Þriðjudagur 28.06.2011 - 14:14 - Rita ummæli

Að vera heppinn…

Fyrir stuttu barst mér þessi tölvupóstur með reynslusögu ungs fólks af íbúðakaupum:

„Ég hóf minn búskap árið 2002 í Reykjavík en ég er borin og barnfædd út á landi og það sama á við um unnusta minn. Við fluttum saman til Reykjavíkur þar sem ég hóf háskólanám. Í stað þess að leigja okkur íbúð keyptum við litla íbúð í úthverfi árið 2003 með láni frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóði og bjuggum við þar til byrjun árs 2007. Þá seldum við og fjárfestum í þeirri íbúð sem við búum í dag sem við litum á sem framtíðareign okkar. Sú íbúð kostaði þá 33,3 milljónir…

Til að gera langa sögu stutta þá vorum við með viðskipti okkar við sparisjóð í okkar heimabæ. Þegar við skoðuðum möguleika á fjármagni til kaupa á síðari fasteign okkar þá tókum við þá ákvörðun að leita til þjónustufulltrúa og sparisjóðsstjórans um íbúðalán. Við skoðuðum einnig möguleika stóru bankanna um 100% fjármögnun og erlent íbúðalán. Sparisjóðurinn gat boðið okkur verðtryggt íbúðalán á ágætis vöxtum sem var svokallað hattalán Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Mest var hægt að fá 27,1 milljón í lán með þessum hætti. Við áttum rúmar 6 milljónir í sparifé sem við gátum notað til þess sem upp á vantaði. Okkur fannst við því vera að velja örugga leið þegar við völdum að versla við ríkið (Íbúðalánasjóð) og litla sparisjóðinn sem hafði verið okkur svo góður og traustur alla okkar ævi.

Það voru því miður mikil mistök.

Nú nagar maður sig í handabökin yfir því að hafa ekki tekið meiri áhættu og tekið 100% verðtryggt/gengistryggt íbúðalán hjá t.d. Landsbankanum og sett þessar rúmar 6 milljónir í eitthvað gáfulegra en fasteignina. Því um áramótin síðustu stóð lánið í 39 milljónum en fasteignamatið ekki nema 23,7 milljónir. Fasteignin var í vor metin á 33,5 milljónir sem er vissulega jákvætt þar sem við keyptum á 33,3 milljónir fyrir fjórum árum síðan. Við sóttum um 110% leiðina hjá sparisjóðnum og verður lánið okkar vonandi afskrifað niður í rúmar 36 milljónir.

En ef við hefðum nú verið svo heppin eins og hann Jón sem keypti íbúð á sama tíma og við í sama húsi og nákvæmlega eins íbúð sem hann fjármagnaði með 100% láni frá Landsbankanum. Hann fær nefnilega lánið sitt hjá Landsbankanum afskrifað niður í rúmar 26 milljónir.

Fjárhagsstaða hans er því augljóslega mun betri en mín af því hann er svo heppinn.

Mig langar að benda á að fjármál almennings í þessu landi byggja að mörgu leyti á heppni. Ert þú svo heppinn að Landsbankinn var með útibú í því bæjarfélagi sem þú ólst upp í? Ert þú svo heppinn að  hafa verið með viðskipti þín við Landsbankann af því að hann var næstur heimili foreldra þinna og foreldrar þínir stofnuðu fyrsta reikninginn þinn í Landsbankanum? Varstu svo heppinn að hafa tekið 100% verðtryggt/gengistryggt íbúðalán hjá Landsbankanum?

Ég var að minnsta kosti ekki svo heppin.“

Æ oftar heyri ég frá fólki sem tók verðtryggð lán og hefur horft upp á eigið fé sitt hverfa í fasteignum sínum.   Ungt fólk, miðaldra fólk, gamalt fólk, –  í verðtryggðu umhverfi þar sem þeirra eina hlutverk er að vinna og vinna til að tryggja verðgildi fjármagnsins.

Gengistryggðu lánin eru núna mörg hver orðin verðtryggð íslensk lán og því ekki langt að bíða þar til við sitjum öll enn á ný í sömu verðtryggingarsúpunni.

Varla yljar það þó sérstaklega…

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur