Föstudagur 19.08.2011 - 09:17 - 2 ummæli

Í minningu Unnar

Löngu áður en ég kynntist Unni Stefánsdóttur var nafnið Unnur sérstakt í mínum huga.

Ein sterkasta sögupersóna Íslendingasagnanna var Unnur djúpúðga sem nam öll Dalalönd í Breiðafirði.  Á ýmsu gekk áður en hún lagði af stað til Íslands.  Í Laxdælu segir: „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“

Þetta las ég á yngri árum og þótti nafnið Unnur fallegt og konan merkileg.

Seinna kynntist ég mágkonu minni, henni Unni.  Hún var gáfuð, kraftmikil og sannur hástökkvari þegar kom að því að fara yfir einstaka hindranir á lífsleiðinni.

Allar, – nema krabbameinið sem tók hana alltof snemma frá okkur.

Nú er önnur Unnur fallin fyrir sama sjúkdómnum. Unnur Stefánsdóttir stóð sannarlega vel undir þessu nafni. Hún var brautryðjandi og frumkvöðull í íþróttum, í umönnun leikskólabarna og í stjórnmálum.

Nú að morgni dags horfi ég á mína eigin litlu Unni sem fagnar brátt 5 ára afmæli sínu.

Í kvöld ætla ég að segja henni sögurnar af nöfnum hennar, af krafti þeirra og hæfni til að ryðja nýjar brautir.

Hvernig þær voru afbragð annarra kvenna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur