Miðvikudagur 27.07.2011 - 11:09 - 2 ummæli

3,5% ávöxtunarkrafa viðmið?

Innlendir vextir hafa verið umtalsvert hærri en í nágrannalöndunum, meira að segja þegar offramboð er á lánsfé og sparnaður umtalsverður. Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, taldi að ein af lykilskýringunum væri 3,5% ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna og háir vextir myndu á endanum kæfa hagkerfið.

Þessi krafa um 3,5% ávöxtun myndaði, að hans mati vaxtagólf, þar sem lífeyrissjóðirnir notuðu hana sem e-hv þumalputtareglu við fjárfestingar sínar. Mikil tregða væri við að fara niður fyrir hana sem skýrði hátt vaxtastig.

Ekki hafa allir verið sammála þessu og hafnað því að ávöxtunarkrafan myndi e-hv gólf eða viðmið á markaðnum.

Því þótti mér athyglisvert að sjá að Hagstofa Íslands notar langtímaávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna sem viðmið þegar stofnunin er að ákveða ávöxtunarkröfu á eigið fé á Íslandi við útreikning á fasteignaverðvísitölunni.  Fasteignaverðvísitalan er svo ein af 12 grunnvísitölum vísitölu neysluverðs sem öll lán Íslendinga miðast við.  Í mars 2010 var vægi fasteignaverðsvísitölunnar 22,5% í vísitölu neysluverðs. (Fasteignaverðsvísitölur, – fjármálastöðugleiki og fasteignaverðvísitala vísitölu neysluverðs, Sveinn Óskar Sigurðsson, 2011)

Ætli það sé víðar sem ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna hefur orðið að e-hv viðmiði í efnahagskerfinu?

PS. Látið mig vita hvað ykkur finnst.  Hægt er að setja tengil inn á Facebook, nota „like“ hnappinn eða setja inn ummæli.  Ég samþykki inn ummælin og áskil mér rétt til að eyða út grófum, ómálefnalegum og nafnlausum ummælum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Guðsteinn Einarsson

    Þessi umræða um vísitölutengingu og 3,5% ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðana er svolítið á villigötum.
    Vísitölutenging lífeyrissjóða er bæði inn og út. Sé hún tekin af inn þá fer hún út líka á lífeyriir. Því er þetta ekki mikið mál fyrir aðrar en lífeyrisþeganna.
    Væru vextir lægri hér þá mætti ætla að afkoma fyrirtækja batnaði. Ávöxtun skuldabréfa muni lækka en á móti kæmi væntanlega betri afkoma fyrirtækja, meiri arðsemi þannig að jafnan fyrir ávöxtunarkröfu á heildareignir lífeyrissjóðanna gæti verið óbreytt.
    Vandin liggur í mikilli verðbólgu, óstöðugri mynt og þ.h. sem er afleiðing lélegrar efnahagsstjórnunar til margra ára. Þess vegna vilja allir fjárfestar, áhættuálag þegar þeir spara í „ísl. krónunni“.

  • Þórhallur Jósepsson

    Starfsemi lífeyrissjóðanna byggist að öllu leyti á lögum, sem Alþingi hefur sett. Þar á meðal krafan um 3,5% ávöxtun fjárfestinga. Ávöxtunarkrafan er ákveðin með reglugerð samkvæmt lögunum.
    Þessi ávöxtunarkrafa er niðurstaða mats á því hvernig iðgjöld geti skilað sér til greiðslu lífeyris, þannig að þegar ég (og þú og allir hinir) hef greitt 10-12% tekna minna í lífeyrissjóð alla starfsævina, geti ég fengið að loknu ævistarfi greiddan út lífeyri, sem dugar til framfærslu.
    Ef þessu á að breyta þarf að mínu mati tvennt að koma til: Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir ítarlegt og hlutlægt mat á áhrifum breytinganna og í hvaða átt ætti að stefna með það fyrir augum að breytingarnar skerði ekki lífeyrisréttindi (þ.e. tekjur að loknu ævistarfi) almennings. Þar dugar fráleitt mat Ólafs Margeirssonar eitt og sér, með fullri virðingu fyrir honum. Ég tel að hópur manna yrði að koma að þessu mati, þar af um helmingur erlendir, án hagsmunatengsla við stjórnmál og hagkerfi á Íslandi. Í öðru lagi þyrfti þá að koma til breyting á lögunum og/eða reglugerðinni, en aðeins EFTIR að framangreint mat hefur farið fram og jafnframt með sama markmið: Að lífeyrisréttindi skerðist ekki vegna breytinganna.
    Stíga verður afar varlega til jarðar ef hugað er að breytingum á lífeyriskerfinu, það er jú eina tekjutrygging alls almennings í landinu eftir starfslok.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur