Þriðjudagur 19.04.2011 - 11:32 - 3 ummæli

Hvirfilbylur og jarðskjálfti

Vorið 2001 var ég í Norman, Oklahoma og upplifði hvirfilbyl í návígi.

Þegar viðvörunarflauturnar fóru í gang var ég í símanum að tala við eiginmanninn heima á Íslandi.  Flauturnar heyrðust því skýrt og greinilega alla leið til Íslands.

Ég kvaddi í flýti, rauk yfir til nágrannanna og spurði hvað ætti að gera.  „Kveikja á sjónvarpinu,  fara í skó, ná sér í teppi og koma sér fyrir í baðkarinu.“ var svarið.  Enginn virtist vera með á hreinu hvar næsti kjallari eða neyðarskýli væri, þannig að ég tók þær á orðinu og stóð í baðherbergisgættinni með sængina og fylgdist með sjónvarpinu tilbúin að hoppa í baðkarið.

Í sjónvarpinu flökkuðu myndavélarnar á milli hvirfilbylsins sem nálgaðist óðfluga og alls fólksins sem hafði lagt bílunum sínum á hraðbrautinni og fylgdist spennt með.

Skyndilega datt allt í dúnalogn.  Hvirfilbylurinn hafði snúið og þulurinn taldi ólíklegt að hann myndi taka niður í Norman.

Síminn hringdi, maðurinn var að tékka hvort ég væri á lífi…

„Að hugsa sér að fólkið skuli búa við þetta árlega,“ sagði ég. 

„Við fáum allavega bara jarðskjálfta á nokkurra ára eða áratuga fresti heima.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Tæplega er hægt að halda því fram að hvirfilbylur geisi í herbúðum framsóknarmanna; fremur um jarðskjálfta svona fimm á Richter sem á Íslandi flokkast undir titring.Það er verðugt rannsóknarefni í pólitískum fræðum sú viðleitni og ofurþrá einstakra þingmanna Framsóknarflokksins að komast að ríkisstjórnarborðinu. Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson vinna að því markvisst fyrir opnum tjöldum og einnig er Eygló Harðardóttir nefnd til sögunnar. Rökin eru þau, að ríkisstjórnin sé veikburða, þurfi aukinn styrk til þess að koma mikilvægum málum fram og síðan það sígilda, að til þess eru menn í pólitík að hafa áhrif. Þessi afstaða leiðir hins vegar ekki til annars en að veikja stöðu Framsóknarflokksins. Skilaboðin eru jafnan túlkuð þannig úti í þjóðfélaginu, að þarna sé Framsóknarflokknum rétt lýst. Ráðherrastólar og völd er það sem málið snýst um. Áherslur fyrrnefndra þingmanna eru þeim mun undarlegri, að VG hefur ekki sóst eftir aðkomu framsóknarmanna að ríkisstjórninni og mun ekki gera. Það þarf ekki að kafa djúpt í hugarheim VG liða til þess að átta sig á því. Með framsóknarmenn um borð myndi vígstaða þeirra veikjast verulega innan ríkisstjórnarinnar. Forysta VG metur einnig stöðuna þannig, að þrenningin góðkunna, Lilja, Atli og Ásmundur muni koma til hjálpar þegar á reynir. Samfylkingin lítur hins vegar á brölt fyrrnefndra framsóknarmanna með augum refsins og því undirferli sem þeim flokki er tamt. Össur Skarphéðinsson lýsti þeim hugarheimi ágætlega í viðtali á Bylgjunni. „Ríkisstjórnin á eins og nú er staðan og þrátt fyrir að hafa misst menn fyrir borð, ágæta möguleika til þess að koma góðum málum fram á þingi. Sem stendur þurfum við ekki á liðstyrk að halda. En það er gott að vita af góðum vinum í Framsókn og ég met mikils að hafa þá í bakhöndinni ef á þarf að halda“. Á bak við skrúðmælgina leynir sér ekki lítilvirðingin. Og það er í sjálfu sér ekki undarlegt. Þingmennirnar Siv og Guðmundur hafa lagt ofuráherslu á aðild flokksins að núverandi ríkisstjórn án þess að tilgreina í einu né neinu hvert erindi flokksins eigi að vera í ríkisstjórninni. Nýsamþykkt stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum, atvinnumálum, skattamálum, orkunýtingarmálum og á fleiri sviðum hlýtur að verða leiðarljósið hvenær sem að ríkisstjórnarþátttöku kemur. Margt af því sem fram kemur í stefnumörkun flokksins hugnast tæplega þeim flokkum sem nú fara með völdin og því ljóst að um margra vikna samningaþóf yrði að ræða um nýjan málefnasamning ef af ríkisstjórnarþátttöku yrði núna. Varla er það ætlun Sifjar og Guðmundar að ganga til samstarfsins skilyrðislaust. Þegar öllu er á botninn hvolft er ráðlegast fyrir Framsóknarflokkinn að sýna einu sinni staðfestu og fara að því sem forysta flokksins hefur hamrað á, að þátttaka í ríkisstjórn komi ekki til greina fyrr en að afloknum þingkosningum. Það er líka í samræmi við vilja meirihluta framsóknarmanna um land allt. Og það sem meira er. Meirihluti þjóðarinnar er því fylgjandi að sitjandi Alþingi sæki sér nýtt umboð. Þá og aðeins þá megi vænta þess að friður komist á í þjóðfélaginu eftir átök og illindi liðinna ára.

  • Eygló Harðardóttir

    Sæll GSS,
    bara ein spurning eftir lesturinn á ummælum þínum.

    Þarftu ekki að fara koma þér upp þínum eigin blogg vef?

    bkv. Eygló

  • Sæl Eygló

    Það er svo með GSS að honum líður vel í návist þinni. Hann kann vel að meta málflutning þinn bæði í þingsölum og á bloggsíðunni; oftast og telur að þú sért vel að því komin að vera í forystusveit flokksins.
    Með góðri kveðju.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur