Sunnudagur 27.4.2014 - 23:18 - FB ummæli ()

Fólk deyr ef það drekkur ekki

Þegar ég sá fréttir af hungurverkfalli unga flóttamannsins Ghasem, frá Afghanistan, hristi ég höfuðið. Hungurverkfall er þjáningafull og stórskaðleg mótmælaaðferð sem bitnar fyrst og fremst á mótmælandanum sjálfum og hefur sjaldan áhrif fyrr en ástandið er orðið lífshættulegt. Fólk heldur ekki hungurverkfall út nema örfáa daga nema það sé raunverulega tilbúið til að deyja fyrir málstaðinn og það þarf margra vikna svelti til þess að ástandið verði nógu alvarlegt til að yfirvöld taki mark á því.

En Ghasem er ekki bara í hungurverkfalli. Hann hætti líka að neyta vökva. Og það breytir ansi miklu. Fólk verður fljótt lífshættulega veikt ef það neytir ekki vökva, enda er Ghasem þegar búinn að lenda inni á sjúkrahúsi í tvígang.

Þessum dreng er alvara. Kannski skiptir máli að hann er aðeins tvítugur og hefur verið á flótta frá sextán ára aldri. Fjögur ár eru langur tími fyrir svo ungan mann. Og sjö dagar eru langur tími fyrir hvern sem er þegar hann neytir hvorki fæðu né vökva. Það er kannski hægt að halda í honum lífinu með því að gefa honum vökva og næringu í æð en fólk lifir ekki nema sjö til tíu, í mesta lagi tólf daga án þess að neyta að minnsta kosti vökva. Og  þótt ástandið sé svona alvarlegt hefur innanríkisráðuneytið ekki brugðist við.

Í dag, mánudaginn 28. apríl, kl 11, ætla stuðningsmenn Ghasems að hittast fyrir utan innanríkisráðuneytið að Sölvhólsgötu 7 og skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra að bregðast við kröfu hans um að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar á Íslandi. Ég hvet alla til að mæta, og við sem ekki getum mætt sýnum stuðning okkar á annan hátt, t.d. með því að senda tölvupóst á innanrikisradherra@irr.is og/eða undirrita þessa áskorun.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 22.4.2014 - 10:34 - FB ummæli ()

Árangurinn af kynjafræðikennslu

Feministar hafa sent frá sér áskorun um að kynjafræðikennsla verði tekin upp sem skylduáfangi í grunnskólum. Það hlaut að koma að því. Rökin fyrir því að kenna þurfi kynjafræði í skólum eru annarsvegar þau að jafnréttisfræðsla sé lögboðin og hinsvegar þau að valkvæð kynjafræðikennsla í framhaldsskólum hafi skilað svo góðum árangri.

Fyrir það fyrsta er jafnréttisfræðsla ekki það sama og kynjafræði. Ekki frekar en trúarbragðafræðsla er það sama og kristniboð. Sú kynjafræði sem kennd hefur verið á Íslandi er ekkert annað en feministatrúboð. Jafnvel prófessor Þorgerður Einarsdóttir, lýsir kynjafræði sem „akademiskum feminisma“. Þetta viðhorf staðfesta svo nánast öll skrif íslenskra kynjafræðinga sem birst hafa opinberlega; lítið vottar fyrir vísindalegum vinnubrögðum, heldur er gengið út frá tiltekinni pólitískri skoðun og gervirannsóknum beitt til að renna stoðum undir hana (og þetta á ekkert bara við um íslenska kynjafræðinga).

ugla

Seinni rökin eru að því leyti áhugaverðari að þau fela í sér afhjúpun á hinum raunverulega tilgangi feminista með því að vilja troða kynjafræði upp á grunnskólabörn. Samkvæmt þeim ætti að taka upp kynjafræði sem skyldugrein á grunnskólastigi vegna þess greinilega árangurs sem framhaldsskólarnir hafa náð með því að bjóða upp á kynjafræði sem valáfanga.

Hver er þessi gífurlegi árangur sem kynjafræðin í framhaldsskólunum hefur skilað? Hefur ásókn pilta í framhaldsnám aukist? Eru stúlkur farnar að sporna gegn áreiti fullorðinna sem líta niður á menningu þeirra og vilja fyrir alla muni troða áhugamálum strákanna upp á þær?  – Nei, alveg rétt, feministar líta ekki á þessa hluti sem janfréttismál.

En hvað með það sem feministar sjálfir telja jafnréttismál? Hafa staðalmyndir minni áhrif en áður? Flykkjast strákar í hjúkrun og stelpur í verkfræði? Hefur kynferðisofbeldi verið upprætt? Eru ungir menn hættir að horfa á klám?

Neineinei, ekki aldeilis. Samkvæmt áskoruninni er hinn gífurlegi árangur í því fólginn að nemendur sem að eigin vali hafa setið kennslu í kynjafræði, hafa stofnað feministafélög.

Þar höfum við það; markmiðið með kynjafræðikennslu er fyrst og fremst útbreiðsla feminisma. Þetta kemur ekki vitundarögn á óvart því eins og ég bendi á í þessum pistli er eitt af fjórtán megineinkennum feminisma sókn í kennivald, og ítök feminista í skólakerfinu þjónar því markmiði.

Ef skólayfirvöld bregðast jákvætt við þessari áskorun feministanna, þá setur það dýrmætt fordæmi fyrir aðrar pólitískar og trúarlegar hreyfingar. Sjálfsstæðismenn geta þá til að mynda krafist þess að hugmyndafræði þeirra verði kennd í skólum, á þeirri forsendu að samkvæmt aðalnámskrá sé „velferð“ eitt af lykilorðum skólastarfs og að kynning á hugmyndum sjálfstæðismanna hafi getið af sér fjölda ungliðahreyfinga.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Laugardagur 19.4.2014 - 11:41 - FB ummæli ()

Valgarði svarað

Valgarður Guðjónsson hefur nú svarað pistlum mínum sem spruttu af umræðu um tjáningarfrelsi í tengslum við mál Snorra í Betel.
Takk fyrir svarið Valgarður. Mér þykir fengur að því að einhver skuli hafa fyrir því að svara spurningum mínum en flestir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hingað til hafa skotið sér undan því.
Við erum sammála um að hatursáróður er ekkert skárri þótt hann styðjist við trúarrit. Hinsvegar vill svo til að trúarrit, sem innihalda heilmikinn hatursáróður, eru lögleg. Á meðan sú er raunin er vafasamt uppátæki að banna hatursáróður. Mér þætti áhugavert að heyra skoðun þína á því hvort ætti að banna einhverja hluta Biblíunnar og annarra trúarrita.
En snúum okkur að svörum þínum við því hvað skuli teljast hatursáróður og hvað ekki. Mér sýnist augljóst að þegar þú svarar „já“ eigir þú við „já þetta er umræða sem við eigum að umbera“. Yrði farsælt að nota þín svör sem vegvísi um það hvar mörkin skuli liggja?
1   Þú segist ekki geta tekið afstöðu til spurningarinnar um það hvort stuðningur við þá stefnu að leyfa fóstureyðingar, ef fóstrið er fatlað, teljist hatursáróður gegn fötluðum, vegna þess að dæmið sé ekki nógu gott. Þetta er reyndar alveg ágætt dæmi, Valgarður. Við þurfum ekki að leita langt til þess að fá það staðfest að sú afstaða að fóstureyðingalöggjöfin eigi að vera rýmri þegar líkur eru á að barnið verði fatlað eða veikt er særandi fyrir fatlaða. Hér er dæmi þar sem fötluð kona tjáir sig um fósturskimum; orðrétt er haft eftir henni:

 Það væri mjög skrýtið ef mér fyndist þetta í lagi því þá væri ég að segja að það væri í lagi að eyða fólki eins og mér.

Það er skiljanlegt að fatlaðir túlki þá skoðun að fólk eigi að hafa meiri rétt til að eyða fötluðum fóstrum en heilbrigðum á þann veg að líf þeirra séu álitin minna virði en líf annarra. Má kennari halda á lofti þeirri skoðun að fatlaðir eigi síður rétt á því að fæðast en önnur börn? Heldur þú að það sé eitthvað til í því hjá mér að ástæðan fyrir því að okkur finnst erfitt að svara því sé sú að það ríkir ekki víðtæk sátt um pólitískan rétttrúnað í þessum efnum?
2  Ég orðaði þennan lið ekki nógu vel. Það sem ég átti við er hvort það geti skilist sem hvatning til ofsókna gegn ungum mæðrum (ég hefði frekar átt að tala um óléttar konur sem eru ósáttar við að vera óléttar) að tala um það sem óábyrga hegðun að geta óvelkomin börn, og að reka áróður gegn fóstureyðingum á félagslegum forsendum.  Hafi ég skilið þig rétt er það ekki þín skoðun. Það gleður mig en ég er ekki einu sinni viss um að ég og þú tilheyrum meirihlutanum.  Það viðhorf að slíkt sé hatursáróður hefur til dæmis margsinnis heyrst í tengslum við áróður repúblikana í Bandaríkjunum gegn fóstureyðingum. Hér er heil vefsíða helguð þeirri hugmynd. Hvorn kennarann ætti frekar að reka, þann sem vill frjálsar fóstureyðingar eða þann sem vill banna þær?
3 Það hefur varla farið fram hjá þér að múslimir í Frakklandi líta á slæðubannið sem kúgunartæki og merki um múslimahatur. Ég er þér sammála um að það álit þeirra ætti ekki að skerða tjáningarfrelsi kennara sem telur Frakka í fullum rétti með að banna búrkuna. En ef málflutningur, og jafnvel lög, sem múslimir túlka sem hatursáróður í sinn garð á rétt á sér, af hverju er þá í lagi að skerða tjáningarfrelsi kennara sem heldur því fram (og vitnar í fullkomlega lögleg trúarrit því til staðfestingar) að samkynhneigðir fari á mis við eilíft líf?
4 Ég hef líklega ekki orðað fjórða dæmið nógu skýrt en ég á við þá skoðun að það sé í sjálfu sér hvatning til kúgunar að styðja slæðunotkun. Ég hef séð nokkra Íslendinga halda því fram og það er einmitt á þeirri forsendu sem búrkubannið í Frakklandi er réttlætt.
5-6 Þeir sem halda fram rétti Ísraelsmanna til þess að reisa múrinn, nota yfirleitt þau rök að Ísraelar hafi rétt til að verja sig, en setja þá skoðun sjaldan fram sem hatursáróður. Ég er sammála þér um að það er andúð á trú eða kynþætti sem býr að baki aðskilnaðarstefnu. Og hér erum við komin að áhugaverðum fleti á þessari umræðu; á frekar að umbera fólk með vondar skoðanir (eins og þá að aðskilnaðarstefna sé réttlætanleg) ef það rekur áróður sinn með þeim rökum að gerandinn sé sjálfur að verjast ofsóknum og hatri en ef áróðurinn felst í augljósu skítkasti? Ef svarið er já, þá býður það heim hættunni á því að tjáningarfrelsi verði einkaréttur þeirra sem eru nógu mælskir til þess að sveipa fordóma sína í silkiumbúðir. Ef svarið er nei; það á ekki umbera kennara sem segir að aðskilnaðarstefna eigi rétt á sér, þá erum við komin í veruleg vandræði. Má þá ekki líka banna kennara að tjá þá skoðun að landnámsbyggðirnar eigi rétt á sér? Eða að Ísraelsríki eigi rétt á sér?
Að sjálfsögðu metum við hvert tilvik fyrir sig en þótt ekki sé hægt að setja fram algildar reglur um það hvar mörkin skuli liggja er vel hægt að ræða mörk tjáningarfrelsisins svona almennt og það er ekki „slippery slope“ rökvilla að benda á að ekki sé hægt að skerða tjáningarfrelsi þeirra sem hafa vondar skoðanir og tryggja um leið tjáningarfrelsi þeirra sem hafa góðar skoðanir. Það væri dæmi um slippery slope ef ég hefði haldið því fram að brottrekstur Snorra myndi beinlínis leiða til víðtækrar skoðanakúgunar en ég á ekki við það. (Svo er það  reyndar ponkulítið rennibrautarlegt hjá þér að halda því fram að kjaftæði eins og það sem Snorri í Betel heldur fram leiði beinlínis til ofbeldis.)
Fyrir mér snýst þessi umræða ekki um beina afleiðingu af því ömurlega uppátæki skóla- og bæjaryfirvalda á Akureyri að kúga einn kennara heldur um það hvort tjáningarfrelsi og pólitískur rétttúnaður eigi samleið. Það er auðvelt að taka afstöðu til mála sem flestir eru sammála um en þeir sem álíta þetta tvennt samræmanlegt lenda strax í vandræðum þegar þeir standa frammi fyrir spurningum sem ekki ríkir víðtæk sátt um.

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Miðvikudagur 16.4.2014 - 11:31 - FB ummæli ()

Sælir eru gleraugnalausir

Þegar ég var ung (og reyndar líka þegar ég var ekki lengur beinlínis ung) fannst mér gjörsamlega ömurleg tilhugsun að verða miðaldra. Nú er ég búin að vera miðaldra í nokkur ár og það er bara alls ekki eins slæmt og ég hélt. Reyndar töluvert skárra.

Ég hafði alltaf getað étið eins og hross í afmæli án þess að hlaupa í spik. Af og til þyngdist ég um 2 kg en þá dró ég úr sósuáti og skammtaði mér súkkulaði í nokkrar vikur og það bara virkaði. Ég hugsaði til þess með hryllingi að geta ekki lengur gúllað í mig 12 tommu pizzu og hálfum lítra af ís á eftir án þess að verða akfeit.  Í dag brenni ég álíka miklu og miðaldra kerling (af eðlilegum ástæðum) en mér til undrunar hef ég enga lyst á því lengur að borða eins og ég gerði. Ég þyngist ennþá lítillega af og til og þá grípur mig mikil angist, alveg eins og þegar ég var þrítug og tvítug og fimmtán ára. Það gerist ekkert nema ég hafi hreinlega staðið á beit og ég þarf ekkert harðara meinlætalíf en áður til að léttast.

Mér fannst tilhugsunin um að hrörna líkamlega alveg hræðileg. Og já, ég væri svo sannarlega til í að losna við hrukkurnar, ég er með nokkur hvít hár og nefið á mér er ekkert að minnka. En málið er að ég hef alltaf getað fundið eitthvað að útliti mínu og þótt ég geti kvalið sjálfa mig á því að horfa á hrukkurnar dýpka, þá líður mér ekkert verr en þegar ég var tvítug og gat látið eina bólu eyðileggja fyrir mér kvöldið og reiknaði með að allir nærstaddir hlytu að vera mjög uppteknir af því hvað ég hefði stórt nef. Ég fór í augnpokaaðgerð um fertugt en pokarnir eru komir aftur og ef fegrunaraðgerðir væru áhættulausar og ókeypis myndi ég áreiðanlega heimsækja lýtalækna reglulega. Á hinn bóginn var ég ekki nema þrítug þegar ég vildi fara í augnpokaaðgerð (og fékk þau svör frá lækninum að hann tæki ekki að sér að græða augnpoka á fólk) svo þótt útlit mitt hafi breyst þá er upplifun mín af líkama mínum nokkurn veginn eins.

Mér fannst líka vond tilhugsun að jafningjahópurinn myndi eldast. Mér þóttu miðaldra karlar með skalla og bringuhár fráhrindandi, líka þeir huggulegustu. Ég svaf hjá sætum strákum sem ég átti enga samleið með, bara af því að ég taldi sýnt að ég yrði dæmd til skírlífis eftir fertugt, því þá yrði ég sjálf svo feit, hrukkótt, gráhærð og röflandi að enginn myndi líta við mér nema miðaldra karlar sem ég hefði engan áhuga á.  En furðulegt nokk þá breyttist smekkur minn smám saman. Í dag er ég með manni sem er 12 árum eldri en ég og mér finnst það bara æðislegt.

Ég naut þess að vera mamma drengjanna minna og hugsaði sem svo að maður gæti ekki átt eðlilegt heimilislíf án barna. Á hinn bóginn langaði mig ekki að standa í veseninu og ábyrgðinni sem fylgir ungbörnum svo frekari barneignir voru ekki á óskalistanum nema ef ég hefði getað pantað eitt eða tvö 10 ára börn, heilbrigð og laus við hegðunarvandamál. Ég hélt að valið stæði um það að verða einmana, miðaldra kerling sem enginn hefði þörf fyrir, eða örþreytt, miðaldra, illa sofin kerling með smábarn í eftirdragi. Í dag finnst mér frábært að eiga uppkomin börn. Ég vona að ég eignist einhverntíma barnabörn en mig langar ekkert að hafa barn á heimilinu til langs tíma. Mér finnst bara fínt að enginn sé mér háður og nýt þess að geta setið við lyklaborðið án truflunar og eiga ekki von á því að einhver skilji ostinn eftir óvarinn á eldhússborðinu eða taki upp á því að rækta ánamaðka í makkintosboxi undir rúminu sínu.

Ég hélt að miðaldra fólk væri dæmt til andlegrar stöðnunar og að þau gamalmenni sem ekki væru full af fordómum hefðu fengið óvenjulega víðsýni í vöggugjöf. Í dag sé ég ekki að heimsósómaraus, fordómar og heimska aukist með aldrinum. Ég er heldur upplýstari og sjálfstæðari í hugsun í dag en ég var fyrir 20 árum og stendur auk þess ennþá meira á sama um álit annarra.

Ef ég gæti fyrirhafnarlaust litið út eins og þegar ég var 25 ára myndi ég segja já takk. En mig langar ekki í þann hugarheim, tilfinningalíf og veraldlegu aðstöðu sem var í á þeim tíma. Það eina sem angrar mig, sem angraði mig ekki hvort sem var á meðan ég brenndi 2500 hitaeiningum og hafði engar hrukkur, er það að ég þarf annaðhvort að halda bókinni armslengd frá mér eða nota gleraugu til þess að geta lesið. Sem segir mér líka að kannski sé stórhættulegt að líta í spegil með gleraugu á nefinu. Ég gæti séð allan þann hrylling sem ég óttaðist á meðan ég þurfti ekkert á gleraugum að halda.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt

Mánudagur 14.4.2014 - 11:56 - FB ummæli ()

Og auðvitað getur enginn svarað heiðarlega

Í gær birti ég pistil þar sem ég kallaði eftir umræðu um það hvar þeir sem telja réttmætt að hefta tjáningarfrelsi kennara sem aðhyllast bókstafstrú vilja draga mörkin. Ég sé ekki að það skili neinu að ræða dæmi sem þeir sem aðhyllast pólitískan rétttrúnað eru almennt sammála um, svo sem að kennari megi ekki vera rasisti, boða barnaníð eða fylgja fyrirmælum Ágsborgarjátningarinnar um að fordæma múslimi. Ég nefndi hinsvegar nokkur dæmi um skoðanir sem stórir hópar telja alveg hræðilegar en sem ekki hefur náðst víðtæk samstaða um að séu nógu vondar til þess að einn hópur geti einokað umræðuna og kúgað þá sem eru annars sinnis.

Enginn hefur fengist til að ræða þessi dæmi. Þess í stað fullyrða þeir sem vilja banna rangar skoðanir að dæmin séu langsótt eða að þau séu útúrsnúningur án þess að nokkur geti útskýrt í hverju meintur útúrsnúningur felst.

Það er hentugt trix rökþrota manns að skjóta sér undan því að svara  þeim spurningum sem að honum er beint, heldur svara einhverju allt öðru eða halda því fram að málin snúist um annað en það sem við blasir. Í þessu tilviki halda sumir ritskoðunarsinnar því fram að málið snúist um það að Snorri hafi misnotað aðstöðu sína sem kennari en í uppsagnarbréfinu er ekkert á það minnst heldur er vísað til tiltekinnar bloggfærslu.

Þið sem álítið eðlilegt að banna Snorra í Betel að tjá forpokaðar hugmyndir sínar um samkynhneigð en teljið samt ekki réttlætanlegt að banna kennurum að tjá þær skoðanir sem ég nefndi í pistlinum; ef þið getið ekki útskýrt í hverju munurinn liggur, getur þá ekki verið að þið þurfið að endurskoða hugmyndir ykkar um réttmæti þess að banna rangar skoðanir? Gerið þið ykkur virkilega ekki grein fyrir því að næst gæti það orðið ykkar eigin trú, stjórnmálaskoðun eða jafnvel listsköpun,  sem ekki er talin boðleg?

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Sunnudagur 13.4.2014 - 09:06 - FB ummæli ()

Já en hvað með börnin?

Kennari sem segir (ekki í skólanum heldur annarsstaðar) að samkynhneigðir fari til Helvítis, getur sært nemendur sína og er því vanhæfur.  Þessvegna er í lagi að brjóta gegn stjórnarskrárvörðu málfrelsi kennara sem hafa ranga skoðun á samkynhneigð.

Gott og vel. Gefum okkur að það sé rétt. En ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm þá merkir það líka eftirfarandi:

Kennari sem segir að fóstureyðing eigi að vera lögleg ef fyrirsjáanlegt er að barnið verði fatlað eða langveikt, á við að fatlaðir eigi ekki sama lífsrétt og aðrir og eðlilegt að túlka það sem hatursáróður gegn fötluðum.

Kennari sem segir að fóstureyðingalöggjöfin sé of frjálsleg og það sé ekkert ósanngjarnt við það að ungt fólk sem stundar óábyrgt kynlíf taki afleiðingunum er þar með að hvetja til ofsókna gegn ungum mæðrum.

Kennari sem segir að slæðunotkun múslimakvenna sé merki um kúgun og þessvegna séu Frakkar í fullum rétti með að banna slæður, er þar með að reka hatursáróður gegn múslimum.

Kennari sem segir að það sé brot gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna að banna slæðuna er að hvetja til kvennakúgunar.

Kennari sem segir að Ísraelsmenn séu í fullum rétti með að reisa aðskilnaðarmúrinn er um leið að hvetja til ofsókna gegn Palestínumönnum.

Kennari sem segir að landnámnsbyggðir Gyðinga í Palestínu séu ólöglegar og að því beri alþjóðasamfélaginu að leysa landnámsbyggðirnar upp og vísa landnemum aftur til síns heima, er þar með að reka hatursáróður gegn Gyðingum.

Kennari sem leggur til að Framsóknarflokkurinn verði lagður í eyði er þar með að ógna börnum framsóknarmanna og særa þau.

Í alvöru talað. Hvar vilja þeir draga mörkin sem telja réttlætanlegt að skerða tjáningarfrelsi þeirra sem hafa rangar skoðanir?  

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Föstudagur 11.4.2014 - 08:24 - FB ummæli ()

Bæjarstjórn Akureyrar á að skammast sín

Hvar í veröldinni, annarsstaðar en á Íslandi, myndi bæjarstjórn lýsa því yfir opinberlega að hún hafi gert rétt með því að brjóta lög? Nánar tiltekið að það sé réttmætt að brjóta gegn mannréttindum starfsmanns fyrir að lýsa afstöðu Evangelista til samkynhneigðar í bloggfærslu.

Enda þótt skoðanir Snorra séu fornaldarlegar hafa yfirvöld engan rétt til þess að takast á við þær með því brjóta gegn tjáningarfrelsinu. Það er auðvelt að finna aðrar og heppilegri aðferðir. Umrædda bloggfærslu hefði vel mátt nota til þess að stofna til umræðu um trú og samkynhneigð. Til dæmis hafa komið fram hugmyndir um að halda málþing innan skólanna. Hvað sem öðru líður er skoðanakúgun ekki réttmæt aðferð til að uppræta vond viðhorf. Bæjarstjórn Akureyrar væri betur sæmandi að gefa út yfirlýsingu um að hún skammist sín fyrir að hafa hlaupið á sig.

Það ömurlegasta við þetta mál er þó að bloggfærsla Snorra lýsir einfaldlega trúarafstöðu sem er í fullu samræmi við kenningargrundvöll íslensku ríkiskirkjunnar en hún er lúthers-evangelísk kirkja og gengur út frá hinni hommahatandi biblíu sem heilögum boðskap. Auk þess er kenningargrundvöllur kirkjunnar ýmis játningarit, þar með talin Ágsborgarjátningin frá 1530. (Svo virðist sem tenglar á upplýsingar um kenningargrundvöll kirkjunnar hafi verið fjarlægðir af vefnum en finna má pdf skjal með því að slá inn „samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar“ á leitarvél google.)

Ágsborgarjátninguna má ennþá lesa hér þótt hún finnist ekki með leitarvélinni á hinni nýrri gerð netsíðu Þjóðkirkjunnar. Samkvæmt henni skal fordæma ýmsa trúarhópa svo sem múslimi. Í játningunni eru þeir einnig fordæmdir sem ekki trúa því að þau börn fari til Helvítis sem deyja óskírð og þeir sem ekki trúa á eilífa vist í Helvíti. Margt fleira mætti nefna sem er alveg jafn fornaldarlegt og skoðanir Snorra í Betel á samkynhneigð og lítill vafi á að margir myndu kalla hatursboðskap ef einhver presturinn segði hreint út, það sem satt er, að tengsl hans við Þjóðkirkjuna feli beinlínis í sér viðurkenningu á þessum hugmyndum.

Ef við gefum okkur það að vel megi banna óæskilegar skoðanir, væri þá ekki við hæfi að byrja á því að banna Þjóðkirkjuna?

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 9.4.2014 - 13:00 - FB ummæli ()

Eru skáldin virkilega „svokölluð“?

Hin svokölluðu skáld. Eru skáldin virkilega „svokölluð“?  Yfirskrift þessa menningarviðburðar endurspeglar þá hugmynd að hefðbundinn kveðskapur sé harla lítils metinn, gott ef ekki fyrirlitinn.

Ég held nú reyndar að almenningur sé frekar jákvæður gagnvart hefðbundnum kveðskap og það séu einkum tveir mjög litlir hópar sem leggja lítið upp úr listrænu gildi bragformsins. Hugsanlega þrír hópar en ég held að sá þriðji sé ekki fordómafullur gagnvart forminu heldur bara bundinn af lögmálum markaðarins.

Mér virðast það einkum vera þeir, sem  hafa ekki þolinmæði til þess að læra þá undirstöðu sem þarf til að yrkja snoturlega, sem tala með fyrirlitningu um rím og stuðla. Hefðbundnir bragarhættir setja manni vitanlega ákveðnar skorður, rétt eins og tónlist lýtur ákveðnum reglum, en þeir sem líta á bragreglur sem vinnutæki, fremur en kúgandi kerfi, geta fundið öllu sem þeim liggur á hjarta hentugan bragarhátt. Ég á auðvitað ekki við að bundinn kveðskapur sé betri en óbundinn, þetta eru bara ólík form, en ég hef aldrei orðið þess vör að góð skáld sem yrkja óbundin ljóð, hafi þá afstöðu að hefðbundinn kveðskapur sé úreltur. Ég held því að þessi yfirskrift beri frekar vott um óöryggi okkar sem fáumst við hefðbundinn kveðskap en það að formið njóti ekki virðingar.

Í öðru lagi finnst mér svolítið bera á þeirri afstöðu meðal almennings að dægurlagatexti sé eitthvað allt annað en ljóð og það sé óþarfi að vanda textagerð. Þeir popptónlistarmenn sem hafa þessa afstöðu álíta æskilegra að skrifa sína texta hjálparlaust en að leita í smiðju þeirra sem hafa tilfinningu fyrir hljómi og hrynjandi hins bundna máls. Mér finnst þetta einkennilegt. Tónlistarmenn verja ómældum tíma til þess að þjálfa færni sína í hljóðfæraleik og semja tónlist. Þeir líta á það sem sjálfsagt mál að fá fleiri tónlistarmenn til liðs við sig og fá aðstoð við útsetningu en virðast samt sem áður álíta að textagerð krefjist engrar kunnáttu.  Ég held samt að það sé ekki fyrirlitning á forminu heldur þeirra eigin tjáningarþörf sem ræður mestu þar um. Má benda á í því sambandi að Bubbi Morteins, vinsælasti tónlistarmaður sinnar kynslóðar, hefur vissulega notað sína eigin texta að mestu en hefur þó bæði lagt það á sig að læra undirstöðu í bragfræði og þegið ráðgjöf sem tvímælalaust hefur bætt textagerð hans. Mættu aðrir taka það sér til fyrirmyndar.

Í þriðja lagi er mér sagt að útgefendur hafi jafnan þá afstöðu að hefðbundnir bragarhættir sómi sér ef til vill á hagyrðingamótum en eigi lítið skylt við þá hámenningu sem þeir telji sig vera að þjóna. Ég þekki ekki hlutfall þeirra handrita sem forlögin fá af hefðbundnum kveðskap á móti handritum af órímuðum ljóðum en bókaforlög hljóta að hafa það markmið eins og  önnur fyrirtæki að koma út í gróða og staðreyndin er sú að ljóðabækur seljast yfirleitt illa svo mér finnst það nú nærtækari skýring en sú að þau hafi lítið álit á forminu.

Ljóðabækur seljast illa og af því draga margir þá ályktun að ljóðið sé dautt. Það held ég að sé hin mesta firra. Ljóðabækur hafa ekki notið verulegra vinsælda síðan grammófónninn varð almenningseign en þeir sem lesa ekki ljóð syngja nú samt, svo þótt fáar ljóðabækur prýði metsölulista þá selst kveðskapur samt ágætlega í tengslum við tónlist. Ljóðið hefur líklega aldrei verið sérlega sterkt sem sjálfstæð listgrein. Ljóðið þarf tónlist, leikhús eða upplestur til að öðlast líf. Og það er ekkert einstakt fyrir ljóðið að þurfa stuðning annarra listgreina. Megnið af allri popptónlist styðst við texta og þó hvarflar það ekki að nokkrum manni að tónlistin sé dauð.

skaldinSé það rétt að útgefendur álíti að ljóðelskandi Íslendingar vilji ekki lesa kvæði undir hefðbundnum bragarháttum hljóta þeir að hafa endurskoðað þá afstöðu sína eftir að Bjarki Karlsson fékk Tómasinn. Hin bráðskemmtilega bók hans Árleysi alda var á metsölulistum í tíu vikur, hún hefur nú selst í mörg þúsund eintökum og höfðar jafnt til almúgans sem lærðustu fræðimanna. Ljóðið er nefnilega ekki dautt og allra síst þau kvæði sem styðjast við bragreglur. Þvert á móti brúar hið hefðbundna nútímaljóð bilið milli svokallaðrar „hámenningar“ og „lágmenningar“. Allir sem hafa gaman af ljóðlist ættu því að fá eitthvað við sitt hæfi á þessari ljóðadagskrá sem fer fram í Háskólabíó núna á laugardaginn og ber yfirskriftina Hin svokölluðu skáld. Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast þeim nýju straumum sem nú renna í gömlum farvegi og ég hvet alla ljóðaunnendur til að tryggja sér miða.

 

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

Mánudagur 7.4.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Fjórtán einkenni feminisma

Áður birt í Kvennablaðinu

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með skrifum mínum að ég er hreint ekki hrifin af þeim feminisma sem hefur tröllriðið íslenskri samfélagsumræðu á síðustu árum. Ég er oft sökuð um að setja alla feminista undir sama hatt, en þeir séu nú svo margir og misjafnir. En það skiptir í sjálfu sér litlu hversu margir og misjafnir þeir eru. Það sem skiptir máli er það hvaða viðhorf heyrast og hafa áhrif.

Til er áhugafólk um kynjapólitík sem tekur ekki nema að litlu leyti undir þær hugmyndir sem einkenna feministahreyfinguna. Umsjónarmenn þáttarins Kynlegir kvistir á útvarpsstöðinni X-inu eru athyglisverðasta dæmið sem ég þekki. Í fyrsta þætti sínum veltu kynlegir kvistir upp mjög góðri spurningu; hvar liggur skilgreiningarvaldið? Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður feministafélagsins, svaraði á þá leið að skilgreiningarvaldið hlyti að liggja hjá hverjum og einum.

Það liggur í hlutarins eðli að ef hver og einn notar sína skilgreiningu, þá erum við ekki að tala um sama hlutinn þar með er samræða tilgangslaus. Það er einmitt það sem feministar vilja. Þeir vilja stjórna umræðunni og hluti af strategíunni felst í því að rugla fólk í ríminu með því gangast ekki við eigin skoðunum þegar þeir lenda í rökþroti. Og þegar talsmenn tiltekinnar hugmyndafræði neita að setja fram nothæfa skilgreiningu, þá hlýtur sú stefna að skilgreinast af því sem sagt er og gert í nafni hennar.

Femmynd1

Sá feminismi sem er ríkjandi á Íslandi einkennist af fjórtán þáttum. Það er auðvitað til fólk sem kallar sig feminista sem er annars sinnis en það eru ekki undantekningarnar sem skipta máli þegar hugmyndafræði er skilgreind, heldur reglan. Bendið mér á eina umfjöllun í útbreiddum fjölmiðli sem er laus við þessi einkenni og ég skal á móti benda á hundrað dæmi sem einkennast sterklega af einhverjum þessara þátta.

 

 

1 Feðraveldishugmyndin

Femmynd2

Sú hugmynd að flest fyrirbæri sögu og samfélags megi skýra í ljósi þeirrar kenningar að karlar vilji kúga konur. Einnig að enginn eðlismunur sé á aðstæðum kvenna í strangtrúarríkjum múslima og á Vesturlöndum. Meint feðraveldi er sameiningarafl feminista; blóraböggull fyrir öll vandræði og eymd kvenna.

 

2 Áberandi tvíhyggja

Dregin upp svarthvít mynd hvenær sem þess er kostur. Skýrasta birtingarmynd tvíhyggjunnar er ímynd konunnar sem fórnarlambs og karlsins sem skúrks. Þessi veruleikasýn helst óhjákvæmilega í hendur við mikinn tvískinnung, fordóma og tvöfalt siðgæði. Annað dæmi um tvíhyggju er sú hugmynd að feminismi standi fyrir allt sem er rétt, gott og fagurt og andfeminismi nái yfir allskyns fordóma og illvilja.

 

3 Stjórnlyndi

Birtist í sterkri forræðishyggju, vilja til að beita opinberu valdi til að takmarka sjálfsákvörðunarétt kvenna, refsihyggju gagnvart karlmönnum, eftirlitsórum og ritskoðunartilburðum. Opinbert yfirvald er gagnrýnt en um leið ber á yfirvaldshyggju sem birtist í persónudýrkun á leiðtogum feminista og hjarðhegðun safnaðarmeðlima.

Femmynd3

 

4 Hugtakanotkun óljós og þversagnakennd

Skilgreining hugtaksins „feminismi“ er svo víð að nánast allir sem hafa áhuga á kynjapólitík gætu kallað sig feminista samkvæmt henni. Þeir eru þó í minnihluta sem fallast á aðrar hugmyndir sem einkenna feminiska orðræðu en þá að jafnrétti eigi að ríkja. Að sama skapi eru skilgreiningar á ofbeldi, klámi, mansali og öðrum áhugamálum feminista of loðnar til þess að vera nothæfar.

Femmynd4

5  Óvísindalegar rannsóknaraðferðir

Kynjafræðingur er manneskja með háskólagráðu í þeirri list að gefa órökstuddum skoðunum fræðilegt yfirbragð. Rannsóknaraðferðirnar eru oftar en ekki langt frá því að vera vísindalegar. Niðurstöðurnar eru ákveðnar fyrirfram og handvaldir viðmælendur sem eru líklegir til að staðfesta skoðanir rannsakandans.

6 Blekkingar og lygar í þágu málstaðarins

Gölluð tölfræði og gervirannsóknir lagðar til grundvallar og algengt að vísað sé í heimildir sem staðfesta alls ekki það sem haldið er fram. Krafa um sögufölsun, til dæmis að fræðimenn og fjölmiðlar dragi upp mynd sem stenst ekki raunveruleikann með því að gera meira úr hlut kvenna en efni standa til.

7  Kynbundin mismunun

Krafa um að fólki sé mismunað á grundvelli kyns en þó aðeins þegar það er konum í hag. Þetta viðhorf birtist í kynjakvótum, vægari hæfniskröfum fyrir konur en karla og kynbundnum styrkjum og viðurkenningum sem körlum standa ekki til boða.

8  Ofstækisfull mótunarhyggja

Allur kynjamunur skýrður með menningarlegum þáttum. Enginn málsmetandi eðlishyggjusinni hafnar því að umhverfi hafi mikil áhrif á hegðun okkar en margir feminiskir fræðimenn hafna nær algerlega eðlislægum kynjamun fyrir utan hina líkamlegu þætti sem greina kynin að. Mjög lítið umburðarlyndi fyrir þeirri skoðun að staðalmyndir eigi sér kannski flugufót í raunveruleikanum.

9 Kynhyggja

Femmynd5Svo mótsagnakennt sem það virðist hafa margir fundið karlrembu sinni farveg í feminisma. Karlamenning er álitin svo merkileg að það telst sérstakt jafnréttismál að auka áhuga kvenna á henni, ásamt því að greiða veg kvenna að völdum óháð því hvort valdakerfin þjóna hagsmunum kvenna.
Samtímis er krafist forréttinda handa konum og konur taldar siðlegri og betri verur en karlar.
Feministahreyfingin einkennist þannig af karlrembu og kvenrembu í senn.

 

10 Þráhyggjukennd áhersla á klám og kynferðisofbeldi

Ranghugmyndir um samfélagsleg viðhorf sem birtast í hugtökum eins og „nauðgunarmenning“. Blind trú á það að klám orsaki beinlínis kvenhatur og kynferðisofbeldi. Stöðugt klifað á þeirri hugmynd að konur séu hvergi óhultar fyrir nauðgurum og öðrum ofbeldiskörlum.

11 Kennivald og pólitískur rétttrúnaður

Feministar hafa tekið við því kennivaldshlutverki sem kirkjan hafði áður. Þeir hafa víða öðlast sterk ítök í stjórnkerfinu og hafa gríðarleg áhrif á fjölmiðla, opinbera umræðu og réttarkerfið. Áhrifafólk sem talar gegn skoðunum feminista getur átt von á harðri fordæmingu. Feministar vilja einnig fá að koma áróðri áleiðis í gegnum menntakerfið og fleiri stofnanir samfélagsins.

12 Sjálfskipað siðgæðiseftirlit

Birtist í nýhreintrúarstefnu og mikilli vandlætingu, einkum gagnvart gríni og greddu. Óvægin og oft ósanngjörn gagnrýni á alþýðumenningu, hégóma, spaug og almenna umræðu þar sem ber á staðalmyndum og ógætilegu orðalagi, ekki síst þar sem kynferðismál eru höfð í flimtingum.

Femmynd6

 

13 Vænisýki og tilheyrandi túlkunarárátta

Feministar leita allsstaðar að merkjum um kvenfyrirlitningu, karllæg yfirráð, klám, kynferðisofbeldi og feministahatur. Þeir sjá þessa djöfla í öllum þáttum menningarinnar. Til dæmis auglýsingum, listum, leikjum, verkfærum, leikföngum og klæðnaði. Stundum birtist túlkunaráráttan í því að óviðkomandi hlutir eru túlkaðir sem ádeila á karllægt samfélag.

14 Dólgslegar baráttuaðferðir

Málflutningur einkennist af rökvillum, útúrsnúningum og blekkingum. Rangfærslur endurteknar þar til þær verða að viðteknum sannindum. Gagnrýni ekki svarað efnislega heldur með svívirðingum og ásökunum um annarlegar hvatir svosem kvenhatur, gerendasamúð, ofbeldishneigð eða klámfíkn. Mannréttindahugtakið misnotað í þágu málstaðarins.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Sunnudagur 6.4.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

33. Feministar hafa eyðilagt hugtakið feminismi

Ég er oft spurð að því hversvegna ég setji alla feminista undir einn hatt, þegar svo margar stefnur falla undir feminisma. Ég er spurð hversvegna ég vilji eingöngu nota hugtakið feminismi um þá dólgastefnu sem ég hef lýst í þessari pistlaröð.

Þegar betur er að gáð set ég alls ekki allt kvennabaráttufólk undir einn hatt. Það eru dólgafemninistar sem gera það, með ónothæfri skilgreiningu sinni á feminisma. Það sem ég er að reyna að gera er þvert á móti að benda á að fjölmargir hafa áhuga á kynjapólitík án þess að eiga neina samleið með þeim dólgafemnistum sem hafa eignað sér hugtakið feminismi, með þeim afleiðingum að allur þorri fólks tengir orðið feminismi við fórnarlambshyggju, klámfóbíu og endalausan áróður um að konur séu hvergi óhultar fyrir nauðgurum og öðrum vondum körlum.

Feministar hafa í sumum löndum náð að yfirtaka og stjórna allri umræðu um kynjapólitík með sömu dólgslegu aðferðunum og þeir ásaka aðra um að beita konur. Feminstar hafa fáránlega mikil áhrif á fjölmiðla en kvarta jafnframt um að konur hafi ekki aðgang að fjölmiðlum enda þótt skýringin á kynjahallanum í fjölmiðlum sé augljóslega allt önnur.

Hin loðna skilgreining feministafélagsins hljómar kannski eins og þeir sem skrifuðu hana séu saklausir heimskingjar. En látið ekki blekkjast. Það þjónar tilgangi að hafa skilgreininguna svo víða. Markmið dólgafeminista er að öðlast algert kennivald, gera hugmyndir sínar að sannleika. Feministar nota skilgreiningu sem er nógu almenn til þess að allir sem hafa áhuga málefnum kynjanna geta samþykkt hana og um leið og einhver gengst við ákveðinni hugmyndastefnu, hneigist sá sami til þess að líta það jákvæðum augum sem kynnt er undir hennar merkjum.

Við þurfum að endurheimta kynjaumræðuna sem dólgafeministar hafa einokað. Brjóta á bak aftur þá hugmynd að hver sá sem mótmælir feministum sé kvenhatari eða fáviti nema hvort tveggja sé. Umræðan hefur opnast dálítið á síðustu árum en því miður er það ennþá svo að áhugafólk um kynjamál kallar sig feminista án þess að eiga neitt sameiginlegt með þeim forræðissinnuðu siðapostulum sem hafa gert hugtakið „feminismi“ ónothæft.

femugla33

 

33 ástæður til að uppræta feminisma
1. Við þurfum ekki feminisma til að tryggja jafnrétti
2. Grundvöllur feminismans er lygi
3. Feminismi notar lygar í áróðursskyni
4. Feminisminn lítur á karlmenn sem illmenni
5. Feminisminn lítur á konur sem fórnarlömb
6.  Feminismi firrir konur ábyrgð
7.  Feminisminn er í stöðugri mótsögn við sjálfan sig
8. Feminismi skaðar konur í kynlífsiðnaði
9.  Feministar takmarka sjálfsákvörðunarrétt kvenna
10.  Feminisk áhrif veikja réttaröryggi sakborninga
11. Feministar nota háskóla til að breiða út gervivísindi
12. Feminismi er ríkisstyrkt valdanet
13.  Feministar vilja fá að stunda trúboð í skólum
14.  Feminismi leggur kynhlutverk að jöfnu við kvennakúgun
15. Feminismi er kvennamenningu fjandsamlegur
16. Feminismi er nýhreintrúarstefna
17. Feministar vilja ákveða normin í kynferðismálum
18. Feminismi er að festa sig í sessi sem kennivald
19. Feminismi vinnur gegn kvenréttindum
20. Feminismi er dólgapólitík
21. Feminismi er hugsjónastríð
22. Feministar sinna þjónustu sem ætti að vera í höndum fagfólks
23. Feminismi er fasísk hugmyndafræði
24. Feministar hafa ranghugmyndir um norm samfélagsins
25. Feminismi einkennist af pólitískum rétttrúnaði
26. Feministar rangtúlka listaverk í áróðursskyni
27. Feministar eru með klám á heilanum
28. Feministar vilja ráða því hvað skuli teljast valdeflandi
29. Feministar ýkja tölur um kynbundinn launamun
30 Feministar styðja kynbundna mismunun
31 Feminismi vinnur gegn lýðheilsumarkmiðum
32 Feminismi nærir sorpblaðamennsku
33 Feministar hafa eyðilagt hugtakið feminismi

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics