Þriðjudagur 20.03.2018 - 17:26 - FB ummæli ()

Hvar á að stoppa?

Við fengum þær fréttir í gær að utanríkisráðherra Íslands hefði rætt beint við varnarmálaráðherra Tyrklands sem þá hafi verið búinn að kynna sér mál Hauks. Hann gat ekki staðfest að Tyrkir væru með Hauk í haldi. Viðstaddir munu hafa skilið það svo að hann hafi verið að staðfesta að þeir séu ekki með hann. Við hljótum að reikna með að hann sé þá í það minnsta ekki á neinni skrá hjá þeim heldur hafi hann annaðhvort bjargast á einhvern dularfullan hátt, eða það sem líklegra er, að jarðneskar leifar hans séu einhvers staðar milli þorpanna Badina og Demilya.

Ekki blanda pólitík í málið?

Við höfum heyrt þá skoðun bæði frá almennum borgurum og ráðamönnum að vissara sé að „blanda pólitík ekki í málið“. Ekki megi styggja Tyrki, því þá hafni þeir bara öllu samstarfi og muni ekki skila líkinu ef það finnst. En það er útilokað að segja til um það hvort líkið finnst eða hvenær. Við höfum heyrt frá fyrstu hendi sögur fólks sem fékk lík ástvina sem féllu í Sýrlandi afhent 6 mánuðum síðar og tveimur árum síðar. Okkur vantar ekki líkið sem slíkt heldur staðfestingu á því að Haukur sé látinn. Við höfum hana ekki en við höfum þó staðfestingu á því að hann sé ekki í haldi Tyrkja.

Við erum sammála um það ég og faðir Hauks, unnusta hans og uppkominn bróðir, að láta ekki þagga niður í okkur út á möguleikann á því að líkið finnist.

Við teljum afar óæskilegt að styðja frelsisbaráttu ofsóttra hópa með þeim hætti sem Haukur hefur gert síðustu 9 mánuðina og biðjum fólk fyrir alla muni að taka hann sér ekki til fyrirmyndar að því leyti. Það eru til ótal aðrar og öruggari aðferðir til að styðja baráttuna gegn kúgun og ofsóknum og af skrifum Hauks að dæma er það hreint ekki eins spennandi og ætla mætti að taka þátt í vopnuðum átökum. 

Samt sem áður verður ekki fram hjá því litið að Haukur féll eða hvarf fyrir pólitískan málstað, ásamt fjölda félaga úr varnarsveitum Kúrda og hundruðum óbreyttra borgara. Pólitísk manndráp kalla á pólitísk viðbrögð og við gefum lítið fyrir fullyrðingar um að það hafi engin áhrif þótt íslensk stjórnvöld lýsi vanþóknun á ofsóknum gegn Kúrdum og stríðsglæpum Tyrkja. Við reiknum ekki með því að Tyrkir leggi niður skottið þótt smáríki fordæmi aðgerðir þeirra en ábyrgð fylgir ekki aðeins orðum heldur ekki síður þögninni. Við skulum ekki reikna með því að stóru strákarnir í samfélagi þjóðanna taki frumkvæðið að því að lýsa samstöðu með ofsóttum, það stendur ekkert síður upp á okkur en stórveldin.

 

Of mörg grimmdarverk til að hægt sé að fordæma þau?

Í gær heyrði ég haft eftir áhrifamanni að það sé vafasamt að fordæma hernaðaraðgerðir því ranglætið sé svo mikið og útbreitt að ef ráðamenn taki upp á því að fordæma innrás á einum stað þá sé erfitt að sjá hvar eigi að stoppa. Ég skil ekki þessa speki. Hversvegna í ósköpunum ættum við að stoppa einhversstaðar? Er þetta einhverskonar jafnræðisregla – ef við horfum þegjandi upp á ofsóknir gegn einum hópi þá beri okkur skylda til að hundsa ofsóknir gegn öllum öðrum hópum líka?

Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint aðgerðir ISIS gegn Ezidi fólkinu sem þjóðarmorð. Nú eru Tyrkir teknir við af ISIS. Ætla Íslendingar að taka því þegjandi?

Er eitthvað því til fyrirstöðu að fordæma hvert einasta árásarstríð, allar ofsóknir gegn hópum fólks, öll ríki sem fremja stríðsglæpi og ástunda kerfisbundin mannréttindabrot? Væri það of tímafrekt? Ef það er fyrirstaðan, þá skal ég taka að mér að finna sjálfboðaliða sem er tilbúnir til að inna af hendi alla þá vinnu sem þarf til þess að fordæma slíka ósvinnu, þannig að það eina sem stjórnvöld þurfi að gera sé að skrifa undir. Fyrst forseti getur undirritað vottorð um uppreist æru án þess að kynna sér málin, innanríkisráðherra getur undirritað staðfestingu á brottvísun flóttafólks án þess að kynna sér mál þess, o.s.frv. þá ætti forseta og ráðherrum að reynast auðvelt að undirrita yfirlýsingar um vanþóknun á kerfisbundnum manndrápum.

Myndin er af Wikicommons og sýnir fórnarlömb eiturefnaárásar á Ghouta 2013

Hvar á að stoppa? Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að við stöndum með „vestrænum vinaþjóðum“ í því að kalla Rússa til ábyrgðar fyrir árás á tvo breska ríkisborgara. Gott og vel en það lítur út fyrir að hann ætli að stoppa þar. Í Bretlandi, þar sem tveir borgarar urðu fyrir árás og lifðu það af. Ekki í Austur-Ghouta, þar sem herjað hefur verið á óbreytta borgara með eiturefnum og sprengjum í senn. Ég vona að aðrir stjórnmálamenn hafi lægri þolmörk gegn þeim hryðjuverkum sem framin eru gegn varnarlausu fólki í skjóli ríkisvalds.

Þess má geta að í ágúst 2016 hvatti þingflokkur Vinstri grænna stjórnvöld til þess að gagnrýna framferði Tyrkja gegn Kúrdum á alþjóðavettvangi. Nú þegar Vinstri græn eru í ríkisstjórn eru þau í kjöraðstöðu til þess að fylgja þessum orðum eftir.

 

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics