Fimmtudagur 24.10.2013 - 12:26 - 4 ummæli

Fæðingarorlof og feður

Þegar lögin um fæðingarorlof voru sett árið 2000 voru þau byltingarkennd. Þau eru það enn í dag á heimsvísu.

Markmið þeirra er að börnin okkar njóti samvistar við við báða foreldra og stuðli þannig að jafnrétti á vinnumarkaði.  Við 1. umræðu um lögin á Alþingi sagði þv. félagsmálaráðherra Páll Pétursson: „Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín. Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs og auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Það var stefnt að því markmiði við gerð þessa frv. og jafnframt verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.“

Í niðurstöðum rannsókna sem kynnt voru á fundi Jafnréttissjóðs í dag kom í ljós að lögin um fæðingarorlof hafa einmitt gert þetta.  Þau hafa stuðlað að því að foreldrar skipta í meira mæli með sér umönnun barna sinna. Þau hafa raunverulega breytt viðhorfum og hegðun foreldra og þar með samfélaginu.

En blikur eru á lofti.  Með þeim skerðingum sem farið var í á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs hafa feður tekið fæðingarorlof í minna mæli og þegar þeir taka fæðingarorlof nýta þeir fyrst og fremst sinn eigin rétt en lítið sameiginlegan rétt foreldra.

Ég vil sjá áfram þá þróun hér á landi að þegar barn veikist á leikskóla eða í skóla er það jafn líklegt til að biðja um að hringt sé í pabba og mömmu.  Það grundvallast á þeim nánu tengslum sem myndast á þeim tíma sem foreldrar eru í fæðingarorlofi.  Ég vil að stjórnendur fyrirtækja á Íslandi taka fæðingarorlof alveg eins og þeir sem eru með lægstu tekjurnar og starfa í sama fyrirtæki.  Ég vil sjá samfélag þar sem það þykir jafn eðlilegt að ráðherra sé heima með veikt barn og makinn og þar sem ungir karlar telja eitt af gildum karlmennskunnar er að vera umhyggjusamur faðir.

Að þessu hafa fæðingarorlofslögin okkar stuðlað.  Við þurfum því að endurreisa kerfið, taka til baka skerðingarnar og tryggja áfram markmið laganna.

Um að börn njóti samvistar við báða foreldra og geri konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Einar Steingrimsson

    Það er villandi að gefa í skyn að börn geti ekki notið mikilla samvista við báða foreldra nema báðir taki mikinn hluta fæðingarorlofsins, því það er einfaldlega rangt.

    Og það er ömurleg forsjárhyggja að ætla að láta ríkisvaldið þvinga foreldra til að haga umönnun barna sinna með öðrum hætti en foreldrunum finnst best.

  • Einar Steingrimsson

    Það er villandi að gefa í skyn að börn geti ekki notið mikilla samvista við báða foreldra nema báðir taki mikinn hluta fæðingarorlofsins, því það er einfaldlega rangt.

    Og það er ömurleg forsjárhyggja að ætla að láta ríkisvaldið þvinga foreldra til að haga umönnun barna sinna með öðrum hætti en foreldrunum finnst best..

  • Að hvaða leyti voru fæðingarorlofslögin sem sett voru árið 2000 byltingarkennd á heimsvísu?
    “ Við þurfum því að endurreisa kerfið, taka til baka skerðingarnar og tryggja áfram markmið laganna“.
    Er það ekki dálítið sérstakt að vilja endurreisa kerfið sem þú og meðreiðarsveinar þínir eru um þessar mundir að setja á hliðina?

  • Góður pistll. Sammála hverju orði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur