Fimmtudagur 20.10.2011 - 14:36 - 7 ummæli

Lífeyrir eða lægri skuldir?

Í grein Ólafs Margeirssonar Saga sjóðsfélaga er borin saman ávöxtun á séreignasparnaði í Almenna lífeyrissjóðnum og láni hjá sama sjóði.  Niðurstaðan var sláandi, en á tímabilinu 2008 til 2011 var 10 sinnum minni nafnávöxtun á séreignasparnaðinum (1,2%) en á vaxtagreiðslur (12%) af láninu.

Á grundvelli þessa ráðlagði hann fólki að taka frekar út séreignasparnaðinn og greiða niður lán.

Oft er staða lífeyrissjóðanna notuð sem rökstuðningur fyrir því af hverju ekki má afnema verðtrygginguna.

Að við eigum að borga og borga, jafnvel allt að 10 falt meira af lánunum okkar alla ævi svo við getum örugglega fengið smá meiri lífeyri í lok ævikvöldsins.

Er ekki eitthvað skrítið við þetta?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Þórhallur Jósepsson

    Áður en þú dregur altækar ályktanir af þessu, hvernig væri að athuga hvernig dæmið liti út ef lánið hefði verið tekið t.d. hjá Íbúðalánasjóði og sparnaðurinn verið hjá lífeyrissjóðnum? Eða lánið hjá lífeyrissjóði og sparnaðurinn í banka? Eða einhver önnur samsetning. Niðurstaðan væri í meginatriðum sú sama. Þetta misgengi sem Ólafur gaf í skyn að væri bundið við lífeyrissjóði kemur fram í öllum tilvikum þar sem um er að ræða bæði lán og sparnað.

  • Jóhannes

    Það er nákvæmlega ekkert skrýtið við þetta og enginn nýr sannleikur í grein Ólafs. Í fyrsta lagi er ávöxtun af eignasafni lífeyrisjóða fremur lág á því tímabili sem tekið er vegna óvenju djúprar kreppu, en Ólafur hefur sjálfur bent á að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða til lengri tíma sé óraunhæf (og margt til í þeim rökum). Í öðru lagi, og þetta er mikilvægara, eru nafn- og raunvextir í íslenskri krónu mjög háir í samanburði við sterkari gjaldmiðla. Þetta einfaldlega er, hefur verið, og mun verða óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar ef vextir eru frjálsir, óháð kostum og göllum hennar að öðru leyti. Og það er frekar dapurt að sjá þingmenn finna sökudólg í verðtryggingunni án gilds rökstuðnings, enda var henni komið á í tíð Ólafs Jóhannessonar af hreinni neyð í efnahagsmálum. Þótt verðtryggingin hafi vissulega kramið íslenskan almenning og fyrirtæki illilega undanfarin misseri og framkvæmd hennar megi gagnrýna, þá hefur hún þó verið þjóðinni gagnlegustu axlabönd og magabelti til að geta lifað við óstöðuga krónuna á liðnum áratugum. Ef eitthvað er skrýtið þá er það að engin heildstæð stefna hefur verið sett fram um stjórnun peningamála á Íslandi með áframhaldandi notkun krónunnar. Seðlabanki talar í gátum um verðbólgumarkmið + sem enginn hefur fengið nánari skýringar á, og stjórnarandstöðuflokkarnir og VG hafa einfaldlega enga stefnu. Það væri gustuk ef þið framsóknarmenn settust niður reynduð að berja saman heildstæða stefnu í gjaldmiðils- og peningamálastjórnun til framtíðar. Þá kæmi kannski í ljós að sumir hlutir eru bara ekkert svo skrýtnir, heldur fyrst og fremst afar erfiðir.

  • Sævar Helgason

    „svo við getum örugglega fengið smá meiri lífeyri í lok ævikvöldsins.“

    Ætlarðu með smá lífeyrir yfir landamæri lífs og dauða ?

    Er málið ekki að bankakerfið okkar er alltof dýrt? Það kemur fram í þessum mikla vaxtamun. Krónan okkar gerir sitt til að viðhalda hávaxtalánum….

  • Einar Þorbergsson

    Það hlýtur að vera krafan að verðtryggingin verði afnumin með öllu.
    Einnig að staða lána verði færð til þess sem hún var 1. jan 2008. HH hafa talað um 4% vexti í stað verðtryggingar, þ.e 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og 1,5% frávik. Ég álít að þetta 1.5% ætti að skiptast jafnt á lántaka og lánveitanda.

  • Bjarni Kristinn Torfason

    Ég er sammála því að það er eitthvað skrítið við þetta en það er samt ekki sama hvaða ályktun er dregin af þessu og ég óttast að margir noti svona dæmi til að draga alls konar ályktanir, misskynsamlegar. Mér finnst þetta dæmi aðallega draga fram tvennt:

    1) Há vogun/skuldsetning (leverage) er hættuleg. Það er áhættusamt að skulda mikið jafnvel þótt maður eigi miklar eignir á móti, samanborið við að skulda lítið og eiga minni eignir á móti. Eignirnar geta horfið (eða hækkað mikið) en skuldirnar fara ekki neitt. Því er áhættuminna að greiða niður skuldirnar frekar en að fjárfesta í einhverju öðru. Tímabilið fyrir þetta dæmi er líka frekar heppilega valið. Ef sama saga hefði verið sögð frá tímabilinu 2002-2007 þá hefðu tölurnar verið allt aðrar og ávöxtun af sparnaðinum miklu meiri. Þannig að þetta er ekki bara eitthvað lífeyriskerfissvindl, þetta er aukin áhætta sem stundum skilar hárri ávöxtun og stundum lágri.

    2) Á Íslandi hefur fólk ansi lítið val um hvað það gerir við lífeyrissparnað sinn. Meira að segja séreignarsparnaðurinn þarf að vera í höndum sérstaks lífeyrissjóðs sem ákveður fjárfestingarnar, a.m.k. að miklu leyti. Í Bandaríkjunum er fyrirkomulagið öðruvísi. Þar hafa einstaklingar sérstaka reikninga (401K til dæmis) sem þeir leggja inn á og geta ekki tekið út af fyrr en við tiltekinn aldur. Hins vegar hafa þeir mikið frelsi til þess að ákveða hvernig sparnaðinum er fjárfest. Þetta getur verið gott og slæmt. Konan í dæminu hefði getað ákveðið að hafa allt sitt í hlutabréfum bankanna og setið uppi með -100% ávöxtun á séreignarsparnaðinum. Hún hefði líka getað sett allt sitt í verðtryggð íbúðabréf og þar með fengið svo til alveg sömu ávöxtun á eignirnar og hún borgaði af lánunum sínum.

    Ein leið til að laga þetta væri að gefa fólki aukið frelsi (og þar með aukna eigin ábyrgð) til þess að ákveða hvernig sparnaðinum væri varið. Sér í lagi væri mögulegt að gefa fólki möguleika á því að séreigninni væri varið í að kaupa upp eigið húsnæðislán. Þannig gæti fólk varið sig gegn áhættunni sem skapast af því að eignir og skuldir séu í mismunandi eignum en þó með þeim hætti að skyldusparnaðurinn væri áfram til staðar.

    Mér finnst umræðan um lífeyrissjóðina og hvað það væri allt í lagi að þeir töpuðu pening vera ansi óábyrg á tíðum og síðan tala menn upp sársaukann í dag en gera lítið úr afleiðingunum fyrir framtíðina. Það að segja að við borgum “allt að 10-falt meira af lánunum okkar alla ævi svo við getum örugglega fengið SMÁ lífeyri í lok ævikvöldsins”. Þetta finnst mér villandi og misvísandi.

    Svo ég gerist aðeins aggressífari þá finnst mér þetta líka vera frekar einkennandi fyrir plan B. Lækkum skatta, aukum útgjöld til framkvæmda og lækkum skuldir. Allir græða! Reyndar er þetta þannig að allir græða í dag en það er verra með þá sem koma síðar og þurfa að borga ellilífeyrinn og borga skuldir ríkisins í framtíðinni. Ef menn ætla að vera að bölva fjármagnseigendum stöðugt væri nærtækara að beina því þá að efnuðum einstaklingum frekar en að setja lífeyrisþega alla undir sama hatt eins og þeir séu allir vellauðugt fólk sem má vel við því að tapa smá pening. Peningur sem er tekinn af fátækum lífeyrisþega (eins og allt flatt tap lífeyrissjóðanna gerir) er skuldsetning ríkisins. Það lítur kannski vel út í dag en það kemur í hausinn á okkur síðar. En það er kannski bara planið.

  • Alfreð Jónsson

    Já nákvæmlega!
    Það sem allir sjá sem skulda er að til að halda uppi ROSALEGA óhagkvæmu kerfi lífeyrissjóða banka og annara fjármálaapparata þarf raunverulegur vaxtamunur að vera svo mikill að það kæmi af stað byltingu víða.

    Ég er búinn að borga og borga og borga af húsnæðislánum, námslánum og lífeyrissjóðslánum í ca. 10 ár og niðurstaðan er sú að ég skulda meira en þegar ég byrjaði að borga.

    Þegar ég seldi einkabílinn á dögunum hélt þjófafyrirtækið eftir 300.000 á svo kölluðum biðreikningi og hirti þar bróðurpart þess sem dæmt var sem ólöglegt í hæstarétti.
    Þegar umboðsmaður skuldara bendir á að vaxtaútreikningur fyrirtækisins sé rangur er honum sagt að halda kjafti, fyrirtækið noti aðrar aðferðir.

    Stjórnvöld sama hvort um er að ræða kjörna eða ráðna fulltrúa láta sér allt þetta í léttu rúmi liggja

    Ég er alveg að gefast upp á þessu og ég meina það bókstaflega ég er alveg að örvinglast á því að finnast að ég eigi mér engan málssvara hvort sem litið er til hægri eða vinstri og að vaxtaokrinu linnir aldrei. Meiraðsegja ríkið tekur hæstu lögleyfðu dráttarvexti og innheimtir allt af fyllstu hörku.

    Meira skítalandið þetta Ísland

  • Guðsteinn Einarsson

    Ég kíkti á fyrstu grein Ólafs. M.v. að það var niðurfærsla á sparnaðinum við hrunið þá má ætla að sparnaður hafi ekki verið vertryggður bankareikningur heldur hlutabréfaval. Það hefði verið mun minni munur á verðtryggðum reikningi og verðtryggðu láni. Ætli sjóðfélaginn hafi ekki ætlað að hagnast á hlutabréfum en vera með lán á hagstæðum vöxtum. Það gæti gengið upp þegar vel gengur en er áhættusamts eins og dæmin sýna. Verðtrygging er afleiðing efnhagsstjórnunar og okkar ágætu krónu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur