Miðvikudagur 25.01.2012 - 17:07 - 4 ummæli

Sannleiksnefnd fyrir suma, en ekki aðra?

Ýmsir mætir menn hafa upp á síðkastið kallað eftir sannleiksnefnd, þar á meðal Árni Páll Árnason, Benedikt Jóhannesson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Sannleiksnefndin eigi að skoða alla söguna frá 2000 til dagsins í dag.  Ekki til að dæma menn til refsingar heldur til þess að þjóðin viti hvað gerðist í raun og veru.

Ég þarfnast frekari útskýringa frá þessum einstaklingum á því hvað þeir eiga við.

Í 1.mgr. 1.gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða segir: „Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknanefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.“

Rannsóknarnefnd Alþingis var sannleiksnefnd.

Hennar hlutverk var að leita sannleikans um orsakir hrunsins 2008 og hafði hún valdheimildir til að skoða atburði fyrir og eftir hrun.  Í leit sinni að sannleikanum talaði hún við 147 einstaklinga og vitnaði mjög nákvæmlega í þau samtöl í skýrslu sinni.  Enginn af þeim, ekki einn einasti viðurkenndi ábyrgð á hruninu.

Í lögunum segir einnig að nefndin eigi að gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Sannleiksnefndin upplýsti okkur í 9 binda skýrslu um hvað gerðist í raun og veru.

Telja hinir mætu menn að fólk hafi logið að sannleiksnefndinni?  Að sannleikurinn hafi ekki komið fram? Að menn hafi verið hræddir um að varpa á sig sök og því kosið að ljúga? Eru menn að kalla eftir því að allir þeir sem vilja vitna fyrir hinni nýju sannleiksnefnd verði lausir allra mála?  Að þeir 300 sem nú eru með réttarstöðu grunaðra fái niðurfelldar sakir, ef þeir aðeins segja satt í beinni útsendingu frá Austurvelli?

Við ættum þá kannski að velta fyrir okkur víðtækari notkun á sannleiksnefndum.  Hvað með sannleiksnefnd fyrir þá sem hafa stolið armbandsúrum, sparkað í höfuð manns í miðbænum eða nauðgað unglingsstúlku?

Eða eru hinir mætu menn aðeins að tala um ráðherra?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Garðar Garðarsson

    Það á að klára Landsdómsmálið og einnig rannsaka einkavæðingu bankanna 2003 sem ransóknarnefndin tók ekki nógu vel á.

    Sannleiksnefnd er smjörklípa samtryggingarsinna.

  • Haukur Kristinsson

    Fjandi góð grein hjá þér Eygló. Þú vex í áliti dag frá degi.
    Fréttin hjá Eyjunni byrjaði svona: “Enginn heiðarlegur maður vill að hrunið gleymist, segir Benedikt Jóhannesson ritstjóri og útgefandi Vísbendingar.“
    Þá var mér strax ljóst að hér er á ferðinni hræsnari, sem vill að málið fjari út hægt og sígandi. Hver er annars þessi Benedikt? Veit ekki haus né sporð á manninum.

  • Alveg sammála þér Eygló.
    Landsdómur er hluti af löngu ferli eins og þú bendir á.
    Augljós smjörklípa að stinga núna uppá því að byrja núna uppá nýtt!

    Þá væri það hrikalegt fordæmi ef að Landsdómsmálið yrði stoppað. Það myndi þýða að ráðherrar og Alþingi væri hafið yfir lög um aldur og ævi. Það er eins og að biðja um nýtt hrun.

  • Leifur A. Benediktsson

    Hér er ég hjartanlega sammála Garðari og Eygló.

    Sannleiksnefnd ,,my ass“.(afsakið orðbr.) Hrunapakkið á akkúrat enga samúð meðal hins venjulega Íslendings, E N G A.

    Hruninu sem hefði mátt afstýra, var keyrt ofan í kokið á okkur skattborgurum ósmurt.

    Ég hefði viljað sjá reista gapastokka fyrir utan Valhöll, musteri Mammons,og draga frjálshyggjupostulana í hlekkjum og koma þeim þar fyrir.

    Almenningi sem blæðir út hægt og bítandi,fengi þar með tækifæri til að hýða postulana hver á sinn hátt.

    Þetta yrði táknræn athöfn og eftirminnileg. FramsóknarFLokkurinn á hér líka sína stóru sök sem viðhengi við FLokkinn. Samskonar búnað á því að reisa við höfuðstöðvar hans á Hverfisgötu.

    Landsdómur á skilyrðislaust,að fá frið fyrir Hrunverjum Alþingis að klára Landsdómsmálið. Hvað er það sem ekki þolir að komi fram í yfirheyrslum saksóknara Alþingis???

    Eygló, þú stendur þig afburðavel og átt heiður skilinn fyrir sérstöðu þína innan þingflokks Frammara.

    Mitt atkvæði rynni til þín ef þú færir úr þessum FLokki og reyndir fyrir þér innan nýs framboðs.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur