade vottun.

 

Við getum þó huggað okkur við að kynlífskaup eru nú þegar bönnuð, hvort heldur er af frjálsum konum eða ánauðugum börnum. Þetta kúgaða fórnarlamb mansals, sem af ótta við hina undirokandi fulltrúa feðraveldisins þorir ekki annað en að hegða sér eins og ýlandi dræsa, á því betri daga í vændum, ólíkt smábörnum sem þræla við að bera múrsteina og sprengja af sér útlimi við flugeldagerð.

8765432Anticriminalizationofprostitution

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics