Sunnudagur 28.09.2014 - 10:05 - 4 ummæli

Bílastæðahús

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með umræðunni um gámahúsin.  Fátt kom þar á óvart og endurspeglar þörfina á að halda áfram að ræða hvernig við getum hugsað út fyrir kassann og þróað íslenskt þéttbýli með nýjum hugmyndum.  Það er ástæða þess að ég fagnaði tækifærinu að styðja við verkefnið Hæg breytileg átt.  Hugsunin á bakvið verkefnið er að vinna hugmyndir um íslenskt þéttbýli.  Að leita leiða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

Að ögra viðteknum viðmiðum um hvernig íbúðarhúsnæði á að vera byggt í íslensku borgarsamfélagi.

Á vefsíðu verkefnisins segir: „Áhersla verður lögð á samfélagslega afstöðu, frjálst og óhefðbundið hugmyndaflæði, hugmyndafræðilegan og arkitektónískan styrk, vistvæna og byggingartæknilega framsækni, þétt byggðamynstur, góða nýtingu á byggðum fermetrum, og síðast en ekki síst vinnu með staðaranda og mótun úti – sem innirýma utan um daglegt líf íbúa í nýjum íbúðagerðum fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur.“

Verkefnið Bær heillaði mig sérstaklega.  Grunnhugmyndin þeirra er að byggja á bílastæðum borgarinnar í þeirri trú að minnkandi þörf verði fyrir einkabílinn og að fleiri búi einir.  Notkun einkabílsins muni breytast þar sem hann verði knúinn áfram af rafmagni og að miklu leyti sameign margra (sbr. Zipcar)  Grunneining þeirra var 2,5×5 metrar kassi. Í þeirra huga ætti heimili framtíðarinnar að ná út fyrir íbúðina og byggja meira á sameiginlegum rýmum.  Sameiginleg rými væru til dæmis þvottahús, garður, bílastæði, gróðurhús, gestarými og vinnuaðstaða.  Jafnvel kaffihús eða þjónusturými í næsta nágrenni.

Hópurinn mátaði hugmyndir sínar við bílastæði víðs vegar um borgina þar á meðal á Grettisgötunni.Grettisgata_bilastaedi

Í áætlunum hópsins var gert ráð fyrir 400.000 kr. á fermetra.  En hvernig væri að ögra viðmiðunum enn frekar? Hvað með 300.000 kr. á fermetra?  Eða jafnvel 200.000 kr. á fermetra?

Nuverandi_astand

Grodur_gardar_stadsettir

 

Undirstodukjarnar

Fullbyggt

Sed_inn_i_bilastaedahus

Hvernig gæti samstarf við fyrirtæki á borð við Container City/Abk Architects og Buro Happold eða  Caledonian Modular náð niður kostnaði á bílastæðahúsunum?

Það skiptir ekki máli hvort við köllum þessi hús gámahús, bílastæðahús eða hagkvæm, forsmíðuð einingahús.  Gleymum ekki að gömlu fallegu bárujárnshúsin okkar voru þess tíma forsmíðuð einingarhús, pöntuð eftir norskum katalogum og sett saman á staðnum eftir númerum líkt og púsluspil.

Vandinn er skortur á ódýru og hagkvæmu húsnæði. Í mínum huga hlýtur hluti af lausninni að vera að lækka kostnaðinn við að byggja húsnæði.  Við höfum þegar tekið stór skref í einföldun á byggingarreglugerðinni og nú er ætlunin að lækka verð á byggingarefni með afnámi vörugjalda.

Næstu skref hljóta að vera að nýta hugvit okkar og annarra þjóða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

PS. Hæg breytileg átt er verkefni á vegum Aurora hönnunarsjóðs, Hönnunarmiðstöðvar, Reykjavíkurborgar, Samtaka Iðnaðarins, Félagsbústaða, Búseta, Félagsstofnunar stúdenta, Upphaf fasteignafélags, Listaháskóla Íslands og Velferðarráðuneytisins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Bjarnveig Ingvadóttir

    Nú er ég alveg á sömu línu og þú, þurfum að auka framboð af ódýru en jafnframt góðu húsnæði.
    En hvenær var byggingarreglugerðin einfölduð og þá hvernig.
    Mér finnst nefnilega að margar kröfur í íslenskri byggingarreglugerð vera verulega íþyngjandi og aðeins til þess að auka byggingarkostnað.

  • Ragnheiður

    Áætlaður kostnaður vegna byggingu á lóð landsspítalans úr gámum er umhugsarefni. Ótrúlega hátt fermetraverð fyrir skrifstofuhúsnæði úr gámum.

  • Ekki veit hvar þú hefur fengið þá hugmynd að við höfum þegar tekið stór skref til í einföldun á byggingarreglugerðinni?? Önnur eins öfugmæli hef ég ekki heyrt. Staðreyndin er sú að hér á Íslandi hefur okkur tekist að gera eina flóknustu ítarlegustu byggingarreglugerð sem til er í heiminum og hún virðist hafa þann eina tilgang að skapa viðskiptahindranir og koma í veg fyrir að einstaklingar að einyrkjar og smáverktakar eigi auðvelt með að fóta sig á markaðinum. Stóru verktökunum og verkfræðistofunum hefur tekist að planta kröfum út um alla reglugerðina, sem hafa þann tilgang einan að tryggja þeim sem flest verkefni. Þannig eru komnar kröfur um sérmenntaða byggingarstjóra- og hönnunarstjóra með löggildingu og gæðakerfi. Áður nægði að trésmíða- eða múrarameistara skrifuðu uppá gagnvart byggingafulltrúa, en nú þarf trésmíða-, múrara, rafvirkja-, málara-, pípulagninga- og blikksmíðameistara. Í gamla daga gat venjulegt fólk byggt sér einbýlishús og lagt heilmikla vinnu í það sjálft, þannig slapp það við verktaka- og verkfræðistofuálagninguna sem í dag er sennilega langt í annað húsverð. Nei Eygló, það hafa engin skref verið tekin til að einfalda byggingareglugerðina heldur þvert á móti. Þú mættir hins vegar gjarnan leggja þitt á vogarskálarnar til að einfalda hana, vegna þess að reglugerðin eins og hún er stóreykur byggingarkostnað algerlega að óþörfu.

  • Rúnar Guðjónsson

    Þessar hugmyndir eru í grunninn mjög góðar,þau breyta gráum bílastæðisflæmum í falleg íbúðarhús.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur