Þriðjudagur 06.03.2012 - 10:36 - 7 ummæli

Hann eða hún?

„Ægilega er hann sætur,“ sagði elskuleg eldri kona við mig um leið og hún rétti mér bláa snuðið sem dóttir mín hafði misst.  „Takk, en þetta er stúlka,“ datt sjálfkrafa upp úr mér.  „Ó, afsakið,“ hrökk upp úr konunni.

Töluverður þrýstingur er á verðandi foreldra að upplýsa strax um kynið við sónarskoðun.  Þetta er oft fyrsta spurningin þegar tilkynnt er um að nýtt barn sé fætt, – stundum jafnvel á undan spurningunni um hvernig hafi gengið og hvort öllum líði ekki vel.  Kynið stýrir svo m.a.  litnum á slaufunni á pakkanum, húfunni og snuðinu.

Af hverju skiptir það okkur svo miklu máli að kyngreina börnin okkar, jafnvel í samskiptum við ókunnuga?

Ég fór að velta þessari spurningu fyrir mér eftir að hafa fylgst undanfarnar vikur með heitri umræðu í sænskum fjölmiðlum um kyn og notkun á orðum sem segja til um kyn.  Tillaga hefur komið fram um að í stað orðanna hon eða han verði orðið hen notað.

Viðbrögðin við umræðunni létu ekki á sér standa.

Foreldrar sem komu fram og sögðust aldrei tala um börnin sín sem ákveðið kyn eða klæða þau eftir ákveðnum litakóða fengu mjög neikvæð viðbrögð.  Framleiðendur heimildarmyndar um kynin sögðu frá því hvernig þeir urðu fyrir árásum vegna þess að þeir klæddu sig einfaldlega á „rangan“ máta á röngum stað.  Barnabókarhöfundur sem notaði orðið hen vakti gífurleg viðbrögð í sænskum netheimum.

Dæmi um þetta hér á landi gæti verið að í stað orðanna hún og hann yrði notað honn (…við yrðum svo að finna fínar fallbeygingar, ólíkt Svíunum…)

En af hverju skiptir þetta máli? Er það vegna þess að þetta er svo stór hluti af sjálfsmynd okkar?  Sjálfsmynd samfélagsins á því hvernig við eigum að vera, – sem karl eða kona? Vitum við ekki án orða sem greina kynin í sundur hvernig við eigum að haga okkur?

Né hvort kyn við erum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Af hverju honn, af hverju ekki húnn. Þá ertu með beyginguna.

  • Haraldur

    Svona er hefðin og ekki lítið mál að breyta henni. En sumum finnst gaman að synda á móti straumnum og það meiga þeir vissulega.
    Kanski hefur reynslen kennt eldra fólki að strákar og stelpur eru ekki eins og það skiptir þau máli.

  • Halla Sverrisdóttir

    Þetta eru áhugaverðar pælingar og alveg sérstaklega í okkar mjög svo kyngreinandi tungumáli. Það er gaman – eða amk. mjög áhugavert – að rifja upp viðbrögðin sem þáv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir fékk við fyrirspurn sinni (2007) um þá hefð að klæða nýfædd börn í kynaðgreinandi föt strax á fæðingardeildinni – þáverandi þingfréttaritari, Halla Gunnarsdóttir lýsir þessu skemmtilega hér: http://halla.is/?p=396. Enn er Kolbrúnar gjarnan minnst fyrir þessa litlu fyrirspurn, þrátt fyrir öll þau prýðilegu mál og frumvörp sem hún flutti eða vann að. Ári síðar mælti Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrir þingsályktunartillögu um að tekið yrði til athugunar að finna kynhlutlaust starfsheiti í stað hins mjög svo karlkyns orðs ráðherra. Fyrir það uppskar hún í skársta falli aðhlátur og hjá sumum háð, ruddaskap og móðganir. Enda eru orð til alls fyrst, eins og Steinunn, Kolbrún og fjölmargir aðrir femínistar hafa lengi haldið fram. Takk fyrir gott innlegg í þá samræðu.

  • Halló kæra vinkona ,
    Þú ert nú oftast mjög málefnaleg og tek eftir greinum sem fjalla eða erum um þínar skoðanir, oftast skemmtileg lesning… Ummm en halló ..hvað er að frétta…. Það er ekkert eðlilegra en að veltavfyrir sér kyni þess er ber barn undir belti! Flest eru, við forvitin að eðlisfari ..frumhvöt.. jú við erum dýr mín kæra, bara hvernig sem að þú vilt sjá það og hvernig þér líður best með að sjá hvernig mannlegt eðli hefur sinn gang og mun ávallt vera..

    Kveðja Helga.

  • Kynin eiga að njóta sömu virðingar – en við þurfum ekki að vera „unisex“!

  • „Húnn“? Framborið „húdn“?

    Annars þyrftum við að gera meira en bara að breyta fornöfnunum „hann“ og „hún“ (já og þeim þyrfti líka að breyta í fleirtölu – „þær“ og „þeir“ gæti varla gengið heldur).

    Töluorð þyrftu væntanlega að breytast líka. Fyrst það er á annað borð verið að reyna að losna við kyngreina fólk – „Honn er einn heima“ kyngreinir varla síður en „Hún er ein heima“?

    Ýmis önnur fornnöfn þyrftu að breytast líka – langflest, held ég.

    Ég held að það væri ekkert mál, þannig séð, fyrir Svía að breyta þessu. Ef ég man rétt, þá eru þeir bara með tvö málfræðikyn. Eitt fyrir það sem við flokkum ýmist sem kven- eða karlkyn, og svo hvorugkyn („en“ og „et“, minnir mig, eða var það danska?). Það er þannig ekkert mikið í orðunum sem gefur (málfræði)kyn til kynna eða ákveður fyrir mann hvaða fornafn eigi að nota. Við sitjum hins vegar uppi með þrjú. Til að fá „kynlausara“ tungumál þyrfti að breyta því – og mig grunar að það sé hægara sagt en gert. En augljóslega getur þetta breyst, eins og í ensku þar sem kyn er nær alveg horfið, og þraukar bara í fornöfnunum.

    Á hinn bóginn er ekkert náttúrulögmál að það verði að vera kyn í tungumáli. Eftir því sem ég kemst næst hafa til dæmis Finnar og Eistar ekkert málfræðikyn, og hvorki „hann“ eða „hún“ eða „það“ – þar er aðeins eitt orð fyrir allt þrennt. Það þýðir þó ekki að þar séu ekki orð, bara fyrir annað kynið. Þar eins og hér eru sérstök nafnorð fyrir „pabbi“ og „mamma“ og svo framvegis.

    Ég veit annars ekki hvernig Svíar hafa þetta. Hér tölum við hæglega um ljósastaur sem „hann“ og kaffikönnu sem „hún“, hvalur er „hann“ en steypireyður er „hún“ (á meðan talað er um hana sérstaklega sem steypireyður en ekki bara sem hval). Þetta held ég að Svíar geri alls ekki.

    Gunnar á Hlíðarenda getur verið „hún“ („Hetjan, hún sneri við“ er, held ég, alls ekkert röng setning sé verið að tala um Gunnar, þótt hún sé kannske svolítið klunnaleg) á meðan að sérlega greind kona getur verið „hann“ ef maður kýs að kalla hana t.d. „speking“. Og fólk sem semur ljóð að staðaldri getur verið „það“ – það skáldið (úr menntaskóla man ég að Egill Skallagrímsson var oftar en ekki „það“ í munni kennarans, og þegar verið var að tala um hetjutýpur í Íslendingasögunum þá var notast við „hún“ þótt þær séu fáar, konurnar í sögunum sem falla undir „ljósa hetjan“ eða „dökka hetjan“).

    Þannig að ég held að oftar en ekki sé engin sérstök ástæða að tengja málfræðikyn orðs við líffræðikyn þess sem orðið er notað um. Það er ekki alltaf rangt að nota „hann“ til að vísa til konu, né heldur „hún“ til að vísa til karls – og þar að auki, alveg án þess að gera lítið eða mikið úr viðkomandi.

    Sjálfur er ég svo latur að ég myndi aldrei nenna að venja mig við alveg splunkunýtt fornafn í staðinn fyrir hann/hún/það. Svo latur, raunar, að hefði ég fæðst nokkrum áratugum fyrr hefði ég sennilegast ekki nennt að venja mig af því að nota z. Eins og með z, þá myndi nú eitthvað tapast úr málinu ef t.d. „honn“ væri tekið upp í staðinn fyrir „hann/hún“ (og kannske „það“), en það er alveg spurning hvort að það sé eitthvað verðmætt. Kannske mætti líka hætta að tala um kven- og karlkynsnafnorð og kalla þetta frekar „fyrstu-beygingar nafnorð“ og svo framvegis.

  • Anna Benkovic Mikaelsdóttir

    Takk fyrir frábæra pælingu!
    Einnig vil ég þakka þér sérstaklega fyrir að vera ekki með fésbókarummæli. Það er orðið sjáldgjæft og FB ummælin eru orðin nokkuð fyrirsjáanleg, hvort eð er!

    Ég fór í keyptan sónar í viku 25 í Hollandi með son minn. Vildi sjá hann og fá upptökur á vídeó (sem ég á enn) og þetta var rándýrt.

    Þágði einnig að vita kyn, enda spennt, en samt sama. Viti menn, það var erfitt að leyna litla tippinu sem flaut um í móðurkviði. Ekkert rangt við það.

    Var aldrei viss sjálf um að eignast strák fyrr en hann fæddist í heiminn, og hefði alltaf fagnað stúlku. Svo sannarlega.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur