Miðvikudagur 04.07.2012 - 12:15 - 4 ummæli

Þjóðarvilji ráði för

Þjóðin hefur kosið sér forseta. Ein sterkustu skilaboð kosninganna að mati Ólafs Ragnars Grímssonar voru sú lýðræðislega krafa fólksins í landinu að vilji þess ráði för. Ekki vilji ákveðinna stjórnmálaafla eða einstakra stjórnmálaleiðtoga, heldur vilji meirihluta þjóðarinnar þegar kemur að töku ákvarðana í mikilvægum málum.

Í haust mun þjóðin geta sent stjórnmálamönnum skýr skilaboð um breytingar á stjórnarskrá landsins. Þar verður spurt um hvort rétt sé að auka vægi beins lýðræðis, auka persónukjör, jafna vægi atkvæða, setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum og hvort við viljum áfram hafa þjóðkirkju.

Samvinnu- og framsóknarmenn hafa lengi talað fyrir auknu beinu lýðræði og þjóðfélagi þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna heldur og í fyrirtækjum, hagsmunasamtökum og skólum. Þetta endurspeglast m.a. í grunnstefnuskrá og kosningastefnuskrá 2009 um að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.

Við viljum ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Það var áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1995-2007 og í þrígang hafa forystumenn flokksins lagt fram tillögu þess efnis á Alþingi án þess að hún hafi hlotið afgreiðslu.

Í forsetakosningunum kom forsetinn ítrekað inn á hversu lítið traust Alþingi hefur og nauðsyn þess að endurreisa trú fólks á stofnuninni sem hornsteini lýðræðis. Stór hluti af því er að auka áhrif kjósenda á val á kjörnum fulltrúum. Því ályktaði flokksþing Framsóknarmanna árið 2011 að flokkurinn væri hlynntur persónukjöri og teldi rétt að vægi atkvæða yrði jafnað eins og kostur er. Jafnframt höfnuðum við alfarið að landið yrði gert að einu kjördæmi. Samhliða þyrfti að tryggja valddreifingu og jafnræði til búsetu með ákvæði í stjórnarskrá sbr. grunnstefnu Framsóknarmanna.

Framsóknarmenn vilja áfram að ákvæði verði um þjóðkirkju á Íslandi og að stutt verði við öflugt starf þjóðkirkjunnar sem og annarra trúfélaga.

Eflaust mun þjóðin vera okkur ósammála í einhverjum þessara efna. En líkt og niðurstöður forsetakosninganna minna okkur á, þá á þjóðin að hafa æðsta ákvörðunarvaldið og við sem kjörnir fulltrúar að vinna í umboði hennar.

Því megum við aldrei gleyma.

(Greinin birtist fyrst í FBL 4. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Guðrún Jóh.

    Ég tel nú að stjórnlagaþingskosningin hafi sýnt það að þjóðin sé ekki tilbúin í persónukjörið, svo flókið tókst að gera þær kosningar.

    Stutt skref eru oft betri til lengri tíma. Þess vegna gæti t.d. verið sniðugt að byrja með fljótandi kjördæmamörk fyrstu árin. Setja kannski Mosfellsbæ með Norðvestur og svo koll af kolli. Þá smájafnast þetta.

  • Eygló Harðardóttir

    Sammála hvað varðar fyrirkomulag kosningar til stjórnlagaþings. Hins vegar getur persónukjör verið með ýmsum hætti. Yfirleitt er þetta blanda af listakosningu og persónukjöri, þannig að kjósendur geta bæði valið lista og svo frambjóðendur sem auðveldar valið. Hér er dæmi um útfærslu, http://en.wikipedia.org/wiki/Single_transferable_vote

  • Samvinnu- og framsóknarmenn hafa einnig lengi talað fyrir : … að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli
    samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og
    atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar líkt og kveðið er
    á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að
    vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska
    þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar
    upplýstrar umræðu.

  • Eygló Harðardóttir

    Stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að taka undir skilyrði framsóknarmanna fyrir aðildarumsókninni og felldi tillögu þess efnis. Samþykkt þeirra hefði verið í sönnum samvinnu- og framsóknaranda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur