Sunnudagur 4.3.2018 - 13:52 - Rita ummæli

Hvað á námið að kosta?

Um helgina var Háskóladagurinn haldinn hátíðlega.  Þar kynntu innlendir háskólar framboð sitt fyrir áhugasömum framtíðarnemendum.  Stórar ákvarðanir bíða þeirra, ekki aðeins hvað eigi að læra og hvar, heldur einnig hvað námið á að kosta.

Í ársskýrslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir árin 2015-2016 kom fram að meðalupphæð námslána þeirra sem hefðu hafið greiðslur af lánum væri á bilinu 4-4,5 milljónir kr.  Meðallán námsmanna sem voru enn í námi voru 3,3 m.kr. á Íslandi en erlendis rúmlega 6,3 milljónir kr.

Kostnaður við nám getur þannig ekki bara falist í framfærslu heldur einnig skólagjöldum.  Mikill munur getur verið á milli landa og einstakra skóla í kostnaði vegna skólagjalda.

Hæstu skólagjaldalánin eru tekin vegna náms við skóla í Bandaríkjunum og Bretlandi.  Víða í heiminum er hægt að stunda nám af miklum gæðum og greiða lág eða engin skólagjöld.  Má þar nefna Norðurlöndin,  Þýskaland, Frakkland, Austurríki, Belgíu, Holland, Tékkland, Grikkland, Ítalíu og Spán.  Þá má einnig finna hagkvæmt nám víðar um heim í löndum á borð við Argentínu, Indland eða Taiwan.

Hér má sjá yfirlit yfir bestu háskólana í Evrópu skv. mælingu THE World University Ranking.

Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrsluna Lánasjóður íslenskra námsmanna: Lánshæfi náms og þróun útlána.  Ein af tillögum Ríkisendurskoðunar í skýrslunni  var að lánþegar myndu gera áætlun um fyrirhugaða lántöku námslána fyrir nám sitt og á þeim grundvelli gæti LÍN reiknað út fyrir umsækjendur líklegan heildarkostnað lánsins, endurgreiðslutíma m.v. tiltekin laun og verðbólgu og mánaðargreiðslur eftir að námi lýkur og sent námsmönnum til staðfestingar og upplýsingar.  Þessar upplýsingar gætu komið fram samhliða umsókn um námslán á vefsvæði lántaka hjá LÍN.  Þar mætti líka kom fram hvar mætti fá nánari upplýsingar um námslán og ráðgjöf um fjármál.

Einnig væri spennandi ef hægt væri að reikna út skulda- og tekjuhlutfall einstakra námsgreina, sbr. útreikninga SoFi um MBA nám í Bandaríkjunum til að upplýsa námsmenn betur um val sitt til framtíðar.  Þannig eru nemendur með MBA gráðu frá Columbia háskóla í NY  með hæstu launin eftir útskrift en nemendur frá Brigham Young háskólanum í Utah með besta hlutfallið á milli launa og námsskulda.

Hér má sjá núverandi reiknivél á vef LÍN um væntar afborganir af námslánum.

 

Flokkar: Menntun

Fimmtudagur 15.2.2018 - 14:50 - Rita ummæli

150 viðskiptafræðingar atvinnulausir – hvar eru störfin?

Hlutfall háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefur farið hækkandi á undanförnum árum.   Þannig er um fjórðungur atvinnulausra, ríflega 1100 manns, með háskólamenntun eða sérskólamenntun á háskólastigi.  Viðskiptafræðingar eru fjölmennastir og þar á eftir lögfræðingar.

Á sama tíma heyrast svo fréttir að erfiðlega gengur að ráða fólk í ýmis störf og atvinnuleysi mælist lítið sem ekki neitt.

Fyrir stuttu birti sænska vinnumálastofnun árlega spá sína um „heitustu“ og „köldustu“ störfin eftir 5 ár.

Hér verður mest samkeppni um starfsfólk eftir 5 ár í Svíþjóð:

 • Byggingaverkfræðingar og annað tæknimenntað fólk í byggingariðnaði
 • Leikskólakennarar
 • Hjúkrunarfræðingar, almennir og í bráðaþjónustu
 • Læknar
 • Kennarar í iðn- og tækninámi
 • Hugbúnaðar- og kerfisfræðingar
 • Geislafræðingar
 • Sérkennarar
 • Iðnaðarmenn (smiðir, rafvirkjar, kokkar, vélvirkjar, múrarar, píparar)
 • Sjúkraliðar, starfsmenn í heimaþjónustu og á hjúkrunarheimilum.

Minnst eftirspurn verður eftir starfsmönnum í þessum störfum eftir 5 ár:

 • Almennur starfsmaður í banka
 • Aðstoðarmenn stjórnenda
 • Ráðgjafar á sviði fjármála og fjárfestinga
 • Ljósmyndarar
 • Grafískir hönnuðir
 • Sérfræðingar í samskiptum og almannatengslum
 • Blaðamenn
 • Tónlistarmenn, söngvarar og tónskáld
 • Starfsfólk á bensínstöð
 • Starfsmenn í matvöru- og smásöluverslunum
 • Gjaldkerar á kassa
 • Aðstoðarmenn á skrifstofu, ritarar
 • Móttökuritarar
 • Prentarar og bókbindara
 • Starfsmenn í símsvörun
 • Húsverðir

Mér sýnist að við getum yfirfært margt af þessu á íslenskan vinnumarkað.  Miklar breytingar eru að verða á umhverfi fjármálafyrirtækja, tæknibyltingin hefur þegar umbreytt starfsumhverfi fjölmiðla, flestir svara sjálfir sínum símum og tölvupóstum og sífellt fleiri velja að kaupa sér frekar rafbíl en bensínbíl.

Eða hvað?

 

 

 

 

 

Flokkar: Menntun · Óflokkað

Föstudagur 1.12.2017 - 11:38 - Rita ummæli

Hugum að fátækum börnum

Það styttist til jóla. Ný ríkisstjórn hefur tekið við og eftir nokkra daga mun Alþingi hefja vinnu við fjárlög ársins 2018.  Fjölmargir munu stíga fram og setja fram kröfur sem misjafnlega erfitt verður að mæta.

Stjórnmálamenn bregðast við áreiti. En því miður eru það ekki alltaf þeir sem hæst hafa sem standa mest höllum fæti í samfélaginu.  Það á sannarlega við um fátæk börn.

Það er því jákvætt að í nýjum stjórnarsáttmálanum segir skýrt að Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Í þeim tilgangi á að styrkja stöðu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun.  Gera á úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.  Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.

Þessi vinna ætti ekki að taka langan tíma þar sem hún er þegar hafin.  Velferðarvaktin hefur látið vinna úttekt á stöðu þeirra sem búa við sárafátækt í samstarfi við Hagstofuna og samdi nýlega við Eddu öndvegissetur um rannsókn á lífskjörum og fátækt barna í á Íslandi.  Áætlað er að niðurstöðurnar muni liggja fyrir í ágúst 2018.

Á meðan beðið er eftir niðurstöðum úttektarinnar er hægt að fylgja áfram eftir þeim tillögum sem þegar liggja fyrir frá Velferðarvaktinni m.a. um að í öllum grunnskólum landsins verði námsgögn gjaldfrjáls, fjárveitingar til byggingu Leiguheimila í nýja félagslega leiguíbúðakerfinu verði auknar, stuðningur við tekjulága foreldra verði jafnaður og aukinn með samræmingu barnabóta og barnalífeyris og að samræmdar reglur verði settar um lágmarksframfærslu sem er fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna strax í fjárlögum ársins 2018.

Látum árið 2018 verða árið þar sem við segjum að við ætlum ekki að sætta okkur við að á Íslandi, eitt Norðurlandanna, búa fleiri börn við fátækt en fullorðnir.

 

.   

Flokkar: Menntun

Þriðjudagur 19.9.2017 - 09:20 - Rita ummæli

Tilkynning v/ Alþingiskosninga

Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni.  Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.

Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið.   Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Ég hef lengi verið sannfærð um að þingmennska á ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi.  Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá mér.   Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.

Því mun ég ekki gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni.

Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.8.2017 - 12:11 - 1 ummæli

Þarftu að taka námslán?

Í haust hefja þúsundir nýnema nám við háskóla landsins.  Eflaust hafa þau flest eytt töluverðum tíma í að íhuga hvaða skóla þau eigi að fara í og hvaða fag þau vilja læra.  Hvað með ákvörðunina um að taka námslán?

Frá aldamótum hefur ársnemum í háskólum fjölgað hratt.  Árið 2001 voru ársnemendur í háskólum 7.200 en voru 14.500 árið 2014.  Útlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) hafa að mestu fylgt nemendaþróun í háskólum.  Lán vegna ýmiss sérnáms hafa einnig farið vaxandi.

Að jafnaði er aðeins um helmingur nemenda sem tekur námslán, eða 47%.  Hæst varð hlutfallið um 55% skólaárið 2008-2009. Á árunum 2008-2009 hafði einnig átakið Nám er vinnandi vegur veruleg áhrif þar sem atvinnulausir voru hvattir til að fara í nám í stað þess að vera á atvinnuleysisbótum í kjölfar kreppunnar.

Á síðustu árum hefur meðallán lánþega hjá LÍN hins vegar hækkað jafnt og þétt.  Helstu ástæður þess eru taldar vera lengri námstími og að nemendur eru að fara í lengra og dýrara nám með háum skólagjöldum bæði innanlands og erlendis.  Þá hefur meðalaldur lánþega farið hækkandi.  Meðallán árið 2015 var 4,2 milljónir kr.  Til samanburðar má benda á að í Bandaríkjunum og Bretlandi, löndum sem við teljum almennt dýrt að mennta sig eru meðalskuldir útskrifaðra nemenda á bilinu 3-4 milljónir króna.

Það er áhyggjuefni hversu mjög meðallánin hafa hækkað.  Þetta þýðir að þeir sem eru að útskrifast eftir að hafa tekið námslán eru mun líklegri til að verða með mun hærri greiðslubyrði vegna námslána en fyrri kynslóðir.

Því vil ég hvetja fólk til að íhuga mjög vel hvort það þurfi að taka námslán, ekki hvað síst í upphafi náms.

Ástæða þess að ég skrifa þetta er að ég vildi óska þess að einhver hefði spurt mig þessarar spurningar á sínum tíma.  Að það hefði ekki þótt sjálfsagt að taka lán, sama hvaða nafni það nefnist.

Að spyrja sig hvort þú getir tekið eitt ár í að vinna og lagt fyrir áður en þú hefur nám eða búið aðeins lengur heima á meðan þú ert í námi, unnið aðra hverja helgi og í fríum i til að borga fyrir skólabækurnar, strætó-kortið og annað sem tilheyrir skólanum, – og útskrifast úr háskóla án nokkurra námsskulda?

Ímyndaðu þér hvers konar forskot það er að hefja starfsævina án þess að skulda 4,2 milljónir króna að meðaltali.

Því spyr ég aftur: Þarftu að taka námslán?

Flokkar: Menntun

Miðvikudagur 2.8.2017 - 09:04 - 3 ummæli

Öll börn fái gjaldfrjáls ritföng

Sífellt fleiri sveitarfélög taka ákvörðun um að bjóða upp á raunverulega gjaldfrjálsa grunnskólamenntun, nú síðast Garðabær og Akranes, með því að sjá sjálf um ritföng nemenda.  Nýjustu fréttir herma að fjölmörg þeirra ætli að nýta sér sameiginleg örútboð Ríkiskaupa við kaup á gögnunum. Þar á meðal Blönduós, Garður, Hafnarfjörður, Hornafjörður og Mosfellsbær.  Ákvörðunin kom í framhaldi af góðri reynslu Reykjanesbæjar af örútboði.

Ein helsta athugasemd við frumvarp okkar sem eru talsmenn barna innan stjórnarandstöðunnar um að gera ritföng gjaldfrjáls í öllum grunnskólum var kostnaðaraukinn fyrir sveitarfélögin.  Andstæðingar málsins fullyrtu að þetta yrði of dýrt. Meðalkostnaður væri á bilinu 7-8 þúsund krónur á barn og áætlaður heildarkostnaður foreldra og forráðamanna vegna ritfanga grunnskólabarna væri því á bilinu 300-500 milljónir króna á landsvísu.

Við töldum hins vegar að ef sveitarfélögin myndu sjá sjálf um innkaupin væri hægt að ná umtalsvert hagstæðari innkaupum en hjá einstökum fjölskyldum.  Því til viðbótar hefðu sveitarfélögin ákvörðunarvald um hver kostnaðurinn ætti að vera þar sem skólar á þeirra vegum ákveða hvaða ritföng börnin þurfa að nota.  Þetta hefur sýnt sig í hversu mismunandi kostnaðurinn hefur verið á milli sveitarfélaga og jafnvel skóla innan sama sveitarfélags.

Við bentum einnig á mjög góða reynslu af örútboðum. Sem dæmi má nefna að sameiginlegt örútboð á ljósritunarpappír skilaði 55% afslætti af listaverði bjóðanda.

Velferðarvaktin, Barnaheill, fjöldi foreldra og forráðamanna og þingmenn hafa bent ítrekað á að gjaldfrjáls ritföng í grunnskólum séu í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Þannig er unnið gegn mismunun barna og styður við að börn njóti jafnræðis til náms.

Næsta skref hlýtur því að vera að Alþingi samþykki breytingu á grunnskólalögum og afnemi heimild sveitarfélaga til gjaldtöku vegna ritfanga og annarra gagna.

Flokkar: Menntun

Miðvikudagur 26.7.2017 - 09:54 - Rita ummæli

Hvað eru margar íbúðir í byggingu?

Þegar rætt er um húsnæðisvandann hljóta tölur um fjölda íbúða í byggingu að skipta miklu máli. Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið, úthluta lóðum, afgreiða byggingarleyfi og skrá hjá sér byggingarstig framkvæmdanna.  Því hefur ekki verið til á einum stað hversu margar íbúðir eru í byggingu á hverjum tíma.  Stjórnvöld þ.m.t. Seðlabankinn, Hagstofan, fjármálaráðuneytið og stjórnmálamenn hafa því oft átt erfitt með að átta sig á hversu margar íbúðir eru í byggingu.

Allir þessir aðilar hafa því horft til Samtaka iðnaðarins sem hafa staðið sig best í að halda utan um raunverulega framleiðslu íbúða með því að telja einfaldlega íbúðir á byggingarstöðum. Í febrúar síðastliðnum birtu þeir eftirfarandi talningu um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem voru komnar að fokheldu eða lengra komið:
Reykjavík 1228
Kópavogur 655
Garðabær 644
Hafnarfjörður 237
Mosfellsbær 470
Seltjarnarnes 21

Þar af hafði orðið 67% aukning á síðustu 14 mánuðum.  Íbúðalánasjóður hefur sagt að til að fylgja eftir fjölgun íbúa á höfuðborgasvæðinu þurfi að byggja 1400 íbúðir árlega. Þar fyrir utan er íbúðaþörf vegna ferðamanna og uppsafnaðrar þarfar þar sem aðeins voru byggðar árlega um 500-900 íbúðir árlega á árunum eftir hrun.

Á grunni talningar sinnar gáfu Samtök Iðnaðarins út spá um byggingu íbúða fyrir árin 2017-2020:

2017 Lokið verður við 1.598 íbúðir í ár og byrjað á 2.436 íbúðum.
2018 Lokið verður við 1.921 íbúðir og byrjað á 2.823 íbúðum.
2019 Lokið verður við 2.626 íbúðir og byrjað á 2.957 íbúðum.
2020 Lokið verður við 2.631 íbúðir og byrjað á 2.710 íbúðum.

Þannig verður framleiðsla á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu fjórum árum verulega umfram fjölgun íbúa og ætti því að geta mætt einnig þeirri eftirspurn sem skapast hefurvegna fjölgunar ferðamanna og þess að lítið var byggt á árunum 2009-2014.

Því til viðbótar bætast miklar byggingaframkvæmdir í nágrannasveitarfélögunum, sem ég hef ekki séð tölur yfir en tel einkar mikilvægt að stjórnvöld og byggingariðnaðurinn fylgist vel með svo ekki verði sambærileg þróun þar og árunum 2006/2007 þar sem byggt var langt umfram þörf.

 

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

Þriðjudagur 16.5.2017 - 14:52 - Rita ummæli

Leitin að týndum börnum

Hver hefur ekki séð auglýsingar í fjölmiðlum frá lögreglunni um týnd ungmenni?  Fátt er alvarlegra eða erfiðara en þegar barn týnist.  Alvarleikinn endurspeglast ekki hvað síst í að þrjú ungmenni í hópi þeirra sem struku létust árið 2014. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að barn strýkur, en þær algengustu eru heimilisaðstæður, vímuefnaneysla eða erfiðleikar í skóla.

Árið 2015 tók ég ákvörðun um að styðja við nýtt verklag við leit að týndum börnum sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir innleiddi fljótlega eftir að hún tók við sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur 2016, um 10 milljónir hvort ár.  Nú er verkefnið orðinn fastur hluti af fjárhagsramma lögregluembættisins, enda sannarlega búið að sanna sig.

Ekki hvað síst í þeirri staðreynd að ekkert ungmenni hefur látist sem leitað hefur verið að með þessum hætti.

Einn starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt verkefninu í fullu starfi og vinnur náið með öðrum þjónustukerfum til að styðja sem best við barnið og fjölskyldu þess.  Nú er svo komið að viðbragðstími lögreglu er orðinn um 20 mínútur að meðaltali frá því að Barnavernd sendir leitarbeiðni þar til málið hefur verið skráð, lýsing á barni kölluð út og það skráð eftirlýst í kerfum lögreglu.

Leitað var eftir rúmlega 80 börnum á hvoru ári fyrir sig, eða alls 163.  Þar af voru 60 börn sem leitað var að í fyrsta skipti á hvoru ári, aðeins fleiri stúlkur en strákar.  Það sem af er ári 2017 hafa borist 53% fleiri leitarbeiðnir en bárust að meðaltali síðustu tvö árin á undan.  Flest börnin eru á aldrinum 14 til 17 ára, en tvö yngstu börnin voru 11 ára.  Leitarbeiðnir berast allan sólarhringinn, en flestar berast upp úr miðnætti.  Börnin voru týnd allt frá einni klukkustund upp í 13 daga, en meðaltalið er um 31 klst.

Í opnu bréfi félagasamtakanna Olnbogabarna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom fram að ekki aðeins hafi verkefnið skilað umtalsverðum árangri heldur hafi það breytt viðhorfum innan lögreglunnar hvað varðar börn og ungmenni með áhættuhegðun.  Foreldrar/forsjáraðilar og ungmennin sjálf væru farin að bera aukið traust til lögreglunnar.  Þar hefur ekki hvað síst skipt miklu máli að það sé litið alvarlegri augum innan lögreglunnar að verið sé að hýsa börn og ungmenni undir lögaldri í leyfisleysi.

Það er ánægjulegt að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi náð að tryggja verkefninu fjármagn innan embættisins og fastan sess í verkferlum lögreglunnar.

Þannig getum við vonandi tryggt áfram að þegar börnin okkar týnast þá finnist þau sem allra fyrst og fái þá aðstoð sem þau þurfa innan stuðningskerfis barnaverndar, félagsþjónustu og skóla.

Flokkar: Barnavernd

Laugardagur 29.4.2017 - 08:00 - Rita ummæli

Þarf pung til að byggja hús?

Við hjónin erum að byggja hús.  Í þessu verkefni tókum við ákvörðun um að ég myndi sjá um samskipti við hönnuði, iðnaðarmenn og flesta birgja.  Ég vissi fyrir að byggingarbransinn væri mjög karllægur.  Í skýrslu sem ég lagði fram á Jafnréttisþingi kom fram að konur eru aðeins um 3% í starfsstétt iðnaðarmanna og sérhæfðs verkafólks árið 2014, og hafði hlutfallið lækkað úr 10% árið 1991.

Hversu karllægur bransinn var endurspeglaðist í samsetningu þeirra sem mættu á fundi sem ég hélt um húsnæðismál sem fyrst og fremst karlar sóttu, ólíkt Jafnréttisþingi sem fyrst og fremst konur sóttu.  Þetta endurspeglaðist einnig sterklega í viðbrögðum sem ég fékk þegar ég fór að tjá mig um hagkvæmar húsbyggingar og skipti þar engu hvort karlarnir sem tjáðu sig voru til hægri eða vinstri í stjórnmálunum.

Ég er reyndar ekki sú eina sem hef fengið álíka gusur ef ég hef hætt mér inn á ímyndað verksvið karlanna. Það virðist vera ansi vinsælt hér á landi að hnýta í og jafnvel hæðast að konum sem tjá sig um verklegar framkvæmdir, fjármál eða efnahagsmál.

Þess vegna hefðu kannski ekki átt að koma á óvart hinar „penu“ spurningar sem ég hef reglulega fengið þegar ég hef leitað tilboða eða upplýsinga í byggingarferlinu. Þær virðast meira og minna snúast um að fá að tala við einhvern annan en mig. Einhvern sem hefur væntanlega meira vit á þessu en ég (lesist: karl).  Verkefnisstjóri húsbyggingarinnar er nefndur reglulega, byggingarstjórinn að sjálfsögðu, eiginmanninn eða bara einhver annar.

Að sjálfsögðu gildir þetta ekki um alla, – og allra síst þann frábæra hóp iðnaðarmanna og hönnuða sem eru að vinna þetta með okkur.

En miklu fleiri en ég hef kynnst í öðrum verkefnum.

Því spyr ég: Þarf pung til að byggja hús?

Flokkar: Húsnæðismál · Jafnrétti

Þriðjudagur 18.4.2017 - 09:00 - 2 ummæli

Stafrænar myndir og sýslumaðurinn

Fyrir ekki löngu síðan átti ég tvö erindi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  Annars vegar að endurnýja vegabréf okkar hjónanna og hins vegar að sækja um ökuskírteini fyrir eldri dótturina.  Vakti það athygli mína hversu mikill munur var á umsóknarferlinu á þessum tveimur tegundum af skilríkjum.  Við móttöku umsókna okkar hjónanna um vegabréf var allt ferlið meira og minna rafrænt og var m.a. boðið upp á að tekin væri stafræn mynd af okkur á staðnum. Þegar ég kom stuttu seinna ásamt eldri dótturinni að sækja um ökuskírteini var hins vegar töluverður munur á, ekki hvað síst þar sem við þurftum að rjúka aftur út til að leita að ljósmyndasjálfsala þar sem krafa var gerð um að ljósmynd fylgdi umsækjanda á ljósmyndapappír.

Það var því ánægjulegt að fá skýrt svar frá Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, þegar ég spurði hana af hverju þessi munur væri á útgáfu þessara tveggja skírteina og hvað hún ætlaði að gera til að einfalda og tæknivæða umsóknarferlið hjá sýslumönnum.

Helsta ástæðan var samkvæmt svari ráðherrans að reglugerð um útgáfu ökuskírteina hefði ekki fylgt tækniþróun undanfarinna ára líkt og ákvæði laga og reglugerða um vegabréf.  Fullt tilefni væri því til að endurskoða þetta verklag og heimila töku stafrænna mynda af umsækjendum um ökuskírteini á starfsstöðvum sýslumanna í góðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en reglugerðin um ökuskírteini heyrir undir hann eftir að ráðuneytinu var skipt upp.

Kannski ekki stórmál, en breytingin myndi sannarlega spara ungmennum og öðrum þeim sem þurfa að sækja um ökuskírteini sporin og gera allt umsóknarferlið um þennan mikilvæga áfanga einfaldara og skilvirkara.

Svona meira í anda 2000 kynslóðarinnar 🙂

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur